08.10.1951
Sameinað þing: 3. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Gísli Jónsson:

Frumvarp það til fjárlaga fyrir árið 1952, sem fjmrh. hefur nú lagt fram og hér er til 1. umr., er langhæsta fjárlagafrv., sem nokkru sinni hefur verið lagt fram á Alþingi. Það virðist vera orðin ófrávíkjanleg regla, að fjárlög hækka árlega um nokkra tugi milljóna þrátt fyrir alla viðleitni til sparnaðar.

Gagnrýni þjóðarinnar á síhækkandi tolla- og skattaálögum á einstaklinga og atvinnufyrirtæki, sem allt séu að sliga, og kveinstafir bæjar- og sveitarfélaga um, að ríkið gangi svo nærri öllum skattstofnum, að ekkert sé eftir fyrir þau að seilast í til þess að standa undir nauðsynlegum útgjöldum, sýnist ekki hafa mikil áhrif á þessi mál, er þau eru undirbúin eða þegar endanlega er frá þeim gengið á Alþingi. Má segja, að hér eigi allir þingmenn einhverja hlutdeild í, þótt meginábyrgðin hvíli jafnan á ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar. Þrátt fyrir þetta verður því ekki neitað, að hér stefnir að lokum ef langt út í ófæruna, ef aldrei verður spyrnt við fótum.

Orsakirnar til þessarar þróunar eru margar og misjafnlega veigamiklar. En mestu valda þó um hinar taumlausu kröfur fólksins um, að ríkisstj. og Alþ. annist fyrirgreiðslur í smáu og stóru, sem einstaklingar áður urðu sjálfir að glíma við og hlaupa sjálfir áhættu um hvernig tækist. Sjálfstfl. hefur jafnan varað við þeirri hættu, sem í því felst að torvelda eðlilega starfsemi einstaklinganna á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins. Og fyrr en þeim á ný eru sköpuð eðlileg starfsskilyrði, er ekki að vænta, að útgjöld ríkissjóðs dragist saman að nokkru verulegu leyti, en eins og kunnugt er, hafa sjálfstæðismenn ekki haft nægilegan styrk á Alþ. til að koma á slíkum breytingum í löggjöf landsins.

Með tilvísun til skýrslu fjmrh. yfir afkomu ríkissjóðs á yfirstandandi ári er líklegt, að tekjurnar fari allt að 100 millj. kr. fram úr áætlun. Er þetta út af fyrir sig gleðiefni. Það sýnir fyrst og fremst, að fjárhagsgeta þjóðarinnar er mikil þrátt fyrir ýmsa aðsteðjandi erfiðleika, og þá eigi síður hitt, að nýtt og þróttmikið líf hefur færzt í verzlun og viðskipti við afnám þeirra hafta, sem óeðlilega hafa hert að þjóðinni um mörg undanfarin ár. Hér hefur bersýnilega komið í ljós, að þessi stefna, sem Sjálfstfl. hefur barizt fyrir að tekin væri upp, er bæði rétt og heilbrigð.

