12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Þegar umræður sem þessar hafa farið fram í sölum Alþingis á undanförnum árum, hef ég allajafna fengið til umráða allan ræðutíma Sjálfstfl. fyrra kvöldið. Er mér vel ljóst, að ég hef oft reynt meir á þolinmæði hv. hlustenda en góðu hófi gegnir. En ég hef ævinlega þótzt hafa mér til afsökunar, að mín skylda væri að gera þjóðinni sæmilega grein fyrir stjórnmálaviðhorfinu frá sjónarhóli Sjálfstfl. séð og að þess væri tæplega kostur í styttra máli.

Að þessu sinni fagna ég því að þurfa ekki að inna þá skyldu af hendi. Veldur þar um, að á nýafstöðnum landsfundi sjálfstæðismanna flutti ég slíka yfirlitsræðu. Rakti ég í þeirri ræðu stjórnmálaviðburði síðustu þriggja ára, skýrði afstöðu Sjálfstfl. til málanna og leitaðist við að opna innsýn í framtíðina. Hefur ræða þessi verið prentuð í víðlesnustu blöðum landsins og auk þess verið svo rækilega auglýst af ýmsum andstæðingum Sjálfstfl., að óhætt mun að treysta því, að flestir, sem á annað borð leggja á sig að lesa svo langar ræður, hafi kynnt sér mál mitt eða muni a.m.k. gera það bráðlega, þegar landsfundarræður umboðsmanna Sjálfstfl. í ríkisstj. koma út sérprentaðar. Ég get þess vegna í öllum aðalatriðum leyft mér að vísa til þessarar ræðu, að því er varðar stærstu drættina í stjórnmálaviðhorfinu.

Hæstv. forsrh. minntist á vandræðabú nýsköpunarstjórnarinnar, eins og hann komst að orði. Á því sé ég, að hæstv. forsrh. hefur fengið snert af hinni svonefndu framsóknarveiki. Ég þarf ekki að taka fram, að ég á ekki við karakúlpestina, heldur kvilla þann, sem kviknaði í vansæld Framsfl., eftir að hann varð utangátta í tíð hinnar stórvirku nýsköpunar. Ég hlæ auðvitað að oflofi kommúnista um nýsköpunarstjórnina og verst illa brosi, þegar Alþfl. eignar sér sérstaklega afrek þeirrar stjórnar. Hitt er svo staðreynd, sem engum tjáir að mæla gegn, að það er einmitt öðru fremur vegna þeirra framkvæmda, sem nýsköpunarstjórnin beitti sér fyrir, að þrátt fyrir óvenjuleg óhöpp síðustu árin hefur þjóðin þó haft í sig og á. Og það get ég sagt hæstv. forsrh., að núverandi stjórn hefði litlu góðu til leiðar getað komið, ef hún hefði ekki átt því láni að fagna að setjast í það, sem hann nefndi vandræðabú nýsköpunarstjórnarinnar.

Ég veit engan betri hómopata til að fást við þennan kvilla, þ.e.a.s. framsóknarveikina, en sjálfan mig og er staðráðinn í að vitja forsætisráðherrans daglega, þangað til hann er orðinn stálhraustur.

Ég vík þá að ræðum hv. stjórnarandstæðinga hér í kvöld.

Börnin fara nú senn að syngja „Heims um ból“, og hv. 5. landsk. þm., Ásmundur Sigurðsson, hóf sinn lofsöng um föður Stalin og vin smáþjóðanna, Sovétfriðarvinina. Úr þessum lofsöng vildi ég hjálpa til að varðveita þessa einu setningu:

„Við sósíalistar erum sakaðir um fylgispekt við Sovétríkin, án þess að hægt sé að benda á nokkurt dæmi þess.“

Ég vissi ekki, að Ásmundur Sigurðsson væri svona fyndinn. Ég óska honum til hamingju. En kannske verður sannleiksgildi þessara orða hans skýrt dálítið áður en þessum umræðum lýkur.

