03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Frsm. 2. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er óneitanlega rétt, að sagan er háð sífelldum endurtekningum. Meginatburðir sögunnar endurtaka sig aftur og aftur. Stundum er það þó, að eitthvað nýtt gerist, og það er óneitanlega það, sem hefur skeð nú, þegar tekjurnar fara 150–160 millj. kr. fram úr áætlun á fjárlögum fyrir yfirstandandi ár. Nú kynni einhverjum að detta í hug, að þessar 250–160 millj. séu blómlegum ríkisrekstri að þakka. En svo er ekki. Þessi nýi atburður Íslandssögunnar er afleiðing af rangri tekjuáætlun á fjárl. yfirstandandi árs. Hann liggur í því, að tekju- og eignarskattur var áætlaður 35 millj. kr., en reyndist vera 46–47 millj. kr.; fer svona 10–12 millj. fram úr áætlun. Vörumagnstollurinn var áætlaður 20 millj. kr. af hæstv. ráðh., en reyndist miklu hærri. Verðtollurinn var áætlaður 73 millj. kr. af hæstv. fjmrh., Eysteini Jónssyni, en hann mun fara upp fyrir 100 millj., og skeikar þar um 30 millj. kr. á einum einasta tekjulið. Söluskatturinn var áætlaður 55 millj. kr., en verður aldrei minni en 90–95 millj. kr. Gert var ráð fyrir 74 millj. kr. tekjuafgangi af rekstri ríkisstofnana, þar af langmest hjá tóbaksog áfengiseinkasölunum, en þessi liður fer áreiðanlega upp í 90–95 millj., eða um 20 millj. fram úr áætlun. Heildarmyndin af tekjuáætlun hæstv. fjmrh. fyrir árið, sem nú er að liða, litur því þannig út, að tekjurnar ætla að fara fram úr áætlun svo sem nemur þreföldum áætluðum söluskattinum, en hann var, eins og ég áðan sagði, áætlaður 55 millj. kr., en umframtekjur verða eitthvað á milli 150 og 160 millj. kr.

Ég minnist þess, að við afgreiðslu fjárl. í fyrra lagði ég til, að tekjurnar yrðu áætlaðar 32.5 millj. kr. hærra en gert var. Mér er það í fersku minni, að hæstv. fjmrh. taldi, að þetta væri hinn mesti barnaskapur og næði ekki nokkurri átt. Ég vildi verja þessum tekjum, sem ég taldi vist, að ríkissjóður mundi fá umfram það, sem hæstv. ráðh. áætlaði, til vega-, brúarog hafnargerða, 6 millj. kr. til eflingar síldveiðideild hlutatryggingasjóðs, 8 millj. til niðurgreiðslu á kostnaðarliðum bátaútvegsins, 1.5 millj. til eflingar atvinnulífsins á Norður- og Vesturlandi, 200 þús. kr. til þess að standa straum af kostnaði við vinnumiðlun, og 5.6 millj. kr. yrðu teknar á fjárl. til þess að greiða vísitöluuppbót á laun opinberra starfsmanna. Nú er komið í ljós, að allt þetta hefði verið hægt að gera og þótt meira hefði verið, því að tekjuafgangurinn hefur orðið meiri en nokkru sinni áður.

Ég get ekki stillt mig um — út af þessu orðaskaki okkar hæstv. fjmrh. við fjárlagaumræðurnar í fyrra — að vitna í þingtíðindin. Hæstv. ráðh. komst þá svo að orði, er hann ræddi um till. minar um hækkun á tekjuáætlun:

„Þá kemur að aðaltill. hv. þm., en þær eru að hækka tekjuáætlunina um 32 millj. og útgjöldin um það sama. Með þessum till. kemur skýrt í ljós, hve mjög hv. þm. hefur vanrækt að kynna sér höfuðatriði þessa máls. Ég get ekki tekið allt, sem hv. þm. sagði, til meðferðar, en verð að láta mér nægja höfuðatriðin. Hv. þm. tók fyrst tekjuskattinn og telur óhætt að áætla hann 40 millj.“

Hæstv. ráðh. vildi áætla hann 35 millj. Það er alveg gefið mál, að tekjuskatturinn verður aldrei undir 46 millj. á yfirstandandi fjárhagsári, og þar af fer aldrei meira en Í millj. kr. í vanhöld. En hæstv. ráðh. taldi það glapræði af mér, þegar ég vildi áætla hann 40 millj. — Enn segir hæstv. ráðh.:

„Hið rétta í þessu er, að í ár getur tekjuskatturinn ekki orðið meiri en 42 millj., ef hann þá hangir í því. Næsta ár hlýtur hann að verða minni vegna minni tekna; t.d. í iðnaði og verzlun hljóta tekjurnar að verða mun minni en í ár. Um þetta hefði ég treyst mér til að sannfæra hv. þm. á 2–3 minútum, ef hann hefði spurt mig.“

Hann fullyrti sem sé, að tekjur af verzlun hlytu að verða minni árið 1951 heldur en 1950.

Ég fullyrði, að þetta hefði ekki þótt gáfulega sagt, ef einhver annar en Eysteinn Jónsson hefði haldið því fram. Sannleikurinn er sá, að verzlunin hefur skilað miklu meiri ágóða 1951 en nokkru sinni áður, en hæstv. fjmrh. bjóst við minnkandi ágóða. Þannig bar okkur hæstvirtum ráðh. ekki saman í þessu þá frekar en nú.