Á síðasta þingi tókust þeir samningar á milli stjórnarflokkanna að áætla tekjuliði fjárl. svo varlega, að engin hætta væri á því, að tekjuupphæðin brygðist, jafnvel í mjög óhagstæðu árferði. Jafnframt var samkomulag um að áætla gjöldin það hátt, að ekki þyrfti að reikna með neinum verulegum aukaútgjöldum að óbreyttu verðlagi og kaupgjaldsvísitölu á árinu. Var þetta gert til þess að tryggja greiðsluhallalausan ríkisreikning, jafnvel þótt heildartekjur þjóðarinnar og viðskiptavelta yrði undir meðallagi, svo framarlega sem fjmrh. héldi sér innan takmarka fjárl. í öllum útgreiðslum. Í fyrsta skipti í heilan áratug var engin togstreita um það, hvaða maður eða flokkur færi með fjármálin í landinu. Höfuðsjónarmiðið var að tryggja greiðsluhallalausan ríkisreikning, á sama hátt og fjárlögin skyldu afgr. með hagstæðum greiðslujöfnuði. Sjálfstfl. sýndi hér fjmrh. fullan trúnað, eins og vera bar, og veitti honum og flokki hans fulla aðstoð til að tryggja sem bezta afkomu ríkissjóðs. Frá þessari stefnu, sem Sjálfstfl. markaði hér við afgreiðslu fjárl., má aldrei víkja, hver svo sem fer með fjármál landsins á hverjum tíma. Enginn ábyrgur þingmaður má vera óábyrgur um afgreiðslu fjárl., ef hann á annað borð er ábyrgur á stjórn landsins. Virðing þingsins og öryggi ríkisins veltur eigi hvað sízt á því, að þingmenn séu þess jafnan minnugir og hagi störfum sínum eftir því. Slíkt dregur á engan hátt úr ábyrgð þeirri, sem hvílir á fjmrh. um meðferð á fé ríkissjóðs, nema síður sé. Hann er jafnábyrgur gagnvart þingi og þjóð um að eyða ekki meiru en fjárl. ákveða, nema brýna nauðsyn beri til, þótt umframtekjur ríkissjóðs leyfi. Verður fjmrh. jafnan að hafa það hugfast að haga sér eftir því. Allt annað væri brot á þeim trúnaði, sem honum er sýndur með því að áætla tekjur varlega og gera jafnframt ráð fyrir öllum gjöldum, sem vitanlegt er, að greiða beri á árinu.

Sjálfstfl. var það fullljóst, að til þess að tryggja, að þessu marki yrði náð, varð að gera hvort tveggja í senn, að hækka skatta og tolla og halda aftur tillögum manna um víðtækari framlög til ýmissa nauðsynlegra framkvæmda. Sjálfstfl. hikaði ekki við að taka á sig þá ábyrgð og þau óþægindi, sem því voru samfara, vegna þess að honum var það ljóst, hver höfuðnauðsyn það var að tryggja fjárhagsafkomu ríkisins til þess að veikja ekki álít þess út á við og inn á við. Við umræðurnar um fjárl. henti stjórnarandstaðan á það, sem vér vissum, að tekjuáætlunin væri allt of lág, miðað við að fyrirhugaðar breytingar á innflutningsverzluninni kæmu til framkvæmda á árinu. Á þessum forsendum bar stjórnarandstaðan fram margvíslegar tillögur til hækkunar á útgjöldum ríkissjóðs. Má vel vera, að enn verði bent á þetta hér við þessa umræðu. Í því sambandi þykir mér rétt að benda á, að stjórnarandstaðan barðist þó jafnframt hatrammlega gegn því, að þeir tekjustofnar yrðu lögfestir, sem standa áttu undir þessum sömu útgjöldum. Vildu þeir ólmir viðhalda haftakerfinu, þótt vitað væri, að almenningur gaf þannig meira fyrir vöruna, ef reiknað var með þeim fjárfúlgum, sem greiða varð á bak við tjöldin til tryggingar því að fá vöruna keypta. Af slíkum viðskiptum fékk ríkissjóðurinn engar tekjur, og verðhækkun sú kom heldur aldrei fram í kaupgjaldsvísitölu almennings. Afgreiðsla fjárl. var ekki byggð á því viðhorfi, sem kynni að skapast við meira frjálsræði í verzluninni, heldur á hinu, að hagstæður greiðslujöfnuður næðist örugglega, þótt öllu væri haldið óbreyttu í þeim málum.

Þegar vitað var, að verzlunin hafði verið gefin frjáls á ýmsum sviðum og að árið virtist ætla að verða mjög hagstætt í verzlun og framleiðslu, kom það engum á óvart, að tekjur ríkissjóðs yrðu á þann hátt, sem raun ber vitni.

