04.12.1951
Efri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

139. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins láta nokkur orð fylgja þessu frv. úr hlaði.

Það eru þrjár breyt. hér, sem ætlazt er til að gerðar séu á l. um almannatryggingar.

Fyrsta brtt. er um breyt. á 21. gr. l., þannig að í stað orðanna „samkvæmt vísitölu“ komi: samkvæmt kaupgjaldsvísitölu. — Þetta er í raun og veru aðeins skýring, en ekki efnisbreyting. Eins og nú er háttað, er um fleiri en eina vísitölu að ræða, og gat því orðið misskilningur á því, um hvaða vísitölu væri að ræða. Nú er gerður munur á kaupgjalds- og framfærsluvísitölu. Þarf ekki að eyða um þetta fleiri orðum, þar sem þetta er í rann og veru aðeins skýringaratriði.

Í 2. gr. er hins vegar um nokkra efnisbreytingu að ræða. Framlag ríkisins til almannatrygginga hefur verið miðað við meðalvísitölu næsta árs á undan, m.ö.o., þegar ákveðið er framlag ársins 1952, þá er miðað við meðalvísitölu þessa árs, og er það hún, sem upphæðin á fjárlögum er miðuð við. En þegar jafnmiklar breytingar á vísitölu eiga sér stað og nú, þá myndast bil á milli tekna og útgjalda, þannig að tekjurnar hrökkva ekki fyrir útgjöldum. Á miðju þessu ári veitti ríkisstj. nokkra upphæð til að brúa þetta bil, en það hjálpaði ekki nema að nokkru leyti. Framlagið til trygginganna var miðað við 131 stig, en nú er vísitalan komin upp í 144 stig. Nú er lagt til að breyta þessu þannig, að í staðinn fyrir meðalvísitölu næsta árs á undan komi kaupgjaldsvísitala marzmánaðar sama árs. M.ö.o., hér er lagt til, að framvegis verði iðgjöld hinna tryggðu og atvinnuveitenda, svo og framlög ríkissjóðs og sveitarsjóða, ákveðin samkvæmt kaupgjaldsvísitölu marzmánaðar það ár, sem gjöldin eru á lögð. Á þennan hátt er reynt að komast sem næst því, að stofnunin geti staðið undir rekstrinum hvert ár. Forstjóri og starfsfólk stofnunarinnar álíta, að hægt sé að miða við vísitölu marzmánaðar, án þess að það trufli verulega reksturinn. Hér er því um efnisbreytingu að ræða, sem miðar að því, að tekjur og gjöld Tryggingastofnunarinnar verði meira í samræmi hvað við annað en verið hefur.

Þriðja breyt., sem hér er um að ræða, er varðandi bráðabirgðaákvæði almannatryggingalaganna, sem gilt hafa frá 1946 og eru á þá leið, að greiðslur ellilífeyris samkvæmt 15. gr., örorkulífeyris samkvæmt 18. gr. og barnalífeyris samkvæmt 20. gr. verði næstu 5 ár háðar nokkrum takmörkunum. Nú eiga þessi lagaákvæði að falla úr gildi um áramót, og er hér lagt til, að þau verði framlengd um eitt ár, en það er út frá því sjónarmiði ríkisstj., hvort ekki muni vera hægt á þeim tíma að skapa traustan grundvöll, því að ríkissjóður er ekki viðbúinn þeim útgjöldum, sem af því leiðir, að lagaákvæði þessi falli nú úr gildi, en þau munn nema 5 millj. kr. til viðbótar við tekjuhalla stofnunarinnar. Það þarf að finna henni grundvöll til að afla sér tekna á sama hátt og áður. En hvað viðvíkur því að framlengja um eitt ár þessi ákvæði, sem hafa vérið í gildi síðastl. 5 ár, þá vil ég lýsa því yfir fyrir hönd félmrn., að það er ákveðið, að á þessum tíma verði fundin leið til úrlausnar, svo að ekki þurfi að framlengja þessi ákvæði lengur en þetta eina ár.

Ég vildi aðelns leyfa mér að taka þetta fram, en sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en það er augljóst mál, að frv. þetta verður að afgreiða fyrir áramót, þar sem ákvæði þessi falla þá úr gildi. Vildi ég því leyfa mér að biðja þá nefnd, er mál þetta fær til athugunar, að hraða afgreiðslu þess eins og unnt er. Legg ég svo til, að málinu verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.