18.12.1951
Efri deild: 47. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

139. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja nokkur orð um þessa till. frá hv. heilbr.- og félmn., sem hér liggur fyrir. Ég er samþykkur sumu af þessu, eins og t.d. breyt. við síðasta málslið, sem mun eiga að vera leiðrétting. Hins vegar vil ég taka það fram út af breyt. í sömu till., að ef vísitöluálag á tekjustofna Tryggingastofnunarinnar á næstliðnu ári hafi verið lægra en vísitöluuppbót á bætur hennar, sé ráðh. heimilt, að fengnum tillögum tryggingaráðs, að hækka álagið á tekjuliðina um allt að því, sem vísitölumismunurinn nam, — þá vil ég taka það fram, að ef á að nota heimild þessa að fullu t.d. í marz nú, þá mundi þessi breyting hafa um 51/2 millj. kr. hækkun í för með sér á útgjöldum fyrir þá aðila, sem standa eiga undir þessu. Þetta mundi þá verða hjá sveitar- og bæjarfélögum rúm 1 millj. kr., einstaklingum 1750 þús. kr., ríkissjóði 1750 þús. kr. og hjá atvinnurekendum 850 þús. kr. Hér er að vísu aðeins um heimild að ræða, en ég vil taka það fram, að ég veit ekki til þess, að fundin hafi verið nein leið til þess að standa undir þessum kostnaði á fjárlögum. Framlagið á undanförnum fjárlögum hefur ekki hrokkið fyrir útgjöldum; því er áreiðanlega ekki nein leið fyrir hendi til þess að standa undir öllum þessum greiðslum. Ég tel ekki heldur rétt að taka þetta á sig nú, þar sem ekki hefur gengið svo vel með innheimtu frá sveitarsjóðum og einstaklingum. Ég tel þetta því ekki réttan grundvöll, eins og fjárlögin eru nú, því að það er ekki heldur fengin nein vissa fyrir því, að heimild þessi yrði notuð. Í öðru lagi virðist mér, að breyt. um það, hvernig iðgjöldin skuli á lögð, sé þannig varið, að Tryggingastofnunin megi vel við una. Mér er sárt um, að stofnunin skuli þurfa að ganga á sína sjóði, eins og hún hefur þurft að gera allverulega, þó að nú sé reynt að hindra slíkt með þeim breyt., sem hér eru gerðar. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Þó svo fari, að heimild þessi verði veitt, þá sé ég ekkert vit í að framkvæma hana, og liggur það í hlutarins eðli; það mun og hv. deild sjá, þegar til kemur, að hún þurfi að taka ákvörðun um málið. Vildi ég og mælast til þess, að hv. n. láti sér þessar breyt. nægja og geri ekki frekari kröfur í þessu efni. [Fundarhlé.]