03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Mér finnst rétt að gera nokkrar athugasemdir í tilefni af ræðu hv. frsm. 2. minni hl. Þessi hv. þm. er kunnur að því að taka munninn fullan, og staðfesti hann það með ræðu sinni nú, því að hann hélt fram slíkum fjarstæðum, að örfátt af því, sem hann sagði, er svaravert. Ég mun því ekki halda langa ræðu, enda mun gefast tækifæri til þess síðar að gera skipulega grein fyrir fjármálastefnu stj. og afgreiðslu fjárl. Þó vildi ég minnast á tvö eða þrjú atriði.

Hv. frsm. 2. minni hl. sagði, að stöðug útþensla væri í ríkisbákninu og að stj. gerði ekkert til að spara; að þeir, sem stjórnað hefðu ríkisframkvæmdum, hefðu eytt og spennt; að auðvelt væri að fá bætt við nýjum starfsmönnum; að óstjórn ríkti á öllum sviðum; að hann hefði viljað fá úr þessu bætt og gefið bendingar í fjvn., en þær hefðu verið hafðar að engu.

Ég vil segja það sama við þennan hv. þm. og ég sagði við hv. frsm. 1. minni hl. Ef þessu er þannig varið, hvers vegna tekur hann sig þá ekki til og flytur till. um sparnað við ríkisreksturinn í stað þess að flytja hér ár eftir ár skvaldur og bull? Það er ómögulegt að tala í alvöru við hv. þm. um þessi mál, ef engar rökstuddar till. koma frá honum og hann bendir ekki á neina útgjaldaliði, þar sem hægt er að spara. Ef taka á hv. þm. alvarlega, er það óhjákvæmileg krafa, að hann beri fram raunhæfar til., þar sem sýnt er fram á, hvar á að spara.

