08.10.1951
Sameinað þing: 3. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum, gerði forsrh. grein fyrir stefnu stjórnarinnar og komst þá meðal annars þannig að orði:

„Ríkisstjórnin er fyrst og fremst mynduð til þess að koma á, eftir því sem unnt er, jafnvægi í viðskipta- og atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar.“

Síðan skýrði forsrh. frá því, að stuðningsflokkar stj. hafi samið um afgreiðslu á frv. um gengisskráningu o.fl. — gengislækkunina enda var það fyrsta ráðstöfunin, sem ríkisstj. beitti sér fyrir til þess að ráða bót á því geigvænlega misræmi, sem orðið var á milli framleiðslukostnaðar og afurðaverðs. Síðan segir forsrh. í þessari yfirlýsingu um stefnu stjórnarinnar:

„Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því af alefli, að fjárlög verði afgreidd án greiðsluhalla og að lausaskuldir ríkisins verði lækkaðar eftir megni.“

Ríkisstj. var það ljóst og fór ekki dult með, að eitt helzta grundvallarskilyrði þess, að hún gæti komið í framkvæmd stefnu sinni, var greiðsluhallalaus ríkisbúskapur, — að takast mætti að stöðva þegar í stað þann mikla hallarekstur ríkisins, sem undanfarið hafði ýtt svo mjög undir verðbólguþróunina og átt drjúgan þátt í að færa fjárhagskerfi landsins úr skorðum. Því aðeins var hægt að gera sér vonir um aukið jafnvægi í fjárhags-, viðskipta- og atvinnumálum og því aðeins var hægt að búast við, að mögulegt yrði að losa um höft á viðskiptum og ráða bót á vöruskortinum, að fullur jöfnuður næðist í ríkisbúskapnum. Á Alþingi 1950 var þetta sjónarmið haft í huga við afgreiðslu fjárlaga fyrir það ár, og stóð þingmeirihluti sá, sem stj. styður, fast saman við afgreiðslu fjárlaga á þessum grundvelli.

Upplýsingar um afkomu ársins 1950 lágu fyrir nokkurn veginn í febrúarmánuði síðastl., og gaf ég yfirlit um hana til bráðabirgða þá. Sýndi þetta bráðabirgðayfirlit, að greiðslujöfnuður hafði náðst á árinu 1950, þótt sumir tekjuliðir hefðu brugðizt mjög verulega frá því, sem ráð var fyrir gert. Nú hefur farið fram fyrir nokkru endanlegt uppgjör ársins 1950, og sýnir það, að hin endanlega niðurstaða á rekstri ársins hefur orðið nokkru betri en bráðabirgðauppgjörið sýndi. Í því var áætlað, að tekjuafgangur á rekstrarreikningi hefði orðið 34.010 millj., en endanleg reikningsskil sýna, að afgangur á rekstrarreikningi hefur orðið 41.080 millj. kr. Útgjöldin á rekstrarreikningi höfðu samkvæmt bráðabirgðauppgjörinu verið 263.220 millj. kr., en urðu 265.150 millj. kr. Gjöldin á fjárl. voru hins vegar 262.070 millj. Heildargjöld á rekstrarreikningi fóru því samtals um 3.080 millj. kr. fram úr áætlun. Tekjur reyndust 306.230 millj. kr., en höfðu samkv. bráðabirgðayfirlitinu verið 298.300 millj. kr. Á áætlun fjárl. höfðu þær verið 298.320 millj. kr. Tekjurnar fóru því aðeins 7.910 millj. kr. fram úr áætlun.

Eins og áður segir, varð tekjuafgangur á rekstrarreikningi 41 millj., eða tæpum 5 millj. kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir og tæpum 7 millj. kr. hærri en bráðabirgðauppgjörið gerði ráð fyrir.

Á eignahreyfingum varð endanleg niðurstaða sú, að hreinn greiðsluafgangur telst mér hafi orðið 3.4 millj. kr., og eru þá í því sambandi taldar til útgjalda afborganir af föstum ríkislánum að fjárhæð 15.7 millj. kr. Lækkun skulda, sem ríkissjóður stendur sjálfur straum af, og hækkun sjóðs og innstæðna á árinu hefur því numið 19 millj. kr.

Það var mjög þýðingarmikið, að fullur greiðslujöfnuður í rekstri ríkisins skyldi nást þegar á árinu 1950. Þokaði það stórum í jafnvægisátt í peningamálum. Ef mistekizt hefði að ná þessu marki á árinu 1950, þá hefði það torveldað mjög í framkvæmd stefnu ríkisstj.

Enn þá er ekki hægt að segja með vissu um afkomu ríkisins á því ári, sem nú er að líða, en ég hef hér í höndum yfirlit um tekjur og gjöld ríkissjóðs fram til 1. sept., og eftir nokkra daga fæ ég í hendur sams konar yfirlit fram til 1. okt.

Samkvæmt þessu yfirliti hafa tekjur ríkissjóðs á rekstrarreikningi orðið rétt um 234 millj. kr. fram að 1. sept., en voru í fyrra 156 millj. kr. á sama tíma. Þær hafa því orðið um 78 millj. kr. hærri á þessu ári en í fyrra á sama tíma.

Gjöldin á rekstrarreikningi hafa hins vegar orðið 173 millj. kr. til 1. sept., en 145 millj. kr. á sama tíma í fyrra. Gjöldin hafa því orðið á þessu tímabili 28 millj. kr. hærri en í fyrra til jafnlengdar.

Á þessum mánuðum hefur því afkoma ríkissjóðs í ár orðið miklum mun betri en á síðastl. ári.

Ég get ekki sagt með neinni nákvæmni, hvernig niðurstaðan verður á árinu, eins og ég tók fram áðan. Það er þó sýnilegt, að tekjur ríkissjóðs fara mikið fram úr áætlun, en hitt er einnig augljóst, að gjöldin fara mjög verulega fram úr áætlun af óviðráðanlegum ástæðum, og eru þar víða að verki sömu ástæður og valda tekjuaukanum.

Þeir tekjuliðir, sem mest fara fram úr áætlun á þessu ári, verða verðtollurinn og söluskatturinn. Verðtollurinn fer eitthvað yfir 100 millj. kr. og söluskatturinn sennilega eitthvað yfir 80 millj. kr. samtals. Ástæðurnar fyrir því, að þessir liðir fara svona mjög fram úr áætlun, eru þessar helztar:

Báðir þessir liðir — og einkum verðtollurinn — brugðust mjög á árinu 1950, eins og hv. þingmenn muna. Vantaði þá um 20 millj. kr. til, að verðtollurinn næði áætlun. Þetta hafði vitanlega sín áhrif, þegar þessir liðir voru áætlaðir í fjárl. fyrir 1951. Menn vildu ógjarnan brenna síg aftur á sama soðinu. Óvæntar, stórfelldar verðhækkanir erlendra vara hafa átt sér stað á þessu ári, sem ekki voru fyrirsjáanlegar, þegar fjárl. voru samin. Hækkar þetta bæði verðtoll og söluskatt. Tilslökun sú á innflutningshöftunum, sem gerð var á þessu ári, eftir að fjárl. fyrir árið 1951 voru samþykkt, hefur haft í för með sér allmikið aukinn innflutning þeirra vara, sem hár verðtollur er greiddur af, og aukin verzlunarviðskipti innanlands. Hið sérstaka fjárframlag, sem fékkst á vegum Marshallaðstoðarinnar til þess að standa undir eðlilegri birgðaaukningu neyzluvara í landinu, sem varð að fylgja auknu frjálsræði í viðskiptum, hefur aukið innflutninginn og tolltekjurnar í eitt skipti, á meðan verið er að koma upp auknum verzlunarbirgðum. Innflutningurinn í ár verður því meiri en neyzlan og verðtollstekjurnar og sölu skattstekjurnar af innflutningi óvenju háar í eitt skipti af þessum ástæðum.

Allur kostnaður við ríkisreksturinn hefur hækkað mjög mikið á þessu ári, og sumir lögboðnir liðir fara langt fram úr áætlun. Vegaviðhald, jarðræktarstyrkur, útgjöld vegna sauðfjárskipta og útgjöld vegna trygginga fara fram úr áætlun svo milljónum skiptir hver liður. Þá hljóta launagreiðslur að fara svo milljónum skiptir fram úr áætlun. Taldi ríkisstj. óhjákvæmilegt að gefa út lög um það á miðju ári, að starfsmönnum ríkisins yrði greidd sams konar launauppbót og samið var um á milli samtaka verkamanna og atvinnuveitenda. Þá hafa útgjöld til vörukaupa yfirleitt hækkað stórkostlega. Umframgreiðslur verða þess vegna verulegar á þessu ári, en of snemmt að spá um það, hversu miklu þær munu nema.

Samt sem áður er það augljóst, eins og áður er fram tekið, að afkoma ríkissjóðs á þessu ári verður hagstæð, og verður allriflegur greiðsluafgangur á árinu. Mun ég gefa fjvn. og Alþ. nánara yfirlit um þessi mál, þegar betur sést, hvert stefnir um endanlega niðurstöðu.