Þegar litið er á niðurstöðutölur fjárlagafrv., er ljóst, að fjmrh. gerir ráð fyrir því, að núverandi tekjustofnar geti 60 millj. kr. meiri tekjur í ríkissjóðinn en áætlað var á þessu ári. Samkv. 2. gr. er áætlað, að tekjur af tekju- og eignarskatti og stríðsgróðaskatti hækki um 5.25 millj., af vörumagnstolli 1 millj., af verðtolli 20 millj., af stimpilgjaldi 600 þús., af söluskatti 22 millj. og af öðrum tekjum 700 þús., eða alls 50 millj. samkv. 2. gr. Virðist því fjmrh. ætlast til þess, að allir þessir tekjustofnar haldist næsta ár eða aðrir jafnöruggir verði teknir upp, ef þessir verði afnumdir. Ég get að sjálfsögðu ekkert fullyrt um það við þessa umræðu, hvort tiltækilegt þykir að halda þessum tekjustofnum öllum óbreyttum næsta ár eða hvort finna beri aðra nýja, ef eitthvað kynni að verða breytt um, en hitt þykist ég mega fullyrða, að það ber brýna nauðsyn til þess að endurskoða allt skattakerfi þjóðarinnar og skapa henni þá skattalöggjöf, sem laðar menn til að koma upp og starfrækja heilbrigðan atvinnurekstur í landinu, er verði óháðari ríki og lánsstofnunum en nú er, beinlínis vegna þess, hvernig skattamálunum er fyrir komið. Er þetta mál svo aðkallandi, að því má ekki skjóta á frest lengur.

Þótt ekkert verði enn fullyrt um endanleg rekstrarútgjöld ríkisins á þessu ári, bendir þó allt til þess, að þau verði allverulega hærri en áætlað er í fjárl. Rekstrargjöldin á frv. eru áætluð 63 millj. hærri en áætlað var á síðasta úri á fjárlagafrv. og 53 millj. hærri en endanlega var áætlað á fjárl. Bendir þetta nokkuð til þess, að umframeyðslan verði allveruleg á þessu ári, því að venjulega er nokkuð stuðzt við reynslu um gjöld á því ári, sem frv. er samið. En sé þetta nokkuð nærri sanni, verður ekki séð, að fjmrh. hafi gert sér allt far um að halda greiðslum innan þeirra takmarka, sem fjárl. ákveða. Og hvernig hefði þá farið um hagstæðan greiðslujöfnuð, ef tekjurnar hefðu ekki reynzt meiri en gert var ráð fyrir? Frv. ber það að vísu með sér, að meginástæðan fyrir vaxandi útgjöldum ríkissjóðs er hin sívaxandi dýrtíð í landinu og samfara henni síhækkandi kaupgjald, en það hefur eins og kunnugt er einna víðtækust áhrif á afkomu ríkisins.