Ég vil í því sambandi spyrja hv. þm. nokkurra spurninga, sem ef til vill gætu gefið honum tækifæri til að svara því. Í fyrsta lagi: Hvað á að spara af þeim 24 millj. kr., sem nú eru veittar til læknaskipunar og heilbrigðismála? Á að fækka læknum? Á að spara matinn? Á að spara meðulin? Á að fækka hjúkrunarfólki og öðru starfsfólki? Allt mundi þetta hafa í för með sér, að þjónustan yrði lakari en áður. Vill hv. þm. gera eitthvað af þessu, eða vill hann ekkert af því gera? Enn fremur: Vill hann lækka framlög til berklasjúklinga og til þeirra, sem þjást af langvarandi sjúkdómum? Eða vill hann kannske hætta að styrkja einhverja sjúklinga, sem nú fá styrk úr ríkissjóði? Vill hann hætta að greiða til berklasjúklinga 41/2 millj. kr. á ári og til sjúklinga, sem þjást af langvarandi sjúkdómum, 51/2 millj. kr.? Kannske hann vilji hætta að greiða kostnað við sjúkrahúsarekstur, sem er áætlaður 81/2 millj.? Og ég get sagt hv. þm., að allar þessar áætlanir fara fram úr þessu á árinu. Og þessi hv. þm. getur, ef honum finnst það sæma, flutt ræður, sem hann ætlar mér til svívirðingar, um eyðslu í þessum efnum. En átti ég þá að láta loka sjúkrahúsunum, af því að kostnaður við þau fór óhjákvæmilega fram yfir það, sem hann var áætlaður á fjárl.? Átti ég að hætta að borga berklastyrkinn, ef hann, greiddur lögum samkv., færi fram úr áætlun? Átti ég af sömu ástæðu að hætta þá að styrkja þá, sem haldnir eru af langvarandi sjúkdómum? Þessi sami hv. þm. lét í það skina, að ég hefði stolið öllu því, sem gjöld ríkisins hefðu á yfirstandandi ári farið fram úr áætlun fjárl., og þeim gjöldum, sem ekki hefði verið gert ráð fyrir á fjárl., en úr ríkissjóði hafa verið greidd. Vill þá þessi hv. þm. láta lækka framlögin til vegamála? Mér skilst, að hann vilji það ekki. Sjálfsagt finnst honum atvinnan ekki of mikil í landinu. Hvað segir hann um vita- og hafnarmálin? Finnst honum of mikið til þeirra mála lagt fram úr ríkissjóði —- eða til flugmálanna? Vill hann láta ríkið minnka strandferðastyrkinn? Vill hann láta ríkið hækka enn meir fargjöld og farmgjöld, svo að hægt sé að reka strandferðirnar hallalaust? Það væri kannske hægt, ef þessi gjöld væru hækkuð. Vill þessi hv. þm. láta fækka mönnum á þessum skipum eða lækka laun þeirra? Hvar eru till. Alþfl. um það? Ég veit ekki betur en að frá Alþfl. hafi komið fram kröfur um að fjölga mönnum á strandferðaskipunum. — Vill hv. 6. landsk. þm. segja, hvort hann hafi hugsað sér nokkurn sparnað í sambandi við dómgæzlu og lögreglustjórn? Og í sambandi við landhelgisgæzluna„ sem gert er ráð fyrir, að verði 21/4 millj. og hefur hækkað um 2 millj. síðan í fyrra, — vill þessi hv. þm. draga úr landhelgisgæzlunni? Vill hann láta þessi skip liggja í höfn eða fækka mönnum við landhelgisgæzluna eða lækka laun þeirra? Eigum við að fækka lögregluþjónum og draga saman löggæzluna? Hvar eru till. Alþfl. um þetta? Mér þætti gaman að sjá þær. Eigum við að fækka sýslumönnum eða bæjarfógetum? Síðast í fyrra sá ég ekki betur en að þessi hv. þm., 6. landsk., rétti upp puttana með frv. um nýja meðferð opinberra mála, sem hefur það í för með sér, að fjölga þarf mönnum við dómgæzlu, en ekki fækka þeim. Þannig er samræmið milli orða og gerða þeirra manna, sem leyfa sér að tala í svipuðum dúr og hv. 6. landsk. þm. gerði áðan. — Og fræðslumálin kosta hvorki meira né minna en 50 millj. kr. Hver einasti eyrir þeirrar gr. er greiddur út samkvæmt löggjöfinni um kennslumál, sem Alþfl. hefur jafnan hrósað sér af að eiga þátt í að setja og ekki sízt þessi hv. þm. Og hvar eru till. hans eða Alþfl. um sparnað við kennslumálin? Og hvernig á sá sparnaður að verða? Á kannske að loka einhverjum skólum — og þá hvaða skólum? Á að stytta skólatímann — og þá í hvaða skólum og hvernig? Á að fækka kennurum við skólana og ætla hverjum kennara t.d. að kenna meira en nú? Og hve mikið á að auka kennslustundafjölda kennaranna með því að borga þeim þó sama kaup og í hvaða skólum? Vill hv. 6. landsk. koma fram með till. um þetta í staðinn fyrir að vera bara með þetta skraf um eyðslu, sem engu þjónar? — Og á gr. frv. til bókmennta, lista og vísinda, — hvað vill hv. 6. landsk. þm. spara á þeirri gr.? Á að lækka námsstyrki stúdenta, eða hvað vill hann í því efni? Eða vill hann lækka nokkurn skapaðan hlut? — Þá er 16. gr. Hvað er á þeirri gr., sem þessi hv. þm. hefur í huga, þegar hann talar um margra millj. kr. sparnað? Á að lækka framlagið til Fiskifélagsins? Á að lækka framlagið til Búnaðarfél. Ísl.? Á að lækka framlagið til aflatryggingasjóðs, eða á að lækka jarðræktarstyrkinn og hliðstæða styrki samkv. jarðræktarl.? Á að hætta sauðfjárskiptunum og sauðfjársjúkdómavörnum? Það eru um 16 millj., sem þessir liðir kosta. Hvar eru till. þessa hv. þm. um að spara þessar millj.? Og hvað er það, sem þessi hv. þm. er að álasa ríkisstj. fyrir? Vill hv. 6. landsk. tala um það, svo að einhver skilji? Hvað er það í sambandi við raforkumálin, sem hann vill fella niður? Er það framlagið til raforkusjóðs eða framlög til rafveitna? — Þá er 17. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að veittar verði til félagsmála 38 millj. kr. Hvað vill hv. 6. landsk. þm. viðkomandi almannatryggingunum? Ekki einn eyrir er greiddur til þeirra utan laga. Og Alþfl. hefur af engu meira hrósað sér en því að hafa átt frumkvæðið að því að koma á þeirri löggjöf. Á að skerða lögákveðið framlag til almannatrygginganna? Eða til sjúkrasamlaganna? — Og hvað um 18. gr. frv.? Á að hætta að borga eftirlaun. Hv. 6. landsk. getur náttúrlega talað um að lækka nokkra pósta þar. En hvar væri sú verulega lækkun, sem hægt væri að koma fram á þeirri gr.? Á að lækka eftirlaun þar, sem að mestu leyti eru lögboðin? Og hefur Alþfl. ekki gortað af því, að þau væru eins og þau eru? Þá eigum við ekkert eftir af fjárlagafrv. nema 20. gr., þ.e. framlög til fyrninga og afborganir af skuldum ríkisins. Og hvað á að skera niður þar? — Eða á að skera niður eitthvað alþingiskostnaðinn? Vill þessi hv. þm. segja, hvað hann vill spara, svo að við starfsbræður hans á þingi vitum, hvað það er? — Og þá er stjórnarráðið með þessa mörgu fulltrúa, sem hv. 6. landsk. þm. talaði um, og utanríkisþjónustan. Það er á frv. gert ráð fyrir 4–5 millj. kr. til stjórnarráðsins og litlu meiru til utanríkisþjónustunnar. En jafnvel þó að það væri allt fellt niður, sem á að fara til stjórnarráðsins og utanríkisþjónustunnar, og landið væri látið vera stjórnlaust og utanríkisþjónustulaust, þá væru með því sparaðar aðeins 10 millj. kr., eða ekki nema um einn níundi hluti af söluskattinum, sem hv. þm. vill láta fella niður.