Það er augljóst af því, sem ég hef nú upplýst, að á þessu ári mun einnig takast að standa fullkomlega við það stefnuskráratriði ríkisstj. að hafa hallalausan ríkisbúskap. Vegna þess, hve fjárlög fyrir þetta ár voru gætilega úr garði gerð, verður verulegur afgangur og skuldalækkun ríkisins, sem styrkir mjög í framkvæmd alla stefnu ríkisstj. í fjárhags-, atvinnu- og viðskiptamálum.

Aukið frjálsræði í viðskiptum, sem komið hefur verið í framkvæmd á þessu ári og gerbreytt hefur ástandinu í verzlunarmálum, hefði verið óhugsandi, ef afkoma ríkissjóðs hefði ekki tekið svo algerum stakkaskiptum á árinu 1950 og þó einkum nú í ár.

Ríkissjóður hefur nú á þessu ári getað komizt af með miklu minna yfirdráttarlán í Landsbankanum en hann hefur áður haft. Hefur ríkissjóður venjulega nú á þessu ári skuldað 30–40 millj. kr. minna í Landsbankanum en á sama tíma í fyrra, en hefði orðið að skulda enn meira en í fyrra, ef ekki hefði verið gerbreyting á afkomunni, vegna þess að velta ríkissjóðs hefur yfirleitt aukizt.

Það er augljóst mál, að ef ríkissjóður hefði þurft að gera jafnmiklar kröfur á hendur Landsbankanum um lánsfé og gerðar hafa verið undanfarin ár, þá hefði bankinn ekki getað aukið útlán til framleiðslu og verzlunar, svo sem óhjákvæmilegt var vegna hækkandi verðiags og vaxandi vörubirgða, sem verða að fylgja frjálsri verzlun.

Þeim, sem kunnugir eru þeim lánsfjárerfiðleikum, sem menn eiga við að búa, og rekstrarfjárskorti, hlýtur að vera það ljóst, hvílíkt ástand hefði skapazt, ef afkoma ríkissjóðs hefði eigi tekið svo snöggum stakkaskiptum til bóta sem raun hefur nú á orðið. Ef ekki hefði tekizt að gerbreyta afkomu ríkisins svo sem raun er á orðin, hefði hin nýja stefna í verzlunarmálum og framleiðslumálum orðið alveg óframkvæmanleg.

Þá verður aldrei nægilega lögð áherzla á, að bætt afkoma ríkissjóðs er undirstaða þess, að hægt sé að halda áfram með hin stóru fyrirtæki, Sogsvirkjun, Laxárvirkjun og áburðarverksmiðju, sem þjóðin hefur nú í ráðizt. Eins og menn vita, þá er ætlunin að reisa þessi stórvirki aðallega fyrir lánsfé úr mótvirðissjóði, að því er innlent fjármagn snertir. Mótvirðissjóður getur þó alls ekki orðið notaður til slíkra lánveitinga, nema því aðeins að ríkisreksturinn sé hallalaus. Ef rekstur ríkisins væri með halla og lausaskuldir söfnuðust í bönkum hér, þá mundi mótvirðissjóður jafnharðan étast upp eða standa frystur á móti slíkri skuldasöfnun. Mundi þá horfa til stórfelldra vandræða um framhald þessara fyrirtækja — og raunar stöðvast framkvæmd þeirra — og allar fyrirætlanir um, að meginhluti mótvirðissjóðs verði undirstaða að öflugum fjárfestingarlánasjóði, sem staðið geti undir nýjum fjárfestingarframkvæmdum þegar stundir líða, fara út um þúfur. Mótvirðissjóðurinn yrði þá að eyðslueyri til óbætanlegs tjóns fyrir þjóðina. Það er því sama, hvar á þessa mynd er litið, alls staðar sést, hve háskalegt það væri, ef aftur sigi á ógæfuhlið um afkomu ríkisins, og hve þýðingarmikið það er, að sá árangur hefur náðst í þessum efnum, sem nú er fyrirsjáanlegur orðinn.

Þá vil ég víkja að framtíðinni og fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir.

Það hefur komið betur og betur í ljós, þegar skyggnzt hefur verið fram í tímann í sambandi við samningu fjárlagafrv. fyrir næsta ár, að líklegt er, að viðhorfið á næsta ári verði talsvert ólíkt því, sem það hefur verið í ár. Kemur þar aðallega tvennt til greina. Annars vegar, að tekjur ríkissjóðs í ár eru óvenju háar, m.a. vegna innflutnings til birgðaaukningar, svo sem ég gerði áðan grein fyrir. Á hinn bóginn, að enda þótt útgjöldin vaxi allverulega í ár — fram yfir það, sem gert var ráð fyrir — vegna kauphækkana og hækkunar á verðlagi, þá falla þær hækkanir þó fyrst á með fullum þunga næsta ár. Því kemur nú fram, að ríkisútgjöldin á næsta ári munu hækka mjög.

Í fjárlagafrv. því, er hér liggur fyrir, eru tekjur ríkissjóðs á rekstrarreikningi og í 20. gr. samtals áætlaðar 363.868 millj. kr., eða um 60 millj. hærri en í fjárl. þessa árs. Gjöldin í fjárlagafrv. á rekstrarreikningi eru hins vegar áætluð 314.577 millj. kr., og á eignahreyfingum eða 20. gr. eru áætlaðar útborganir 45.196 millj. kr., eða samtals 359.773 millj. kr., og er það um 57.160 mil1j. kr. hærri útgjöld en í fjárl. yfirstandandi árs. Þetta er á milli 18 og 19% hækkun á útgjaldahlið fjárlaganna frá því 1951 og veruleg hækkun frá því, sem útgjöldin verða í ár, þótt þau fari talsvert fram úr fjárlögum.

Tekjuáætlun frv. eru gerð töluverð skil í grg. fyrir frv. Hér vil ég benda á, að þar hafa fjórir liðir höfuðþýðingu: tekju- og eignarskattur, verðtollur, söluskattur og hagnaður af ríkisfyrirtækjum.

Tekju- og eignarskattsáætlunin er hækkuð um 6 millj. frá gildandi fjárl., og er það fullílagt. Verðtollurinn er áætlaður 20 millj. kr. hærri en í gildandi fjárl., eða 93 millj. kr. Hann sýnist ætla að verða í ár yfir 100 millj. kr., en með tilliti til þess, sem ég hef tipplýst um birgðasöfnun í ár og sérstakar tolltekjur af henni, getur ekki komið til mála að áætla verðtollinn hærri en gert er í frv.

Það er mjög örðugt að segja um, hvað söluskatturinn verður endanlega á þessu ári, en eins og segir í grg. frv., þá nam hann fyrri helming ársins 37 millj. kr. Ég geri samt ráð fyrir, að hann verði eitthvað yfir 80 millj. kr. á þessu ári. Hann er áætlaður 77 millj. kr. í frv., og er það vel ílagt með tilliti til þess, að vörukaup manna hljóta að hafa verið á þessu ári óvenjulega mikil fyrst í stað, þegar slakað var á höftunum og ýmsar vörur komu í búðir, sem menn höfðu ekki getað fengið lengi, og enn fremur með tilliti til þeirra upplýsinga um birgðaaukningu á þessu ári, sem ég gat um í sambandi við verðtollinn.

Hagnaður af áfengis- og tóbakseinkasölum er áætlaður fyrir næsta ár samtals 79 millj. kr., og er það 10 millj. kr. hærra en áætlað er í fjárl. yfirstandandi árs. Hins vegar gefa þessar einkasölur í tekjur á þessu ári heldur meira en árið 1950 og aðeins ríflega þá fjárhæð, sem hér er áætluð. Samt sem áður er þessi áætlun á tekjum af einkasölu sett hærri en venja er til um þá tekjuliði.

Tekjuáætlun fjárl. í heild má áreiðanlega ekki hærri vera en hún er hér sett.

Hækkun gjaldanna á fjárlagafrv. er mikil, eins og ég gat um áðan, og má ekki tæpara standa, að hægt sé að gera ráð fyrir, að undir þeim verði staðið að óbreyttum sköttum og tollum, eins og frv. ber með sér, þar sem greiðsluafgangur er ekki áætlaður nema 4.1 millj. kr. Kemur þá til skoðunar, í hverju þessi mikla hækkun á útgjöldunum er fólgin, og um ástæður fyrir henni.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir kaupgjaldsvísitölunni 141 stig, sem líklegt var talið, að yrði í ársbyrjun 1952. Í júlímánuði þurfti að ákveða, með hvaða vísitölu skyldi reikna, og þótti þá líklegt, að kaupgjaldsvísitalan yrði nálægt þessu í ársbyrjun 1952, eftir að hausthækkanir væru þar komnar til greina. Verður þetta tæplega nógu hátt. Ógerningur er að segja, hvort vísitalan nemur þar staðar eða ekki, sem hún verður í ársbyrjun, en yfirleitt munu allar nú fyrirsjáanlegar hækkanir verða þá komnar inn í vísitöluna, og ætti hún þá ekki að hækka úr því, nema utanaðkomandi áhrifa gæti til hækkunar eða nýjar ráðstafanir verði gerðar innanlands til þess að knýja hana enn áfram. Er raunar allt í óvissu um það, hvernig fer um þetta mikilvæga atriði á næsta ári, og er nauðsynlegt að hafa það í huga við athugun frv. á Alþ. og meðferð þess alla, að svo gæti til tekizt, að vísitalan hækkaði frá þessu, og þá aukast útgjöld ríkissjóðs verulega við það.

