12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Þótt ég að þessu sinni gerist þátttakandi í eldhúsdagsumræðum, þá er það ekki í þeim tilgangi að takast eldhúsverk á hendur eða deila á núverandi ríkisstj. fyrir aðgerðir hennar. Í þess stað mun ég leitast við að gera örstutta grein fyrir höfuðmarkmiðum okkar sjálfstæðismanna í aðalmálum landbúnaðarins, en verð að fara fljótt yfir sögu.

Við Íslendingar höfum, allt frá því að landið byggðist, verið bændaþjóð, og fyrir rúmum 50 árum bjuggu enn um 90% af Íslendingum í sveitum. Þjóðmenning okkar Íslendinga er því að uppruna og eðli bændamenning og verður því aðeins varðveitt, að uppvaxandi kynslóðir fái notið hollustuáhrifa sveitalífsins, umgengninnar við skepnurnar og gróðurmoldina og allt, er því fylgir. Þótt ekki væri annað, teljum við sjálfstæðismenn, að það að viðhalda okkar gömlu menningu og andlegri og jafnvel líkamlegri hreysti þjóðarinnar væri nægilegt tilefni til að veita landbúnaðinum þann stuðning, er hann á hverjum tíma þarfnast. En jafnhliða þessu hlutverki hefur landbúnaðurinn séð þjóðinni fyrir hollri og kraftmikilli fæðu, fatnaði og gjaldeyrisvörum til útflutnings.

Þetta hefur breytzt á síðari tímum. Sjávarútvegurinn tók smám saman að sér það hlutverk að afla þess, sem út var flutt, og sjá þjóðinni að mestu fyrir þeim gjaldeyri, sem hún þarfnast. Landbúnaðurinn hefur síðustu árin gegnt því hlutverki að sjá þjóðinni fyrir landbúnaðarvörum. Þessi verkaskipting er af framsýnum mönnum ekki talin æskileg og óvarlegt að treysta á, að sjávarútvegurinn geti ávallt séð þjóðinni fyrir öllum þeim gjaldeyri, sem hún þarfnast. En hér er ekki hægt um vik, eins og sakir standa. Landbúnaðurinn er í sárum, ef svo mætti segja. Fjárpestirnar og gífurleg eftirspurn eftir vinnukrafti á stríðsárunum og næstu árum þar á eftir ollu því, að vinnandi fólki fækkaði í sveitunum meira en nokkru sinni áður. Fólksfæðin og fjárpestirnar, samfara þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru til að útrýma þeim, hafa valdið því, að framleiðsla landbúnaðarins hefur ekki fullnægt innanlandsþörfinni, og á sama tíma vantar þjóðina gjaldeyrisvörur til útflutnings til að fullnægja gjaldeyrisþörfinni. Það er alkunnugt, að fjárskiptin hafa vakið nýjar vonir hjá bændum og bjartsýni hjá æskulýð sveitanna, sem ekki hefur orðið vart árum saman. Eftirspurnin eftir jörðum er nú meiri en þekkzt hefur um langt skeið, og jarðir, sem komnar eru í eyði, eru nú að byggjast aftur. Allt þetta ber það með sér, að landbúnaðurinn er staddur á tímamótum. Fólkið er tilbúið að hefjast handa, ef því er veitt sú aðstaða og sá stuðningur, sem því er nauðsynlegur. Þetta tækifæri má ekki láta ónotað. Við sjálfstæðismenn teljum, að þjóðin hafi ekki ráð á því að láta viðáttumikil ræktunarlönd liggja ónotuð, á sama tíma og þjóðina vantar landbúnaðarvörur til eigin nota og gjaldeyrisvörur til sölu á erlendum mörkuðum. Og svo mikið er vist, að Norðmenn telja sér þetta ekki fært. Þeir hafa á undanförnum árum varið stórfé til endurbyggingar Norður-Noregs, eftir að Þjóðverjar lögðu þar allt í eyði, svo að ekki stóð steinn yfir steini. Þó liggur þetta land miklu norðar en Ísland, en hefur þrátt fyrir það sína kosti. Þar eru Hornstrandir Norðmanna, ef svo mætti segja. Hér verðum við einnig að beina orku fólksins að ræktun og endurbyggingu með ákveðin markmið fyrir augum og veita því nauðsynlegan stuðning til þess, að þau náist áður en mjög langir tímar líða. Markmiðið, sem við verðum að setja okkur, er, að landbúnaðurinn fullnægi innanlandsþörfinni fyrir landbúnaðarvörur og leggi auk þess a.m.k. til gjaldeyrisvörur, er nægi til að greiða þann innflutning, sem landbúnaðurinn þarfnast.