Af þessu, sem ég hef sagt, sést, að það er engin vitglóra í ræðu hv. 6. landsk. þm. Og ég undrast mjög slíkt tal eins og það, sem hann hefur haft í frammi í sambandi við þetta mál hér í umr. Ég er ekki hissa á því, þó að hv. 5. landsk. þm. talaði hér fyrir helgina í svipuðum dúr. En ég er hissa á því, að fulltrúar Alþfl. skuli tala eins og hv. 6. landsk. þm. talaði hér áðan, því að það verður að ætlast til meira af þeim en af kommúnistunum.

Ég upplýsti fyrir helgina, að því fer fjarri, að þær hugmyndir, sem stjórnarandstaðan er hér með um greiðsluafgang hjá ríkinu, hafi við raunveruleika að styðjast. Það verður verulegur greiðsluafgangur á þessu yfirstandandi ári, en hann getur ekki orðið neitt nálægt 100 millj. kr., því að útgjöldin hljóta að fara stórlega fram úr áætlun frá því, sem ráð var fyrir gert. Og ef við tökum aðeins launaútgjöldin ein, þá hefur orðið stórfelld launahækkun til opinberra starfsmanna nú á miðju þessu ári, og fjöldamargir aðrir liðir hafa hækkað á árinu, svo sem jarðræktarstyrkurinn, útgjöld til sauðfjárskiptanna og til trygginganna o.s.frv., o.s.frv. Þetta mun skipta milljónatugum. — Ég skal taka fram í sambandi við greiðsluafgang ríkissjóðs á þessu ári, að ríkisstj. mun, áður en þinginu lýkur, leggja fram frv. um ráðstöfun tekjuafgangsins, a.m.k. þess hluta hans, sem ekki fer í alveg óhjákvæmilegar umframgreiðslur og ekki verður ráðstafað sjálfkrafa til þess að greiða skuldir ríkissjóðs, þannig að ríkisstj. mun ekki taka sig til — enda hefur því verið yfir lýst í þinginu margoft — að ráðstafa þessum greiðsluafgangi upp á sitt eindæmi. Allt þetta skraf hv. stjórnarandstöðu um það, að ríkisstj. sölsi undir sig af ríkisfé og ráðstafi utan fjárlaga upp á sitt eindæmi, er því úr lausu lofti gripið. Og ég er viss um, að þegar til þess kemur að ráðstafa þessum greiðsluafgangi, mun mönnum ekki þykja hann vera of mikill, heldur of lítill. Og við hefðum enga leið séð út úr vandræðunum nú, ef við hefðum ekki haft þennan greiðsluafgang til ráðstöfunar. Það skýrist nánar, þegar lengra dregur í meðferð þessara mála.