Þegar fjárlagafrv. fyrir árið 1951 var samið, var reiknað með verðlagsvísitölu 115 á allar greiðslur launa. Allmiklar umræður urðu um það að hækka ekki launagreiðslur á árinu fram yfir það, hvað sem vísitalan kynni að hækka. Þótti ekki gerlegt að lögbinda það ákvæði. Hitt varð fullt samkomulag um, að hækka álagið upp í 122, og var lögfest í fjárlfrv., að greiða skyldi laun samkvæmt því, og útgjöld frv. áætluð með tilliti til þess. Til þess að torvelda ekki afgreiðslu fjárl. var fallið frá þeirri kröfu að láta einnig greiða vísitöluálag á framlög til verklegra framkvæmda, í fullu trausti þess, að þessum ákvæðum fjárl. yrði ekki breytt á fjárhagsárinu. Þetta hefur þó farið á annan veg, því að þ. 30. júní gefur forseti Íslands út bráðabirgðalög samkvæmt ósk ríkisstj., þar sem fyrirskipað er að hækka vísitöluálagið á laun opinberra starfsmanna frá því, sem ákveðið var í fjárl. Ég skal ekki gera hér að verulegu umræðuefni bráðabirgðalögin frá 30. júní, en aðeins benda á, að ef ríkisstj. hefur verið minnug þess samkomulags, sem gert var um þetta atriði, er fjárl. voru afgreidd, og jafnframt gert sér ljóst, hvaða áhrif þetta hlaut að hafa á vísitölu og verðlag í landinu og þá jafnframt á útgjöld ríkissjóðsins, — og ég efast ekkert um, að ríkisstj. og einkum fjmrh. hafa athugað öll þessi mál, — hljóta að hafa legið afar sterk rök fyrir því að dómi ríkisstj., að brýna nauðsyn bæri til þess að gefa út slík bráðabirgðalög á milli þinga, sem gengu í berhögg við ákvæði fjárl. og launalaga. Verður ekki annað skilið en að aðalástæðan hafi verið að fullnægja réttlætinu í launakjörum hinna lægst launuðu starfsmanna ríkisins. En hafi svo verið, eru sömu skyldur beinlínis lagðar á bæjar- og sveitarsjóðina með útgáfu bráðabirgðalaganna, þar sem tæplega hefur verið til þess ætlazt, að starfsmenn þeirra stofnana sættu sig við lakari kjör. En þegar þetta er vitað, verður torskilin sú gagnrýni, sem Framsfl. hefur haldið uppi á bæjarstjórnarmeirihlutann í Reykjavík fyrir það að afla sér aukatekna til þess að vega á móti óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum, sem m.a. orsakast fyrir beinar aðgerðir ríkisstj. og fjmrh., því að vitað er, að bæjarsjóðurinn hafði hér engar umframtekjur af varlega áætluðum tollum og sköttum eins og ríkissjóður.

Ég mun ekki ræða hér meira en komið er hin einstöku atriði fjárlagafrv. Því verður nú, eftir að umr. hefur verið frestað, vísað til fjvn., þar sem tækifæri gefst til að athuga hin:,r ýmsu greinar þess og koma á framfæri breytingum, sem til bóta mættu verða. En með því að ýmis önnur vandamál en fjárl. koma einnig til umræðu á þessu þingi og afgreiðsla þeirra hlýtur að — hafa víðtæk áhrif á afgreiðslu fjárlaganna, þykir mér rétt að fara um þau nokkrum orðum.

Þegar núverandi ríkisstj. settist að völdum, var það eitt af höfuðverkefnum hennar að tryggja öryggi landsins, ef til ófriðar kæmi í álfunni. Hefur Sjálfstfl. markað frá upphafi fasta og ákveðna stefnu í utanríkismálunum. Hann einn allra flokka hefur verið heill og óskiptur í þeim málum og haldið fast og farsællega á þeim alla tíð, eins og kunnugt er, enda hafa ekki einasta hinir lýðræðisflokkarnir á Alþingi, heldur og allir lýðræðissinnar í landinu, fallizt á nú orðið, að þessi stefna sé og hafi verið rétt. Þróun þessara mála hefur verið markviss. Fyrst Keflavíkursamningurinn, siðan aðild að samtökum Sameinuðu þjóðanna, og innganga í Atlantshafsbandalagið, aðild að efnahagssamvinnunni í Evrópu og aðnjótandi Marshallaðstoðarinnar. Meðlimir í alþjóðabankanum og alþjóðagjaldeyrissjóðnum, alþjóðaþingmannasambandi, vinnumálastofnun og Evrópuþingi. Allt hefur þetta að vísu kostað nokkurt fé, en sá kostnaður er ekki nema örlítið brot af þeim hagnaði, sem þjóðin hefur haft af því, að þessi stefna var mörkuð. Einn liðurinn í þessari starfsemi er herverndin, sem ekki einasta var talin sjálfsögð, heldur beinlínis óhjákvæmileg til öryggis fyrir land og þjóð, eins og málunum er nú komið í heiminum. Þeir einir, sem met,a meira hagsmuni annarra en Íslendinga, viðurkenna enn ekki þessa staðreynd, en Sjálfstfl. mun aldrei hirða um tillögur þeirra í þessum málum. Fullyrða má, að af öllum þeim málum, sem ríkisstj. hefur til meðferðar, séu utanríkismálin alvarlegustu og veigamestu málin. Framtið landsins og fjárhagsafkoman á hverjum tíma veltur ekki hvað sízt á því, hvernig meðferð þeirra tekst. Um þetta stórmál hefur ríkt fullt samkomulag í ríkisstj. og það svo, að samstarfsflokkarnir hafa slakað til hvor fyrir öðrum í ýmsum öðrum málum til þess að tryggja sem bezt samvinnu til góðs árangurs í öryggismálum þjóðarinnar.

