03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér fyrst að þakka hv. fjvn. fyrir þá till., sem hún flytur og snertir Laugarvatnsskólann.

Hv. samþm. minn og ég sendum n. erindi viðvíkjandi fjárhagslegum stuðningi til handa skólanum. Hann hefur um nokkur ár haldið uppi menntaskólakennslu. Er sú kennsla komin í fast horf, og hefur skólinn aflað sér kennslukrafta með það fyrir augum að halda því starfl áfram, og er það vel farið. Ég vil því tjá hv. n. bezta þakklæti fyrir hennar skilning á málinu.

Þá hef ég leyft mér að flytja ásamt hv. samþm. mínum tvær till., sem snerta Þorlákshöfn. Vitamálastjóri mun hafa lagt til í till. sínum, að til hafnarinnar væri varið næsta ár 400 þús. kr. N. hefur ekki getað orðið við þessum tilmælum, og skil ég mætavel afstöðu hennar. Þörfin til þessa fjárhagslega stuðnings er mikil og í miklu stærri stíl en þeir fjármunir, sem ætlaðir eru í þessu skyni á fjárlfrv., svo að n. hefur haft þarna úr vöndu að ráða. Er vafalaust ekki auðvelt að skipta þessu fé svo, að einhverjum þyki ekki sinn hlutur fyrir borð borinn. Ég vil því á engan hátt finna að því við n., að hún tók ekki meira upp í till. sínar gagnvart byggingu þessarar hafnar, hvað sem ætla mætti um þessa skiptingu n. borið saman við nauðsyn hinna ýmsu hafnarstaða. Hins vegar er þörf á þessu mannvirki á þessum stað ákaflega brýn. Vil ég leyfa mér með örfáum orðum að minna á helztu atriðin. Mér er persónulega kunnugt, að bæði formaður n. og fleiri í n. og menn úr héruðum austanfjalls hafa sýnt fullan skilning á nauðsyn þessara hafnarbóta, svo að það er ekki skilningsskorti til að dreifa, heldur skortir fjárhagslega getu. En eins og ég sagði, er þörfin mjög brýn. Og ég vildi mega vænta þess, að einhverra úrræða væri hægt að leita, þannig að á næsta ári verði hægt að leysa það verkefni af hendi, sem hafnarnefnd telur óhjákvæmilegast, en það er að lengja bryggjuna um 60 meira, að sett verði niður 4 ker á næsta sumri, en tvö eru nú þegar steypt og tilbúin. Meining hafnarnefndar er að steypa tvö í viðbót og koma þeim fyrir á næsta sumri. En þessar framkvæmdir, að steypa tvö ker í viðbót og koma þeim fyrir, er áætlað hjá vitamálastjóra að kosti 21/2 millj. kr. Og það eru náttúrlega meiri fjármunir en sýslurnar, sem að hafnargerðinni standa, hafa ráð á. Samkv. till. n. eru þarna ætlaðar um 220 þús. kr. En þó að það væru 400 þús. kr., eins og vitamálastjóri lagði til, þá vantar samt mjög mikið á, að það nægi til að koma slíku verki fram. En það má segja, að hver viðbót við það, sem hér er lagt til af hálfu n., geri meiri líkur til þess, að hægt sé að koma verkinu áfram. Búið er að ver ja til þessa mannvirkis nær 4 millj. kr. Það stendur upp á ríkið að greiða nær 400 þús. kr., svo að ég nefni þetta í stærri tölum, án þess að fara nánar út í það. Hafnurgerðin hefur lagt til vegagerðarinnar liðugt hálft þriðja hundrað þús. kr. Hv. samþm. minn og ég höfum flutt till. um það, að sú vegagerð, sem framkvæmd hefur verið í þágu hafnarinnar, verði endurgreidd til hafnarinnar. Ef maður mætti vona, að slíkt yrði samþ. og það greitt, sem á skortir, að ríkið greiði sem því ber til hafnarinnar, kæmi þarna nokkurt fé, og eru þá meiri líkur til, ef nokkur viðbót fengist, að hægt væri að öngla saman til þessa mannvirkis, svo að fært yrði að framkvæma það, sem hafnarnefnd hefur hugsað sér á komandi sumri. Og það væri afskaplega mikils virði.