Öllu því, sem hv. 4. þm. Reykv., Haraldur Guðmundsson, sagði til gagnrýni á gengislækkunina, get ég látið þá einu staðreynd svara, að án gengislækkunar og án bátagjaldeyris hefði þurft að leggja 200–250 millj. kr. nýja skatta á þjóðina. Gleggsta sönnun þess, að það var með öllu ógerlegt, er, að hvorki Haraldur Guðmundsson né neinn annar stjórnarandstæðinga hefur stungið upp á tekjustofnum, sem nægja mundu fyrir 1/10 hluta þeirrar fjárhæðar.

Gengislækkunin var því einasta úrræði þeirra, sem stöðva vildu framrás allsherjar atvinnuleysis.

Að öðru leyti get ég að mestu svarað öllum þeim þrem hv. stjórnarandstæðingum, sem hér hafa falað í kvöld, í einu, enda munu þeir, sem hlýtt hafa á umræðurnar í kvöld, hafa veitt því athygli, að þegar umbúðum er svipt af mælgi stjórnarandstæðinga, er það aðallega tvennt, sem eftir verður.

Annað er, að samkvæmt þeirra dómi ber að leggja á ríkissjóð margra milljónatuga aukin útgjöld, því að margar eru þarfirnar og enn fleiri þó óuppfylltar óskir fólksins. Til þess svo að tryggt sé, að enginn verði skilinn útundan, þannig að jólaglaðningurinn nái ekki aðeins til þeirra, sem njóta eiga góðs af útgjöldum ríkissjóðsins, heldur verði einnig þeirra minnzt, sem borga brúsann, þ.e.a.s. skattþegnanna, leggja stjórnarandstæðingar til, að létt verði af ýmsum óvinsælustu sköttunum, þ. á m. bauð hv. landsk. þm., Hannibal Valdimarsson, að létta af öllum söluskattinum, sem áætlaður er yfir 80 millj. kr., enda kvarta nú margir yfir því, hversu örðugt sé að rísa undir sínum hluta af sameiginlegum kostnaði við rekstur ríkisins og sveitar- og bæjarfélaga.

Jólin fara nú að nálgast. Þá rætast oft frómar óskir barnanna. En stjórnarandstæðingar eru engin börn og ekki þeir einfeldningar, að þeim detti í hug, að hægt sé að lækka skattana svo að um muni, þ.e.a.s. að minnka verulega tekjurnar, en stórauka þó jafnframt útgjöld ríkissjóðs. Þeir vita þess vegna ofur vel, að þess er alls enginn kostur að verða við slíkum kröfum. Kröfurnar eru því ekki bornar fram í þágu fólksins, heldur til þess eins að reyna að ginna fólkið með fagurgala til fylgis við stefnur sósialistaflokkanna, — stefnur, sem hvergi leiða til góðs, en hvergi þó fremur til ills en einmitt á Íslandi. Tel ég óþarft að rökstyðja þá staðhæfingu hér, enda skoðun sjálfstæðismanna á stefnu sósíalistaflokkanna öllum löngu kunn.

En stjórnarandstæðingar vita meira varðandi kröfurnar á hendur ríkissjóði en það, að óhugsandi er, að þeim verði fullnægt. Þeir vita líka, að yrði það gert, — yrði fjármálum ríkisins að nýju stýrt inn í greiðsluhallafjárlög, — mundi það óhjákvæmilega fyrr en varir bitna á öllum almenningi. Þeir vita, m.a. af reynslunni, að fjárlög með greiðsluhalla þýða í reyndinni það, að ríkissjóður sölsar undir sig það fé, sem lánsstofnanirnar ella og að eðlilegum hætti mundu lána til framleiðslustarfseminnar eða til annars atvinnurekstrar í landinu. Greiðsluhalli fjárlaga dregur því að sama skapi úr nauðsynlegum lánveitingum til atvinnulífsins, en það leiðir aftur til atvinnuleysis.

Tillögur stjórnarandstæðinga um stóraukin útgjöld og þverrandi tekjur ríkissjóðs mundu því, ef samþykktar yrðu, kalla atvinnuleysi yfir almenning í landinu, auk margvíslegs annars böls, svo sem vöruskorts, verzlunarhafta, svartamarkaðs o.fl., sem hér vinnst ekki tími til að rekja.