Um hinar almennu ástæður fyrir hækkun á ríkisútgjöldunum er þetta helzt að segja: Mönnum telst svo til í fjmrn., að hækkun á launum ríkisstarfsmanna frá gildandi fjárl. nemi um 11 millj. kr. í frv. Erfitt er að sjá með nákvæmni, hversu mikið af öðrum hækkunum frv. stafar beinlínis af launahækkunum. Þar koma margir liðir til greina, en við athugun á ýmsum liðum fjárl., þar sem um er að ræða launagreiðslur til annarra en fastra starfsmanna, þá sýnist mönnum ekki fjarri lagi að áætla hækkun á frv. vegna launagreiðslna til annarra en fastra starfsmanna um 7 millj. kr. Samtals mundu þá launa- og kaupgjaldshækkanir nema um 18 millj. kr. til hækkunar á frv. frú því, sem er í gildandi fjárl. Hér er þó aðeins átt við beinar vinnulaunagreiðslur, en auðvitað eiga margar aðrar útgjaldahækkanir á frumvarpinu rætur sínar að rekja til hækkaðra launa og kaupgjalds.

Matvörur og annar varningur, sem keyptur er í ýmsum stofnunum til rekstrar, hefur stórlega hækkað. Í áætlun ríkisspítalanna t.d. er gert ráð fyrir mikilli hækkun á matvöru frá því, sem var í fjárl. þessa árs. Rafmagnsverð í Reykjavík hefur hækkað um 48%, og er það viða verulegur liður. Hitakostnaður hefur hækkað stórkostlega. Þá hefur húsaleiga fyrir húsnæði til atvinnurekstrar hækkað stórlega, vegna þess að niður féllu ákvæði húsaleigulaganna um leigutakmarkanir á atvinnu- og skrifstofuhúsnæði. Hefur því orðið um að ræða allmikla hækkun á húsaleigu hjá ríkisstofnunum, sem eru í leiguhúsnæði. Í samræmi við þetta hafa svo fjöldamargir aðrir liðir hækkað. Útgjöld til heilbrigðismála vegna hækkaðra daggjalda á sjúkrahúsum, útgjöld til trygginganna vegna aukins kostnaðar við tryggingar og hækkaðra iðgjalda. Loks er þess að geta, að nokkrir liðir fjárl. hafa hækkað vegna þess, að þeir eru enn færðir til sannari vegar en verið hefur í fjárl. undanfarið.

Á þessu sést og þó raunar enn betur á því, sem ég upplýsi síðar um einstaka liði frv., að hækkun ríkisútgjaldanna stafar yfirleitt uf kaupgjalds- og verðlagshækkunum, sem orðið hafa á þessu ári. Hefði verið hægt að komast hjá þessum hækkunum, þá hefðu að vísu tekjur ríkissjóðs og tekjuvonir verið eitthvað minni en nú, en ríkisútgjöldin á hinn bóginn verið svo miklu lægri en frv. sýnir nú, að hægt hefði verið að lækka skatta og tolla eitthvað og vera samt öruggur um afkomu ríkissjóðs.

Það er augljóst af þeim upplýsingum, sem nú hafa verið gefnar, að ætli menn að stefna enn að greiðsluhallalausum ríkisbúskap ríkissjóðs, sem er eitt meginatriði í stefnu núverandi ríkisstj., þá er ekki hægt að lækka skatta- né tolltekjur nema með því að lækka ríkisútgjöldin frá því, sem þau eru fyrirhuguð í þessu frv. eða öllu heldur í gildandi löggjöf.

Í fjmrn. hefur verið tekin saman skrá um hækkun á nokkrum útgjaldaliðum í fjárlagafrv. miðað við gildandi frv., og ætla ég að lesa þessa skrá:

Áætlað 1952. Hækkun.

1. Dómgæzla og lögreglustjórn . . . . . . . . . . . . . . . . 12 366 460 2113 245

2. Landhelgisgæzla . . . . . . . . . . . . . . . . . .. . . . . . . . . . 259 000 3 259 000

3. Innheimta skatta og tolla . . . . . . . . . . . . . . . . . . 8 562 945 1 687 335

4. Sími, burðargjöld og pappír . . . . . . . . . . . . . . . . 2 250 000 700 000

5. Halli sjúkrahúsanna . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 8 464106 2 231 173

6. Berklavarnir . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .4 484 041 682 963

7. Styrkur vegna langvarandi sjúkdóma . . . . . . . …. 5 600 000 1 640 000

8. Viðhald þjóðvega . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .17 500 000 3 700 000

9. Strandferðir . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .3 620 000 1 838 000

10. Rekstrarkostnaður vitanna . . . . . . . . . . . . …….. 1 750 000 290 000

11. Flugmál . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 3 582 617 1 354 470

12. Kirkjumál . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 5 491 442 1 074 201

13. Kostnaður við framhaldsskóla ............... 6 218 506 936 840

14. Gagnfræðamenntun . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . ..12 419 876 2 845 054

15. Barnafræðslan . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .21 901 782 5 070 787

16. Atvinnudeild háskólans ...................... … 2 360 754 527 775

17. Jarðræktarstyrklr . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 8 755 226 3 560 226

18. Sandgræðslan . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 816127 215 052

19. Skógræktin ……………………………………………1 619 180 459 794

20. Fjárskipti og sauðfjárveikivarnir …………………….14 940 000 4 945 000

21. Tryggingastofnun ríkisins ……………………………22 800 000 3 950 000

22. Sjúkrasamlögin ………………………………………7 500 000 2 500 000

23. Eftirlaun . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 3 660 000 654 000

24. Áætlað fyrir ábyrgðartöpum . . . . . . . . . . . . . . . . 7 000 000 1 500 000

Samtals kr. 193 922 062 47 734 915

Langmest af þeim hækkunum, sem hér eru taldar, stafar af þeim almennu ástæðum, sem ég hef þegar gert grein fyrir, launa- og verðlagshækkunum o.s.frv., en um einstaka liði er þó þessa að geta: Landhelgisgæzlukostnaður hækkar einnig vegna þess, að nýju skipi er bætt við flotann. Var þó gert ráð fyrir því 3 gildandi fjárl., að hið nýja skip starfaði hálft þetta ár. Innheimtukostnaður skatta og tolla hækkar einnig vegna þess, að þar er áætlunin nú sönnu nær en verið hefur. Styrkir vegna langvarandi sjúkdóma hækka einnig vegna reglugerðarbreytingar frá síðasta ári. Kostnaður við flugmál hækkar einnig vegna aukins kostnaðar á Keflavíkurflugvelli vegna nýrrar skipunar þar. Kostnaður við fjárskipti og sauðfjárveikivarnir hækkar vegna þess, að sífellt er færzt meira og meira í fang og stækkuð þau svæði, sem fé er fellt á. Er þetta gert til þess að flýta því verki.

Áætlun fyrir ábyrgðartöpum er hækkuð vegna fenginnar reynslu, og eru nú áætlaðar 7 milljónir til þess að mæta þessum áföllum.

Um aðra liði í frv. er þess helzt að geta, að sett er inn fjárveiting til kaupa á vatnsréttindum í Þjórsá, 1570 þús. kr. Íslendingar verða að eiga vatnsréttindi sín sjálfir, og hafa tekizt samningar við erlenda eigendur þessara réttinda um sölu á þeim fyrir þetta verð. Framlag til hlutabréfakaupa í áburðarverksmiðjunni er hækkað um 1.5 millj. kr. Veitt er til sementsverksmiðjunnar 1 millj. kr. Loftvarnakostnaður er hækkaður um 500 þús. kr. upp í 1 millj., og fjárveitingar til verklegra framkvæmda eru yfirleitt hækkaðar um 10% frá því, sem þær eru í gildandi fjárl.

Loks er rétt að geta enn um tvo nýja liði: fjárveitingu til þess að koma upp kynbótabúi nautgripa á Suðurlandi, 225 þús., fyrri fjárveiting af tveimur, og framlag til kaupa á sérstökum rannsóknartækjum fyrir Fiskifélag Íslands, 358 þús.

Allar hækkanir, sem ég nú hef nefnt, nema samtals 54939915 kr., en heildarhækkun á frv. nemur 57134950 kr.