Eins og kunnugt er, þurfa héruðin austanfjalls að flytja sínar þungavörur nær allar frá Reykjavík, með þeim mikla kostnaði, sem því nú fylgir. Veldur þetta mikilli dýrtíð og erfiðleikum. Ef hægt yrði að lengja bryggjuna eins og hér er gert ráð fyrir, mundu skip af þeirri stærð, sem við eigum yfir að ráða, geta athafnað sig við þessa bryggju fullgerða. En auk þess sem þetta er mikilvægt, er þó annað atriði, sem þarna er til að dreifa, og það er útgerðin. Núna er ekki rúm fyrir meira en eins og 4–5 báta. Eru þarna 4 bátar, stærð 20–30 tonn. Það hafa verið fleiri bátar þarna, en er talið of áhættusamt. Lengist nú bryggjan um 60 metra, er talið, að öruggt lægi verði fyrir 10 báta. Það er því mikilvægur áfangi á þessu mannvirki. Fiskimið á þessum stöðvum þessi árin hafa gefizt ágætlega, og eru vonir til þess, að framvegis verði eitthvað í átt við það, sem var. En eins og kunnugt er, voru þar þekktustu og beztu fiskimið við strendur þessa lands. Þegar nú búið er að koma áðurnefndum framkvæmdum í horf, mætti ætla, að þær yrðu þessu fyrirtæki stórkostlegur styrkur upp á framhaldandi framkvæmdir. Þá mundi hafnarsjóður fara að fá tekjur miklar af flutningum og afgreiðslu skipa. Og með aukinni útgerð mundu tekjur hafnarsjóðs stórkostlega aukast. Með þeim framkvæmdum, sem nú hafa verið nefndar, er náttúrlega hvergi nærri náð því marki, sem sett er með hafnargerðinni, því að þetta mannvirki er áætlað að kosti fullgert um 30–40 millj. kr., miðað við þær aðstæður, sem nú eru. En slík fyrirgreiðsla sem þessi mundi tryggja áframhaldandi byggingu mannvirkja og greiða stórkostlega fyrir því, að þau yrðu unnin á ekki mjög löngum tíma. Nokkuð langan tíma hlýtur þetta þó alltaf að taka. En ég hef áður víkið að því, hvert öryggi fullkomin höfn er á þessum stað fyrir verstöðvarnar þarna í grennd, en vitaskuld getur slíkt ekki orðið svo að viðhlítandi sé fyrir mikinn bátaflota fyrr en hafnargerðin er lengra á veg komin. Nú vil ég vona, að þessi staður njóti þess, að hvergi er höfn, þegar Reykjanesi sleppir, fyrr en austur á Hornafirði, með allri þessari strandlengju og ekkert afdrep, sem talizt geti örugg höfn, sem fiskiflotinn geti leitað til. Ég vil því mega vænta þess, að hv. fjvn. og aðrir þm. og þá hæstv. ríkisstj. verði okkur þm. héraðanna austur frá sú hjálp í þessu efni að greiða enn betur fyrir því, að hægt verði að ná því marki á næsta sumri, sem hafnarnefnd hefur ætlað sér. Fjölyrði ég svo ekki um þessi atriði frekar.

Hv. samþm. minn gerði grein fyrir till., sem ég flutti ásamt honum og hv. 5. þm. Reykv. um byggingu Austurvegar. Ég tek undir þær röksemdir, sem hann lagði fram, og skal ekki fara fleiri orðum um það. Reynslan verður að skera hér úr sem annars staðar, hvort þessi vegur verður alltaf fær, en hitt er vist, að hann verður miklu lengur fær en vegurinn eftir Hellisheiði. Það er skemmra að fara austur Svínahraun og Þrengsli. Hvað er fullnægjandi lausn, er vitanlega ekki hægt að segja fyrir fram, jafnvel ekki um neina leið austur yfir fjallið.

Ég vil svo vænta hins bezta um meðferð þessara mála. Þau eru borin fram af fullri nauðsyn, en ekki af neinni fordild.