18.12.1951
Efri deild: 47. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

139. mál, almannatryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir miður, að hæstv. félmrh. skuli ekki vera viðstaddur þessar umr., einkum vegna ummæla, er hann hafði hér um þetta mál. En mér er kunnugt um, að hæstv. félmrh. hefur verið lasinn. (Forseti: Hæstv. viðskmrh. ætlaði að vera viðstaddur umr.) Má ég bíða, þar til hann kemur? (Forseti: Já. — — — Það er ekki hægt að bíða lengur eftir hæstv. ráðh.)

Mér eru það mikil vonbrigði, að hæstv. ráðh. skyldi taka þá afstöðu til brtt. á þskj. 461, sem hann gerði. Ég tel, að með henni hafi verið gengið mjög til móts við óskir hæstv. ríkisstj. Eins og þinginu er ljóst og n. er sammála um, er ekki hægt að halda áfram þeim taprekstri, sem verið hefur á Tryggingastofnuninni nú í tvö ár, og ganga á sjóði stofnunarinnar. Hæstv. ráðh. hefur látið n. vita það, að stj. muni ekki geta sætt sig við, að þessi útgjöld verði borin uppi af ríkissjóði einum. Þess vegna vildi meiri hl. n. koma til móts við hæstv. stj. með till. þeirri, er ég gat um. Hæstv. ríkisstj. mun hafa talið þessa till. óaðgengilega, en meginefni hennar er, að lagt er til, að stj. skuli vera heimilt að bæta á iðgjöldin álagi, sem nemur allt að þeim mismun, sem varð á tekjum og gjöldum árið á undan. M.ö.o., það er ætlazt til þess, að þannig mætti fá eitthvað upp í tap næsta árs á undan og þessi hækkun skuli koma jafnt niður á alla aðila, ríkið og aðra gjaldendur. Ég skal ekki búa til neinar ágiskanir um, hverju þetta mundi nema. En hvort grípa þyrfti til þessa ráðs, yrði stj. að meta, og væri þá annars vegar að athuga, hver væri raunveruleg útkoma liðna ársins, og hins vegar, hvernig horfði með hækkun vísitölunnar á árinu, sem væri að byrja. Sést þetta betur þegar kemur fram um mánaðamótin febrúar–marz. Ef líkur væru litlar fyrir hækkun, þyrfti ekki að nota heimildina. Ég fæ því ekki betur séð en þessi till. sé aðgengileg fyrir hæstv. ríkisstj. Hitt er annað mál, að með vaxandi atvinnuleysi og dýrtíð sé ég annmarka á því að hækka iðgjöldin. En allt þetta verður að meltast, og auðvitað er, að þessi heimild yrði ekki notuð nema í knýjandi nauðsyn. En ef þessi till. verður ekki samþ., verður Tryggingastofnunin að halda áfram að tapa og ganga á sjóði sína. Ef miðað er við, að vísitalan hækki um 8 stig, þ.e. meðaltalsvísitöluhækkun næsta árs yrði 8 stig, munar það Tryggingastofnunina á 4 millj. kr., og er þá ekki tekið tillit til þess, að útgjöld stofnunarinnar mundu aukast með auknu atvinnuleysi. Og mér finnst það fullkomið ábyrgðarleysi að leggja nú upp með fyrirsjáanlegan taprekstur á Tryggingastofnuninni þriðja árið í röð.

Yfirlýsing hæstv. ráðh. var, að því er mér skildist, á þá leið, að stj. sæi sér ekki fært að nota heimildina, nema gert væri ráð fyrir fé til þess á fjárl. Ég veit ekki betur en verið sé að taka inn á 19. gr. upphæð til þess að mæta kostnaði vegna aukinnar dýrtíðar. Vísitalan nú er 144 stig, en sú upphæð, sem framlag til Tryggingastofnunarinnar var miðað við,er bundin við 142 stig. Er það algerlega eftir venju að taka þetta inn á 19. gr. fjárl., og yrði þá að áætla, hvað þetta mundi nema miklu. Ég sé því ekki, að yfirlýsing hæstv. ráðh, geti verið því til trafala að samþ. þessa till., þar sem ófært er að leggja í þriðja rekstrarárið með fyrirsjáanlegu tapi.

Ég tók eftir því áðan, að hv. frsm. drap á það, að síðasti málsl. á þskj. 461 svaraði til 2. málsl. á þskj. 365, en þessir liðir segja fyrir um, hversu haga skuli til innheimtu iðgjalda vegna lögskráðra sjómanna samkv. 112. gr. laganna. Ef báðar þessar till. verða felldar, vantar öll ákvæði um þetta í frv. sjálft. En iðgjöld þessi eru innheimt um leið og skráð er á skipin, og verður því að hafa ákvæði um, hvernig þau skuli á lögð.

Það er augljóst mál, að ef halda á áfram að eyða sjóðum Tryggingastofnunarinnar, þá hlýtur að reka að því, að veita verði stóra upphæð í eitt skipti fyrir öll eða draga stórlega úr bótum. Hið síðara er ófært með öllu, en það fyrra mjög óheppilegt. Ég get ekki annað séð en Tryggingastofnunin verði að fá tekjur sínar með vísitöluálagi, ef hún greiðir bætur með því. Og ef á að gera stórt átak síðar til að rétta þetta við, verður það miklu erfiðara en fara þessa leið, sem ég hef hér sýnt fram á með rökum.