Ég ætla því stjórnarandstæðingum, sem yfirleitt eru heiðursmenn, alls ekki svo illt, að þeir mundu sjálfir samþykkja tillögur sínar, ef á þeirra atkvæðum ylti um úrslitin. Hitt er svo allt annað mál, þótt þeir í hallærinu, þegar ádeiluefnin á stj. eru ekki kjarngóð, reyni að bera þetta sér til munns. Ég held ekki, að þeir fitni af því. Ég held ekki, að stjórnmálaflokkarnir auki fylgi sitt með slíkum alvörulausum tylliboðum og gyllingum. Það er svo alveg út í bláinn að ætla sér að rökstyðja kröfurnar á hendur ríkissjóði með fjárhagsafkomunni í ár. Tekjuafgangurinn verður að sönnu án efa mikill í ár, þótt sögusagnir andstæðinga um það séu því miður mjög orðum auknar, eins og hæstv. fjmrh. var að enda við að útskýra. En hvort tveggja er, að útgjöld ríkissjóðs verða miklu hærri að ári en í ár, sem hitt, að hinar óvenjumiklu tekjur ríkissjóðs í ár stafa af því sérstaka fyrirbrigði, að eftir 20 ára höft og bönn var verulegur hluti verzlunarinnar gefinn frjáls og Íslendingum gert kleift að bæta úr óvenjulegri vöruþurrð og safna hæfilegum birgðum af ýmsum vörum.

Þetta mun — eðli málsins samkvæmt — auðvitað ekki endurtaka sig. Af því leiðir, að ekki er fært að áætla tekjur ríkissjóðs á næsta ári út frá reynslu þessa eina árs, sem svo sérstaklega stendur á um.

Mér er auðvitað ljóst, að hækkandi verðlag íslenzkrar útflutningsvöru og þar af leiðandi vaxandi þjóðartekjur mun færa ríkissjóði nokkurn tekjuauka. En þess er þá líka þörf, miðað við útgjöld fjárlaganna, eins og vitað er að þau muni verða, þegar þingið hefur gengið endanlega frá þeim. Hið eina, sem fært gæti ríkissjóði stórauknar tekjur, er, ef síldveiðin yrði góð, en á því er engin skynsemi að byggja eftir 7 ára aflabrest og jafnmikið sem í húfi er, ef út af bregður og að nýju skapast hallarekstur hjá ríkinu.

Er þetta allt svo ljóst og auðskilið, að ekki aðeins hv. alþingismenn, heldur og allir, sem með stjórnmálum fylgjast, vita það og skilja. Ég legg því hvorki á sjálfan mig né aðra að fara um það fleiri orðum.

Ég sný mér þá að hinu sakarefninu í ræðum hv. stjórnarandstæðinga hér í kvöld og raunar öll kvöld og alla daga og sennilega líka allar nætur, — því að slíka menn dreymir væntanlega illa, — en það er, að stj. sé kaldrifjuð afturhaldsstjórn, sem láti sig hag almennings engu varða, leyfi heildsölum að hækka tekjur sínar skefja- og blygðunarlaust, eins og hv. 4. þm. Reykv., Haraldur Guðmundsson, sagði, og eigi sér þá „hugsjón“ æðsta „að auka gróða fámennrar klíku sem mest á kostnað almennings“, eins og einn stjórnarandstæðinga nýverið komst að orði. Sé „ríkisstjórn okurs og atvinnuleysis“, eins og Hannibal Valdimarsson orðaði það. Til þess að sanna þessa staðhæfingu vitna þeir í alkunna skýrslu verðlagsstjóra um óhóflega álagningu fárra manna á vissar vörutegundir, tefla fram mjög mörgum tölum, sem sýna ófagrar myndir af okri, og draga síðan af þeim ályktanir. Hefur þetta, svo sem alkunnugt er, verið gert undanfarnar víkur í blöðum stjórnarandstæðinga og auk þess nær daglega í sölum Alþingis.

Á þessu er þó sá ljóður, að nær allar þessar tölur, sem á er byggt, eru rangar eða villandi og ályktanir þær, sem af þeim eru dregnar, þar af leiðandi allar vitlausar.