Þá vék hæstv. ráðh. að till. minni varðandi verðtollinn. Honum fórust orð á þessa leið: „En nú versnar um allan helming. Hann vill hækka áætlun á verðtolli í 78 millj. og talar um í því sambandi, að 1. nóv. hafi verið búið að innheimta 46 millj. Nú var gengislækkunin að vísu ekki komin 3 fyrstu mánuði ársins, en það er útilokað, að verðtollur hefði orðið meiri en 50–52 millj. á þessum tíma, þó að hún hefði verið. Segjum, að 15 millj. bættust við það, sem eftir er; þá yrði verðtollurinn 65 millj. allt árið. Verðtollurinn bregzt um 15 millj. í ár, en samt vill hv. þm. áætla hann 78 millj. næsta ár.“

Hæstv. ráðh. fannst alveg ægilegt að áætla hann milli 70–80 millj. En eru nú líkur til, að hann nái þessari upphæð? Það er nokkurn veginn fullvíst, að hann fer yfir 100 millj. Ég hef því siður en svo ástæðu til að blygðast mín fyrir að vilja hækka hann, og stóryrði hæstv. ráðh. um það, að verðtollurinn gæti ekki farið yfir 65 millj., benda helzt til þess, að hæstv. ráðh. hafi ekki haft minnstu hugmynd um, hvað hann var að segja.

Þriðja atriðið í till. mínum, sem hæstv. ráðh. fannst ástæða til að láta ljós sitt skína um, var varðandi söluskattinn. Honum fórust orð á þessa leið:

„Og ekki batnar, þegar hv. þm. fer að ræða um söluskattinn. Hv. þm. segist hafa kynnt sér það, að 1. nóv. hefði hann verið 9 millj. kr. hærri en á sama tíma í fyrra. Ég hefði getað upplýst hv. þm. um það, að söluskatturinn hefur verið innheimtur örar í ár en í fyrra. Áætlun fjárl. á honum er byggð á algerri hliðstæðu við verðtollinn, og ég tel ekkert vit að hækka þá áætlun.“

Þegar 3. umr. fór fram, lagði hæstv. ráðh. samt til, að söluskatturinn yrði áætlaður 54 millj., eða yrði hækkaður nm 9 millj., en ég lagði til, að hann yrði hækkaður í 75–80 millj., og þá varð honum þetta að orði. Hvað sýnir reynslan nú? Það er fullvíst, að hann fer yfir l00 millj. kr. Hæstv. ráðh. hefur því skeikað talsvert þarna, viljandi eða óviljandi. Hæstv. ráðh. sagði, að þessi áætlun væri byggð á hliðstæðu við verðtollinn, enda hafa þessir liðir báðir farið alveg í bága við áætlun hins slynga fjármálamanns, hæstv. fjmrh., Eysteins Jónssonar.

Í heild sagði hæstv. ráðh. um þessar till. minar, að ef ég hefði kynnt mér þessi mál betur, þá hefði ég ekki flutt þessar brtt. um hækkun á tekjuáætlun, heldur flutt aðrar, þar sem lagt yrði til, að nýir skattar yrðu lagðir á til þess að afla fjár til þess að standa straum af till. mínum um þá gjaldahækkun, sem í þeim fólst. Já, hæstv. ráðh. sá sem sagt enga aðra leið til þess að standast kostnað af auknum framkvæmdum en bæta enn einu sinni við skattasúpuna, sem er gersamlega að sliga allan almenning í þessu landi.

Í deilum þessum, sem urðu milli okkar hæstv. ráðh. í fyrra, komst hann enn fremur svo að orði:

„Í rauninni eru till. hans í því fólgnar að leggja til, að fjárl. verði afgr. með 32 millj. kr. halla í viðbót við það ástand, sem er fyrir, eins og þetta væri ábyrgðarlaust með öllu.“

