13.12.1951
Sameinað þing: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Núna í jólakauptíðinni held ég, að Íslendingar, eldri og yngri, karlar og konur, séu um ekkert eins sammála og það, að vöruokrið sé. staðreynd, sem ekki þýði að neita. Þó er sá einn Íslendinga, sem ekki viðurkennir þessa staðreynd, og það er hæstv. viðskmrh., Björn Ólafsson. Er hann líka almennt meðal þjóðarinnar nefndur ráðherra okursins, og auðvitað er slíkum embættismanni nokkur vorkunn, þótt hann hafi sérstöðu meðal þjóðarinnar um afstöðu til málsins.

Á sama hátt er þjóðin líka sammála um þá sorglegu staðreynd, að atvinnuleysið sé að heltaka þjóðiifið, að það hafi nú þegar sett sitt dapurlega svipmót eða mark á daglegt líf fólksins í miklum meiri hluta íslenzkra kauptúna og bæja og að á seinustu mánuðum hafi skuggi þess einnig færzt yfir höfuðborgina sjálfa. Um þetta er alls ekki deilt meðal þjóðarinnar. Þessi dapurlega staðreynd er augljósari en svo, að nokkrum haldist uppi að neita henni. Stjórnarblaðið Tíminn birtir meira að segja leiðara í dag um atvinnuleysispláguna. Hefst Tímagreinin á þessari játningu, með leyfi hæstv. forseta: „Allmikið atvinnuleysi hefur verið í haust í ýmsum kauptúnum og kaupstöðum. Hér í Reykjavík ber nú einnig talsvert á atvinnuleysi“ o.s.frv. Þó er og einn, sem lætur til sín heyra um atvinnuástandið og virðist vera á öndverðum meið við alla þjóðina, og það er hæstv. atvmrh., Ólafur Thors. Hann sagðist í útvarpinu í gærkvöld „treysta því, að allir sanngjarnir menn viðurkenni, að ríkisstj. hafi sýnt áhuga og atorku í baráttunni gegn því almenna atvinnuleysi, sem yfir vofði og án alls efa hefði skollið á, ef stj. hefði ekki tekizt að bægja því frá með algerri stefnubreytingu og róttækum aðgerðum á sviði efnahagsmála þjóðarinnar“. Þarna höfum við það þá og höfum engan ólygnari fyrir því en Ólaf Thors. „Stjórnin hefur bægt því frá með róttækum aðgerðum.“ M.ö.o., atvinnuleysið er ekki til.

Þannig hallast ekki á fyrir þeim, þessum tveimur hæstv. ráðherrum Sjálfstfl. Annar þeirra er blindur á okrið, sem altekur allt þjóðfélagið. Hinn er staurblindur á böl atvinnuleysisins og neitar tilveru þess. — Það eru fleiri en Nelson, sem setja sjónaukann fyrir blinda augað.

Nei, atvinnuleysið er því miður ekki hugarburður eða tilbúningur stjórnarandstöðunnar. Ástandið í þessum málum hefur heldur ekki farið fram hjá Alþingi. Það er kannske víka — og þó tæplega það — síðan fjölmenn atvinnuleysisnefnd frá Iðju, félagi verksmiðjufólks, kom í alþingishúsið og gekk á fund allra formanna stjórnmálaflokkanna til að ræða við þá um hið einstæða hörmungarástand, sem skapazt hefur í iðnaðinum fyrir beinan tilverknað ríkjandi stjórnarstefnu og til að heita á formenn flokkanna um fulltingi við stjórnmálaaðgerðir til að afstýra voða, áður en Alþingi lyki störfum. — Í gærdag kom svo einnig í alþingishúsið fjölmenn nefnd frá fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík og leitaði fundar við alla þingflokka til umræðu um hið geigvænlega atvinnuleysi iðnverkafólks og iðnaðarmanna í bænum. Lagði nefndin fram óskir sínar um ákveðnar leiðir til úrbóta. Þessi nefnd skýrði frá því, að nú væru 15 prentarar atvinnulausir og Prentarafélagið greiddi vikulega 5000 kr. í atvinnuleysisstyrki. Er það einasta stéttarfélagið í landinu, sem getur slíkt um nokkurt skeið. 70 múrara sagði nefndin vera atvinnulausa, 130 vörubílstjóra, 400 iðnverkamenn og konur, 350 verkamenn, 35 málarasveina og svipaða tölu málarameistara, og þannig er ástandið í fleiri iðngreinum. Fullyrti nefndin, að alls mundu um 1200 manns vera atvinnulausir að mestu eða öllu leyti hér í Reykjavík eins og stæði. Þar að auki vofði atvinnuleysi yfir fjölda fólks í viðbót upp úr áramótum og hefði það þegar fengið sínar uppsagnir; þannig mundi ástandið fara hríðversnandi upp úr áramótum, ef ekkert yrði gert. Undirrót þessa atvinnuleysis í iðnaðinum taldi nefndin vera fyrst og fremst einmitt ákveðnar aðgerðir ríkisstj. í viðskipta- og efnahagsmálum, alveg öndvert því, sem atvmrh, vildi vera láta, er hann staðhæfði frammi fyrir þjóðinni, að atvinnuleysinu hefði verið bægt frá með stefnubreytingu stj. og róttækum aðgerðum í efnahagsmálum. Er því spurningin í þessu máli sú, hvor viti nú betur, hvar skór kreppir að, fólkið, sem ber hann á fætinum, eða Ólafur Thors í villunni sinni við Garðastræti, og hvor metur þannig réttar af ávöxtunum verkanir stjórnarstefnunnar á atvinnulífið, iðnverkafólkið eða atvmrh. - sumir mundu kannske allt eins segja atvinnuleysismálaráðherra.