Rangfærslurnar felast í því, að enda þótt sú skýrsla, sem byggt er á, nái aðeins yfir 2% af heildarinnflutningi fyrir binn svonefnda bátagjaldeyri, eru þessi 2% notuð sem mælikvarði á þau 98%, sem enginn veit neitt um. Út af fyrir sig er alltaf hæpið að byggja heildarniðurstöðu á svo litlu sýnishorni. En við það bætist, að eins og mál þetta liggur fyrir, vita stjórnarandstæðingar beinlínis, að niðurstaðan er algerlega villandi. Veldur þar um það tvennt, að sá, sem nær í fyrsta fimmtugasta hluta bátagjaldeyrisins og flytur inn fyrir hann vörur, sem ýmist hafa verið ófáanlegar árum saman eða aðeins fengizt á svörtum markaði fyrir okurverð, getur auðvitað lagt miklu meira á þetta litla vörumagn en nokkrum heilvita manni dettur í hug, að hægt sé að leggja á þær vörur, sem keyptar hafa verið eða verða fyrir hina 49/50 hluta bátagjaldeyrisins. Þegar af þessum ástæðum er myndin algerlega fölsk. Við þetta bætist svo, að í þetta litla vörumagn, sem skýrsla verðlagsstjóra fjallar um, eru valdar einmitt þær vörurnar, sem bezt eru fallnar til óhóflegrar álagningar. Í þessu liggur meginhugsunarvilla stjórnarandstæðinga, og þessi litla skekkja veldur því, að tölurnar eru ekki allar réttar, heldur nær allar alveg út í hött og ályktanir, sem af þeim eru dregnar, þar af leiðandi helber vitleysa. — Um þessa hlið málsins þarf ekki frekar að ræða.

En hver er svo tilgangurinn með þessari málfærslu? Hann getur ekki verið eingöngu sá að sverta stj. Um kommúnistana er þó óþarft að spyrja. Það er fastur þáttur í baráttu þeirra fyrir að skapa glundroða að sverta sérhverja stjórn, sem þeir sitja ekki í sjálfir. En fyrir Alþfl. hlýtur að vaka eitthvað annað og meira.

Sjálfur segist Alþfl. vera að berjast fyrir verðlagseftirliti. En það er a.m.k. harla ólíklegt, að það eitt vaki fyrir honum. Alþfl. veit, að enda þótt tölur og ályktanir hans séu allar tóm vitleysa, þá hefur þó vitavert okur átt sér stað, okur, sem hann fyrirgefur, en stj. fordæmir. En honum er líka ljóst, að eftir nær 20 ára höft og bönn nær frelsið ekki að njóta sín á fyrstu víkunum, og hann veit, að fleiri þekkja þá staðreynd en hann einn. Honum sem öðrum er vel ljóst, að ef á annað borð er fyrir því séð, að nægar vörur séu á boðstólum, er okrið úr sögunni. Geri almenningur þá skyldu sína að sjá eigin hag borgið með því að kaupa þarfir sínar þar, sem þær eru ódýrastar eftir gæðum, þá mun okrarinn fljótlega merjast milli dómgreindar kaupandans og vöruverðs hins hyggna og dugmikla kaupsýslumanns, sem að sönnu vill græða mikið, en með þeim skynsamlega hætti að selja margar einingar, en græða hóflega á hverri einstakri.

Alþfl. þekkir þessar staðreyndir, og veit því, að það er a.m.k. mjög ólíklegt, að hann fái komið á að nýju hinu stóra skrifstofubákni verðlagseftirlitsins — sem sumir nefndu framfærslusveit Alþýðuflokksins — nema þá sem lið í öðrum og stærri sigri. Út af fyrir sig er því ástæða til að ætla, að það, sem eftir er sótzt, sé í raun og veru að koma á að nýju hafta- og bannakerfinu. Þessar líkur verða framt að því að vissu í ljósi þeirra ummæla formanns Alþfl., sem birt voru í Alþýðublaðinu 25. sept. s.l.: „Alþýðuflokkurinn krefst skipulagsbundins innflutnings.“