En sannleikurinn er nú kominn í ljós, og sýnir hann, að enda þótt bætt hefði verið við 30 millj. á gjaldahlið fjárl., þá mundi tekjuafgangurinn samt verða um 100 millj. Hvað getur nú valdið því, að hæstv. ráðh. hefur skjátlazt svo hrapallega við áætlun sína? Frá mínum bæjardyrum séð koma aðeins tvær ástæður til greina. Annaðhvort hefur hann vísvitandi viljað blekkja Alþingi með það fyrir augum að gefa sér og stjórnarflokkunum frjálsar hendur til þess að ráðstafa þessu fé eða þá að honum hefur sjálfum blöskrað svo skattaálagið, að hann hefur brostið kjark til þess að horfast í augu við það frammi fyrir alþjóð og því reynt að dylja það með því að áætla allar álögur miklu lægra en öll skynsamleg rök bentu til. Niðurstaðan er að minnsta kosti sú, að tekjurnar hafa farið 150 millj. kr. fram úr áætlun. Ég tel það stappa nærri því að vera glæpsamlegt í einu versta atvinnuárferði, sem yfir þjóðina hefur komið á seinni árum, en kynni að vera afsakanlegt í einstöku góðæri. En það er ekki afsakanlegt, þegar allar vinnandi stéttir skortir peninga, að taka meira úr vasa skattþegnanna en nemur rekstrarútgjöldum ríkisins og stinga í ríkiskassann. Ég tel, að það gangi glæpi næst, þegar þetta er gert eins óhóflega og hér hefur verið gert. Við skulum segja, að hæstv. fjmrh. hafi ekki gert tekjuáætlunina visvítandi ranga. Hvað veldur því þá, að áætlunin hefur verið gerð á þennan hátt? Á því getur þá ekki verið önnur skýring en sú, að hæstv. fjmrh. hafi hvorki skilið upp né niður í verkunum þeirrar stjórnarráðstöfunar, sem leiðir til þess, að skattarnir hljóta að verða aðrir og miklu hærri en hann vildi gera ráð fyrir í áætluninni. Ef hæstv. fjmrh. hefur gert þetta í þeirri góðu trú, að þeir gætu ekki orðið hærri en hann áætlaði, þá hefur e.t.v. fjmrh. ekki þá hæfileika til þess að gera rétta áætlun um fjárlög ríkisins, sem æskilegt er, að fjmrh. hafi á hverjum tíma. Þá er það í raun og veru aðeins tilviljunum háð, hvort skattarnir eru 150 millj. kr. hærri en áætlað er eða ekki. Það gæti líka farið á þann veg, að það vantaði eitt árið 150 millj. kr., til þess að tekjurnar standi undir gjöldunum. Ef hæstv. fjmrh. hefur ekkert vitað, hvernig þetta mál horfði við, þá er þetta alveg tilviljun háð og tekjurnar hefðu alveg eins getað brugðizt um 150 millj. kr. Ef hæstv. fjmrh. hefur ekki gert þetta viljandi, heldur í góðri trú, þá er ekki alveg áhættulaust að hafa slíkan fjmrh.

Af þessum einstæðu og miklu umframtekjum ríkissjóðs á árinu 1951 leiðir það, að það hlýtur að verða mikill tekjuafgangur hjá ríkissjóði og rekstrarafgangur á yfirstandandi ári. En það er óhætt að slá því föstu, að þessi tekjuafgangur stafar ekki af neinum dyggðum hæstv. fjmrh., ekki af því, að neinn sérstakur sparnaður hafi verið tekinn upp, og ekki af því, að sérstakrar hagsýni hafi verið gætt í ríkisrekstrinum umfram það, sem gert var ráð fyrir, þegar fjárl. voru samþ. Það var sannarlega ekki gert ráð fyrir sparnaði eða tekin upp nein ný vinnubrögð, sem gætu sparað ríkissjóði fé. Slíkt var alveg leitt hjá sér, eins og hefur verið gert til þessa. Sá tekjuafgangur, sem ríkissjóður kemur til með að hafa á þessu ári, er fenginn þrátt fyrir litla viðleitni til sparnaðar og eingöngu í skjóli óverjandi skattaáþjánar, sem þjóðin hefur sætt á þessu ári. Tekjuafgangi er skilað þrátt fyrir mikla eyðslu og litla viðleitni til sparnaðar.

Þegar ég fékk í hendur, núna á dögunum, plaggið frá fjmrn., sem sýndi, hve miklar umframtekjurnar yrðu á þessu ári, gætti ég líka að því, hve gjöldin hefðu farið fram úr fjárlagaheimild. Ég rak upp stór augu, þegar ég þóttist sjá, að með sama áframhaldi mundi hæstv. fjmrh. ekki fara nema 18–20 millj. kr. fram úr því, sem fjárl. heimiluðu honum. Mér hafði fundizt, að gjöldin mundu fara meira fram úr áætlun með öllu því sukki, sem verið hefur. Ég var því búinn að búa mig undir að halda svolítinn lofræðupistil í tilefni af þessu. En Adam var ekki lengi í Paradís. Þegar við höfðum haft þetta plagg upp undir hálfan mánuð í fjvn., þá fyrst upplýsir hæstv. fjmrh., að þetta hafi verið prentvilla. Þess vegna verð ég að láta alla lofræðupistla niður falla. En mér þykir furðu gegna, að fjmrn. skuli láta frá sér fara slíkt plagg til fjvn. án þess að hirða um að bera saman tölur, og svo skuli Alþingi ekki vera gefinn kostur á að fá leiðréttingu á þessu öðruvísi en þannig, að hæstv. fjmrh. grípur fram í fyrir ræðumanni, sem er að byggja. á þessum röngu tölum frá rn. Ég verð að segja, að slíkt er lítt afsakanlegt. Hæstv. fjmrh. hefur þá farið 50–60 millj. kr. fram úr útgjaldaheimild fjárl. En þrátt fyrir það að þetta eru leiðar upplýsingar, lítur út fyrir, að tekjuafgangur ríkisins sé um eða kannske yfir 100 millj. kr.

