03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 321 tvær brtt., nr. II og III. Sú fyrri er brtt. við brtt. meiri hl. fjvn., um framlag til hafnarinnar á Siglufirði, en ég legg til, að framlagið verði hækkað úr 100 þús. kr. upp í 220 þús. Það er verið að vinna að því að byggja höfn innan við Siglufjörð, við Siglufjarðareyri. Þetta verk er þegar hafið, og búið er að byggja þil úr stálskúffum, en þessu mannvirki er mjög hætt, ef ekki verður unnt að halda verkinu áfram, en það er nú þegar komið upp á nokkur hundruð þús. kr. Ég vænti þess, að þetta mál njóti skilnings hjá hv. þm. og þeir minnist þess, að þótt lítil síld hafi verið á miðunum og sérstaklega miðunum fyrir miðju Norðurlandi undanfarin sumur, þá er ástæða til að ætla, að hún komi á þau aftur, en höfnin á Siglufirði er mjög illa sett með síldarsöltun, ef síldin veiðist í nokkrum mæli. Þetta er því þýðingarmikið mál, ef síldin kemur aftur á miðsvæðið, en líkur eru til, að hún hafi verið töluvert mikið á því í sumar, þótt hún hafi ekki veiðzt vegna gæftaleysis nema lítið, og yrði þá illt, ef ekki yrði hægt að hagnýta þá síld, vegna þess að ekki hefði verið hlúð að þessum framkvæmdum, en söltunin hlyti að verða minni, ef þessi höfn inn af Siglufirði yrði ekki orðin nothæf. Höfnin á Siglufirði er ekki örugg, en hún stendur opin fyrir sunnanátt, og hefur ekkert mátt bregða út af með veður, svo að ekki væri hún mjög slæm, a.m.k. fyrir stór skip, en þetta mundi breytast mjög til batnaðar, ef þessi innri höfn kæmist upp. Ég vænti þess fastlega, að þessi till. mín njóti skilnings og Siglufirði verði gert jafnhátt undir höfði og flestum öðrum kaupstöðum landsins í þessu efni.

Önnur breytingartillaga mín á þingskjall 321 er um það að veita til flóðvarnargarðs á Siglufjarðareyri 100 þúsund kr. gegn jafnháu framlagi annars staðar að. Það hefur verið þarna flóðgarður um fjölda ára og er alveg nauðsynlegur, til þess að hægt sé að verja eyrina fyrir sjógangi. Þessi garður brotnaði illa í desember í fyrra. Það brotnuðu í hann stór skörð og flæddi suður yfir eyrina, svo að allt miðstykkið lá undir vatni í nærri tvo daga, og hlutust af því stórkostlegar skemmdir á fasteignum. Komst flóðið m.a. í stóra geymslu, sem ríkisverksmiðjurnar áttu, og ef þar hefði verið geymt mjöl þá; hefði tjónið numið hundruðum þús. kr. Það þarf væntanlega ekki mikið fé til að fylla upp í skörðin, en sjálfsagt og rétt að fyrirbyggja, að þessi flóð geti skollið yfir. Framkvæmdum mundi þá sennilega verða hagað þannig, að þessi kafli, sem byggður yrði, yrði hafður sem undirstaða undir nýjan garð, sem yrði öflugri en sá gamli, enda var byrjað á slíkum garði á sínum tíma. Till. er nú uppi um það að setja stórgrýti, 1–2 tonna björg, framan við garðinn, og mundi það verka eins og öldubrjótur og hindra, að óbrotnar og þungar öldur féllu á garðinn. Það er mjög aðkallandi mál að fylla upp í þessi skörð, og er það ekki aðeins Siglufjarðarbær, sem þarna á hagsmuna að gæta, heldur og ríkið, þar sem flóð gætu valdið gífurlegu tjóni, ef þau kæmust inn í verksmiðjugeymslurnar. Ég vænti þess, að hv. þm. veiti þessu máli stuðning sinn, og vil ég benda á, að Siglufjarðarbær hefur á engan hátt viljað skorast undan því að leggja fram fé til þessara framkvæmda og ætlar sér að leggja fram til jafns við ríkið, svo að hægt verði að gera það nauðsynlegasta, sem þarf að gera í þessu máli, svo að ekki komi til stórtjóna af völdum sjávarflóða.