Þetta er vafalítið sannleikurinn, þótt hann sé ótrúlegur. En Alþfl. veit vel, að þjóðin er búin að fá nóg af skefjalausum höftum og bönnum. Flokkurinn hlýtur að þekkja andúð, já, óbeit manna á skriffinnskunni, tímaeyðslunni, sérréttindunum og rangsleitninni og spillingu haftanna og mundi auk þess skilja, hversu þungar búsifjar vöruskorturinn, svarti markaðurinn og okrið hafa reynzt fólkinu, ef oftrúin á höftin vörnuðu honum ekki að njóta vitsmuna sinna.

Alþfl. skilur, að tilgangslaust er að bjóða þjóðinni að skipta á frelsinu, þótt enn sé það of þröngt, og þessum gömlu vofum. Hann reynir því ekki að ná markinu í einum áfanga. Með því að ýkja og margfalda þá byrjunarörðugleika, sem frelsið átti við að etja, reynir Alþfl. að koma járnunum á annan fótinn í þeirri von, að þá reynist hægara síðar að loka þeim. Þessi hlýtur tilgangur Alþfl. að vera, m.a. vegna þess, að annars væri þetta staðreyndabrengl alveg út í hött.

Í sambandi við hallmæli ræðumanna Alþfl. um ríkisstj. út af þessum málum minni ég á, að nýverið hefur Alþfl. gerzt trúboði allnýstárlegs siðferðis. Fyrir skömmu hefur einn af þingmönnum flokksins látið hafa eftir sér þessi ummæli:

„Það er í sjálfu sér ekki hægt að áfellast kaupmenn og kaupfélög, þótt þau hækki álagningu sína, þegar ríkisvaldið segir þeim beinlínis, að þeir megi hafa hana eins háa og þeim sýnist, og hvetur þá til að selja vöruna á því verði, sem markaðurinn þolir. Það er ríkisstj. öllu fremur en kaupsýslustéttin, sem ber höfuðábyrgð á því hneyksli, sem hér hefur átt sér stað.“

Hér hefur okrurunum svei mér bætzt góður liðsmaður. Okrararnir hafa svo sem ekki mikið til saka unnið. Ó, nei, „það er ríkisstj. öllu fremur“.

Þetta siðferði þarfnast ekki skýringar. En mætti ég leyfa mér að spyrja þennan heiðursforseta okraranna: Væri það ekki dæmafár ódrengskapur, ef ríkisstjórnin, sem „hvetur okrarana til að selja vöruna á því verði, sem markaðurinn þolir“, svo að ummæli hans séu orðrétt höfð eftir, færi svo að birta nöfn þeirra þeim til hirtingar og öðrum til viðvörunar?

Ég er hræddur um, að krafa Alþfl. um að birta nöfn okraranna verði varla tekin eins hátíðlega, þegar menn átta sig á þessu.

Ég hef þá sannað, að ófyrirleitnar árásir ú ríkisstj. af þessu tilefni eru ekki á rökum reistar og að allur málflutningur stjórnarandstæðinga er mjög óvandaður.

Vil ég nú víkja fáum orðum að höfuðsakarefninu, að stj. sé kaldrifjuð afturhaldsstjórn, sem láti sig hag almennings engu varða.

Við skulum athuga málið frá dálítið hærri sjónarhól en hundaþúfu lágkúrulegasta dægurþrasins.