Hv. 6. landsk. þm. sagði, að núverandi ríkisstj. vildi halda niðri verklegum framkvæmdum. Þetta er eins og annað hjá honum algerlega úr lausu lofti gripið. Það verða nú meiri verklegar framkvæmdir í landinu en nokkurn tíma í sögu þess fyrr, bæði fyrir það, sem greitt er úr ríkissjóði beint, og fyrir það fé, sem kemur frá Marshallhjálpinni og úr mótvirðissjóði. En ef ekki hefði verið haldið þannig á málum ríkisins, að það hefði orðið nokkur greiðsluafgangur nú, þá hefði reynslan orðið sú, að mótvirðissjóðurinn hefði verið læstur og ekki fengizt fé úr honum til þess að standa undir. verklegum framkvæmdum. Það er þess vegna sú pólitík, sem ríkið hefur rekið, að hafa greiðsluafgang ár eftir ár, sem hefur orðið til þess, að við höfum getað haldið uppi stórframkvæmdum, sem í landinu hafa verið. Ef þetta hefði ekki verið fyrir hendi, þá hefði verið komið nú í landinu stórkostlegt atvinnuleysi og samdráttur í öllum framkvæmdum, vegna þess að undirstaða þess, að hægt sé að halda svo miklum verklegum framkvæmdum uppi, er sú, að hæfilegt fé sé tekið með sköttum og tollum og ráðstafað til þessara gífurlegu framkvæmda, og líka höfð gát á því, að það verði ekki látið fara í almenna eyðslu, þannig að framkvæmdirnar verði látnar sitja á hakanum og stöðvast.

Um till. hv. minni hluta n. er það aðeins að segja, að þær eru fullkomin fjarstæða. Í fyrsta lagi er ekki hægt að ráðstafa 94 millj. kr. af fjármunum þessa árs, sem væru þeir greiðsluafgangur ríkissjóðs, því að það verður ekki til ráðstöfunar neitt líkt því svo mikið af greiðsluafgangi þessa árs og ekki nándar nærri því. — Og varðandi það að fella niður söluskattinn fyrir næsta ár, er það að segja, að það nær engri átt, vegna þess að eins og nú horfir, er ekki unnt fyrir Alþ. afgr. fjárl. með þeim viðbótum, sem væntanlega koma við gjaldahlið þess við þessa umr. og 3. umr. þess, með öðru móti en að samþ. þá skatta og tolla, sem nú gilda. Vöruinnflutningurinn verður minni á næsta ári en hann hefur orðið eða verður á þessu ári, sem er að liða. Það verður ekki gert nema á þessu ári með þeirri hjálp, sem við höfum fengið, að hafa innflutninginn eins og hann hefur verið á þessu ári. Og vegna hins mikla innflutnings á þessu ári hafa fengizt miklar aukatekjur, og greiðsluafgangur hefur orðið verulegur þess vegna. Ef þetta hefði ekki verið, þá hefðum við að vísu sloppið nokkurn veginn með afkomu ríkisrekstrarins hallalaust, en engan greiðsluafgang haft. Þess vegna getum við ekki treyst á, að þetta verði svona á næsta ári með greiðsluafgang ríkissjóðs. Og það versta, sem fyrir okkur gæti komið, er, ef við misstum þetta úr böndunum og aftur yrði stórkostlegur greiðsluhalli á ríkissjóði. Það mundi verka þannig, að framkvæmdir yrðu að dragast stórkostlega saman frá því, sem þær eru og þurfa að vera.

Ég skal svo láta þetta nægja að mestu, en vil þó aðeins minnast á eitt dæmi, sem hv. 6. landsk. þm. tók, sem sé um Kvíabryggju. Um það atriði fannst mér ræða hans vera nokkuð undarleg. Hann bölsótaðist yfir því, að ekki hefur verið greitt til hælisins eða dvalarheimilisins á Kvíabryggju fyrir þetta ár. En gert var ráð fyrir, að þetta hæli yrði rekið á þessu ári, en það varð ekki, og við það sparast fé til þess á þessu ári. Rn. gerir ráð fyrir, að þetta hæli komist á fót á næsta ári, og þá er eðlilegt, að fjárveiting verði samþ. til þess fyrir næsta ár. Um stofnun þessa hælis er það að segja, að Reykjavíkurbær leggur til stofnkostnað þess gegn því, að ríkið reki hælið. Nú er ríkinu skylt að reka hæli fyrir þá menn, sem gert er ráð fyrir, að á þetta hæli komi, og Reykjavíkurbæ er ekki skylt að leggja stofnkostnaðinn fram. En til þess að ýta undir framkvæmd málsins hefur Reykjavíkurbær boðizt til þess að leggja stofnkostnaðinn fram með þessum skilyrðum. Sýnist mér ekki ástæða til að finna að því, að Reykjavíkurbær skyldi gera þetta. Að öðru leyti hef ég engin afskipti haft af þessu máli, því að það heyrir ekki undir fjmrn., og er það dómsmrn., sem að því stendur og hefur í samráði við alla ríkisstj. staðið að því að fá þessa fjárveitingu.