18.12.1951
Efri deild: 47. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

139. mál, almannatryggingar

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef flutt tvær brtt. á þskj. 476, og liggja þá fyrir fjórar brtt. við þetta frv. og þar af þrjár við 2. gr. Þar af eru tvær frá heilbr.- og félmn., en þá verður að líta svo á sem hún sé fallin frá frumtill. sinni og haldi í þess stað við þá síðari. En hvað ríkisstj. viðvíkur, þar sem hún hefur lýst því yfir, að hún muni ekki nota sér heimildina, þó að samþ. yrði, þá sé ég ekki betur en það sé gagnslaust að vera að samþ. hana. Á hinn bóginn veit ég ekki heldur, hvað fyrir nefndinni hefur vakað, því að ég var ekki viðstaddur, þegar hún gerði sínar till. Og ég veit ekki heldur, hvort allir gera sér ljóst, hvað liggur í öllum þessum till. Og það er svo yfirleitt um tryggingalöggjöfina í heild, að hún er svo flókin, að menn vita ekki gerla, hvað er í gildi og hvað ekki, og ég vil leyfa mér í því sambandi að benda á, að í 37. gr. í l. nr. 51 1951 er kveðið svo á, að Tryggingastofnunin skuli eins fljótt og auðið sé láta semja handbók um tryggingarmál, er veiti upplýsingar um það, hvaða ákvæði séu í gildi, og einkum þó um réttindi og skyldur hinna tryggðu. Mér er ekki kunnugt um, að Tryggingastofnunin hafi gert þetta, þó að nokkuð sé nú um líðið. Ég tel, að þetta sé hin mesta nauðsyn og ekki síður eftir að fleiri breytingar kunna að hafa verið gerðar.

Það er ekki mitt að gera grein fyrir þeim mun, sem er á frv. ríkisstj. og till. hv. heilbr.- og félmn., en ég get ekki betur séð en það sé gagnslaust að samþ. brtt. á þskj. 461, eftir að ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún muni ekki nota sér þá heimild, sem henni er þar gefin, þó að hún yrði samþ. Ég sé þess vegna ekki betur en það sé ekki annað fyrir heilbr.- og félmn. að gera en annað af tvennu að samþ. 2. gr. eins og hún hefur verið borin fram eða að fylgja mínum till. á þskj. 476. Í mínum till. felst það, að 2. gr. frv. falli niður, svo að lögin frá 1951 verði óbreytt að því leyti, en það þýðir, að 25. gr. verður óbreytt, en ákvæði hennar eru þessi, með leyfi hæstv. forseta, þ.e. síðasta málsgr.: „iðgjöld samkvæmt 107. og 112. gr. og framlög samkvæmt 114. og 116. gr. laganna, sbr. 24. gr. þessara laga, skulu innheimt með álagi samkvæmt vísitölu næsta árs á undan.“ Þessi regla hefur gilt og mun samkv. mínum till. gilda áfram, en hallann af rekstri trygginganna greiðir þá ríkissjóður samkv. gildandi bráðabirgðaákvæðum þessara laga, en þar er ríkisstj. heimilað að greiða þann halla, sem kann að verða á iðgjöldum annars vegar og hins vegar bótagreiðslum.

Ef farið væri að till. meiri hl., þá mundi það m.a. leiða til stórfelldrar hækkunar á útgjöldum til trygginganna þegar í marz, því að sjáanlegt er, að vísitalan verður þá allmiklu hærri en hún er nú. Það er gert ráð fyrir, að hún verði 144 stig, en hún getur vel verið orðin 150 stig, auk þess sem hallinn á rekstri trygginganna mundi þá taka stórt stökk, sem svo kæmi enn harðar niður á gjaldþoli bæjar- og sveitarfélaga. Það mundu verða stórfelldar skattahækkanir enn ofan á allt það, sem á undan er gengið, og þvert ofan í allt það, sem búið er að fallast á að reyna til þess að létta undir með þessum aðilum. Bæjar- og sveitarfélög hafa ekkert að gera gegn þessu nema að leggja enn út í að hækka útsvör til þess að reyna að reyta eitthvað saman til að láta í tryggingarnar.

Nú er það fullyrt af þeim, sem kunnugastir eru þeim málum, að það komi ekki til mála að hækka útsvör í þeim tilgangi að reyna að afla tekna. Í samþykkt bæjarstjórafundarins var því slegið föstu, að það kæmi ekki til mála að hækka útsvörin, því að væri sú leið farin, mundi það leiða til þess, að þau mundu ekki innheimtast og hækkunin ekki koma að neinum notum. Hækkun mundi þess vegna ekki gera annað en leiða þetta allt í fullkomið strand. Mér er nokkuð kunnugt um þessi mál, og ég get ekki samþ. að auka enn kröfur um hækkun framlaga. Ég held, að niðurstaðan skini fullljóst í gegn, að greiðslugeta almennings í landinu er þrotin, og það er tilgangslaust að hækka skattana, því að þeir munu ekki nást inn. A.m.k. var það álit bæjarstjórafundarins, að aukin hækkun mundi ekki gefa miklar tekjur, og þótt ekki liggi annað fyrir, er vitað, að hún mun ekki gefa þær tekjur, sem ætlazt er til. Það er vitað, að skattþunginn hefur aukizt vegna verðbólgunnar, vegna þess að það er viðhafður sami skattstigi og áður og auknar tekjur eiga að gefa stóraukinn skatt, stórum hærri en sem nemur hlutfallslega hækkun á tekjunum. Auk þess hafa bæirnir orðið að hækka skattstiga sinn. En frumorsökin er þó sú, að ríkissjóður hefur gengið svo freklega nærri greiðslugetu almennings, að hann er að þrotum kominn. Hann hefur innheimt sín gjöld með þeim þrælatökum, að nú er svo komið, að bæirnir ná ekki lengur inn sínu. Þetta liggur ljóst fyrir af þessu áliti bæjarstjórafundarins, og það er óhrekjanlegt.

Ég mun ekki treysta mér til þess að greiða atkvæði með frekari hækkunum en felast í mínum till. En með þeim er stefnt að því, að framlögin hækki, en eftir sömu reglu og gilt hefur um það hingað til. Svo langt vil ég ganga til móts við þá þörf, sem fyrir er, og því til viðbótar vil ég leggja það til, að ríkissjóður greiði þann halla, sem kann að verða af því, að bæturnar nemi meiru en tekjurnar.

Ég ætla svo ekki að hafa mál mitt lengra, en ég held, að till. meiri hl. n. séu gagnslausar, og ég held, að hv. meiri hl. hennar ætti að gera sér það ljóst, að ríkisstj. er hér sá aðili, sem mest valdið hefur, og með því að samþ. mínar till. er þetta í sem svipuðustu horfi og verið hefur.