Ekki dettur mér í hug að staðhæfa, að ekki megi með réttu sakfella stj. fyrir yfirsjónir og vanrækslu. Án efa hefur stj. margar slíkar syndir á samvizkunni og er að því leyti svipuð flestum öðrum stjórnum, sem setið hafa í þessu landi. En réttur dómur verður ekki kveðinn upp yfir stj., nema menn séu minnugir þess sannleika, að fyrir tveimur árum var svo komið högum Íslendinga, að um ekkert var að velja annað en gengislækkun eða geigvænlegt almennt atvinnuleysi. Flokksstjórn Sjálfstfl., sem með völd fór um áramótin 1949–50, taldi sig tilneydda að leggja til, að freistað yrði að brjótast upp úr svaðinu með gengislækkun. Núverandi stjórn var mynduð til þess að lögfesta þær tillögur og tryggja framkvæmd þeirra. Stj. var vel ljóst, að þessi úrræði voru ekki líkleg til vinsælda. Hún setti það ekki fyrir sig, heldur lagði hún hiklaust til atlögu gegn örðugleikunum. Með samstilltu átaki allra stjórnarliða á Alþingi hafa verið afgreidd greiðsluhallalaus fjárlög síðustu tvö árin, og vænti ég, að svo verði enn á þessu þingi. Fjárfestingin hefur verið takmörkuð við getu þjóðarinnar. Með heilsteyptum samfelldum úrræðum hefur tekizt að stöðva almennan hallarekstur höfuðatvinnuvega þjóðarinnar. Jafnvægi í þjóðarbúskapnum hefur að mestu leyti verið náð, þar eð engin ný dýrtíð hefur myndazt í landinu, sem er af innlendum uppruna, frá því að lokið var þeirri verðhækkun, sem gert var ráð fyrir, þegar gengislögin voru sett.

Miklar horfur eru þess vegna á, að stjórnarstefnan muni vinna sigur í viðureigninni við hið geigvænlega, almenna atvinnuleysi, sem í árslok 1949 beið við hvers manns dyr og ógnaði öryggi og afkomu alls almennings í landinu, ef eigi hefði verið gripið til róttækra úrræða. Gengislækkunin mun þannig ná tilætluðum árangri, ef við berum gæfu til að forðast þær hættur, sem við kunnum orðið skil á, þ.e.a.s. þær kauphækkanir, sem ekki eiga stoð í auknum arði í atvinnurekstrinum og þess vegna hljóta að leiða til nýrrar gengislækkunar. Þessu raskar hvorki sú staðreynd, að margvísleg óvænt óhöpp, svo sem aflabrestur, illt tíðarfar, markaðstöp, óhagstætt verzlunarárferði, auk sjálfskaparvita, hafa neytt stj. til að gripa til óæskilegra viðbótarráðstafana, svo sem bátagjaldeyrisins svonefnda, né heldur hitt, að gengislækkunin hefur ekki megnað að afstýra atvinnuleysi á öllu landinu á öllum tíma árs. Langvarandi aflabrestur og önnur slík fyrirbrigði íslenzks misæris hafa ævinlega og munu ævinlega valda örðugleikum, sem engin ein ráðstöfun fær við ráðið, heldur verður að mæta þeim hverju sinni og á hverjum stað með þeim úrræðum, sem haldbezt þykja.

Hvorki þeir örðugleikar, sem fólkið í einstökum byggðarlögum á í bili við að etja, né heldur þau vandræði, sem einstakar iðngreinar glíma nú við, m.a. vegna frjáls innflutnings á svipaðri vöru og þær framleiða, megna að skyggja á þá staðreynd, að stjórnarliðar hafa með áræði og festu bægt frá dyrum almennings því allsherjar atvinnuleysi, sem að hefði steðjað, ef ekki hefði á síðustu stundu tekizt að bægja voðanum frá.

Sá stóri sigur, sem unninn hefur verið, er sigur stjórnarliða. Stjórnarandstæðingar hafa þar ekkert til mála lagt annað en illt eitt. Þeir hafa eftir lítilli getu þvælzt fyrir og af fremsta megni reynt að villa almenningi sýn. Sigur stj. er sigur yfir því böli, sem sótti að almenningi í landinu, sigurinn yfir versta fjanda íslenzkrar alþýðu, hinu almenna atvinnuleysi. Sigur stj. er því fyrst og fremst sigur almennings, og sú stj., sem gerir það að sínu meginmáli að bera slíka stefnu fram til sigurs og vílar ekki fyrir sér að taka á sig í því skyni hvers konar örðugleika, þ. á m. þær óvinsældir, sem síðborinn skilningur sumra landsmanna ævinlega feilir á sérhverja röggsama og einbeitta ríkisstjórn, sem ráða þarf fram úr óvenjulegum vandamálum, verðskuldar ekki að heita kaldrifjuð íhaldsstjórn.

