03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég hef á þskj. 308 leyft mér að bera fram nokkrar brtt., tvær af þeim snerta Hafnarfjörð og verklegar framkvæmdir, sem þar er verið að gera, og aðrar tvær brtt. snerta það embætti, sem ég veiti forstöðu.

Fyrsta brtt. er við 12. gr. og er um 500 þús. kr. framlag til heilbrigðisstofnana í Hafnarfirði. Ég skal taka það fram, að undanfarin ár hefur verið í smíðum í Hafnarfirði stór bygging, sem á að gegna miklu hlutverki. Henni er ætlað að vera dvalarstaður fyrir aldraða, sjúkrahús, heilsuverndarstöð og fæðingardeild. Hús þetta er það stórt, að það mun vel geta rúmað þessa starfsemi, og 2 efstu hæðir hússins nær fullbúnar. Eftir er að ganga frá neðstu hæð og kjallara og fá húsbúnað, svo að hægt sé að taka til starfa. Áætlað er, að húsið kosti fullbúið 5 millj. kr., en þar af hafa nú þegar verið greiddar af Hafnarfjarðarbæ 3.6 millj. Nokkur hundruð þúsund munu standa ógreidd í skuld, og er enn eftir að fá 1.4 millj. til að fullgera húsið. Leitað hefur verið til lánsfjárstofnana með lán, en með takmörkuðum árangri. Nú er gefið mál, að ríkissjóði ber að greiða styrk til þess hluta, er jafngildir öðrum sams konar stofnunum, en það eru sjúkrahúsdeildin, heilsuverndar- og fæðingardeildin, en þessum þremur stofnunum er ætlaður helmingur hússins. Ég hef leyft mér að bera fram þá till., að til þessa verði veittar 500 þús. á þessa árs fjárlögum, og hygg ég, að þá mundi vera hægt að taka húsið í notkun að mjög verulegu leyti, þó ef til vill væri ekki hægt að ljúka við það. Hitt finnst mér mjög sorglegt, ef svo má að orði kveða, að húsið sé svo til fullbúið, en þó sé ekki hægt að taka það í notkun, vegna þess að herzlumuninn vantar. Treysti ég hv. Alþingi til þess að taka vel þessari till. minni og veita þá fyrirgreiðslu, er ég óska eftir.

Ég tók eftir því í ræðu hv. frsm. meiri hl. n., að nefndin hefur ekki enn gengið frá heilbrigðismálakafla frv., en mundi gera það fyrir 3. umr. Ef hv. n. eða frsm. vildi gefa mér eitthvert vilyrði fyrir því, að málíð verði tekið til athugunar, þá væri mér sama, þótt till. biði til atkvgr. við 3. umr., í því trausti, að fjvn. taki hana til athugunar, er 12. gr. verður athuguð.

Önnur till., sem er till. nr. 2 undir lið IV á sama þskj., fer fram á, að framlag til hafnargerðar í Hafnarfirði verði hækkað úr 220 þús. í 400 þús. Það stendur þannig á, að Hafnarfjarðarbær á hjá ríkissjóði hærri fjárupphæð en nokkur annar bær á landinu, eða 2 millj. kr.

Það liggur í hlutarins eðli, að fyrir lítið bæjarfélag er mikið að þurfa að leggja fram ríkishlutann í langan tíma. Hafnfirðingar hafa lagt mikið á sig til þess að koma höfninni á þennan rekspöl. Þeir hafa farið þá leið að taka með útsvörum sínum þennan þunga bagga og hafa þannig aflað á 3. hundrað þús. kr. í þessu skyni. Þrátt fyrir það hvíla á þessu miklar skuldir, því að kostnaður er í dag upp undir 10 millj. kr. Enginn bær á landinu á neitt líka upphæð hjá ríkissjóði; næst er Akureyri með 600 þús., sem er helmingi minna og vel það. Þegar þar við bætist, að Hafnarfjörður verður nauðugur, viljugur að leggja í aðrar fjárfrekar framkvæmdir, þá finnst mér ekki til of mikils mælzt, að eitthvert tillit sé tekið til þess, að bæjarbúar hafa sjálfir tekið á sig þyngri byrðar í þessu efni en dæmi eru til hér á landi — eða að minnsta kosti fá dæmi. Með hliðsjón af þessu öllu finnst mér að eigi að hækka framlagið úr 220 í 400 þús., og vænti ég, að þessari till. verði tekið vinsamlega.

