19.12.1951
Neðri deild: 50. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mig grunaði, að þegar hv. þm. Hafnf. væri gegnumlýstur, kæmi sannleikurinn í ljós. Og það kom líka í ljós, að hann metur þessi fríðindi allmikils, og það var til þess að fá þá játningu, að ég setti hann undir smásjána. Vil ég þakka honum fyrir, að hann lætur sannleikann koma í ljós, að hann telur þetta frv. mikils virði, og hygg ég, að hann þurfi ekki að kvíða því, að hann verði þar útundan. Okkar viðskipti hafa ekki verið þannig undanfarið, að við þyrftum hvor undan öðrum að kvarta.

Hvað viðvíkur því, sem hv. þm. sagði um, að hv. 7. þm. Reykv. hefði talað um, að hægt væri að fullnægja þörf bæjar- og sveitarfélaganna án þess, að greiðsluhalli yrði á fjárlögunum, þá treysti ég mér líka til að benda á leiðir til þess með því að leggja á nýja skatta. En að því slepptu er eðlilegt, að geti orðið skoðanamunur stundum milli manna, sem að öðru leyti fella vel saman skoðanir. Við vitum, að þegar velt er yfir 400 milljónum, getur slíkt sem þetta alltaf verið álitamál. Og enda þótt hv. 7. þm. Reykv. sé í tölu þeirra manna, sem ég hef ástæðu til að spyrja ráða, þá er það svo með mig gagnvart honum eins og hann gagnvart mér, að báðir þykjast mega dæma út frá sínum sjónarhól, og ef við ætlum okkur það mannlega eðli að vera hætt við að vernda sérstaklega þá hagsmuni, sem manni er falið að gæta, er eðlilegt, að ég vilji gæta þess, að tekjur ríkissjóðs verði ekki skertar, og að hann sæki þar á fyrir bæjar- og sveitarfélögin. Þetta skýrir þennan skoðanamun milli okkar, og eðli málsins er þannig, að eðlilegt er, að nokkurs skoðanamunar gæti. — Það er varla hægt að búast við, þó að sú ósk sé fram borin að skipta tekjum milli bæjar- og sveitarsjóða og ríkissjóðs, að það geti náð fram að ganga á því þingi, sem það er borið fram á. Það vilja ævinlega vakna í hugum hinna sanngjörnustu manna efasemdir um það, hve mikið sé óhætt að láta af hendi og hve rík þörfin sé og hvernig eigi að bæta úr henni. Það tekur alltaf sinn tíma að athuga þetta og bæta úr því, þó að allir séu af bezta vilja gerðir. — Þarf ég svo ekki frekar um þetta að ræða.