En auk sjálfrar stjórnarstefnunnar, sem auðvitað er aðalatriðið, hefur stj. frá öndverðu borið gæfu til að skilja það, sem ég áður gat um, að engin ein ráðstöfun megnar að ráða bót á íslenzku misæri. Þess vegna hefur stj. sýnt skilning og fullan vilja til að aðstoða þá, sem örðugleikarnir öðrum fremur hafa að steðjað.

Stjórnarandstæðingar nefndu í kvöld sérstaklega Siglfirðinga til vitnis um, hversu gersamlega stj. láti sig einu gilda vandræði almennings. Þeir velja að því leyti vel, að hvergi mun misærið hafa sótt fastar að almenningi en einmitt á Siglufirði. Hitt er svo annað mál, hvort sanngjarnt sé að ásaka stj. fyrir að hafa ekki komið í stað síldarinnar, sem eins og kunnugt er hefur brugðizt í 7 ár í röð. 3000 manna bær, reistur á síld og síldarvonum, hlýtur að lenda í þrengingum, þegar svo er ástatt. Um það þarf ekki að ræða. Stjórnarandstæðingar geta því ekki talið vandræði Siglfirðinga sér til framdráttar. Þeim örðugleikum megnar engin stj. að afstýra með öllu á stuttum tíma. Því vandræðaástandi léttir aldrei að fullu, fyrr en síldin kemur eða menn missa alla síldarvon og ráðast því í að byggja þennan bæ upp að nýju og á nýjum atvinnumöguleikum íbúanna.

Sé svo hins vegar um það spurt, hvort stj. hafi reynt að bæta úr neyð Siglfirðinga, býst ég við, að forráðamenn Siglfirðinga muni hiklaust játa því. Með sérstökum ráðstöfunum var Siglfirðingum í vor útvegaður nýsköpunartogari. Eiga þeir því nú tvö ný veiðiskip. Tunnuverksmiðjan á Siglufirði hefur verið efld og rekstur hennar aukinn. Nýverið hét stj. Siglfirðingum 1/2 millj. kr. beinu framlagi til atvinnubóta upp á væntanlegt samþykki Alþingis. Og nú er í athugun hjá stj., hvort auðið verði með atbeina ríkissjóðs að koma upp nýju frystihúsi á Siglufirði eða leysa þá þörf með öðrum hætti, fyrst og fremst í atvinnubótaskyni. Allt þetta og margt annað hefur stj. gert til þess að létta raunir Siglfirðinga. Hygg ég, að bæjarstjóri og ráðamenn Siglfirðinga muni fúsir votta, að í sínum löngu þrengingum hafa þeir hvergi átt betra athvarf en einmitt hjá núverandi ríkisstj. Stjórnarandstæðingar eru því, þegar málin eru krufin til mergjar, seinheppnir í valinu. En kannske réttir Alþfl. hlut sinn með því að fræða hv. hlustendur á því, hvað það var, sem „fyrsta stjórn Alþýðuflokksins á Íslandi“ gerði fyrir Siglfirðinga. Þeir voru líka í vandræðum á hennar dögum. — Hafi sú stj. ekki gert meira en núverandi stj., hafi hún kannske gert miklu minna en núverandi stj., þá er hætt við, að staðhæfingar Alþfl. um, að núverandi stj. láti sig vandræði almennings engu skipta, — staðhæfingar, sem fyrst og fremst eru rökstuddar með framkomu stj. gagnvart Siglfirðingum, — verði taldar fleipur eitt. Hv. hlustendur munu nú bíða upplýsinga ræðumanna Alþfl. um þetta. Á þeim m.a. mun dómur hlustenda um stj. og stjórnarandstöðuna velta.