Þá er það brtt. nr. 1 undir lið IV, við 13. gr., á sama þskj., sem er um rekstur vitamálanna. Hv. þm. Barð., frsm. meiri hl. n., komst svo að orði í sinni ræðu, að þeir, sem veittu opinberum stofnunum, forstöðu, væru lítið spenntir fyrir því að láta glugga í rekstur sinn eða draga úr fjárútlátum í sambandi við hann. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. hafi beint þessu til mín, því að ég hef jafnan reynt að draga úr fjárútlátum stofnunarinnar. Ég hygg, að þar sé ekki mikið um það, að menn séu yfirborgaðir eða á mörgum launum. Ég tek þetta aðeins fram til þess að undirstrika það, að þessar tvær till. eru ekki til þess að auka hlunnindi þess fólks, er þarna starfar, þó að þess væri þörf, eða kauphækkun, þó að ýmsir hafi minna en skyldi. Þessi till. byggist á því, að hækkað verði framlag til vitamálanna úr 550 þús. í 850 þús. kr., og er það vegna þess, að vitamálaskrifstofan hefur hug á að koma sér upp sanddæluskipi. Ég hef fengið dælu og litinn mótor á 130 þús. kr. Ég hafði fengið heimild til að kaupa þetta út á fjárveitingu þessa árs, en mér skilst af nál., að n. hafi fallizt á að greiða þetta umfram fjárveitinguna á þessu ári. Þessi fjárveiting er þó hvergi nærri nóg til þess að hafa svipaðan hátt á áhaldakaupum og rekstri og til þarf, því að hlutir þeir, er við þörfnumst, kosta of fjár. Ég hef fengið tilboð frá Englandi um notuð tæki, en að vísu nýuppgerð, sem eiga að kosta 100 þús. íslenzkra kr. þar á staðnum. Á þessu má sjá, að slík tæki eru tiltölulega dýr og engin von, að með þessum 550 þús. sé hægt að koma upp slíku skipi. Þau áhöld, sem við eigum, eru að tölunni til mörg, — það munu vera um 100 vélknúin tæki. Þau eru í láni yfir sumartímann úti um allt land og eru bæði orðin gömul og illa meðfarin, þar eð ýmsir menn nota þau, sem hugsa ekki alltaf um að fara sem bezt með þau. Viðhald þessara tækja kostar óskaplegt fé.

Þá vil ég að lokum minnast á brtt. við 15. gr., undir lið XII á sama þskj., sem er um að fjárveiting til sjómælinga verði hækkuð úr 175 í 250 þús. Þegar áætlun þessi var gerð fyrir mitt sumar samkv. ósk fjmrh., — hefði ef til vill verið hægt að komast af með þessa upphæð, en nú hefur allt hækkað í verði síðan, og deildarstjórinn, Pétur Sigurðsson sjóliðsforingi, telur, að það minnsta, sem hægt sé að komast af með, sé 250 þús. Það segir sig líka sjálft, að það er ekki mikið gert út fyrir þá upphæð. Mælingaskipin eru tvö, annað er 20 tonn, en hitt er minna, og eru þau bæði í gangi svo til allt sumarið, frá því að þau eru tekin út í maí og til septemberloka. Það getur því hver sagt sér það sjálfur, að það má halda vel á til þess, að þessi upphæð nægi, enda held ég, að það sé gert.

Sé ég ekki ástæðu til að ræða þessar till. meira, en þær eru allar þannig vaxnar, að það er brýn og knýjandi nauðsyn, að þær komist áfram, og tel ég, að það sé sanngirni að krefjast þess.