03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja örfáar setningar út af því, sem hv. frsm. meiri hl. n. minntist á. Hann ræddi um, að ungur embættismaður, sem hefði nýlega verið ráðinn til ríkisstofnunar, hafi þar gert ráðstafanir til þess að hækka kostnaðinn við stofnunina, sem hann veitir forstöðu, það hafi verið gert að ófyrirsynju og hinn nýi embættismaður hafi gengið út af götu dyggðarinnar með því að beita sér fyrir þessu. Ég tel mér skylt að láta í ljós skoðun mína á þessu, því að ég skipaði þennan starfsmann og samþ. till. hans.

Það er upphaf þessa máls, að þessi embættismaður, sem er einstakur fyrirmyndarmaður og sérstakt happ er fyrir ríkið að hafa í þjónustu sinni, gerði till. um að hækka laun nokkurra starfsmanna, sem vinna hjá stofnuninni á óbreyttum launum frá því, sem verið hefur. Vildi hann færa þá í aðra launaflokka. Hann gerði till. til fjmrn., og voru þær gaumgæfilega athugaðar. Okkur fannst till. hans fullkomlega sanngjarnar samanborið við launagreiðslur annars staðar og launagreiðslur í þessari stofnun hafi verið í ósamræmi við launagreiðslur í sambærilegum stofnunum. Hér er ekki um frávik að ræða frá launalögunum, því að í launalögum er gert ráð fyrir þessum starfsmannahópum, því að þar var gert ráð fyrir, að ritarar væru einn, tveir eða fleiri og sömuleiðis fulltrúar. Í raun og veru var gert ráð fyrir þeim tegundum starfsmanna í þessari stofnun, sem úrskurðaðar voru með þessari breytingu. Aðeins í einu atriði er um frávík að ræða frá launalögunum. Maður, sem unnið hafði þar lengi skrifstofustjórastarf og hafði verið skrifstofustjóri að starfi, en nefndur fulltrúi og launaður sem fulltrúi, var gerður að skrifstofustjóra og flokkaður í skrifstofustjóralaun. En í launalögunum er ekki gert ráð fyrir skrifstofustjóra í þessari stofnun. Ég játa, að þarna var um frávik frá launalögunum að ræða. En sams konar frávik hefur verið gert af öðrum en mér og öðrum en forstöðumanni þessarar stofnunar. Er í þessu tilfelli um fullkomna sanngirni að ræða, miðað við þau kjör, sem voru þar áður. — Þetta vildi ég taka fram út af því, sem hv. þm. sagði um þetta atriði. Að öðru leyti mun ég ekki blanda mér frekar en orðið er í þessar umr.