Sérstök ástæða er til að benda á, að vaxtagreiðslur ríkissjóðs lækka enn frá því, sem verið hefur. Eru vaxtaútgjöld nú áætluð 3783000 kr., en voru fyrir tveimur árum tæpar 8 millj. kr. Er ekki gert ráð fyrir neinum lausaskuldavöxtum á næsta ári, og er þetta sumpart vegna þess, að ríkissjóður nýtur mótvirðissjóðsins, sem stendur í Landsbankanum, en sumpart vegna þess, að ríkissjóður hefur af tekjum sínum lækkað þær skuldir, sem hann stendur straum af á árinu 1950 og þó einkum nú á þessu ári.

Fróðlegt er að athuga, hvernig ríkisútgjöldin eru fyrirhuguð á næsta ári, samanborið við það, sem þau voru fyrir gengislækkunina árið 1949.

Árið 1949 voru öll útgjöld ríkisins á rekstrarreikningi og þau útgjöld á 20. gr., sem sambærileg eru við það, sem sett er í fjárl., samtals 336 millj. kr., en eru nú áætluð, eins og ég hef áður getið um, 360 millj. kr. Útgjöldin eru því á næsta ári áætluð um 24 millj. kr. hærri en þau voru 1949, fyrir gengislækkunina, eða um 7% hærri. Er það ekki mikil hækkun, þegar dæmið er sett upp þannig, miðað við þær hækkanir, sem yfirleitt hafa orðið á þeim tíma, bæði að sjálfsögðu nokkuð af völdum gengislækkunarinnar og þó ekki siður af völdum hinna almennu verðhækkana í heiminum og kaupgjaldshækkunum, sem eru gengislækkuninni óviðkomandi. En við þetta er þá einnig það að athuga, að 1949 voru dýrtíðarútgjöld svokölluð 48 millj. kr. hærri en þau eru áætluð á frv. 1952. En þá ber einnig þess að geta, að ef borin eru saman launaútgjöld ríkisins árið 1949 og áætlaðar launagreiðslur næsta ár, bæði launagreiðslur til opinberra starfsmanna og kaupgjaldsgreiðslur vegna ýmiss konar starfrækslu ríkisins, þá mun ekki fjarri lagi að áætla, að þær greiðslur einar séu nú 40 millj. kr. hærri en þær voru 1949.

Raunverulega hafa útgjöld ríkisins lækkað stórkostlega frá 1949, þegar tillit er tekið til hins breytta verðgildis peninganna.

Mönnum þykja há ríkisútgjöldin, og er það að vonum, og mikið er og hefur verið rætt um möguleika til sparnaðar og lækkunar á ríkisútgjöldunum. Ég hef ætíð við þær umræður bent á, að þótt það væri sjálfsagt að leita eftir möguleikum til þess að spara í mannahaldi og skrifstofukostnaði hjá ríkinu og það væri bæði fjárhags- og menningaratriði að halda ekki í þjónustu ónauðsynlegu starfsliði eða þola óeðlilega eyðslu, þá yrðu menn samt sem áður að gera sér ljóst, að þótt fullri ráðdeild yrði komið á í þeim efnum, þá yrði aldrei um stórfelldan sparnað að ræða eða verulega lækkun á ríkisútgjöldunum eftir þeirri leið. Ég hef ætíð bent á það, í hvert skipti sem ég hef haft tækifæri til þess, að ef lækka ætti ríkisútgjöldin svo, að stefnuhvörfum gæti valdið, þá yrði að framkvæma stórfelldar breytingar í rekstri ríkisins með því að draga saman eða leggja niður ýmiss konar þjónustu, sem ríkið hefur á undanförnum árum með löggjöf tekið að sér í þágu landsmanna.

Ég mun nú í örstuttu máli geta um þær ráðstafanir, sem núv. ríkisstj. hefur gert til sparnaðar í ríkisrekstrinum. Það verður upptalning án útleggingar um einstök atriði.

Grunnlaunauppbót sú, sem greidd var, þegar stjórnin tók við, var lækkuð úr 20% í 10–17%. Starfstími var nokkuð lengdur á flestum opinberum skrifstofum. Leitazt hefur verið við að draga úr eftirvinnu. Verðlagsuppbót og grunnlaunauppbætur hafa ekki verið greiddar að fullu á nefndalann og aukalaun. Dagpeningar hafa verið lækkaðir í utanlandsferðum. Settar hafa verið nýjar reglur um greiðslu bifreiðakostnaðar til embættismanna. Lögð hafa verið niður milti 20 og 30 störf og embætti og fækkað um 40 manns við eftirlit með innflutningi og dreifingu vara. Lagt var niður sendiráðið í Moskvu. Lagður var niður taprekstur á áætlunarbifreiðum. Lagt var niður tilraunabúið í Engey. Fellt var niður ríkisframlag til vinnumiðlunar. Í samvinnu við þingmeirihluta þann, sem stj. styður, hefur verið komið á styttra þinghaldi, sem sparað hefur verulega fjármuni.

Þetta er það helzta, er gert hefur verið í þessa átt. Auk þess hefur ýmiss konar auknu aðhaldi og eftirliti verið komið á til þess að tryggja betri og heilbrigðari rekstur ríkisins, forðast umframgreiðslur, tryggja innheimtu og réttmæt skil ríkistekna og draga úr tjóni af ábyrgðum. Hafa sumar þær ráðstafanir haft mjög mikla þýðingu fyrir afkomu ríkisins og hjálpað til að valda stefnuhvörfum í þeim efnum.

Eins og ég sagði frá hér á Alþingi í fyrra, þá hafði ríkisstj. samið um það við Marshallstofnunina, að hingað kæmi sérfræðingur til þess að líta yfir ríkisreksturinn og gefa ráð og leiðbeiningar í því sambandi. Þessi sérfræðingur kom hér á síðastl. hausti, en gat ekki dvalið þá nema rúma viku. Gerði hann bráðabirgðaskýrslu að lokinni þessari dvöl hér, og voru þar í ýmsar bendingar, sem ríkisstj. hefur haft til hliðsjónar og athugunar. Það kom fram við þessa athugun, að erfiðleikar mundu vera á því að koma við vinnusparnaði með aukinni vélanotkun og öðrum slíkum ráðstöfunum, sem stj. hafði gert sér vonir um að gætu komið til greina, þar sem skrifstofur ríkisins eru yfirleitt það smáar, að slíkum vinnubrögðum yrði tæpast við komið nema hjá þeim allra stærstu. Eftir að hafa athugað þessa bráðabirgðaskýrslu fór ríkisstj. þess á leit, að framhaldsathugun yrði gerð, sem beindist að því að koma á sparnaði í stærstu stofnununum með aukinni vélanotkun. Hafa staðið yfir samningar um þetta, og er það von mín, að í haust og vetur fari fram athugun á því, hvort hægt sé að gera vinnubrögð við skatt- og tollheimtu einfaldari en þau eru nú.

Ég vil ekki taka að mér að segja með nákvæmni, hver árlegur sparnaður er orðinn af þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. hefur nú þegar komið í framkvæmd og ég taldi upp hér áður, en hann er áreiðanlega á milli 10 og 20 millj. kr. á ári. Það er sjálfsagt að halda áfram þessari viðleitni, en eins og ég sagði áðan, þá er ekki hægt að gera ráðstafanir hliðstæðar þeim svo umfangsmiklar, að þær valdi straumhvörfum, þó að þær séu góðar og nauðsynlegar.

Útgjaldabálkur fjárl. er nær alveg sniðinn eftir tillögum þeirra ráðuneyta, sem stýra hinum einstöku starfsgreinum ríkisins, nema þar sem fjmrn. hefur sums staðar dregið úr tillögum um fjárveitingar til þeirra útgjalda, sem ekki eru fastbundin með lögum eða fastskorðuð vegna starfa, sem ríkið verður að láta framkvæma. Það eru samtök um það í ríkisstj., að hver ráðherra um sig leitist við af alefli að komast af með sem minnst fé til beins starfrækslukostnaðar þeirra greina, sem þeir stýra, og samráð um almennar ráðstafanir til þess að halda útgjöldum í skefjum. Ég efast ekki um, að samstarfsmenn mínir í ríkisstj. hafa miðað tillögur sínar um starfrækslukostnaðinn við það, sem þeir telja minnst hægt að komast af með, en þá einnig hitt, að ekki þýðir að blekkja sig með því að setja kostnaðinn lægri í fjárl. en hann fyrirsjáanlega verður.

Það er ástæða til þess, að menn geri sér það fullkomlega ljóst, að ef menn ætla að lækka ríkisútgjöldin verulega, þá verður að grípa til stórfenglegra ráðstafana, og þegar menn ræða um sparnað á ríkisútgjöldunum, þá verða menn að temja sér að horfast í augu við staðreyndir og nefna hlutina réttum nöfnum.