Hv. frsm. meiri hl. fjvn. játaði, að meiri hl. bæri ekki fram neinar till. um að draga úr útgjöldum ríkisbáknsins. Hins vegar voru höfð góð orð um það, að hv. meiri hl. fjvn. ætlaði að athuga þetta til 3. umr. Það er staðreynd, að hvorki hæstv. fjmrh. né hv. meiri hl. fjvn. hefur gert tilraun til þess að draga nokkuð úr eyðslunni í ríkisrekstrinum. Stefnan er þessi: Ef eitthvert ríkisfyrirtæki eða einhver ríkisstofnun vill fá meira fé, fær hún það umyrðalaust eða svo til umyrðalaust. Þeir vita það — forstöðumenn ríkisfyrirtækjanna, að það kostar þá eina ræðu, sem haldin er af formanni fjvn., en finnst það borga sig. Þeir taka ræðunni með þögn og þolinmæði, en fá féð frá ári til árs. Þannig hækkar kostnaðurinn við ríkisfyrirtækin um hundruð þúsunda á hverju ári. Ef forstöðumaður ríkisfyrirtækis segir: „Ég vil fá meira starfsfólk“, — þá fær hann það. Og ef einhver þeirra segir: „Ég vil fá fleiri bíla“, — þá fær hann þá. Forstöðumennirnir eru sjálfráðir um sinn rekstur. Þótt þeir fái skammir einn sinni á ári hjá form. fjvn., taka þeir ekkert mark á því, sem form. fjvn. segir, en reksturinn gengur sinn gang, og kostnaður við hann eykst frá ári til árs, og það er hvorki tekið í taumana af form. fjvn. né neinum öðrum. Þetta tók form. fjvn. fram á þennan hátt í framsöguræðu sinni: „Það vantar samvinnu um þetta atriði, en það verður athugað til 3. umr.“ — Þetta er allt hægt að sýna með tilvitnun í fjárlagafrv. nú. Þar er leitun að því ríkisfyrirtæki, sem ekki fer fram á meira fé og fær það. Það er fyrst og fremst stjórnarráðið, sem fer fram á fleira fólk, og eftir því dansa svo aðrir. Það er fyrir fleiri en eitt embætti, sem farið er fram á að fá fleiri starfsmenn, og er áætlað fé til þess á núverandi fjárlagafrv. — Húsbóndahöndin er því ekki hörð. Nei, hún er mild og eftirgefanleg.

Ég hef aðeins borið fram eina brtt. við tekjubálkinn á fjárlagafrv. fyrir árið 1952. Hún er um það að niður verði felldur söluskatturinn, sem áætlað er í frv. að nemi 77 millj. kr. Það er vitanlega algerlega rangt áætlað, því að hann mundi verða tekjustofn, sem næmi meira en 100 millj. kr. Þessi till. byggist á reynslu yfirstandandi árs, sem sýnir, að ríkissjóður hefði vel mátt við því, að söluskatturinn, eins og hann er á fjárl. yfirstandandi árs, hefði fallið tvöfaldur niður. Það hefði ekki orðið neinn halli á ríkisbúskapnum, þótt tvisvar sinnum 55 millj. kr., eða 110 millj. kr. tekjustofn hefði fallið niður. Það ýtir því sýnilega undir stjórnleysið og eyðsluna hjá ríkinu, þegar heimilaður er slíkur óþarfa tekjustofn. Atvinnulíf þjóðarinnar stendur ekki í slíkum blóma, að það réttlæti, að af henni séu teknir meiri skattar en nemur nauðsynlegustu gjöldum ríkisbúsins. Ef söluskatturinn er felldur niður, hefur það í för með sér verulegar verkanir til lækkunar á dýrtíðinni, og það er mál til komið, að eitthvert spor verði stigið í þá átt. Ef söluskatturinn félli niður, yrði það til þess að lækka ýmsa útgjaldaliði ríkissjóðs og þá fyrst og fremst launagreiðslur, en kæmi þó miklu víðar niður og yrði til þess að lækka að miklum mun kostnaðinn við ríkisbúskapinn.

Það er vitað mál, að sérstaklega einn atvinnuvegur þjóðarinnar, iðnaðurinn, mundi hafa verulegan styrk af því, að söluskatturinn yrði niður felldur, því að söluskatturinn er þannig innheimtur, að hann kemur margfaldur á ýmiss konar hráefni, sem eru til vinnslu í iðnaðinum í landinu. Það er því kannske söluskatturinn, ,em á einna drýgstan þátt í því, að nú liggur iðnaðurinn í landinn í rústum. — Það er alveg rétt, að hv. 5. landsk. þm. bar fram í fjvn. till. um það, að fjvn. undirbyggi sín vinnubrögð með því að taka ákvörðun um, hvort reikna ætti með söluskattinum sem tekjustofni fyrir ríkissjóð á árinu 1952 eða ekki. Ég var alveg samþykkur till. hv. þm. Ég taldi það alveg sjálfsögð vinnubrögð, að fjvn. byrjaði á því að gera sér ljóst, hvaða tekjustofnum ríkissjóði væri ætlað að byggja á á næsta ári. Ef samkomulag fengist um að fella þennan tekjustofn niður, buðumst við báðir til að haga vinnubrögðum í n. með fyllsta tilliti til þess, að það yrði að draga úr útgjöldum ríkissjóðs eins og hægt væri og sníða gjöldunum stakk eftir vexti teknanna. Þetta fannst okkur skynsamleg vinnubrögð. En hv. form. fjvn. vildi ekki líta við þessu, heldur vildi hann afgreiða tekjubálkinn án þess að draga úr útgjöldunum og vildi reikna með söluskattinum.

