20.12.1951
Neðri deild: 51. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

139. mál, almannatryggingar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls benti ég á, hversu mikla útgjaldaaukningu fyrir bæjar- og sveitarfélögin samþykkt þessa frv. hefði í för með sér.

Í gærkvöld átti ég þess kost að sitja fund með n., þar sem þetta var rætt, og útskýra þetta fyrir henni. En n. hefur ekki treyst sér til þess að flytja brtt. í tilefni af upplýsingunum, en ætlar að vísu að gera þrjár kröfur í þessu máli.

Í framhaldi af því, sem ég sagði hér í gær við fyrri umr. málsins, vildi ég bera fram tvær brtt. Önnur þeirra er um, að í stað orðanna „kaupgjaldsvísitölu marzmánaðar það ár, sem gjöldin eru á lögð“ komi: kaupgjaldsvísitölu desembermánaðar næsta árs áður en gjöldin eru á lögð. – Með þessu er gengið til móts við óskir og þarfir Tryggingastofnunar ríkisins, en þó ekki alveg eins langt og farið er fram á. Ég vonast til þess, að samkomulag geti orðið um þetta atriði. — Hin till. er ný gr., brtt. við 109. gr. almannatryggingalaganna, og hljóðar svo: „Nú sækir maður til sveitarstjórnar um, að sveitarsjóður greiði fyrir hann iðgjöld hans.. sakir þess að hann sé ekki fær um það af eigin rammleik, og tekur þá sveitarstjórn ákvörðun um umsóknina með tilliti til ástæðna hlutaðeiganda.“ — Þetta er eðlileg regla, og tel ég rétt, að hún standi óbreytt. En ég legg til, að viðbótin falli niður, þar sem lögð er sú skylda á sveitarsjóðina að greiða iðgjöldin. Sú hefur orðið raunin á, að sveitarfélögin hafa orðið að greiða iðgjöldin fyrir marga unglinga, 16 ára og eldri, sem hafa ekki greitt til Tryggingastofnunarinnar, vegna þess að þeir hafa verið í skóla, en eiga foreldra í góðum stöðum og því ástæðulaust, að sveitarsjóðir greiði gjöldin í þeim tilfeilum. Hins vegar hefur þessi brtt. verið gerð til þess að halda áfram að greiða þessi gjöld fyrir þá aðila, sem hafa þörf fyrir það, og athugun fari fram á ástæðum manna, svo að ekki sé farið að greiða fyrir þá, sem ekki er minnsta ástæða til að greiða fyrir. — Þessar brtt. verða skriflegar, en eru því miður ekki alveg tilbúnar, en verða það eftir örskamma stund, og vil ég því biðja hæstv. forseta að hafa biðlund.