Hæstv. atvmrh. var næsta drjúgur yfir þeim ósköpum, sem ríkisstj. hefði gert til að uppræta atvinnuleysið á Siglufirði. Þó viðurkennir hann, að ríkisstj. gæti ekki komið í síldarinnar stað sem aflvaki atvinnulífsins þar. Manni skildist þó, að Siglfirðingum hafi verið gefinn togari, tunnuverksmiðja væri í samfelldri starfrækslu þar árið um kring vegna aðgerða ríkisstj. og nýskeð væri búið að gefa þangað allt, sem til þyrfti í stórvirkt harðfrystihús. Ég óska Siglfirðingum hjartanlega til hamingju með einstæða velsæld þeirra, ef þessi lýsing ráðherrans hefur ekki bara verið glansmyndarjólakort með gyllingu í stað prentsvertu veruleikans. Mér skilst þó af fregnum að norðan, að togarinn eigi helzt að borgast við tækifæri og að íshúsið sé heldur ekki hugsað sem gjöf, sem engin von er til. Og enn fremur skilst mér, að ríkisstj. hafi engan hlut átt að því að tryggja rekstur tunnuverksmiðjunnar, hún muni aðeins eiga efni í ca. 40 þús. tunnur, sem skiptast skuli milli verksmiðjanna á Siglufirði og Akureyri, og muni það hvergi nærri duga til að tryggja samfelldan rekstur árlangt, heldur aðeins um skamman tíma.

Þó sé fjarri mér að vanþakka það, sem vel er gert, og það er rétt, að með því að hafa hér hungurgöngunefnd á tröppum stjórnarráðsins í mestallt haust, hefur Siglfirðingum tekizt að fá meiri aðstoð til að sigrast á atvinnuleysisbölinu hjá sér en nokkru öðru bæjarfélagi hefur verið veitt. En það eru hins vegar of miklar ýkjur í alvörumáli, þegar atvmrh. telur sig hafa útrýmt atvinnuleysinu í landinu. Svo mikið er víst, að hann hefur ekki komið Ísfirðingum í þorsksins stað, og mun sannarlega verða gengið úr skugga um það á næstunni, hvaða skilning þessi virðulegi ráðherra hefur t.d. á atvinnulífi Ísfirðinga og hvaða aðstoð hann vill veita viðleitni þeirra til að koma því á traustan framtíðargrundvöll. Og um það má ráðherrann vera öldungis viss, að ástandið í atvinnumálunum er ekki betra en það, þrátt fyrir allt það, sem hæstv. ráðherrar hver á fætur öðrum segjast hafa gert til útrýmingar atvinnuleysinu, að bæði iðnverkafólkið í Reykjavík og atvinnuleysingjarnir annars staðar á landinu hafa fyllstu ástæðu til að segja í allri hógværð: Ofboðlítið betur, ef þér getið, herra Ólafur Thors.