Þeir, sem ætla að tala um að valda straumhvörfum með lækkun ríkisgjalda, verða að gera sér grein fyrir, hvort þeir vilja t.d. draga úr lögreglu- og dómgæzlukostnaði, fækka dómurum, lögregluliði eða draga úr landhelgisgæzlunni. Eða vilja menn t.d. draga saman sjúkrahúsareksturinn eða lækka framlög til styrktar sjúkum? Eða skera niður framlög til vegagerða eða spara enn á viðhaldsfé frá því, sem verið hefur? Eða minnka enn eða jafnvel afnema styrki til strandferðanna? Eða fækka skólum, stytta verulega skólatímann eða krefjast meiri kennslu af kennurunum? Eða draga saman tryggingakerfið, eða minnka framlög til landbúnaðar, sjávarútvegs eða raforkumála? Þessar og fleiri svipaðar spurningar mæta mönnum, þegar þeir ræða þessi mál í alvöru, og fram hjá þeim verður ekki komizt.

Fjárlagafrv. það, sem hér liggur fyrir, sýnir mönnum það alveg glöggt, að annaðhvort verður að halda nokkurn veginn núgildandi tekjustofnum ríkissjóðs eða að framkvæma verulegan niðurskurð á útgjöldum ríkisins, og það mundi óhjákvæmilega þýða, eins og ég sagði áðan, að það yrði að draga stórkostlega saman eða fella niður ýmiss konar starfsemi í þjónustu borgaranna, sem ríkið hefur tekið að sér á undanförnum árum. Menn verða að velja á milli þess nauðugir viljugir að halda sköttunum eða fella niður þessa starfsemi að meira eða minna leyti.

Allar tillögur um að fella niður skattana eða tollana án þess að gera jafnframt rökstuddar tillögur um það, hvaða starfsemi ríkisins á að draga saman eða fella niður á móti, eru alveg ábyrgðarlausar og marklausar, nema þá ef skoða ber slíkar tillögur eða uppástungur sem tillögur um að taka upp aftur hallarekstur ríkissjóðs með þeim afleiðingum, sem það óhjákvæmilega hefur í för með sér.

Afleiðingar þess yrðu meðal annars þær, að tilraun sú, sem nú er verið að gera til þess að ráða bót á verzlunarástandinu og gera verzlunina frjálsari, hlyti að fara algerlega út um þúfur og aftur yrði að innleiða verzlunarhöft, skömmtun og margvislegar slíkar ráðstafanir, sem þjóðin hefur orðið fegnari en frá verði sagt að losna við smátt og smátt nú undanfarið.

Hallarekstur ríkisins mundi einnig óhjákvæmilega leiða til þess, að mótvirðissjóðurinn yrði étinn upp í eyðslu ríkisins og stöðva yrði framkvæmd þeirra stóru fyrirtækja, sem nú er verið að vinna að og eiga að verða undirstaða margs konar framfara í framtíðinni. Á ég þar sérstaklega við Sogsvirkjunina, Laxárvirkjunina og áburðarverksmiðjuna, en þetta nær þó auðvitað til fleiri fyrirtækja, sem eiga að framkvæmast jafnhliða þeim eða síðar.

Hallarekstur ríkisins mundi innleiða hér á nýjan leik vöruskortinn, svarta markaðinn og verzlunaránauðina, sem hér ríkti áður en rofaði til í þeim málum vegna ráðstafana stj. í fjárhagsmálum og atvinnumálum, en þær ráðstafanir hafa einnig aukið framleiðsluna og komið á jafnvægi í peningamálum.

Það lætur laglega í eyrum að tala um skatta- og tollalækkanir, og það væri gott að geta lækkað tolla og skatta, en hagnaðurinn fyrir almenning af slíkum ráðstöfunum gæti þó orðið skammvinnur, ef það fylgdi með, að annaðhvort yrði að skerða stórkostlega þau hlunnindi, sem ríkið lætur borgurunum í té með heilbrigðri þjónustu, tryggingum, verklegum framkvæmdum og margvíslegum framlögum til atvinnuveganna, eða þá að innleiða á ný halla á ríkisrekstrinum, sem leiddi af sér sams konar öngþveiti í framleiðslu- og viðskiptamálum og menn bjuggu við og hlutu búsifjar af, þangað til hin nýja fjármálastefna stj. fór að bera árangur.

Um skattana og tollana er það að segja til viðbótar, að núverandi ríkisstj. hefur gert tvennar ráðstafanir til lækkunar á sköttum og tollum. Önnur var sú að lækka tekjuskatt á lágtekjum og hin að lækka viðauka á verðtolli úr 65% í 45%. Hins vegar hefur ríkisstj. gert þær ráðstafanir til hækkunar á sköttum og tollum, að söluskattur á innflutningi var hækkaður úr 6% í 7% í fyrrahaust og nokkurt álag sett á aukatekjur og hluta af vörutolli á siðasta þingi til þess að koma þá saman fjárl. miðað við þær horfur, sem þá voru, og þá reynslu, sem menn höfðu þá á að byggja um tekjur ríkissjóðs. Mér telst svo til, að þær hækkanir, sem þá voru gerðar, muni nema sem næst jafnmiklu og þær lækkanir, sem stj. hefur beitt sér fyrir. Hafa því skattar og tollar staðið í stað á stjórnartímabili þessarar stjórnar.

Það er fróðlegt að athuga, að síðasta árið fyrir gengislækkunina, árið 1949, námu tekjur ríkissjóðs, þ.e. skattar og tollar og aðrar tekjur, 305 millj. kr., en eru í þessu frv. ráðgerðar 363 millj. kr. Hækkunin frá því fyrir gengislækkunina er því 19%, og er það mun minni hækkun en á flestu öðru.

Skuldir þær, sem ríkissjóður stendur sjálfur straum af, munu lækka mjög verulega á þessu ári. Þrátt fyrir það hefur ríkissjóður tekið ýmis lán á árinu vegna framkvæmda. Er það fé endurlánað ýmsum fyrirtækjum, sem standa straum af vaxta- og afborgunargreiðslum ríkissjóði að skaðlausu. Mun ég gefa stutt yfirlit um lántökur ríkissjóðs á þessu ári.

Á síðasta Alþingi voru sett lög um heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka að láni jafnvirði 43 millj. ísl. kr. í erlendri mynt. Var ætlunin, að 25 millj. af þessu fé færu til þess að greiða eftirstöðvar af andvirði 10 togara, sem keyptir voru í Bretlandi, 15 millj. yrðu lánaðar stofnlánadeildum Búnaðarbankans, ræktunarsjóði og byggingarsjóði, og 3 millj. yrðu lagðar til iðnlánasjóðs.

Leitazt hefur verið við að útvega þetta lán, en það hefur enn þá ekki reynzt mögulegt. Var leitazt fyrir í Bretlandi, en ástæður eru nú þannig á lánamarkaði þar í landi, að þess hefur enginn kostur verið að fá þar slíkt lán. Ekki er þó vonlaust, að takast megi að útvega þar þann hluta af þessu fyrirhugaða láni, sem verja á til þess að greiða eftirstöðvar af andvirði togaranna, sem smíðaðir voru í Bretlandi. Gætu þá ef til vill flotið með þær 3 millj., sem ætlaðar voru iðnlánasjóði.

Skýrt var frá því hér í fyrra, að ríkið hefur tekið bráðabirgðalán í Bretlandi, að fjárhæð 350 þús. sterlingspund, til þess að greiða hluta eftirstöðvanna af andvirði togaranna. Þessi bráðabirgðalán eru til eins árs, og er því mjög aðkallandi að útvega fé til þess að endurgreiða þau. Verður reynt að fá þau framlengd eitthvað, ef ekki verður búið að koma í kring lántöku til lengri tíma, þegar að gjalddaga þeirra kemur. Er sífellt verið að vinna að þessu máli, en óvíst enn um árangur.

Takist ekki að útvega það lánsfé, sem ætlað var til iðnlánasjóðsins, þessar 3 millj. kr., sem ég nefndi áðan, mun ríkisstj. beita sér fyrir því, að sú fjárhæð verði lögð fram af öðru fé.

Svo sem kunnugt er, voru Íslendingar þátttakendur í stofnun alþjóðabankans og alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þessum stofnunum er ætlað að vinna að aukinni fjárhagslegri samvinnu, og þeim er ætlað að verða þjóðunum til stuðnings, m.a. með lánveitingum frá alþjóðabankanum til þess að koma í framkvæmd heilbrigðum framfaraáætlunum.

Þegar kunnugt fór að verða um starfsemi alþjóðabankans, tóku menn að gera sér vonir um að sú stofnun gæti orðið okkur að liði við framkvæmd ýmissa þeirra fyrirætlana, sem við höfðum á prjónunum.

