20.12.1951
Neðri deild: 51. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

139. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Út af brtt., sem fram hafa komið hér og eru á þskj. 528, frá hv. 10. landsk. þm. og hv. 3. landsk. þm., vil ég taka það fram, að það er rétt, að það kemur nokkur hækkun á framlag frá bæjar- og sveitarfélögum. Brtt. fer fram á, að ríkissjóður greiði þann mismun, sem verður, ef gjöldin eru miðuð við marzvísitölu á árinu og desembervísitalan verður hærri en marzvísitalan. Ég skil þessa till. þannig, og það má kannske segja, að hún sé að vissu leyti sanngjörn, en á það hefur ekki verið fallizt af hæstv. ríkisstj., og hv. Ed. felldi till., sem gekk í sömu átt og þessi. Ég mun leggja á móti því, að till. verði samþ., af þeirri ástæðu, að ef þetta frv. á að verða að lögum fyrir áramót, verður það að haldast óbreytt frá því, sem það nú er. Ég veit, að ríkisstj. vill ekki taka á sig þá ábyrgð, sem fylgdi því að láta ríkissjóð taka á sig þessar viðbótargreiðslur.

Það er rétt, að hv. 7. þm. Reykv. kom á fund í gær, og kom þá í ljós, að hann hafði reiknað fullríflega, þegar hann reiknaði hér í gær, hvað útgjöld bæjarsjóðs Reykjavíkur mundu hækka, ef samþ. væri frv. eins og það liggur hér fyrir. Munaði það allt að 1/2 millj. kr. Mér skilst, að það mundi hækka útgjöld bæjarsjóðs um 1.2 millj. kr., en hann taldi, að það yrðu um 2 millj. kr. Stafar þetta af því, að borgarstjóri Reykjavíkur reiknar með miklu hærri vísitölu en þetta frv. gerir ráð fyrir. En hann mun ekki vera krafinn um meira af Tryggingastofnuninni heldur en sem nemur því, að gert sé ráð fyrir 147 stigum, en hann reiknar með 155 stigum. Ekki rétt? (GTh: Nei.) Þarna kemur fram sá mismunur, sem er. Þetta eru allmikil aukaútgjöld; því er ekki að neita. En það verður að líta á málið eins og það liggur fyrir. Tryggingastofnunin hefur undanfarin ár greitt allar bætur með miklu hærra álagi en framlagið til hennar hefur verið greitt með. Er svo komið, að s.l. tvö ár hefur verið 8 millj. kr. halli á Tryggingastofnuninni, sem hún er ekki fær um að bera. Það verður að segja þetta eins og það er. Þetta fé, sem ríkissjóður greiðir, gengur til einstaklinga í hinum ýmsu bæjarfélögum. En ef halda á áfram þá leið, sem farin hefur verið undanfarin ár, þá þýðir það, að Tryggingastofnunin getur ekki staðið undir þeim skyldum, sem á henni hvíla, og verður þá ekki hægt að gera annað en breyta lögum. Það verður þá að vinna að því að breyta þeim lögum eða jafnvel fella niður tryggingalögin. Þá mundi koma hljóð úr horni, bæði úr Reykjavík og annars staðar frá. Það sjá allir, að það er ekki hægt að halda svona áfram. En ég held, að þetta mundi létta mikið fátækraframfærið hér í Reykjavík.

Um hina brtt. er það að segja, að það er í sjálfu sér eðlilegt, að bæjarfélögin kvarti yfir því að verða að greiða iðgjöldin fyrir menn, sem ekki er þörf að greiða fyrir. Mig minnir, að það sé í lögum heimild fyrir bæjarfélögin að endurheimta þessar greiðslur, ef það kemur í ljós, að einstaklingurinn hefur efni á að greiða sjálfur gjöldin. En það er rétt, að það er vandræðamál með unglingana á aldrinum 16–20 ára, og það er atriði, sem þarf að endurskoða. Ég er þeirrar skoðunar, að þeir eigi að borga minna gjald en þeir, sem fá laun. Margt af þessu fólki er í skóla og þarf styrk frá foreldrum eða aðstandendum, svo að þessu þarf að breyta. En ef þetta verður samþ. nú og sveitarstjórnirnar hætta að greiða fyrir það fólk, sem þær hafa borgað fyrir, mundi það missa réttindi sín. Úrskurður viðkomandi bæjar- eða sveitarstjórnar mundi taka langan tíma, svo að það er að minnsta kosti hætt við því, að margt af því yrði réttindalaust mestan hluta ársins. Ég býst við því, að það sé fullur vilji fyrir hendi hjá Tryggingastofnuninni að athuga það. hvort fólk á aldrinum 16–20 ára ætti ekki að fá að greiða lægri iðgjöld. Það hefur að jafnaði engar aða litlar tekjur og er líka venju fremur hraust fólk, sem stofnunin hefur lítinn kostnað af.

Ég verð því að mæla á móti því, að till. verði samþ. að þessu sinni þó að ég geti ekki gert það fyrir hönd n., þar sem henni hefur ekki gefizt tækifæri til að athuga málið.