Taldi hann, að óhætt væri að halda áfram sömu eyðslu í ríkisútgjöldum. Og þegar búið var að taka ákvörðun um söluskattinn, voru till. frá okkur felldar tugum saman. Þær till. voru um að lækka eða fella niður kostnaðarliðina við ríkisstofnanir og þess háttar. Þetta fannst mér miklu ábyrgðarminni vinnubrögð en þau, sem við hv. 5. landsk. þm. vildum viðhafa. Það er skylda hvers einstaklings að athuga fyrst og fremst, hvaða tekjumöguleika hann hefur, og það er skylda hans að reyna að sniða gjöldum sínum stakk eftir vexti teknanna. En hér hefur meiri hl. fjvn. farið öfugt að. Ég fullyrði, að hæstv. fjmrh. hefur hér haft sama hátt á eins og fyrir ári siðan, þegar hann, annaðhvort viljandi eða óviljandi, áætlaði mjög marga tekjuliði á fjárl. of lága. Ég skal ekki um það deila, hvort hann hefur gert það viljandi eða óviljandi, því að hvorugt er honum til lofs. Annaðhvort skortir hann skilning eða ábyrgðartilfinningu gagnvart þessu. Það er staðreynd, að tekjuskattinn hefur hann áætlað of lágt, svo að nemur mörgum millj. kr., og verðtollurinn, sem nú er áætlaður á þessu frv. 93 millj. kr., er líka áætlaður of lágt. Það er einnig augljóst mál, að hæstv. ráðh. áætlar tekjur af ríkisstofnunum langt fyrir neðan það, sem reynsla margra undanfarinna ára og sérstaklega reynsla yfirstandandi árs sýnir að tekjurnar verði.

Ef hv. Alþingi fellst á till. um að fella söluskattinn niður, þá er Alþfl. reiðubúinn til að leggja fram till. um að hækka tekjuliðina á frv. og till. um að lækka gjaldabálk frv., svo að fjárlagafrv. yrði eftir sem áður afgr. tekjuhallalaust. Alþfl. mun ekki skorast undan því verki, ef Alþ. samþ. nú við 2. umr. að fella söluskattinn niður. En ef Alþ. samþ. hins vegar að halda söluskattinum, er alveg augljóst mál, að það verður stórkostlegur tekjuafgangur á næsta ári, og þá mun Alþfl. gera sams konar till. um áætlun teknanna. Á gjaldabálkinum mun hann leggja til aukna fjárveitingu til nauðsynlegra verklegra framkvæmda, svo sem brúa, hafna og til þess að koma á fót ýmsum stofnunum, sem fyllsta þörf er að koma á fót, en hefur verið dregið á langinn að gera, m.a. út frá því sjónarmiði, að tekjuskortur yrði. Hvort sem verður ofan á, munu þessar till. lagðar fram við 3. umr. Við töldum allar líkur benda til þess, að hv. stjórnarflokkar fengjust ekki til þess að fella söluskattinn niður, eftir þær undirtektir, sem það fékk í fjvn., því að vissulega hefur meiri hl. fjvn. borið sig saman við hæstv. fjmrh. og ríkisstj. í heild. Við byggjum þetta á því, að hæstv. ríkisstj. hefur flutt frv. um að framlengja söluskattinn frá næstu áramótum. Þess vegna töldum við ástæðulaust að leggja fram till. um lækkun á gjöldum, ef söluskatturinn yrði felldur niður, fyrr en við 3. umr. Ef svo færi, að Alþ. felldi till. um að fella söluskattinn niður, mundi Alþfl. jafnvel fallast á það að fara þá millileið að fá hann felldan niður á öllum nauðsynlegum vörum og vörum til iðnaðar og hann yrði þá framlengdur í því formi. Kæmi þá til álita, hvort sá hluti, sem innheimtist þannig af söluskattinum á næsta ári, skyldi renna beint í ríkissjóð eða hvort honum bæri að verja til aðstoðar nauðstöddum bæjar- og sveitarfélögum, því að ef söluskatturinn helzt, þá er gefinn hlutur, að Alþingi á að ráðstafa þessum tekjum. Ég er sannfærður um, að sú upphæð, sem þessi skattstofn nemur, er nokkurn veginn umfram gjöldin á frv., þegar búið er að athuga alla tekjuliðina og gerð hefur verið tilraun til þess að færa útgjöldin niður.

Að fengnum upplýsingum um hinar gífurlegu umframtekjur, sem aldrei hefur verið ráðstafað af fjárveitingavaldinu, álít ég, að þeim verði að ráðstafa á Alþ. Það er ekki á valdi ríkisstj. að ráðstafa þeim tekjuafgangi og ekki neins af ráðh., heldur ekki hæstv. fjmrh. Það er verkefni Alþ. að ráðstafa þeim tekjuafgangi, sem upplýst er að verði á árinu 1951. Þess vegna ber ég fram till. um ráðstöfun tekjuafgangs yfirstandandi árs, og skal ég nú gera grein fyrir þessari till.