Þá hefur ríkisstj. einnig samið um að hrinda í framkvæmd raforkumálunum í stórum stíl, fyrst og fremst með því að ljúka viðbótarvirkjunum við Sogið og Laxá og síðan með áframhaldandi byggingu orkuvera og raforkulína, eftir því sem við verður komið og ástæður leyfa. Hefur afgreiðsla þessara mála gífurleg áhrif á afgreiðslu fjárl. eins og kunnugt er. Þá er enn fremur samkomulag um að koma upp áburðarverksmiðjunni svo fljótt sem verða má, og er undirbúningur undir það verk þegar hafinn. Hér er um að ræða eitthvert hið stærsta átak, sem gert hefur verið fyrir íslenzkan landbúnað og íslenzkan iðnað, átak, sem kostar marga tugi milljóna um það er lýkur. Einnig þetta mannvirki hlýtur að hafa geysiáhrif á fjárfestinguna og afgreiðslu fjárl., þótt ekki sé tekið inn á frv. nema 2.5 millj. kr. framlag til verksmiðjunnar á þessu ári. Þá er einnig unnið að því að koma sem fyrst upp sementsverksmiðjunni, auk þess sem aflað er fjár til byggingar í kaupstöðum og sveitum landsins, en allt þetta hefur bein og óbein áhrif á fjárhagsafkomu þjóðarinnar.

Eins og kunnugt er hafa dýrtíðarmálin einna djúptækust áhrif á afgreiðslu fjárl. hverju sinni. Afkoma einstaklinga, bæjar- og sveitarfélaga og ekki hvað sízt atvinnuveganna er algerlega háð því, hvernig tekst um lausn þeirra mála. Því er það, að allar ríkisstj., sem setið hafa að völdum síðasta áratug, hafa ásamt Alþingi barizt gegn dýrtíðinni, vexti hennar og viðgangi, en ávallt borið lægri hlut í þeirri baráttu. Stundum hefur undanhaldið verið hægfara, stundum hratt, allt eftir því, hverjar aðstæðurnar hafa verið. Þrátt fyrir góðan vilja og mjög ákveðin loforð, sem Framsfl. gaf þjóðinni við síðustu kosningar um að stöðva dýrtíðina, ef hann fengi sterkari stjórnaraðstöðu í landinu, er undanhaldið síður en svo stöðvað. Með þessu er ég ekki að gagnrýna gerðir ríkisstj. í þeim málum eða aðild Framsfl. sérstaklega, heldur aðeins að benda á þá staðreynd, að erfiðleikarnir á lausn þessa vandamáls hafa sýnt sig að vera meiri en svo, að góður ásetningur og ákveðin loforð Framsfl. væru nægileg til að koma fram nauðsynlegum umbótum. Þeim, sem staðið hafa í baráttunni við dýrtíðarmálin undanfarin ár á Alþingi og þekktu alla þá erfiðleika, sem glíma þurfti við í þessu máli, kom þetta ekkert á óvart, og sjálfsagt hefur Framsfl. verið þetta einnig ljóst, þegar hann gaf hin hátíðlegu loforð, sem nokkur hluti kjósenda sýnist hafa tekið allalvarlega, ef miðað er við hið aukna fylgi, sem flokkurinn fékk við síðustu kosningar.

