04.12.1951
Efri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

139. mál, almannatryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur fylgt þessu frv. úr hlaði með nokkrum orðum, og þarf ég ekki að endurtaka neitt af því. Ég vil aðeins geta þess í sambandi við 1. gr., að tilefni hennar er það, að eitt sveitarfélag hefur ekki viljað fallast á að greiða framlag sitt miðað við kaupgjaldsvísitölu, heldur var talið, að önnur vísitala ætti þar betur við, og vænti ég, að ráðuneytið taki þetta til athugunar. — Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði um ástæðuna fyrir 2. gr., og það er sýnilegt, að bilið milli tekna og greiðslna stofnunarinnar er orðið of mikið. Sá halli, sem varð á rekstrinum, er ekki að fullu uppgerður, en það má vænta þess, að hann verði ekki undir 8 millj. kr. Það er því sjáanlegt, að þetta bil er orðið allt of mikið. Hins vegar finnst mér ekki fullkomlega öruggt að leysa málið á þennan hátt, þó að gr. þessi verði samþ. Ráðherrann gat þess, að síðastl. sumar hefði vísitalan hækkað úr 134 upp í 144 stig, eða um 13 stig. Á yfirstandandi ári hefur vísitalan hækkað úr 123 í 144, eða um 21 stig. Það liggur í hlutarins eðli, að ef vísitalan tekur svipuðum breytingum á næsta ári og nú siðan í ársbyrjun, þá er í því fólgin hætta fyrir starfsemi trygginganna. Setjum t.d. svo, að vísitalan hafi í árslok 1952 hækkað um 10 stig, miðað við marzvísitöluna. Ég þykist mega gera ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. byggi sínar till. á því, að dýrtíðin haldi ekki áfram að vaxa verulega. Áhætta er því ekki mikil, sem ríkisstj. tekur á sig. Ég get ekki neitað því, að mér virðist ástæða til að óttast, að svo kunni að fara, að dýrtíðin vaxi enn. Ég vildi spyrjast fyrir um það, hvort ekki sé hægt að finna betri leið. — Varðandi 3. gr. gat hæstv. ráðh. þess, að ríkisstj. mundi fyrir lok ársins 1953 leggja till. fyrir hv. Alþ. um það, hvar ætti að afla fjár til að mæta því, sem af því leiðir að fella bráðabirgðaákvæðið niður. Mér þykir gott að heyra, að það er ekki dregið í efa, að till. verði komnar frá ríkisstj. Ef ætlunin er þessi hjá ríkisstj., finnst mér eðlilegt, að ákvæði sé sett inn í frv. á þessu þingi, og mun ég ræða það við hv. n. og ríkisstj. Að sjálfsögðu greiði ég atkv. með því að vísa málinu til n. og 2. umr. Nú liggur fyrir Nd. frv. um breyt. á almannatryggingunum, og finnst mér rétt að taka til athugunar, hvort ekki sé hægt að fella efni þess inn í þetta frv., ef hv. d. og n. gætu fallizt á það.