03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Andrés Eyjólfsson:

Það er nú hvort tveggja, að ég flyt ekki margar brtt. og svo sýnist mér ekki margir vera í salnum, svo að engin ástæða er að vera langorður.

Ég á tvær brtt. á þskj. 308, í V. tölulið.

Sú fyrri er við 14. gr. A. VII. um það, að veittar verði til kirkjubyggingar í Borgarnesi 50 þús. kr. - Það eru nú nokkuð mörg ár síðan töluverður áhugi vaknaði fyrir því í Borgarnesi að byggja kirkju í þorpinu, og má segja, að sá áhugi sé jafngamall því, og má til merkis um þennan áhuga geta þess, að einn af landnámsmönnunum þar, ef svo má að orði komast, gaf til þess aleigu sína, að kirkjan mætti komast upp. Hins vegar hefur þetta ekki enn komizt í framkvæmd og kirkjubyggingin orðið útundan. Árið 1944 voru veittar 15 þús. kr. til þessarar kirkjubyggingar á fjárlögum, en af byggingu gat ekki orðið í það skipti. Nú hafa Borgnesingar hins vegar sótt um fjárfestingarleyfi til kirkjubyggingar og hafa hugsað sér, að þar við gæti skapazt atvinna fyrir íbúa kauptúnsins. Þeir hafa mjög lengi aurað saman í sjóð til þessarar kirkjubyggingar, sem þeir stofnuðu fyrir 20 árum og hafa aukið síðan, en nú hafa gengisbreytingarlögin lækkað verðgildi hans, svo að hann nægir þar engan veginn til. Það væri því æskilegt og maklegt, að þeir fengju þennan styrk, sem þó mundi ekki gera meira en að vega upp á móti því, sem af þeim hefur verið tekið með gengisbreytingarlögunum. Ég vona því, að hv. alþm. sjái sér fært að fylgja þessari till.

Hin till. er um það að veita til Egilsgarðs á Borg á Mýrum 10 þús. kr. — Eins og allir vita, er Borg á Mýrum merkur sögustaður, sem full ástæða er til að sýna sóma. Áðan var hv. 1. þm. Eyf. að mæla fyrir minningarlundum um Jónas Hallgrímsson og Jón Arason, en mér finnst ekki síður ástæða til að hlynna að þessum stað, þar sem bjó eitt af merkustu skáldum, sem við höfum átt. Presturinn á Borg, Leó Júlíusson, hefur haft undirbúning við að fegra þennan garð og hefur girt hann og borgað úr eigin vasa, en það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að svo geti lengi gengið, og er þessi till. borin fram til þess að styrkja hann í þessu starfl. Að Borg koma margir gestir, innlendir og erlendir, sem koma þangað til þess að skoða staðinn, og það er þess vegna skömm fyrir þjóðina, ef þar er allt í rúst. Það þarf að sýna staðnum sóma, svo að hann sé ekki til skammar fyrir þjóðina.

Borgnesingar hafa stofnað Skallagrímsgarð og annazt hann af mikilli umhyggju, svo að þeim er stór sómi að. Eins vildi ég vona, að þessi fjárveiting gæti orðið til þess, að þessi staður, Borg á Mýrum, gæti í framtíðinni orðið til sóma fyrir landið og þjóðina í heild.