Morgunblaðið hefur nú sagt okkur það í dag, að Ólafur Thors hafi í gærkvöld flutt alvöruþrungna og rökfasta ræðu. Ekki veit ég, hvaða dóm hlustendur leggja á þá ræðu. En mér fannst Ólafur Thors vera léttur á brún og léttur í máli og taka létt á málum þeim, sem hann vék að, enda er það eitt höfuðeinkenni þessa stjórnmálaforingja að koma létt við jörðu, jafnvel þó að alvarleg mál séu til umræðu. — Hann kvaðst vera mikill skottulæknir og gera sér góðar vonir um að geta læknað hæstv. forsrh., Steingrím Steinþórsson, af framsóknarveikinni, sem hann kvað allra pesta alvarlegasta næst á eftir karakúlpestinni. Annars hafði ráðh. þá sögu að segja, að í þetta sinn gæti hann látið sér nægja að tala stutt, því að hann hefði haldið svo langa ræðu á landsfundi sjálfstæðismanna og þar tekið fram flest það, sem hann hefði til stjórnmálanna að leggja um þessar mundir, yrði ræða sú hin mikla sérprentuð í pésa, sem landsmönnum öllum væri ætlað að lesa og læra. Þóttu þetta góð tíðindi, því að e.t.v. verður óþarfi, að nokkur sjálfstæðismaður haldi ræðu, eftir að þetta „Helgakver“ íhaldsins hefur á þrykk út gengið. Varð það og ljóst að ræðulokum ráðh., að í þetta sinn hefði hann a.m.k. ekki þurft að halda neina ræðu.

Öðru máli gegndi með Eystein Jónsson fjmrh. Hann var þungur á brún og þungorður í fyrstu og virtist vilja láta líta svo út, að þar væri þungbyggður skriðdreki á ferð, sem hann fór. Samt gat ég ekki betur fundið en að hæstv. ráðh. færi létt — allt að því eins og grænlenzkur hundasleði — yfir ýmsa hnotta og svellbólstra söluskatts og tollheimtu, sem á vegi hans urðu.

Þrátt fyrir það að ráðh. áætli nú jafnmeistaralega vitlaust tekjur desembermánaðar eins og hann fyrir ári áætlaði allar tekjur ársins 1951, játar hann nú, að umframtekjur þessa árs verði á annað hundrað millj. kr. Í fyrra fullyrti hann, að till. Alþfl. um 32 millj. kr. aukin útgjöld til verklegra framkvæmda hlytu að leiða til hallarekstrar, nema þá við kæmum með till. um álagningu nýrra skatta. Þetta er strax í áttina, þó að játað sé af öðrum helztu mönnum stj., t.d. Gisla Jónssyni, að umframtekjurnar verði alltaf 150 millj. kr.

Þá játar ráðh. nú, að söluskatturinn verði nú 80–90 millj., en í fyrra varð þessum sama ráðh. aðeins með naumindum mjakað til að áætla hann 55 millj. við 3. umr. fjárl. (50 millj. við 2.). Þessi játning er líka mikið í áttina, þó að enn sé ekki öllu kingt, sem þingtíðindin herma eftir ráðh. frá í fyrra um þetta atriði. Um söluskattinn skulum við svo endanlega ræða að loknum janúar næstkomandi, því að þá fyrst verður hann inn kominn að mestu, og mun þá sýna sig, að hann verður ekki innan við 100 millj. Desember gefur alltaf tvöfaldar tekjur.

Hæstv. fjmrh. segir nú fyrst frá stórfelldum umframgreiðslum, sem orðið hafi hjá sér á þessu ári. Taldi hann fram nokkrar óumflýjanlegar hækkanir gjalda, svo sem hækkun viðhaldsfjár til vega o.fl., sem ekki yrði komizt hjá, sem rétt er. En þær hækkanir, sem hann nefndi, námu þó ekki meira en 20–30 millj. alls. Með þessu vildi ráðh. leiða líkur að því, að greiðsluafgangurinn yrði endanlega ekki meiri en 50–60 millj. Og þar af upplýsti hann meira að segja, að stjórnarflokkarnir væru búnir að koma sér saman um skiptingu á 30 millj. Væru því ekki eftir nema 20–30 millj. óráðstafað.

Við þessu er nú í fyrsta lagi það að segja, að ekki hefur Alþ. enn þá samþ. þessa baktjaldaskiptingu. Í annan stað hljóta greiðslur ráðh. umfram fjárlagaheimildir og umfram nauðsynlegar hækkanir að nema allmörgum milljónatugum, sem ég vildi ekki ætla honum að óreyndu, þegar ég reiknaði með allt að 100 millj. tekjuafgangi. — En þá er það einmitt komið á daginn, sem hættulegast er í sambandi við það að ganga frá falskri og allt of lágri tekjuáætlun fjárlaga, en það er það, að ráðherra standist ekki þá freistni að fara meira fram yfir heimildir gjalda, þegar hann situr með tugi millj. í höndunum, án þess að Alþ. hafi bundið það fé til ákveðinna fjárveitinga.