Eins og högum okkar er nú háttað, verður þessu marki aðeins náð með aukinni og bættri ræktun á þeim býlum, sem fyrir eru, og svo með fjölgun býla. Landrými höfum við viða nægilegt.

Þegar erlendir bændur koma hingað, t.d. frændur okkar Norðmenn, er ekkert, sem þeir undrast eins mikið, af því, sem fyrir augun ber, eins og þau ógrynni, sem við eigum af ræktanlegu landi. En auk þess eiga mörg héruð viðáttumikil og gróðurrík afréttarlönd til sumarbeitar, sem er þeim eins og gullnáma. Enginn, sem til þekkir, dregur í efa, að skilyrði eru fyrir hendi til að stórauka framleiðsluna á öllum sviðum. Um hitt getur orðið ágreiningur, hvernig bezt verði tekið á þessum málum. Áður en fjárpestirnar bárust hingað, er talið, að hér hafi verið um 740000 sauðfjár. Nú er það röskur helmingur þess, er þá var. Ég hygg ekki óvarlega áætlað, að við getum án þess að ofbjóða landinu fjölgað því aftur upp í 900000 til eina milljón, ef stóðhrossum væri jafnframt fækkað að mun. En þá vaknar spurningin: Getum við selt landbúnaðarvörur til útlanda fyrir það verð, er við þurfum að fá fyrir þær? Þetta hefur oft verið dregið í efa og því verið haldið fram, að íslenzkur landbúnaður sé rekinn á svo frumstæðan hátt, að það - ásamt óblíðu veðráttufari — hljóti að dæma okkur til að framleiða eingöngu fyrir innlendan markað. En reynsla síðustu ára bendir til annars. Við seljum ull og gærur til útlanda fyrir hátt verð. Það eigum við vafalaust mikið að þakka stríðsundirbúningnum. En auk þess seljum við dilkakjöt til Bandaríkjanna fyrir hærra verð en heimilt er að selja það hér á inniendum markaði, og útlit er fyrir, að sá markaður sé allrúmur.

Um aðalmjólkurvörurnar gegnir öðru máli. Þær getum við ekki selt erlendis eins og sakir standa fyrir það verð, er við þurfum að fá fyrir þær. Og þá kemur að því, er við sjálfstæðismenn teljum annað höfuðmarkmið, sem bændastéttin verði að keppa að og er nátengt því fyrra, en það er að þoka framleiðslukostnaðinum ofan í það, sem tíðkast hjá nágrannaþjóðum okkar á sams konar vörum. Þetta verður fyrst og fremst gert með bættri og aukinni ræktun, kynbótum búpenings og aukinni verkkunnáttu og tækni. Það verður án efa þungur róður, áður en bændur ná almennt þessu eftirsóknarverða takmarki, en takist okkur þetta, þurfum við ekki að kvíða framtíðinni. Það er því til mikils að vinna.

Í þessu sambandi kemur mér í hug ritgerð, sem Guðmundur Jónsson skólastjóri á Hvanneyri samdi á stríðsárunum og hlaut fyrir verðlaun frá Búnaðarfélagi Íslands. Í þessari ritgerð gerir hann m.a. samanburð á framleiðslukostnaði nokkurra landbúnaðarvara á árunum rétt fyrir stríðið í nágrannalöndum okkar samkvæmt opinberum skýrslum þeirra og svo framleiðslukostnaði hér á landi samkvæmt niðurstöðu búreikningaskrifstofu landbúnaðarins á sama tíma. Ef ég man rétt, varð útkoman á þá leið, að bezt reknu búin hér á landi gátu framleitt sambærilegar vörur með meðaltalsframleiðslukostnaði nágrannalandanna. Eins og þá stóðu sakir, þurfti því allur þorri bænda að koma búrekstri sínum í það horf, er þá var bezt hér á landi, til þess að takmarkið næðist. Mér vitanlega hefur slíkur samanburður ekki verið gerður á síðustu árum og ræði því ekki frekar um þetta.

