03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. Ég á hér ásamt hv. 10. landsk. þm. brtt., sem er VI. liður á þskj. 315, við 15. gr. A. VIII. 4, þar sem farið er fram á, að styrkur til amtsbókasafnsins á Seyðisfirði verði hækkaður úr 6250 kr. í 10 þús. kr. Amtsbókasafnið á Seyðisfirði hefur undanfarin ár fengið þennan sama styrk eins og er tekinn upp á fjárlagafrv. En eins og öllum er kunnugt, hefur allur kostnaður við bókasöfn hækkað stórkostlega á síðustu tímum. Það, sem sérstaklega háir því, að bókasafn þetta geti komið að fullum notum, — en þetta er amtsbókasafn í Austfirðingafjórðungi, — er, að allt of lítið fé hefur verið til þess að binda inn blöð og bækur, sem safnið hefur aflað sér og því borizt. En bókband hefur nokkuð hækkað síðustu árin. Þó að bókasafnið komi aðallega að notum fyrir Seyðisfjörð, þá er þetta aðalbókasafnið í fjórðungnum og allmikið notað af íbúum Austfjarða yfirleitt, sérstaklega þeim, sem leggja stund á íslenzk fræði þar heima í fjórðungnum. Seyðisfjarðarkaupstaður hefur eftir getu reynt að leggja safninu til tillög. Og á þessu ári nemur framlag Seyðisfjarðarkaupstaðar til safnsins 18 þús. kr. Ef mannfjöldinn þarna er borinn saman við mannfjölda hér í Reykjavík og hins vegar þessi upphæð, sem ég nefndi, við upphæðir, sem mér er sagt, að bæjarbókasafnið hér í Reykjavík njóti frá bænum, þá kemur það fram, að á hvert mannsbarn á Seyðisfirði er greitt til bókasafnsins þar fjórfalt á við það, sem kemur á mann hér í Reykjavík til bókasafnsins hér. En þar sem amtsbókasafnið á Seyðisfirði er ekki aðeins eign Seyðfirðinga, eins og ég áður tók fram, heldur Austfirðingafjórðungs, og notað allmikið af öðrum en Seyðfirðingum, þá finnst mér ekki nema sanngjarnt, að það sé styrkt af ríkissjóði, eins og gert hefur verið, og er upphæðin, sem hér er farið fram á, sáralítil, miðað við þann kostnaðarauka, sem orðið hefur við rekstur safnsins. - Ég vona því, að hv. þm. sjái sér fært að greiða atkv. með þessari smávægilegu brtt.