Jafnskjótt og vitað var, að ekki fékkst samkomulag um að brjóta niður kerfið, sem frá upphafi hefur borið í sér þær afleiðingar, sem því fylgja, þ.e. að láta kaupgjald og verðlag elta hvert annað takmarkalaust eða takmarkalítið, og taka upp í staðinn traustara kerfi og hagkvæmara gegn vexti dýrtíðarinnar, var sýnilegt, að undanhaldið mundi ekki stöðvast. Af fjárlagafrv. því, sem hér er til umræðu, verður ekki annað séð en að Framsfl. breiði með því að fullu yfir hin gefnu loforð, sem ég minntist hér á áðan.

Því verður ekki neitað, að margar þær ástæður, sem liggja til hækkandi verðiags og aukinnar dýrtíðar í landinu í stjórnartíð núverandi ríkisstj., voru slíkar, að hún átti þess engan kost að bægja þeim frá nema með því einu að leggja á þjóðina enn óbærilegri byrðar, svo sem aðstoðin við bátaútveginn og gengisfallið. Utanaðkomandi áhrif, svo sem gífurleg verðhækkun á erlendum vörum, urðu heldur ekki umflúin nema að greiða vörurnar niður með fé, sem taka varð þá með nýjum beinum sköttum. Sjá allir þá erfiðleika, sem því voru samfara. Ríkisstj. verður því á engan hátt ásökuð fyrir vaxandi dýrtíð af þessum ástæðum. Hitt er svo annað mál, hvort ekki hefði átt að taka upp kerfi í sambandi við kaupgjald og verðlagsvísitölu, er skapaði meiri áhuga hjá fólkinu sjálfu fyrir stöðvun dýrtíðarinnar en það kerfi gerir, er vér nú búum við.

Því verður heldur ekki neitað, að þrátt fyrir síaukna dýrtíð í landinu er það staðreynd, að lífskjör fólksins hafa aldrei verið betri hér eða jafnarí en nú. Skýrasta sönnun þess er viðskiptaveltan, eftirspurn eftir öllum vörum, meiri ásókn í allar fjárfestingar en nokkru sinni áður þrátt fyrir mjög hækkandi verðlag, velta og hagnaður af áfengis- og tóbakssölu, ferðastraumur fólksins utanlands og innan, aðstreymi að skólum og skemmtistöðum, hvar sem er í landinu, bílakosturinn í bæjum og sveitum, og ekki sízt hinar stóru framkvæmdir á öllum sviðum, sem vekja hvað mesta undrun erlendra ferðamanna, sem hingað koma og skilja ekki, hvernig svo fámenn þjóð fær undir risið. Það er einnig staðreynd, að lífskjör almennings hér eru bæði betri og jafnari en lífskjör almennings í nokkru öðru landi álfunnar. Dýrtíðin hér er því síður en svo þungbærari fyrir almenning en dýrtíð annarra landa er fyrir fólkið, sem þar býr, þegar borið er saman verðlag allt og launakjör. — Hvaða álit sem menn annars hafa á dýrtíðinni hér á landi og því böli, sem henni fylgir, eða með hvaða hætti skuli draga úr því, þá er rétt, að menn viti það, að ástandið í þessum málum er ekki lakara hér en hjá nágrannaþjóðunum, og eins hitt, að dýrtíðin í þeim löndum, er vér skiptum við, hlýtur ávallt að hafa víðtæk áhrif á okkar eigin dýrtíðarmál.

Það má því raunverulega telja afar merkilegt,. að unnt skuli vera að halda hér uppi fullri atvinnu við að framleiða vöru til sölu í löndum, þar sem verðlag og launakjör er langt undir því, sem vér eigum við að búa. En til þess liggja þrjár eftirfarandi meginástæður:

1. Að hver einstaklingur hér framleiðir meira verðmæti en einstaklingur þeirra þjóða, er vér skiptum við, þrátt fyrir of stuttan vinnutíma í mörgum atvinnugreinum og þrátt fyrir margvislegar umkvartanir um vinnusvik og óheppilegar vinnuaðferðir.