Ég legg til, að allt að 40 millj. kr. verði varið til byggingar íbúðarhúsnæðis í kaupstöðum og sveitum. Tel ég rétt, að allt að 15 millj. kr. af þessum 40 millj. verði varið til bygginga í sveitum, allt að 15 millj. kr. verði varið til verkamannabústaða og allt að 10 millj. kr. til smáíbúða og íbúðarhúsnæðis, sem bæjarfélög láta byggja í kaupstöðum. Það er viðurkennt mál, enda auðsætt af þeim mikla fjölda frv., sem fyrir þessu þingi liggja, að byggingarmálin og íbúðarhúsnæðismálin eru í slíku öngþveiti, að það er ekki viðunandi, þegar út af flóir um fjármagn hjá ríkissjóði. Að mínu áliti er það þá fyrst og fremst þessi þörf, sem ríkissjóði ber að mæta með stórkostlegri fjárveitingu til þess að ráða hót á húsnæðisvandanum. Ef þessi till. verður samþ., er stigið það spor, sem Alþ. ber að stíga til þess að gera mögulegar framkvæmdir, sem verða til úrbóta í húsnæðismálunum bæði til sjávar og sveita. Ég efast um, að mönnum verði greitt um að finna annað hlutverk, sem ákveðnar kallar að að leysa en einmitt byggingarmálin. Ég tel því sjálfsagt, að verulegum hluta af tekjuafganginum verði ráðstafað með því að heimila hæstv. ríkisstj. að verja honum til byggingar íbúðarhúsa. Ég hlusta ekki á þær mótbárur, að við megum ekki ráðast í slíka fjárfestingu til þess að byggja yfir þjóðina, þegar það er heimilað í þjóðfélaginu að byggja 12–13 hæða hús yfir eina blaðaútgáfu í landinn. Þetta væri ekki leyft, ef við hefðum ekki efni á að festa fé í íbúðum fyrir þjóðina.

Önnur till. mín er um, að allt að 15 millj. kr. verði varið til byggingar heilbrigðisstofnana, svo sem héraðssjúkrahúsa og heilsuverndarstöðva. Þó yrði það að sjálfsögðu gert, eins og ætlazt er til í l., gegn fjárframlögum frá öðrum aðilum, þ.e. tryggingunum og einstökum bæjar- og sveitarfésögum. — Í öðru lagi legg ég til, að 16 millj. kr. verði varið til stækkunar geðveikrahælisins á Kleppi og byggingar fávitahælis. Það er vitað mál, að það ríkir hið ömurlegasta ástand í þessum efnum viða úti um land. Það er verið að ráðstafa geðveiku fólki á mörgum stöðum á landinu, án þess að þar séu nokkur skilyrði, en það hefur ekki verið hægt að taka við því á Kleppi og verður líklega ekki hægt á næstunni, nema hælið verði stækkað allverulega. — Það er almennt viðurkennt, að það verði að byggja fávitahæli, því að aðbúðin að þessum vesalingum er langt frá því að vera svo sem þjóðfélaginu er skylt að sjá um, að aðbúnaður að þeim geti orðið.

Þriðja till. mín er um að verja allt að 20 millj. kr. til greiðslu á vangreiddum framlögum ríkisins lögum samkvæmt vegna hafna, vega, skóla og sjúkrahúsa, miðað við það, sem þessar vangreiðslur verða við árslok 1951. Samkv. upplýsingum fræðslumálaskrifstofunnar stendur upp á ríkið að greiða til barnaskóla 7.8 millj. kr., til gagnfræðaskóla 4.1 millj. kr. og til húsmæðraskóla 1.1 millj. kr. Alls eru því vangoldnar vegna skólanna 13 millj. kr. Þá eru vangreiddar til sjúkrahúsa 1–2 millj. kr., sennilega nær 2 millj. kr. Það er því fyllsta þörf á því, að ríkið greiði til skóla, hafna og sjúkrahúsa allt að 20 millj. kr., svo að bundinn verði endir á þessi vanskil.

Þá er það 4. brtt. Till. fer fram á, að af tekjuafganginum verði varið allt að 10 millj. kr. til kaupa á 4 nýjum dieseltogurum til atvinnujöfnunar í landinu. Fyrir þinginu liggur frv. um ríkisrekstur slíkra togara. Það er meiningin, að þetta verði lítil skip, miðað við nýsköpunartogarana, og komi til með að kosta 3–4 millj. kr. Ef ríkisstj. vildi ráða bót á atvinnuleysinu með því að halda þessum togurum úti og láta þá leggja upp þar, sem atvinnuleysi ber að á hverjum tíma, þá fullyrði ég, að það er ódýrasta leiðin til þess að ráða bót á atvinnuleysinu. Í till. er því lagt til, að allt að 10 millj. kr. af tekjuafganginum verði varið til kaupa á þessum togurum.

Þá er að síðustu lagt til, að lánað verði af tekjuafganginum allt að 9 millj. kr. til byggingar fiskiðjuvera á þremur útgerðarstöðum, Ísafirði, Siglufirði og Hornafirði. Það hagar svo til, að atvinnulíf þessara staða byggir á sjávarútvegi og fiskiðnaði. En mikið er ógert og sérstaklega þörf á því að koma fiskiðnaðinum í það horf, sem nauðsyn krefur. Frá Siglufirði hefur verið hér sendinefnd til þess að ræða við ríkisstj. um það, hvernig hægt væri að leysa erfiðleika þá, sem kaupstaðurinn á nú við að stríða. Ég hef fregnað, að stj. hafi fallizt á það sem líklega leið að veita Siglufirði aðstoð til að byggja stórt, nýtízku hraðfrystihús. Það mun í ráði, að flutt verði frv. til að leysa þetta mál. En það er líkt farið um Ísafjörð og Siglufjörð. Á s.l. hausti fór n. frá Ísafirði til þess að ræða við ríkisstj. Að viðræðunum loknum var stj. ritað bréf um málið, og skal ég — með leyfi hæstv. forseta — tilfæra kafla úr bréfi þessu. Þar segir svo:

„Þó er það svo, að fyrir þá, sem ekki stunda sjóinn, kemur hinn aukni skipastóll ekki að gagni, nema unnt sé að hagnýta sem mest af afla hans heima fyrir, og eftir að nýsköpunartogararnir í bænum urðu tveir, þá skortir mikið á, að skilyrði séu fyrir hendi til að hagnýta afla þeirra og vélbátanna til fulls, eins og aðstæður eru nú.