Á árinu 1950 samþykkti Alþingi lög um heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka lán vegna Sogsvirkjunar og Laxárvirkjunar. Var gert ráð fyrir, að lánið samsvaraði þeim kostnaði vi1 virkjanirnar, sem greiða þyrfti í Evrópugjaldeyri, en svo sem kunnugt er leggur Marshallstofnunin fram dollarakostnaðinn við framkvæmdirnar. Var þetta mál tekið upp við alþjóðabankann haustið 1950 og þess þá jafnframt getið, að síðar mundi óskað eftir lánum til áburðarverksmiðju og sementsverksmiðju. Bankinn lét fara fram sérfræðilegar athuganir á þessum framkvæmdaáætlunum og sendi hingað einnig fulltrúa til þess að kynna sér rækilega allar fjárhagslegar aðstæður hér og fyrirætlanir um framkvæmdir í nánustu framtíð, en þetta hvort tveggja gerir bankinn ævinlega, þegar slíkar lánbeiðnir berast. Á síðastliðnum vetri var ákveðið að leitast einnig við að fá hjá alþjóðabankanum lán til landbúnaðarframkvæmda, en heimild fyrir slíkri lántöku var þá samþ. á Alþingi. Þótti líklegt, að þangað mundi helzt að leita um fé til þeirra framkvæmda, enda hefur reynslan sýnt, að það var eina leiðin til þess að útvega erlent lánsfé í landbúnaðinn.

Til þess að gera langa sögu stutta er skemmst frá því að segja, að allt frá því að Jón Árnason bankastjóri lagði fram fyrir hönd íslenzku ríkisstj. fyrstu lánbeiðnina haustið 1950 hefur verið svo að segja stöðugt unnið að athugunum og samningum um öll þessi mál. Ýmist hafa fulltrúar frá alþjóðabankanum verið hér til þess að kynna sér ástæður allar eða héðan hefur verið farið til viðræðna vestur þangað, sem bankinn hefur aðsetur. Niðurstaðan er sú, að alþjóðabankinn hefur samið um að lána til virkjananna sem svarar 40 millj. ísl. kr. og til landbúnaðarframkvæmda og áburðarverksmiðju sem svarar 32.6 millj. ísl. kr.

Það er ákaflega þýðingarmikið, að tekizt hefur að koma þessum lántökum fram hjá alþjóðabankanum. Fyrirtækin og framkvæmdirnar, sem lánin eiga að styðja, eru mjög mikilsverð fyrir okkur, og þá er hitt einnig mikils um vert, að með þessu eru tengd viðskiptasambönd við alþjóðabankann. Sú stofnun er nú orðin stór og mikils megandi. Alþjóðabankinn er mjög vaxandi stofnun, og er ekki annað líklegra en að sú þróun haldi áfram og það verði einmitt sá banki, sem í framtiðinni annast flutning á lánsfé frá þeim löndum, sem hafa gnægð reiðufjár, til hinna, sem þurfa á lánum að halda til þess að notfæra sér landsgæði og sjávargagn. Það er ekki sízt ástæða til þess að fagna því, að þessi stofnun hefur fallizt á að lána fé til almennra landbúnaðarframkvæmda. Er vonandi, að framhald geti orðið á því síðar. Einnig er vonandi, að við getum fengið stuðning bankans í framtiðinni til annarra fyrirtækja, sem nauðsyn ber til, að komið verði á fót.

Ég geri mér eindregnar vonir um, að framhald verði á þeim viðskiptum, sem hafin eru við alþjóðabankann, en rétt er að gera sér þess fulla grein, að mjög er slíkt undir því komið, hvort okkur tekst að stýra þannig fjárhagsmálum okkar, að við höldum trausti þeirra manna, sem trúað er fyrir því vandasama starfi að ráðstafa fjármunum slíkrar stofnunar sem alþjóðabankinn er.

Rétt er að taka það fram, að vegna þeirra lántaka, sem nú hefur verið um samið, og þeirra stórframkvæmda, sem við höfum með höndum í sambandi við þær, verðum við að búast við, að einhver dráttur geti orðið á frekari lánveitingum af bankans hendi, enda hefur bankinn nú veitt hingað á þessu ári jafnvirði 72.6 millj. ísi. kr., eins og ég gat um áðan.

Þá vil ég minnast nokkrum orðum á út- og innflutninginn á þessu ári.

Útflutningurinn hefur fram að 1. okt. orðið 463 millj. kr., en var á sama tíma í fyrra 269 millj. kr., umreiknað með nýja genginu til samanburðar. Útflutningurinn hefur því aukizt mjög verulega, að nokkru leyti vegna verðhækkana, en einnig vegna aukinnar framleiðslu, og er ánægjulegt að sjá þann árangur.

Innflutningurinn á sama tíma hefur hins vegar orðið 575 millj. að frádregnum skipainnflutningi, en var í fyrra 413 millj. Innflutningurinn hefur því aukizt mikið í krónutölu, en þó minna raunverulega en halda mætti eftir þessum tölum, þar sem verðhækkanir á erlendum vörum hafa orðið mjög miklar. Erfitt er að gizka á, hve mikið innflutningurinn hefur í raun og veru aukizt að magni, en geta má þess, að vörutollurinn hefur fram að 1. sept. orðið aðeins 15–16% hærri en í fyrra á sama tíma. Þar sem meira er í innflutningnum nú en í fyrra af vörum í hærri vörutollsflokkum, má gera ráð fyrir, að aukningin á innflutningnum sé mun minni en 15–16%.

Það er erfitt að segja, hvernig viðskiptin við útlönd verða á árinu, þegar öll kurl eru til grafar komin, en útflutningurinn verður væntanlega mikill, það sem eftir er ársins. Hins vegar hlýtur að verða verulegur halli á vöruskiptajöfnuðinum. Bæði er skipainnflutningur talsverður, og þau skip hafa ýmist verið greidd áður eða eru greidd með lánum. Enn fremur verður mikill innflutningur véla til stóru fyrirtækjanna, sem greiddar verða með Marshallfé. Þá er innflutningur ætlaður til aukningar vörubirgðum í verzlunum, sem greiddur er með sérstöku framlagi frá greiðslubandalagi Evrópu, og loks er svo annað gjafafé, sem gengur til greiðslu á ýmsum öðrum varningi en vélum.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, þykir mér líklegt, að innflutningur greiddur af Marshallfé á þessu ári nemi um 10 millj. dollara eða um 163 millj. kr. Af því sýnist nálægt 2.9 millj. dollurum muni verða varið til vélakaupa fyrir stóru fyrirtækin og þá um 7.1 millj. dollara til greiðslu á venjulegum vörum og þar innifalið það, sem varið hefur verið til þess að auka verzlunarvörubirgðir. Þessi fjárhæð, um 163 millj. ísl. kr., er að vísu hærri en sú fjárhæð, sem notuð var af Marshallfé í fyrra. En sé það haft í huga, að mikið af þessari fjárhæð nú gengur til vélakaupa vegna framtíðarfyrirtækja og talsvert mikið til þess að auka vörubirgðir í landinu, og loks það tekið með í reikninginn, að verð á aðfluttum vörum hefur hækkað mikið frá því í fyrra, þá kemur í ljós, að til venjulegra þarfa þjóðarinnar verður notað mun minna af Marshallfé á þessu ári en í fyrra.

Þetta sýnir, að í rétta átt hefur miðað á árinu, þótt enn þá verði að herða stórkostlega róðurinn og auka framleiðsluna til þess að markinu verði náð.

Upplýsingar þessar sýna einnig, að á þessu ári er meira af Marshallfé en nokkru sinni áður notað til varanlegra framkvæmda. Er það í samræmi við stefnu stjórnarinnar, sem margsinnis hefur verið yfirlýst, að reyna að haga ráðstöfunum í fjármálum þannig, að sem mest af Marshallfénu verði notað til þess að koma upp varanlegum fyrirtækjum, og þessi árangur er beinlínis ávöxtur breyttrar fjármálastefnu. Hefði stefnunni ekki verið breytt, þá hefði Marshallféð í ár étizt upp í almennar þarfir.

Það er ástæða til að leggja áherzlu á þetta. Það er rétt að veita því athygli, sem gengur í rétta átt. Samt sem áður er ekki síður nú en fyrr ástæða til þess að leggja megináherzluna á nauðsyn þess að spenna ekki bogann heima fyrir hærra en framleiðslan getur raunverulega borið. Því aðeins að þetta verði gert, getur þjóðin séð sér algerlega farborða án styrkja, en því marki verðum við að ná og það fyrr en síðar. Þá er það mótvirðissjóðurinn.

Það er ekki ósennilegt, að inn í mótvirðissjóðinn komi á þessu ári um 156 millj. kr., en í sjóðnum voru við ársbyrjun 100 millj. kr.

Fengizt hefur samþykki fyrir því að lána 15 millj. til Sogs- og Laxárvirkjana úr sjóðnum. Þá hefur verið sótt um samþykki fyrir því að lána úr sjóðnum á þessu ári 60 millj. til Sogs- og Laxárvirkjana og 25 millj. til áburðarverksmiðju, eða samtals til þessara fyrirtækja 85 millj. kr. Er þetta í samræmi við lagaheimild frá síðasta Alþingi. Enn fremur hefur í samræmi við sömu lög verið sótt um samþykki fyrir því að nota 50 millj. kr. af fé sjóðsins til þess að greiða upp í lausaskuldir ríkissjóðs. Verði þessar tillögur samþykktar, þá mundi sjóðurinn í árslokin núna verða álíka stór og hann var í ársbyrjun. Til fyrirtækjanna þriggja hefðu þá verið lánaðar 100 millj. kr. Upphaflega var gert ráð fyrir, að til þessara fyrirtækja allra saman þyrfti að lána úr sjóðnum rúmlega 170 millj. kr. Síðan hefur kostnaður hækkað. Þarf því áreiðanlega hærri lán úr mótvirðissjóði til þess að koma þessum fyrirtækjum í höfn en upphaflega var ráðgert, þó að allir aðrir möguleikar til fjáröflunar verði notaðir.

