03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég á hér eina litla till. á þskj. 315, undir VII. lið á því þskj., og er hún varðandi fjárveitingu til leiklistarstarfseminnar utan Reykjavíkur. Við afgreiðslu fjárl. á síðasta þingi flutti ég svipaða till., sem var þeim annmarka háð, eftir því sem mér skildist á hv. þm., að styrkurinn var bundinn við nokkra kaupstaði. Það var sagt, að þetta hefði orðið henni til tjóns og að henni hefði verið sigur vís, ef aukastyrkurinn hefði átt að ganga til allra sveitarfélaga, hvar sem væri á landinu, utan Reykjavíkur. Man ég, að hæstv. fjmrh. hafði svipuð orð við mig um þetta mál. Nú hef ég fitjað upp á þessu máli að nýju, og geri ég það vegna þess, að leiklistarstarfsemin utan Reykjavíkur er meiri annmörkum bundin en í höfuðstaðnum, en á hinn bóginn er hún skemmtun, sem bæði ungir og gamlir njóta vel, og á því erindi til allrar alþýðu, og er það meira en hægt er að segja um allar skemmtanir, sem haldnar eru. Styrkur, sem ætlaður er í þessu skyni utan Reykjavíkur, er á fjárl. þeim, sem nú liggja fyrir, broslega lítill, miðað við þessa tíma. Þar eru leikfélögunum á Ísafirði, Sauðárkróki, Vestmannaeyjum og Siglufirði ætlaðar 2250 krónur hverju. Þetta er lítil fjárhæð, miðað við þann tilkostnað, sem menn verða að hafa, jafnvel þótt útbúnaður allur sé ekki fullkominn, en kröfur fólksins til leiklistarinnar fara nú vaxandi og ekki sízt fyrir það, að ríkið kostar dýrt nýtízku leikhús í höfuðstaðnum, sem margir hafa að minnsta kosti frétt af og koma í og skoða, sem eiga heima úti á landi. Með tilliti til þessa hef ég leyft mér að leggja til, að tekinn verði inn á fjárl. þessa árs aukastyrkur til þess að örva leiklistarstarfsemi utan Reykjavíkur, að upphæð 100 þús. kr., að hæstv. menntmrh. úthluti styrknum og að hann miðist við tölu leiksýninga á árinu 1952 á hverjum stað. Ég hef ekki getað fengið annan betri mælíkvarða en þetta og ætlast til, eins og ræður af líkum af orðalaginu, að þetta gildi leiksýningar, sem haldið er uppi, hvort heldur það er í smáum kauptúnum, sveitum eða stærri kaupstöðum. Þetta gæti orðið dálítil uppbót á þann mjög svo litla styrk, sem þessum félögum er ætlaður í fjárl. En ég vildi aðeins mæla þessi orð til skýringar þessari brtt. og minna á, að ég hóf máls á þessu á síðasta þingi á dálítið þrengra sviði og þá að vísu með lægri upphæð. En eftir undirtektunum þá, þá virðist mér, að þessi till. ætti að geta fengið samþykki hér á Alþingi í þetta sinn, eins og hún kemur mönnum fyrir sjónir.