Bygging fullkomins fiskiðjuvers er því mjög aðkallandi mál fyrir bæjarfélagið í heild. Hefur verið ráðgert, að slíkt fiskiðjuver yrði reist á hinum nýja hafnarbakka, sem bráðlega verður tilbúinn til notkunar, a.m.k. að nokkru leyti. Hugmynd manna er sú, að þarna verði fyrir komið sem flestum greinum fiskvinnslunnar, eftir því sem sérfróðir menn telja hagkvæmt, svo sem hraðfrystingu, fiskimjölsvinnslu, lýsisbræðslu, saltfiskverkunarstöð og e.t.v. niðursuðu. Eins og nú háttar, er mest aðkallandi að koma upp hraðfrystihúsi og saltfiskverkunarstöð, og mundu þær framkvæmdir verða fyrsti áfanginn í byggingu fiskiðjuversins, ef fé fengist til þeirra.

Áætlanir voru fyrir nokkrum árum gerðar um byggingu slíks fiskiðjuvers, en þær mundi þurfa að endurskoða frá grunni, ef til framkvæmda kæmi nú, en láta mun nærri samkvæmt upplýsingum sérfræðings, að til fyrstu áfanga fiskiðjuversins mundi þurfa 6–8 millj. kr.“

Hvað Hornafjörð snertir, þá mun þar hafa verið byrjað á að koma fiskiðjuveri í framkvæmd. Fjárskortur hefur þó tafið málið.

Spurningin er því sú, hvort ríkið vill lána þessum arðbæru fyrirtækjum, svo að þau komist af stað.

Ég efast ekki um, að hugsanlegt er að verja þessum tekjuafgangi með ýmsum hætti, en ég hygg, að þessar till. séu mjög gagnlegar og nauðsynlegar og að það mundi efla þjóðarhag og vera Alþ. til sóma, ef þær næðu fram að ganga. Og víst er, að það er Alþ. að ákveða, hvernig þessum tekjuafgangi skuli varið.

Þá vildi ég víkja nokkrum orðum til hv. frsm. meiri hl. fjvn. Hann sagði, að fjvn. hefði leitað eftir samstarfi við umboðsmenn ríkisvaldsins til þess að draga úr rekstrarkostnaði ríkisins, en þetta samstarf hefði ekki fengizt. Flestir forráðamenn ríkisstofnananna hefðu litið á þessa viðleitni n. sem óþarfa afskiptasemi, sem bæri vott um andúð og jafnvel árásir á viðkomandi stofnanir. Þeir segðu, að þeir þyrftu meira fólk, meira fé og meira húsnæði fyrir skrifstofubáknið. Niðurstaðan er svo ætíð sú, að allt þetta er veitt. Fyrst er bara nöldrað, en svo er látið að vilja þessara forstöðumanna. Ég get ekki lagt neitt upp úr því, að skorti á samvinnu verði um þetta kennt. Það er á valdi ríkisstj. að leysa þetta mál, enda hafa ráðh. leyft sér að skera niður áætlaðan kostnað fyrirtækja og stofnana, og það verður að gera. Að það ekki er gert, stafar af því, að ríkisstj. skortir þrek og kjark til þess. Það eru svo margir gæðingar og skjólstæðingar, sem ekki er hægt að reka út á gaddinn. Hæstv. atvmrh. hefur líka játað, að þetta væri erfitt viðureignar, þar sem svo margir vinir, frændur og tengdafólk mundu missa atvinnu sína, og það er vitanlega sannleikurinn í málinu. Að gerð verði gangskör að því að lækka útgjöldin, áður en þinginu lýkur, eins og hv. frsm. meiri hl. vildi vera láta, eru bara hreystiyrði út í bláinn, og tel ég, að ekki sé hægt að vænta neinna aðgerða í þá átt.

Hv. form. fjvn. játaði það, að langstærsti útgjaldaliðurinn væri launagreiðslurnar, sem næmu 90–100 millj. kr. Hann upplýsti enn fremur, að margir af starfsmönnum ríkisins hefðu 60–90 þús. kr. í laun á ári, þó að þeir samkv. launal. ættu ekki að fá meira en 30–50 þús. kr. í árslaun. En hvar eru svo till. hv. meiri hl. um að kippa þessu í lag? Enginn hefur orðið var við þær, það er bara sagt, að þetta sé hneyksli, og þar við situr. Og ekki verður ábyrgðarleysi minni hl. um það kennt. Minni hl. bar fram till. um að draga úr áætluðum kostnaði við ýmis embætti og lækka hann í það sama og hann var 1751, en hv. meiri hl. felldi allar þessar till. og sömuleiðis þær vara- og þrautavaratill., sem minni hl. bar fram. Þeir starfsmenn ríkisins, sem hafa 60–90 þús. kr. árslaun, hafa því ekki verið settir þar, sem þeir eiga að sitja samkv. ákvæðum launal. Hv. form. fjvn. og hv. meiri hl. n. er jafnkunnugt um það og okkur í minni hl., að búið er að rífa niður launal., sérstaklega í stjórnarráðinu, en hv. meiri hl. hefur aldrei flutt till. um að kippa þessu í lag. Þá er það líka alkunnugt, að í sumum embættum eru greiddar stórar fúlgur fyrir eftirvinnu, og það er heldur ekki minni hl. að kenna, að því hefur ekki verið kippt í lag, — það er hv. meiri hl. að kenna, sem hlýtur að hafa stuðning ríkisstjórnarinnar bak við sig.