Þessar tölur sýna glöggt, hversu mikið og erfitt átak það er fyrir þjóðina að byggja upp þessi þrjú stóru fyrirtæki svo að segja samhliða á jafnstuttum tíma og til stefnu er. Þetta hefur þó orðið að leggja út í og verður að framkvæma, þótt erfitt sé vegna þess, að ekki hefði verið mögulegt að tryggja gjaldeyri til vélakaupa í þessi stórvirki nema með Marshallaðstoðinni.

Það er augljóst, að þessar framkvæmdir draga mjög úr möguleikum til annarra framkvæmda. Fram hjá því er ekki hægt að komast. Þykir vafalaust mörgum slæmt að þurfa að bíða með framkvæmdir áhugamála sinna um byggingar og aðrar framkvæmdir vegna skorts á lánsfé. En hvernig sem farið er að, þá er ómögulegt að koma í veg fyrir, að þessar stórframkvæmdir þrengi um lánsmöguleika og möguleika til útvegunar á fé til annars, þar sem þær soga til sín svo gífurlegt fé á okkar mælikvarða. Á hinn bóginn munu flestir vera sammála um það, að þessar þrjár framkvæmdir eru svo nauðsynlegar fyrir þjóðina, að ekki gat komið til mála að sleppa því tækifæri, sem gafst til að hrinda þeim áleiðis, þótt það hlyti að hafa þessi áhrif.

Það er stefna núverandi ríkisstj. að efla framleiðsluna og koma málum hennar þannig fyrir, að hún geti orðið rekin með góðum árangri án opinberra styrkja, og auka þannig framleiðsluna.

Það er stefna stjórnarinnar að koma á jafnvægi í fjármálum landsins, fyrst og fremst með því að reka greiðsluhallalausan ríkisbúskap, miða útlán bankanna við það fjármagn, sem raunverulega er fyrir hendi, og fjárfestinguna einnig við það, sem hægt er að finna fjármagn til með eðlilegu móti. Ríkisstj. stefnir að því að létta höftum og eftirliti með viðskiptum jafnóðum og aukið fjárhagslegt jafnvægi gerir það kleift.

Það er von ríkisstj., að með þessum ráðstöfunum sé hægt að halda uppi fjörmiklu og vaxandi atvinnulífi og verulegum framkvæmdum og ná því marki, að þjóðin geti staðið fjárhagslega á eigin fótum.

Ef við lítum á ástandið eins og það er nú, með þetta í huga, þá er ekki ástæða til þess að vera óánægður með þann árangur, sem náðst hefur síðan stefnubreyting hófst verulega vorið 1950.

Framleiðslan hefur vaxið stórkostlega frá því, sem hún var áður, og nýjar framleiðslugreinar hafa komið til sögunnar. Hins vegar hefur aflabrestur á grunnmiðum allvíða umhverfis landið valdið stórkostlegum erfiðleikum. Tekizt hefur að ná fullkomlega greiðslujöfnuði í ríkisbúskapnum í tvö ár, og með auknu frjálsræði í verzluninni hefur verzlunarástandið batnað stórlega og menn á þann hátt fengið talsvert uppborna þá dýrtíð, sem að öðru leyti hefur skollið á. Tekizt hefur að halda uppi miklum framkvæmdum og forðast atvinnuleysi, nema þar sem sérstakur aflaskortur eða örðug veðrátta eða önnur slík óhöpp hafa steðjað að.

Ýmislegt hefur þó komið fyrir, sem valdið hefur miklum almennum örðugleikum við framkvæmd stjórnarstefnunnar, og ber þar fyrst að nefna þá stórfelldu verðhækkun á útlendum vörum, sem orðið hefur síðan hin nýja stjórnarstefna var upp tekin, og aflabrest á síldveiðum. En þrátt fyrir þetta hefur stórfelldur ávinningur orðið, þegar á heildina er litið. Þessi áföll gera þó ástandið óvissara allt og málefni landsins erfiðari viðfangs en eila hefði verið og gera það að verkum, að hinar heppilegu afleiðingar stjórnarstefnunnar koma eigi svo glöggt í ljós sem ella hefði orðið.

Hinar miklu verðhækkanir erlendra vara á þessu ári, er voru gengislækkuninni óviðkomandi, urðu til þess að kaupgjald var hækkað. Var vafalaust eðlilegt að hækka nokkuð kaupgjaldið, þar sem verðhækkanir höfðu orðið svo stórfelldar. Þar eð útflutningsvörur íslenzkar höfðu hækkað nokkuð, þótt minna væri en þær aðfluttu, þá gat einhver kauphækkun væntanlega komið að gagni fyrir launafólkið. Það óhapp skeði þó í sambandi við þessi mál, að haldið var áfram þeim sið að mæla kaupgjaldið að miklu leyti eftir hækkun á vísitölu framfærslukostnaðar. Þetta hefðu menn ekki átt að gera, heldur hefðu menn átt að semja um einhverja hækkun á kaupgjaldi til ákveðins tíma og taka þá upp samninga að nýju. Sú aðferð að miða hækkun kaupgjalds við hækkun framfærsluvísitölu getur ekki staðizt og hlýtur að leiða til ófarnaðar, nema því aðeins að tilviljun komi til hjálpar, og því er auðvitað ekki að treysta.

Það er viðurkennt, að kauphækkanir geta ekki komið að gagni, nema þjóðartekjurnar vaxi fyrir það, að framleiðsluverðmæti aukist. Hækki hins vegar erlendar vörur, án þess að útflutningsvörurnar hækki að sama skapi, þá minnka þjóðartekjurnar. Samt ætti þá kaupgjaldið í landinu að hækka þrátt fyrir minnkaðar þjóðartekjur, ef vísitölureglunni er beitt. Þessi regla er því gersamlega ónothæf, þar eð samkvæmt þessu gæti það hæglega komið fyrir, að mönnum væru mæld út hækkuð laun á pappírnum, á sama tíma og það, sem rannverulega er til skipta, hefur minnkað. Af því mundu menn ekki hafa neitt gagn, því að slík ráðstöfun hefur í för með sér hækkun á verðlagi innanlands og aðrar búsifjar, þangað til pappírshækkunin væri öll uppétin og meira til. Á hinn bóginn mundi þetta hafa í för með sér margvíslegt tjón, þar sem það mundi grafa undan fjárhagskerfinu og hleypa af stað nýrri verðbólgu og upplausn.

Það var mikill skaði, að ekki var hætt við að nota vísitöluaðferðina við að mæla út kaup og í þess stað tekið upp að semja um fast kaup tiltekinn tíma og taka þá upp samninga á nýjan leik og hækka þá kaupið, ef menn kæmust að þeirri niðurstöðu, að það væri hagkvæmt fyrir launastéttirnar og heildina.

Það er ætlun ríkisstj. að halda áfram að framkvæma stefnu sína og reyna að láta það, sem þegar hefur áunnizt, verða upphaf að nýju tímabili, sem einkennast þyrfti af jafnvægi í fjárhagsmálum, trausti á fjárhagskerfi þjóðarinnar og þeim framförum og auknu athafnalífi, sem slíkt ástand mundi hafa í för með sér. Það sést bezt, hvílík nauðsyn er á því, að þetta gæti tekizt, ef við athugum ofur lítið, hvernig við erum á vegi staddir með eigið fjármagn til þess að standa undir nauðsynlegum rekstri og framkvæmdum.

Það er nú mikið talað um lánsfjárskortinn, sem von er. Alls staðar vantar lánsfé, bæði rekstrarfé og eins lánsfé til nýrra framkvæmda, er menn hafa áhuga fyrir. Hvernig stendur á þessum lánsfjárskorti? Fjármagn til útlána getur ekki myndazt nema við sparnað. Sparnaður verður ekki, nema því aðeins að einstaklingar þjóðfélagsins leggi fé til hliðar, eyði ekki öllum tekjum sínum. Það verður að vísu einhver sparnaður árlega í sambandi við starfsemi tryggingarfélaga og annað þess konar, og einstaklingar spara með því að vinna að eigin framkvæmdum í byggingum, ræktun o.fl. En enginn verulegur sparnaður getur orðið, sem myndað getur grundvöll að lánastarfsemi eða safnað fjármagni til stórframkvæmda, nema margir einstaklingar þjóðfélagsins leggi reiðufé til hliðar.