En nú veit ég þá það, að það hefur jafnvel hent þennan hæstv. fjmrh. að grípa til umframteknanna án heimildar Alþ., og hefði ég þó trúað honum betur en flestum öðrum til að skila því sem ósnertum tekjuafgangi, þar til Alþ. hefði ákveðið, hvernig því skyldi varið. Sýnir þetta það eitt, að það má ekki henda Alþ. aftur að ganga svona frá fjárl. Til þess eru vitin að varast þau.

Tekjuáætlunina fyrir 1952 ber að mínu áliti að hækka a.m.k. um 40–50 millj., svo að hún verði nærri lagi. Jafnframt ber þinginu, ef ekki verður horfið að lækkun skatta, að ráðstafa þeim tekjuafgangi, sem þá kemur út, eða í þriðja lagi að ákveða, að mismunurinn skuli koma út sem ófalinn tekjuafgangur, sem ráðh. skili eins og hann er maðurinn til — í lok næsta fjárlagaárs.

Spurningum ráðh. um það, hvað það væri, sem við Alþfl: menn teldum hægt að spara í ríkisrekstrinum, er mér ljúft að svara. Það er auðsætt mál, að ef menn viðurkenna á annað borð þá staðreynd, að ekki megi halda lengra á braut hækkandi skatta, þá er fyrsta sporið, sem stíga verður, að stöðva fjölgun í starfslíði ríkisins. Næsta sporið er að athuga, hvort ekki sé unnt með bættum vinnubrögðum, t.d. vinnuvélum eða breyttu skipulagi fyrirtækja í einfaldari átt, að stöðva hækkanir þeirra fjárupphæða í krónutölu, sem veittar eru til hinna ýmsu ríkisstofnana og fyrirtækja og hafa farið síhækkandi frá ári til árs. Enn kæmi til álita að athuga, hvort ekki mætti fella niður einhverja gjaldaliði, sem ekki teldust bráðnauðsynlegir. En mér er ekki kunnugt um, að hæstv. ríkisstj. hafi fallizt á að fara neina af þessum leiðum. Hæstv. fjmrh. sagðist að vísu hafa sagt upp og losað úr þjónustu ríkisins um 60 manns. Nú vil ég spyrja: Hvar hefur sparnaðurinn af þessari ráðstöfun komið fram á fjárlögum? Ég fullyrði, að hans hefur þar hvergi orðið vart. En ef svo væri samt, þá er máske hægt að verja þeim tveim milljónum króna, sem við þetta hefðu átt að sparast, annaðhvort til lækkunar á sköttum eða upp í aðstoð við sveitarfélögin, sem ekki verður hjá komizt að rétta hjálparhönd. Sé þetta hins vegar skömmtunarskrifstofan, sem enginn þakkar þótt lögð væri niður, þegar skömmtun var hætt, þá er þess að geta, að henni var ætlað að standa undir sér sjálfri, og hafði hún því engin áhrif á útkomu fjárlaga frá eða til.

Hins vegar er í fjárlagafrv. um fjölganir að ræða, bæði á hálfum og heilum mönnum í sjálfum ráðuneytunum, einmitt þar, sem sízt mættu eiga sér stað viðbætur á starfsliði, ef stöðvun á þenslu starfskerfisins væri ríkisstj. alvörumál. Felld var í fjvn. till. um að neita um þessa fjölgun. Föstum starfsmönnum er einnig fjölgað í nokkrum öðrum ríkisstofnunum, eins og t.d. í skattstofunni um tvo, þar sem nú vinna 30 manns, og við dómgæzlu og lögreglustjórn, en þar er einnig fjölgað bilum. Þannig bætist við starfsmannalið ríkisins ár frá ári. Fjöldi tillagna frá stjórnarandstöðunni um að hamla upp á móti vaxandi kostnaði við ýmis stærstu skrifstofubáknin hér í Reykjavík var drepinn af meiri hl. stjórnarliðsins í fjvn. Þannig hefur borgardómaraembættið hækkað um 98 þús. kr. síðan 1950, kostar nú 450 þús. Sakadómaraembættið hefur hækkað um 218 þús. síðan 1950, kostar nú 960 þús. Kostnaður við tollstjóraembættið hefur hækkað um 760 þús. síðan 1950 og er nú 2 millj. og 900 þús. kr. Auk þess hefur tollgæzlan hér í Reykjavík hækkað um 580 þús. siðan 1950 og kostar nú 2 millj. og 100 þús. kr. Þannig mætti lengi telja. Þetta eru orðin stór og dýr fyrirtæki, mikil bákn, sem taka til sín mikið fé í ríkisreksturinn, og ég spyr: Er þarna ekkert hægt að spara? Ég veit, að hæstv. ráðh. segir nei, en það sannfærir mig ekki.