Að lokum vildi ég segja, að mér finnst stjórnarfarið í landinu árin 1950 og 1951 líkjast því, sem það var á tímabilinu fyrir 1927, þegar íhaldið fór eitt með fjármálastjórnina um langan tíma. Jón Þorláksson var þá fjmrh. og rak sams konar nurlarapólitók og hæstv. fjmrh. Eysteinn Jónsson gerir nú. Íhaldið átti bara engan Jón Þorláksson núna, svo að það þurfti að fá Eystein Jónsson að láni. Prinsipið, sem farið er eftir, er hið sama. Jón Þorláksson talaði um gætilega fjármálapólitík, og það sama gerir hæstv. fjmrh. Eysteinn Jónsson, en það þýðir að vera á móti verklegum framkvæmdum. Pólitík Eysteins Jónssonar að raka saman sköttum er þó glæfralegri en pólitík Jóns Þorlákssonar, því að nú eru atvinnuvegirnir reknir með tapi.

Alveg eins og í tíð íhaldsstj. fyrir 1927 er nú bruðlað með ríkisfé og miklu mokað í gæðinga stj. Það þarf ekki að nefna nema eitt dæmi: fjárveitinguna til rekstrar vinnuhælis að Kvíabryggju. — Slíkir hlutir hefðu getað gerzt í tíð íhaldsstj. 1927 og gerast nú, og það er þægilegt fyrir íhaldið að geta nú gert þetta á ábyrgð annars flokks. Fyrir einu ári síðan samþ. allir þm. stjórnarflokkanna 115 þús. kr. fjárveitingu til rekstrar vinnuhælis að Kvíabryggju í Grundarfirði. Það vissu allir þá, að þetta svonefnda vinnuhæli var ekki til og mundi ekki taka til starfa á árinu 1951, en þrátt fyrir það var samþ. að veita þetta fé til rekstrar hælisins á árinu. Þar sem ekkert bæli hefur enn tekið til starfa að Kvíabryggju, skyldi maður ætla, að þær 125 þús. kr., sem veittar eru til rekstrar hælisins á fjárl. ársins 1952, væru geymt fé frá fyrra ári. En svo er ekki. Í annað sinn er nú tekin í fjárl. 125 þús. kr. fjárveiting til rekstrar vinnuhælis að Kvíabryggju. Alls hafa því verið veittar til rekstrar þessa hælis 250 þús. kr., þó að það hafi enn ekki tekið til starfa og sennilegt sé, að það muni heldur ekki gera það á árinu 1952. Með bláköldu blygðunarleysi er hér aftur gengið í ríkissjóð fyrir gæðinga íhaldsins, eins og vitað var að verið var að gera í fyrra.

Saga þessa Kvíabryggjumáls er sú, að íhaldsgæðingur einn á Snæfellsnesi sat með þessa jörð óarðbæra, í eyði, orpna sandi og einskis virði. Það þurfti því að gera þessum gæðingi íhaldsins mat úr jörðinni á einhvern hátt, og gerði Reykjavíkurbær það fyrir milligöngu fyrrverandi þm. Snæf., Gunnars Thoroddsens. Ekkja, sem átti hlut í jörðinni, fékk smápening, en íhaldsgæðingur Reykjavíkurbæjar stóran pening. Reykjavíkurbær ætlar að stofna þarna hæli fyrir alla þá, sem ekki greiða barnsmeðlögin skilvíslega, og koma þannig góðu skipulagi á þessi mál. Sjálfur ætlar bærinn að kosta keyrsluna á þessum mönnum í hvert sinn frá Reykjavík til Kvíabryggju í Grundarfirði, en ríkið á að kosta rekstur stofnunarinnar. Þegar fjárl. voru afgr. í fyrra, beið eigandi Kvíabryggju hér á hóteli og átti í miklu sálarstríði. En eftir atkvgr. hélt hann veizlu að Hótel Borg og bauð ekkjunni þangað. (Fjmrh.: Var það ekki fallega gert af honum?) Jú, og vegna þess munu þm. Framsfl. hafa rétt upp hendurnar með þessari fjárveitingu! Ég fullyrði, að þetta er ekki rétt meðferð á ríkisfé. Það minnir á sukkið fyrir 1927.

Í kosningunum 1927 tókst að safna þjóðinni gegn pólitík Jóns Þorlákssonar, og þjóðinni varð að ósk sinni. Það sama er hægt nú, ef Framsfl. gerir ekki hugsjónir íhaldsins að sínum hugsjónum. (PO: Er þm. í bónorðsferð til Framsfl.?)