19.12.1951
Neðri deild: 50. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

139. mál, almannatryggingar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það eru nokkrar aths. við þetta frv., sem ég vildi beina til heilbr.- og félmn., sem fær málið til meðferðar.

Varðandi 1. gr. gat hæstv. forsrh. þess, að um leiðréttingu væri að ræða. Þetta er ekki rétt, heldur er hér efnisbreyt., sem þýðir töluverða lækkun á greiðslum, þar sem því er slegið föstu, að greiða skuli samkv. kaupgjaldsvísitölu í stað vísitölu. Ég skal ekki fara nánar inn á þetta, en beini til hv. n. að athuga það.

Í 2. gr. frv. er um stórfellda breyt. að ræða, sem hefur það í för með sér, að þeir aðilar, sem eiga að greiða til Tryggingastofnunarinnar, þurfa að greiða miklu hærra en nú er. Í stað þess að í núgildandi l. á sveitarfélag að greiða sitt framlag fyrir árið 1952 samkv. meðalvísitölu í ár, sem er 131 stig, þá er lagt til að miða við vísitölu í marz n.k., sem má gera ráð fyrir að verði kringum 150. Hér er því um nær 20 stiga hækkun að ræða á framlagi sveitarfélaganna til trygginganna. Þetta atriði á við 114. gr. sérstaklega. Varðandi 107. gr. er líka um að ræða nokkra hækkun fyrir þá aðila, sem greiða til Tryggingastofnunarinnar, sveitarfélögin sérstaklega.

Hæstv. forsrh. færði þau rök fyrir þessu frv., að vegna hinna öru breyt. á vísitölunni væri nauðsynlegt að breyta þessum mælikvarða. Það er að vísu rétt, að breyt. á vísitölu hafa verið örar á þessu ári eða frá ársbyrjun, þegar vísitalan var 123, þangað til nú, að hún er 144 stig, þ.e.a.s. kaupgjaldsvísitalan, sem hefur þannig hækkað um 21 stig. Hitt veit þingheimur, að það er ekkert nýmæli í ár, að vísitalan hækki ört, heldur hefur svo verið um undanfarinn áratug, að veruleg vísitöluhækkun hefur orðið á hverju ári. Og ég hef fyrir mér umsögn kunnugra um það, að vísitala hækki á næsta ári og verði hækkunin eins ör og á þessu ári, nema eitthvað alveg óvænt komi fyrir. Ég get þó ekki fallizt á þau rök hæstv. ráðh., að þessa breyt. þurfi nauðsynlega að gera, vegna þess að líkur séu til, að vísitalan hækki örar næstu ár en hún hefur gert undanfarinn áratug eða síðan almannatryggingalögin voru sett. Hæstv. ráðh. sagði, að þessi ákvæði þyrftu að koma til að tryggja það, að ekki yrði gengið um of á sjóði Tryggingastofnunarinnar. Ég skal ekki draga í efa, að stofnunin þurfi á nokkuð auknu fé að halda til þess að mæta þeim halla, sem ég hef heyrt að hafi verið á rekstri hennar að undanförnu. En menn verða jafnframt að gera sér grein fyrir því, að þetta þýðir ekki annað en það, að sveitar- og bæjarfélögin í landinu verða að hækka útsvörin til þess að geta staðið undir þessum hækkuðu framlögum til trygginganna, sem ég hygg að muni nema allmörgum millj. kr. Ég hef látið reikna það, hverju þetta viðbótarframlag mundi nema hjá Reykjavíkurbæ, og er það um 2 millj. kr., og þá þyrfti að sjálfsögðu að hækka útsvörin um þá upphæð. Hitt er svo matsatriði, hve langt hv. þm. vilja ganga í því að leggja aukin gjöld á sveitar- og bæjarfélögin án þess að láta nokkrar tekjur koma á móti í því augnamiði að tryggja það, að ekki verði gengið á sjóði almannatrygginganna. — Ég taldi rétt að láta þetta koma fram þegar við 1. umr. málsins hér í deildinni.