03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Sú eina brtt., sem ég hef flutt, er prentuð á þskj. 315, XII. Hún er flutt af okkur þm. Skagf. og er brtt. við 22. gr. fjárlaganna, heimildagreinina. Fjallar hún um það, að ríkisstj. verði heimilað að greiða Gunnlaugi Björnssyni eftirlaun, sem svarar 2/3 hlutum núverandi launa hans.

Gunnlaugur Björnsson hefur verið kennari um 20 ára skeið að Hólum í Hjaltadal. Hefur hann alla tíð verið aukakennari. Hann hefur setið að búi sínu á sumrum og starfað að búskapnum, en hefur verið við aukakennslu að Hólum á vetrum. Laun hans hafa alla tíð verið mjög lág, stundum svo lítil, að hv. þm. mundu varla trúa því. Líklegt er talið, að Gunnlaugur láti af störfum á næsta ári, sökum þess að heilsan er farin að bila. Ég tel sjálfsagt, að hann hljóti einhver eftirlaun. Það ætti því að geta orðið samkomulag um það, að eftirlaun hans verði miðuð við 2/3 hluta launa hans, og vænti ég þess, að hv. þm. skilji, hvað hér er um að ræða, og ljái málinu liðsinni sitt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta. Ef fjvn. vill athuga brtt. á milli umr., er ég fús til að taka hana aftur til 3. umr.

Aðrar brtt. er ég ekki við riðinn. Ég ætla ekki að fara að tala um afgreiðslu fjárlaganna almennt. Mér finnst hæstv. fjmrh. megi vel við una, eftir að ég hef hlýtt á málflutning minnihlutaflokkanna. Einkum virðast þessir flokkar setja út á það, að það skuli vera tekjuafgangur á fjárl. Það virðast þessir herrar ekki geta þolað. Það er engu líkara en þeir ætli að missa andlitin, af því að ríkissjóður eigi eftir nokkrar krónur að fjárhagsárinu loknu. — Eins og ég sagði, þá ætla ég ekki að ræða afgreiðslu fjárl., en vildi aðeins minna á þetta. Ég skal svo láta máli mínu lokið.