Hér hefur verið bent á tvö stefnumið, sem við sjálfstæðismenn teljum, að keppa beri að: að stórauka framleiðsluna og reyna jafnframt að koma búrekstrinum í það horf, að framleiðslukostnaðurinn lækki mjög verulega. En til þess að þetta takist, þarf m.a. að tryggja bændum mikið lánsfé til fjárfestingar. Nægir í því sambandi að benda á, að þegar bændur í nágrannalöndum okkar hefja búskap og setjast á jarðir feðra sinna, þá taka þeir oftast við jörð, sem er fullræktuð, með húsum úr varanlegu efni, sem aðeins þarfnast viðhalds, búpeningi, sem er kynbættur í marga ættliði, og auk þess styðjast þeir við aldagamla verkmenningu og tækni. Berum þetta svo saman við aðstöðu íslenzkra bænda á sama tíma, sem flestir hafa orðið að byggja allt frá grunni.

Við erum nú að vinna þau verk, sem bændur nágrannaþjóða okkar unnu á s.l. öld og hafa lokið að mestu við fyrir löngu að rækta landið og byggja á því varanlegar byggingar. Og þetta þurfum við helzt að gera á einum mannsaldri.

Er það þá nokkur furða, þótt bændur þurfi meðal annars mikið lánsfé auk eigin framlags til þess að koma því í verk, sem hefur tekið bændur annarra þjóða bæði ár og aldir? Og við þessa stéttarbræður okkar, sem í öllu standa á gömlum merg, eigum við þar að auki að keppa með vörur okkar á erlendum mörkuðum. Það er vægast sagt ójöfn aðstaða.

Að því hefur verið víkið, að fólksflóttinn úr sveitunum hafi stöðvazt í bili a.m.k., en það verður aðeins stundarfyrirbæri, ef ekki verður unnið kappsamlega að því að veita æskulýð sveitanna betri skilyrði en verið hefur til að hefja búrekstur í sveitunum. Til þess að landbúnaðurinn geti tryggt sér starfskrafta æskulýðsins og náð því marki í framleiðslu, ræktun og endurbyggingu sveitanna, sem stefnt er að, teljum við sjálfstæðismenn óhjákvæmilegt, að ríkið leggi fyrst um sinn fram fé til stuðnings landbúnaðinum svo sem gjaldgeta þjóðarinnar og hagur ríkissjóðs leyfir frekast á hverjum tíma. Jafnframt sé landbúnaðinum tryggt það fé til fjárfestingar, sem nauðsyn krefur.

Um stefnu okkar sjálfstæðismanna í landbúnaðarmálum að öðru leyti vísast til ályktana landsfundar flokksins s.l. haust.

Tími minn er á þrotum. En að endingu vil ég segja þetta:

Sjálfstfl. er stærsti flokkur þingsins. Hann á sjö börn í sjó og sjö á landi, sem kallað er. Eins og að líkindum lætur, eiga ekki allir flokksmenn sömu áhugamál. Okkur bændunum eru landbúnaðarmálin öðrum fremur hugstæð. Þeir, sem við sjóinn búa, hafa eðlilega meiri áhuga á öðru, t.d. útgerð og iðnaði. Þetta hefur ekki komið að sök. Það hafa verið eins konar óskráð lög innan þingflokks sjálfstæðismanna, þótt engin samþykkt hafi verið um það gerð, að séu bændafulltrúarnir í Sjálfstfl. á einu máli um afgreiðslu einhvers landbúnaðarmáls á þingi, og það erum við allajafna, þá fylgir yfirleitt flokkurinn því. Það er því undir okkur sjálfum komið, hvernig til tekst, og ekki við aðra að sakast í þeim efnum.

Ég hef þá lokið máli mínu. — Góða nótt.