03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Frsm. 2. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Hv. þm. Barð. helgaði mér mikinn hluta ræðu sinnar hér í kvöld. Ég vil ekki láta því ómótmælt, sem hann sagði, að ég hefði misnotað skjöl fjvn. Ég mótmæli því, að hann einn hafi þessi skjöl til umráða, og mun ekki spyrja hann leyfis, þó að ég noti þau, allir nm. og þm. eiga að hafa aðgang að þeim. En því miður eru aðstæðurnar óviðunandi. Herbergi fjvn. er vinnustofa form., og er ekki um það að sakast, en af þeim ástæðum er erfitt að vinna þar fyrir aðra og kanna þau skjöl, sem n. berast. —- Þá vildi hann halda því fram, að ég hefði farið rangt með tölur úr tveimur skjölum. Ég mótmæli því. Í upplýsingum Búnaðarfélags Íslands stendur, að til búnaðarfræðslu, mest vegna bókaútgáfu, sé varið 240 þús. kr. og svo halli á Frey 30 þús. kr. Ég held, að þessu verði ekki hnekkt.

Þá sagði hann einnig, að ég hefði falsað tölur varðandi kostnaðinn við utanríkisþjónustuna. Ég held, að hver læs maður mundi lesa þetta á sama hátt og ég. Í sérstökum dálki eru talin grunnlaun, í öðrum dálki eru svo talin laun, þ.e.a.s. grunnlaun + uppbót og í þriðja dálkinum er svo staðaruppbót. Ég held því, að ég geti verið ánægður með það, að ef plöggin væru birt, mundu allir læsir Íslendingar lesa þetta á sama hátt og ég, og ég hygg, að flestir mundu einnig skilja það eins. Ef skilja á þetta á annan veg, þá er uppstillingin svo klaufaleg hjá rn:, að þetta mundi almennt verða misskilið. Það hefur komið fyrir, að lesnar hafa verið hér tölur upp úr opinberum plöggum, en svo upplýstst, að um prentvillu var að ræða, svo að 36 millj. kr. bar á milli. Vissulega var rétt lesið, en upplýsingunum var ekki hægt að treysta.

Að segja, að ég hafi logið varðandi þessar tölur, er alveg út í hött, því að þessu er þannig stillt upp, að annað verður ekki út úr því lesið en ég gerði. Hitt er svo annað mál, að tölurnar eru í sjálfu sér lygilegar.

Hv. 2. þm. Eyf., sem er kunnugur í herbúðum ríkisstj., upplýsti það í kaffihléinu, að eins er enn ógetið í þessu sambandi, og það er það, að sendiherrar og starfsmenn sendiráðanna hafa margvísleg hlunnindi. Fyrir utan brennivínið og vindlana eru þeir t.d. skattfrjálsir, en það jafngildir gífurlegri launauppbót. Það er hvorki heimtaður af þeim skattur, þar sem þeir starfa, eða hér heima á Íslandi. Laun þeirra eru skattfrjáls, sem þýðir, að þau eru í raun og veru miklu hærri en tölurnar gefa vísbendingu um.

Ég hef lokið máli mínu og notað þann tíma, sem mér var ætlaður til að gera aths., og þakka fyrir.