Það er bæði jákvætt og gleðilegt að vita, að svo er. En ástæðurnar fyrir þessum hagkvæmu afköstum eru aftur þær, að þjóðin lifir við betri lífskjör, hefur meira að bíta og brenna og að vinnuvit og hagleiki almennings er hér á hærra stigi, sem að mestu er að þakka skólamenntuninni í landinu og svo því, að þjóðin á af þessum ástæðum kjarngóða stofna og ekkert hrak. Það er því ljóst, að ekki svo lítill árangur er kominn í ljós af því fé, sem varið er til fræðslumálanna.

2. Að ríkissjóður hefur um langt skeið gerzt miðlari á milli taps og gróða í atvinnurekstrinum, sbr. milljónauppbætur og styrki til lands og sjávar, þegar þessir atvinnuvegir hafa ekki getað staðizt þungann af kaupgjaldinu. Hvort sem slík starfsemi getur kallazt jákvæð eða neikvæð, þá er víst, að hún hefur verið óhjákvæmileg til þess að halda uppi framleiðslunni í landinu. Hitt er svo jafnvíst, að að því ber að stefna að afnema þetta kerfi svo fljótt sem verða má og tryggja jafnframt afkomu atvinnuveganna á annan hollari hátt.

3. Að landið hefur hlotið stórar fjárfúlgur sem styrk frá Marshallstofnuninni, bæði til uppbyggingar atvinnuvega og til eyðslu. Hefur þessi aðstoð ekki einasta hjálpað yfir erfiðleika, sem torvelt hefði verið að yfirvinna án hennar, heldur hefur hún einnig hjálpað til að tryggja framtíð landsins á mörgum sviðum. Og þó verður þjóðin að gera sér það ljóst í tíma, að hún byggir ekki afkomu sína á slíkum fórnum frá annarri þjóð um alla framtíð.

Það er ljóst, að dýrtíðin verður ekki sigruð nema með sameiginlegu, sterku átaki ríkisstj., Alþingis og þjóðarinnar og sameiginlegum fórnum. Þyngsta fórnin er skerðing lífskjara, minni tekjur og meira atvinnuleysi, þegar atvinnuvegirnir þola ekki lengur útgjöldin, ríkissjóður hættir miðlunarstarfinu og Marshallaðstoðin þrýtur. Minnsta fórnin er að leggja meira að sér, lengja vinnudaginn fyrir sömu laun á sem flestum sviðum, framleiða meira og bæta á þann veg afkomu einstaklinga og þjóðarinnar, draga sem mest úr hinum óarðbæru störfum og fyrirbyggja alla verkstöðvun í landinu, hverju nafni sem nefnist. Ef þjóðin vill sýna sama áhuga fyrir því að viðhalda mannsæmandi lífskjörum í landinu eins og hún sýndi í samnorrænu sundkeppninni, þá býr hún yfir þeim mætti, sem til þess þarf.

Einn áhrifamesti þáttur dýrtíðarmálanna eru þær ráðstafanir, sem gerðar eru í sambandi við bátaútveginn. Um hver áramót hafa verið gerðar nýjar og breyttar ráðstafanir til þess að tryggja afkomu útvegsins og frystihúsanna. Hafa margir haldið, að þetta væri gert til að tryggja hag útvegsmanna og frystihúseigenda, en þann misskilning ber að leiðrétta. Þessar ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja þeim mönnum öllum, sem við þennan atvinnurekstur starfa, sambærileg kjör og mönnum, sem starfa við annan líkan rekstur. Lausn þessara mála, sem allmjög snerta afkomu ríkissjóðs, hefur jafnan tekið mikinn tíma og lengt þinghaldið á hverju ári. Hér verður að verða breyting á. Málum þessum verður í ár að ráða til lykta svo tímanlega, að þau tefji hvorki þinghaldið né afgreiðslu fjárl., hvort heldur hugsað er að framlengja það kerfi, sem nú er búið við, eða að taka upp annað.