Eða lítum á 10. gr. fjárlaganna. Sú gr. hækkar um nálega 2 millj. bara frá seinustu fjárlögum. — Ekki batnar heldur þegar kemur að 11. gr., sem fjallar um fjárveitingar til dómgæzlu og lögreglustjórnar, opinbers eftirlits, skatta- og tollheimtu. Þar hækkar A-liður gr. einn úr 16.3 millj. í 21.6 millj., annar liðurinn, B-liður, um hálfa milljón, úr 1.1 í 1.6, C-liður, sem er kostnaður vegna innheimtu tolla og skatta, úr 4.5 millj. í 8:6 millj. og sameiginlegur kostnaður vegna embættisrekstrar úr 1.5 í 2.3 millj. Alls hækkar þessi eina gr. fjárlaganna um nærri 11 millj. kr., enda er hún týpiskasta dæmið um rekstrarkerfi ríkisins og frjóan vöxt þess hvað kostnað áhrærir á einu einasta ári. Þarna — og viðar með svipuðum hætti — er undirbygginguna að finna að þeirri skattaplágu, sem ég gerði að umræðuefni í gær og alla er nú að sliga.

Þá eru það utanríkismálin, sem ég vil gefa hlustendum kost á að kynnast dálítið og bera undir dóm skynbærra manna, hvort engum sýnist sem mér, að einhver sparnaður væri þar hugsanlegur, ef vilji væri með.

Það er þá fyrst aðalræðismannsskrifstofan í New York. Þar hefur ein stúlka í laun og staðaruppbót 42400 kr. Annar kostnaður 19600 kr., eða alls 62 þús. kr. — Aðalræðismannsskrifstofan í Hamborg: Þar eru laun og staðaruppbót aðalræðismannsins 124 þús. kr. og kostnaður alls 229 þús. Þetta var ekki til fyrir 5 árum. — Sendiráðið í Osló: Laun og staðaruppbót sendiherrans þar eru 128500 kr. Laun og staðaruppbót sendiráðsritara 85700 kr. Kostnaður alls 262600 kr. Var ekki til fyrir 5 árum. — Sendiráðið í Kaupmannahöfn: Laun og staðaruppbót sendiherra eru 162 þús. kr. Laun og staðaruppbót sendiráðsritara 46800 kr. Kostnaður alls 267 þús. Þetta var 120 þús. fyrir 5 árum. — Sendiráðið í Stokkhólmi: Laun og staðaruppbót sendiherra 147700 kr. Kostnaður alls 312 þús. kr. Var 109 þús. fyrir 5 árum. — Sendiráðið í London: Laun og staðaruppbót sendiherra 173400 krónur. Laun og staðaruppbót sendiráðunautar 137100 kr. Laun og staðaruppbót sendiráðsritara 92500 kr. Kostnaður alls 658 þús. kr. Var 219 þús. fyrir 5 árum. — Sendiráðið í París: Laun og staðaruppbót sendiherra 254600 kr. Laun og staðaruppbót sendiráðunautar 146900 kr. Laun og staðaruppbót sendiráðsritara 122400 krónur. Kostnaður alls 742 þús. Þetta var ekki til fyrir 5 árum. — Sendiráðið í Washington: Laun og staðaruppbót sendiherra 293800 kr. Laun og staðaruppbót sendiráðunautar 117500. Kostnaður alls 702800 kr. Var 230 þús. fyrir 5 árum. Ofan á þetta bætist skattfrelsi. Stjórn, sem þetta allt lætur ósnert, er ekki sparnaðarstjórn, heldur eyðslustjórn, sem haldið hefur svo á málum, að 150 milljóna umframtekjur geta hjaðnað niður í 50–60 millj. kr. tekjuafgang.