03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég á hér hlut að nokkrum brtt. á þskj. 308 og 315. Hv. 1. þm. Eyf. hefur gert grein fyrir nokkrum þessara brtt., sem snerta kjördæmi okkar, og aðrir munu gera grein fyrir öðrum þeim brtt., sem ég flyt. Ég vil aðeins víkja hér örfáum orðum að tveimur af þessum till. Till. nr. VIII á þskj. 308 ber ég fram með hv. 1. þm. Eyf., þess efnis, að veitt verði smávegis fjárhæð til tveggja bókasafna í Eyjafirði: Til bókasafnsins í Dalvík 1500 kr. og í Hrísey 1500 kr. Ég tel ekki þörf að eyða löngum tíma í að útskýra þessar till. Þær eru mjög einfaldar. Á 15. gr. eru lítils háttar fjárveitingar til mjög margra bókasafna, mismunandi háar að vísu. Fer það að nokkru eftir eðli bókasafnsins, hvort um amtsbókasafn er að ræða eða það er fyrir minni svæði. En þær upphæðir, sem við leggjum til að veita til þessara tveggja bókasafna, eru mjög sambærilegar við upphæðir á fjárl. til ýmissa safna, sem mjög er svipað ástatt um. Ég vil alveg sérstaklega geta þess, að menn urðu fyrir óhappi fyrir nokkru í Hrísey, þar sem eyðilagðist mikill hluti bókanna af sóttvarnarástæðum, Ég býst ekki við, að legið hafi formleg beiðni um þetta fyrir fjvn., en vænti þess, að hún fyrir sitt leyti verði þessu samþykk svo og aðrir hv. þm., enda er hér um mjög smávægilegar fjárhæðir að ræða.

Áður en ég lýk máli mínu langar mig til að víkja örfáum orðum að fjárlfrv. að því er snertir mitt kjördæmi. Um vegamálin vil ég aðeins ítreka það, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði í sinni ræðu. Hann benti á, að ekki væri einhlítt að horfa á það eitt, að taldir væru sæmilegir vegir í þessu kjördæmi, heldur yrði að horfa á vegaþörfina á hverjum stað. Sérstaklega er eitt atriði í sambandi við vegamál Eyfirðinga, sem hv. fjvn. taldi ekki fært að taka upp, endurnýjun á Eyjafjarðarbraut. Það mun hafa verið viðhorf fjvn. að greiða þetta sem viðhald, en vegamálastjóri ekki verið þeirrar skoðunar, enda um að ræða algera nýsmiði á stórum pörtum.

Þá hefur verið lögð á það áherzla af okkur, þm. þessa kjördæmis, að mjög miklu máli skipti að framkvæma viðgerð á hafnargarðinum á Dalvík, sem varð fyrir miklum skemmdum af ofviðri. Er talið fullvíst, að skemmdin hafi orsakazt af galla í smíði þessa mannvirkis. Það hefur verið lögð mikil áherzla á og við teljum rétt, að ríkið greiði þann kostnað að öllu leyti, sem af þessari viðgerð leiðir. Mér þætti gott, ef hv. formaður fjvn. vildi upplýsa hér síðar, hvert viðhorf n. hafi verið til þessa atriðis sérstaklega, vegna þess að það er ekki um annað að ræða en gera einhverjar ráðstafanir til þess að fá viðgerð til vegar komið. Ef það er skoðun fjvn., að ekki sé hægt að taka þetta upp, verður að fara einhverja aðra leið til að leysa þetta mikla vandamál. Þarna er stórt útgerðarpláss, sem hefur orðið fyrir miklu áfalli. Endurbót kostar mikið fé, og eru miklir erfiðleikar á að standa undir þeim kostnaði heima fyrir, enda lítil sanngirni, ef það sýnir sig, að umræddar skemmdir hafa orðið vegna þess, að ekki var frá garðinum gengið sem skyldi.

Þó að ekki sé borin fram formleg brtt. frá okkur þm. Eyf. við fjárlfrv. varðandi Ólafsfjarðarhöfn, þá er það svo, að vitamálastjóri telur, að annaðhvort verði að ljúka henni á næsta ári eða ekkert er þar hægt að gera, því að þar er framkvæmdum þann veg háttað, að gert er ráð fyrir að setja niður ker, og þessar framkvæmdir eru komnar á það stig, að það verður annaðhvort að ljúka verkinu að öllu leyti eða það notast ekki. Það er mikil hætta á, að útgerð torveldist þar mjög og útgerðarmenn fari burt, ef ekki er hægt innan mjög skamms tíma að skapa skilyrði þar. Nú veit ég, að fjvn. hefur erfiða aðstöðu að ljá þessu máli þann stuðning, sem er nauðsynlegur, enda þótt fullur vilji sé, vegna þess að það er takmörkuð fjárveiting, sem hún hefur til ráðstöfunar í þessu skyni. En þetta er samt mál, sem er mjög aðkallandi að reynt verði að leysa í allra nánustu framtíð.

Ég ætla ekki að eyða frekari orðum að þessu, en vænti þess, að hv. þm. taki vinsamlega till. þeim, sem ég hef hér skýrt frá.