Það eru að sjálfsögðu mörg önnur mál, smá og stór, sem ræða þarf í sambandi við afgreiðslu fjárl. Margir eiga erindi við fjvn., og verður vandi nú sem fyrr að greina á milli þess, sem mæla skal með, og hins, sem víkja ber til hliðar. En auk þeirra mála, sem ég þegar hef rætt um, og svo hinna, sem ekki verður komizt hjá að leggja framlag til, svo sem lögboðnar greiðslur, framlög til verklegra framkvæmda o.m.fl., tel ég, að megináherzlu beri að leggja á framlög til heilbrigðis- og félagsmálanna. Þrátt fyrir margvíslegar umbætur á þessu sviði þjóðmálanna, sem Sjálfstfl. hefur dyggilega stutt að og barizt fyrir, er þó margt enn ógert, sem ekki þolir bið, því þegar að er gáð, þá er þetta þó eitt af allra veigamestu málum þjóðarinnar. Vér greiðum tugi millj. kr. í að útrýma búfjársjúkdómum og rækta sterkari og betri stofna, og öll þjóðin veit, að þetta er henni lífsskilyrði. En hversu miklu meira atriði er það ekki að útrýma meinum mannanna, ekki einasta til þess að lina þjáningar, sem oft eru óbærilegar, heldur og einnig til þess að tryggja þjóðinni milljónir dagsverka árlega, sem glatast vegna þess, að heilsugæzla og aðbúnaður sjúkra og sjúkrahjálp, bæði í bæjum og sveitum, eru allt önnur og lakari en æskilegt væri? Ekki einasta er þörfin fyrir bætt náms- og starfsskilyrði hjúkrunarkvenna aðkallandi og þörfin fyrir fleiri og betri sjúkrahús og heilsugæzlustöðvar gífurleg, hvar sem er á landinu, heldur er þörfin til að hjálpa fólkinu til að starfrækja slíkar stofnanir enn meira aðkallandi. Þúsundum gamalmenna og öryrkja er haldið uppi á framfærslu bæjar- og sveitarsjóða og ríkisins. Margt af þessu fólki gæti unnið og átt betri daga, ef því væri séð fyrir vinnuskilyrðum við þess hæfl. Þúsundir unglinga ráfa iðjulausir á öllum tímum ársins um götur kaupstaða og kauptúna og læra að verða ekki að mönnum. Með sérstökum vinnunámskeiðum mætti nýta allt þetta vinnuafl og bjarga jafnframt verðmætum, sem glatast og ekki verða metin til fjár. Þúsundir heimila stritast við verk, sem vélar eiga að vinna, og þúsundir manna búa í húsum, sem eru gróðrarstíur fyrir andlega og líkamlega sýkla. Að hefja ekki harða og vel skipulagða sókn gegn þessum voða, er að bjóða volæðinu heim, er að minnka möguleika þjóðarinnar til sjálfsbjargar.

Ég ætlast ekki til, að ríkisstj. eigi að hafa forustu um umbætur í öllum þessum málum, en ég lít svo á, að ríkissjóður verði að leggja fram allverulega hærri framlög til þessara mála en verið hefur og umfram allt að mæta jafnan með fullum skilningi hverri þeirri umbót, sem einstaklingar eða félagsheildir vilja gera á þessu sviði.

Ég vil mega vænta þess, að Alþingi hlúi að þessum hugsjóna- og menningarmálum þjóðarinnar og marki afgreiðslu fjárl. eftir því, að svo miklu leyti sem hagur ríkissjóðs leyfir.

Sjálfstfl. telur, að að því beri að vinna að hafa þinghald svo stutt að þessu sinni, að því verði lokið fyrir áramót, og þó einkum að afgreiðslu fjárl. verði lokið fyrir þann tíma og að þau verði afgr. á þann veg, að tryggður sé hallalaus rekstur ríkisins á næsta ári.