En stjórnarandstæðingar munu ekki missa Siglfirðinga eina úr hópi vitna sinna gegn stj. Flestir eða allir, sem örðugast eiga, munu vitna með stj., en gegn stjórnarandstæðingum. Það munu þeir gera, sem með sérstökum stjórnarráðstöfunum fengu 3 af nýjustu nýsköpunartogurunum. Það munu þeir gera, sem nú hafa fengið 3 eða 4 af eldri togurunum fyrir atbeina ríkisstj. Það munu þeir mörgu gera, sem fengið hafa fjárhagslega aðstoð og margvíslega fyrirgreiðslu til byggingar frystihúsa, beinamjölsverksmiðja og annarrar slíkrar nýsköpunar til varnar gegn atvinnuleysinu. Það munu þeir gera, sem mikla atvinnu hafa fengið við virkjun Sogsins og Laxár. Það munu þeir gera, sem atvinnu hljóta við byggingu áburðarverksmiðju. Það munu allir hinir mörgu gera, sem beint og óbeint munu fá lífsframfæri sitt vegna þessara stórvirkja, eftir að byggingu þeirra er lokið. Það munu þeir gera, sem fyrir atbeina ríkisstj. hafa við setuliðsvinnu fengið nokkra bót á sárri atvinnuþörf. Það munu bændur á óþurrkasvæðinu gera, og það munu þau hundruð eða þúsundir manna gera, sem nú fá atvinnu vegna þess, að samningar tókust milli frystihúsaeigenda og togaraeigenda um vinnslu afla togaranna hérlendis, en að því stuðluðu auk aðila Landsbanki Íslands, borgarstjórinn og bæjarstjórnarmeirihluti Rvíkur og ríkisstj.

Það munu margir vitna með stj. í þessum efnum, en fáir með stjórnarandstöðunni, og því fleiri með stj. og því færri með stjórnarandstöðunni, sem málin verða betur upplýst.

Sannleikurinn er líka sá, að frá öndverðu hefur öll barátta stj. beinzt gegn höfuðóvini almennings í landinu. Og sá einbeitti vilji til að sigra á þeim vigvelli, sem öll barátta stjórnarliðsins lýsir, kveður með öllu niður sleggjudóma stjórnarandstæðinga um stj. En það verð ég að segja, að furðu djarft er, að Alþfl., sem stjórnarforustuna hafði meðan óvinurinn stöðugt nálgaðist og aldrei hefur haft manndóm til að slíta sig úr tagli kommúnistanna, þegar þeir ryðja fjanda þeim götuna að dyrum almennings í landinu, — að hann skuli nú telja sig þess umkominn að hefja harðvitugar árásir á þá stj., sem einskis hefur látið ófreistað til þess að stöðva framrás atvinnuleysisins, einvörðungu fyrir það, að fyrst í stað hefur stj. orðið að leggja mesta áherzlu á varnarsigra gegn þessum fjanda og þess vegna ekki megnað að snúa orku sinni svo sem æskilegt væri að öðrum verkefnum. Hefur stj. þó haft með höndum stórvirkar framkvæmdir, og þó að satt sé, að Íslendingum hefur borizt mikið gjafafé síðustu tvö árin, svo mikið, að það virðist hafa sært þjóðerniskennd sumra Alþýðuflokksmanna, þá er það fé þó hvorki meira né óþjóðlegra en gjafirnar, sem „fyrsta stjórn Alþýðuflokksins á Íslandi“ þáði og þótti gómsætar, sællar minningar.

Ég hef í þessari stuttu ræðu tekið til rannsóknar höfuðákærur stjórnarandstæðinga hér í kvöld á hendur ríkisstj. Vænti ég, að hv. hlustendum sé fullkomlega ljóst, að ekki er auðleikið að stórauka útgjöld ríkissjóðsins, en lækka þó jafnframt tekjur hans, svo að um muni, sem og það, að sakargiftirnar á hendur stj. út af því, að hún haldi verndarhendi yfir okri eða óheiðarlegri fjársöfnun í einhverri mynd, eru ekkert nema staðlausir stafir. Og enn treysti ég því, að sanngjarnir menn viðurkenni, að ríkisstj. hefur sýnt áhuga og atorku í baráttunni gegn því almenna atvinnuleysi, sem yfir vofði og án alls efa hefði skollið á, ef stjórnarliðum hefði ekki tekizt að bægja því frá með algerri stefnubreytingu og róttækum aðgerðum á sviði efnahagsmála þjóðarinnar.