Lánsfjárskorturinn stafar þess vegna af því, hve sparnaðurinn er lítill, hinn lausi sparnaður, þ.e.a.s. sá sparnaður, sem getur orðið grundvöllur að útlánum af hendi bankanna eða skuldabréfakaupum af hendi einstaklinga.

Það hættulegasta við ástandið nú er það, að þjóðin eyðir svo að segja öllum tekjum sínum árlega, og þarf því ekki að undra, þótt við búum við lánsfjárskort.

Nú ríður Íslendingum lífið á að geta notfært sér margs konar möguleika, sem landið hefur að bjóða, en það verður ekki gert nema með því að standa sífellt í stórframkvæmdum. Til þessara framkvæmda þarf lánsfé. Við getum að vísu tekið eitthvað af erlendum lánum, en við getum ekki byggt allar okkar framkvæmdir á erlendum lánum. Það er því augljóst mál, að það fer illa fyrir okkur og hlýtur að valda hér kyrrstöðu í framkvæmdum, ef ekki er hægt að auka lánsfjárframboð innanlands á næstu árum eða réttara sagt auka sparnaðinn.

Það verður þess vegna að vera sameiginlegt áhugamál allra landsbúa og ekki sízt alþýðustétta landsins, sem eiga svo mikið undir því, að eðlilegar framkvæmdir geti haldið áfram, bæði vegna atvinnunnar og vegna aukinnar framleiðslu, sem fylgir nýjum fyrirtækjum, — að lánsfjárframboðið innanlands, að sparnaðurinn geti aukizt.

Við teljum að vísu öll hér, að við höfum minni tekjur en við þurfum til þess að komast af með, eins og við orðum það. Samt sem áður er það nú þannig, að þegar tekjur Íslendinga eru bornar saman við tekjur annarra þjóða, þá eru þær fremur háar, og hér ættu að vera möguleikar til þess, að talsvert fjármagn myndaðist og þjóðin eyddi ekki öllum tekjum sínum jafnóðum.

Hér er á ferðinni stórkostlegt vandamál. Það sjáum við á því, hve sparnaðurinn er nú sáralítill í samanburði við fjármagnsþörfina og að öll stærstu fyrirtækin eru byggð á erlendum lánum og mótvirðissjóði og til mótvirðissjóðs mæna margra augu eftir lánum til framkvæmda, enda þótt hætt sé við, að hann verði farinn að skerðast, þegar fyrirtækjunum þremur hefur verið komið í höfn. Bankarnir eiga fullt í fangi með að lána rekstrarfé og hrökkva raunar ekki til, en verða að neita um fjárfestingarlán, ekki af illvilja eða þröngsýni, heldur af því, að féð er ekki til — sparnaðurinn — innlögin í bankana eru svo lítil.

Við vitum, að ástæður fyrir þessu eru margar og ein höfuðástæðan er það jafnvægisleysi og sú algera röskun, sem orðið hefur á fjárhagskerfi þjóðarinnar undanfarið og þar af leiðandi rýrnun á verðgildi peninga. Menn hafa ekki haft trú á því að geyma fjármuni sína, og við það hafa myndazt eyðsluvenjur, sem erfitt er að breyta, en verða að breytast, ef ekki eiga að verða stórkostleg óhöpp og kyrrstaða í framkvæmdum.

Hér er vitaskuld margt, sem kemur til greina, en höfuðatriðið er að skapa aukið jafnvægi í fjárhagslífi þjóðarinnar, eins og stefna núverandi ríkisstj. miðar að.

Nú eru allar hækkanir vegna gengislækkunarinnar komnar fram í verðlaginu hér, og nú ættu að vera miklir möguleikar til þess, að jafnvægi í verðlagsmálum gæti myndazt á næstu missirum, ef rétt er á haldið og utanaðkomandi ástæður ekki trufla. Það er stórkostlegt hagsmunamál allrar þjóðarinnar, að þetta geti tekizt, ekki sízt vegna þess, hve alvarlega horfir um nauðsynlegar framkvæmdir á næstunni, ef þetta ekki tekst.

Ríkisstj. er staðráðin í því að gera það, sem í hennar valdi stendur til þess að slíkt jafnvægi myndist og haldist, með því að halda áfram sömu stefnu og hún hefur fylgt í fjárhags- og atvinnumálum.

Það er á hinn bóginn nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að það er ekki fullnægjandi, þótt stj. geri þetta og þingið fylgi einnig þessari stefnu. Þótt þetta væri gert, þá væri hægt að gera ráðstafanir utan við framkvæmdir stj. og Alþ., sem raskað gætu því, sem búið væri að vinna í rétta átt, og valdið stórkostlegu tjóni og óhöppum fyrir alla. Þetta gæti komið fyrir vegna þess, að til þess að fjárhagslegt jafnvægi myndist og til þess að sæmilega stöðugt verðlag og stöðugt verðgildi peninga haldist, er ekki nóg, að ríkisstj. og Alþ. haldi rétt á sínum spilum, heldur þarf kaupgjaldsstefnan í landinu einnig að vera miðuð við það að halda slíku jafnvægi í verðlagi og gildi peninga. Það er höfuðatriði, að forráðamenn launastéttanna og þjóðin öll geri sér grein fyrir þessu. Samtök launastéttanna eru svo sterk hér í þessu landi, og hér ríkir svo mikið frjálsræði í þessum efnum, að þau geta haft ákaflega mikið í sinni hendi um þetta.

Það kemur til bjargar í þessu máli, þegar til lengdar lætur, að saman fara þjóðarhagsmunir og hagsmunir verkalýðsins og launastéttanna. Það kann að vera, að ekki hafi enn þá allir, sem hlut eiga að máli, komið fyllilega skýrt auga á samhengið í þessum málum. En ég er sannfærður um, að þess er ekki langt að bíða, að svo verði. Reynsla manna er þegar orðin svo bitur og margþætt, að það hlýtur að vanta aðeins herzlumuninn á, að fullur skilningur vakni á þessum viðfangsefnum.

Ég vona fastlega, að skilningur sé orðinn almennur á því, hvílíkt tjón við höfum af verðbólguþróuninni, — að menn komi auga á, að nú er tækifæri til þess að byrja nýtt tímabil meira jafnvægis, ef utanaðkomandi atburðir ekki koma til og spilla, og að menn, áður en það er orðið of seint einu sinni enn, láti sér skiljast, að það, sem við þurfum umfram allt, er meira fjárhagslegt jafnvægi, traustara, stöðugra verðlag og peningagildi, — meiri fjármagnsmyndun innanlands — meiri sparnað. Annars hlýtur kyrkingur að koma í framkvæmdir vegna fjármagnsskorts, því að við getum ekki byggt framkvæmdir að jafnmiklu leyti á gjafafé og lánum og við gerum nú. Takist ekki að auka innlenda fjármagnið, þá minnka framkvæmdirnar og atvinnuleysið heldur innreið sína.

Ef vel á að fara, þurfa ráðstafanir stjórnarvaldanna og sterkustu samtakanna að miða að þessu marki. Ef annar rífur niður það, sem hinn byggir, þá verður sú tilraun eyðilögð, sem nú er verið að gera til þess að gerbreyta ástandinu í þessum málum til bóta frá því, sem verið hefur. Það vonum við að ekki verði, því að mistakist nú að byggja nýtt ábyggilegra fjárhagskerfi á rústum hins gamla, þá verða afleiðingarnar alvarlegar.

Mörg undanfarin ár hefur framleiðslan verið of lítil og sparnaðurinn — fjármagnsmyndunin innanlands — allt of lítill til þess að halda uppi eðlilegum framförum og forðast atvinnuleysi. Þjóðin hefur flotið á því að eyða innstæðum sínum, þiggja gjafafé og taka erlend lán. Sá tími er hins vegar liðinn, að á slíku verði flotið ú ófærunni. Mistakist að auka framleiðsluna og sparnaðinn, bitna mistökin nú óumflýjanlega á okkur með fullum þunga, því að við lifum ekki á innstæðum, sem búið er að eyða, gjafafé, sem hlýtur brátt að verða hætt að veita, né eingöngu á erlendum lántökum, þótt þau geti verið góð til framlags á móti eigin fé til einstakra framkvæmda.

Síðasta hálft annað árið hefur miðað stórum í rétta átt. Framleiðslan hefur aukizt, — afkoman út á við batnað, — afkoma ríkisins hefur gerbreytzt til bóta, og reynzt hefur kleift að létta á verzlunarhöftum. Markmiðið er aukin framleiðsla, fjárhagslegt jafnvægi, aukinn sparnaður, sem byggist á traustu fjárhagskerfi. Þetta er leiðin til þess að forðast kyrrstöðu, atvinnuleysi og lífskjararýrnun.

Við vonum, að nú verði ekki gerðar ráðstafanir til þess að hnekkja þessari stefnu, því að afleiðingarnar verða alvarlegri en nokkru sinni fyrr, ef nú ber út af réttri leið.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til fjvn. þegar þeim hluta 1. umr. er lokið, sem samkvæmt þingsköpum fer fram nú í dag.