13.12.1951
Sameinað þing: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það er auðheyrt, að aðalumboðsmaður Stalins á Íslandi, sem nú talaði, er reiður yfir því, að Rússar skuli ekki fyrirhafnarlaust geta lagt undir sig Ísland, ef þeim býður svo við að horfa. Það verður nú samt við þetta að sitja, þótt hann sé móðgaður. Íslendingar eru ráðnir í því að hafa samstarf við vestrænu lýðræðisþjóðirnar, og umboðsmaður Stalins mun ekki finna marga Íslendinga, sem leggja trúnað á þann róg, að vestrænu lýðræðisþjóðirnar ætli að ráðast á Rússa. Sá áróður hans mun falla í grýttan jarðveg. En þessi ræða hans sýnir betur en við mátti búast, hver áhugamál hans eru. Hann er eitt litið tannhjól í hinni stóru vél alþjóðakommúnismans og ekkert annað.

Ég hélt fram í minni ræðu í gær, að þeim mun minna sem Landsbankinn þyrfti að lána ríkinu, þeim mun meira fé gæti hann lánað atvinnuvegunum. Þetta sagðist hv. 2. landsk., Lúðvík Jósefsson, ekki skilja. Og ég sagði, að ef lán bankans til ríkisins ykjust, þá yrði bankinn að draga saman lánveitingar til atvinnuveganna. Þetta þykist þessi hv. þm. ekki heldur skilja. Mér er sama, hvort hann skilur þetta eða ekki. Aðrir skilja það, og það er aðalatriðið. — Og í sambandi við atvinnumálin er þessum hv. þm. hollt að minnast þess hvernig stóð á, þegar hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, fulltrúi kommúnista, var atvmrh., að þá sigldu allir togararnir og alltaf með allan afla sinn og lögðu hann upp í erlendum höfnum og aldrei á Íslandi, en nú er mjög mikið af togurum, sem leggja upp afla sinn á Íslandi og auka atvinnu innanlands. Það er sýnishorn af framburði hv. þm., hvernig hann talaði í sambandi við atvinnumálin.

Hv. 6. landsk., Hannibal Valdimarsson, hefur látið orð liggja að því, að ég hefði farið — að mér skildist — óráðvandlega með tekjuafganginn. Átti ég að loka sjúkrahúsunum, þegar kostnaður við þau hafði numið því, sem þeim hafði verið ætlað til rekstrarkostnaðar á fjárl.? Átti ég ekki að halda áfram framkvæmdum, sem búið var að ráðast í, sauðfjárskiptum og samgöngumálum og öðru slíku? Svona mætti spyrja áfram um allt að tuttugu liði á fjárl. Og ég spurði þennan hv. þm. fyrir stuttu, á hvaða liðum hann vildi spara, og taldi þá upp marga liði. Og þá sagði hann, að það væri auðvelt að spara. Fyrst mætti spara á utanríkisþjónustunni, og næst mætti svo athuga, hvort ekki væri hægt að spara á einhverjum öðrum liðum. Þetta voru svör hans við spurningum mínum. — Þá las hann upp tölur frá 1950 um kostnað við ríkisreksturinn og svo tölur, sem áætlaðar eru fyrir árið 1952, og gat um hækkun á þeim liðum. Þessar tölur hafa ekki hækkað vegna útþenslu í ríkiskerfinu, heldur vegna þess, að laun og allur rekstrarkostnaður hefur hækkað verulega, og þess vegna hljóta þessir liðir að hækka.

Þá vil ég víkja að verðlagsmálunum. Það kom engum á óvart, þótt verðhækkanir leiddi af gengislækkuninni. Slíkt var fyrir fram sjáanlegt. Á hinn bóginn hefur það valdið miklum truflunum og orðið til þess, að hin raunverulegu áhrif gengislækkunarinnar á verðlagið hafa aldrei sézt glöggt út af fyrir sig, að verðlag erlendis hefur hækkað gífurlega, síðan gengislækkunin átti sér stað. Þetta hafa stjórnarandstæðingar notað sér og hispurslaust rakið til gengislækkunarinnar alla þá gífurlegu verðhækkun á aðfluttum vörum, sem orðið hefur síðan snemma á árinu 1950. Þetta er þó hin versta fölsun.

Ég hef fengið hjá hagstofustjóra upplýsingar um hækkun á verðiagi nokkurra vörutegunda, miðað við marz 1950 og október s.l., og er það miðað við fob.-verð -~- flutningsgjald:

Hveitimjöl .... . . . . . . .. 17,9 % hækkun

Rúgmjöl . . . .. . . .. . . . . .28,1 —

Kaffi . .. .. . . . . . . .. . . . . 72,6 % hækkun

Sykur ................ 28,1 — —

Smjörlíkisolía ......... 24,7 — —

Kol ................... …63,8 — —

Benzín ..................38,4 — —

Brennsluolía ..........47,0 — —

Sement ……………52,7 — —

Steypustyrktarjárn ....69,3 —

Timbur ………………5.7 - —

Þótt hér sé aðeins um nokkur dæmi að ræða, þá sýnir þetta glöggt, hve gífurleg verðhækkun hefur orðið á aðfluttum vörum. Hins vegar sagði fulltrúi kommúnista í gærkvöld, að þessar hækkanir væru smávægilegar. Heildarmynd gefa þessi dæmi hins vegar ekki. En það gefur aftur á móti nokkra heildarmynd í þessu máli, að gerð hefur verið rannsókn á rótum þeirrar verðhækkunar, sem orðið hefur í landinu, og kemur þá í ljós, að bein hækkun á innkaupsverði erlendra vara nemur jafnmiklu og verðhækkunaráhrif gengislækkunarinnar á erlendar vörur. Dæmið lítur því þannig út, að helming þeirra verðhækkana, sem orðið hafa innanlands, má rekja til gengislækkunarinnar og helming til utanaðkomandi áhrifa, sem gengislækkuninni eru alveg óviðkomandi.

Stjórnarandstæðingar gera mikið úr því, að óhagstætt hafi verið fyrir neytendur að afnema verðlagseftirlit á þeim vörum, sem settar hafa verið á frílistana. Allur er þó þeirra samanburður í þessu sambandi gersamlega út í hött. Við vitum öll, hvernig ástandið var hér í þessum efnum. Verðlagseftirlit var hér að nafninu til, en það náði ekki tilgangi sínum nema að nokkru leyti. Vöruskorturinn var svo stórkostlegur, að fjöldi vara var blátt áfram seldur á svörtum markaði og undir búðarborðinu með uppskrúfuðu verði og alls konar klækir notaðir til þess að komast fram hjá verðlagseftirlitinu. Fræg eru dæmin um það, að efni fengust yfirleitt ekki til heimasauma, og urðu menn að kaupa flikurnar, eftir að þær höfðu farið gegnum margar hendur og verið hrúgað á þær álagningunni, og voru þá rándýrar og oft nær ónothæfar.

Samanburður á þeirri álagningu, sem átti að vera fyrir gengislækkunina á ýmsum vörum, og þeirri álagningu, sem nú er á þeim sömu vörum í frjálsri samkeppni, er því í mörgum dæmum gersamlega út í bláinn. Hvaða þýðingu hefur t.d. að bera saman það verð, sem átti að vera á nylonsokkum í búðum, og þá álagningu, sem nú er á nylonsokkum í verzlunum? Allir vita, að nylonsokkar voru seldir á 60–70 kr. parið fyrir gengislækkun og að þeir eru nú miklu ódýrari þrátt fyrir bátagjaldeyrisálag og aukna álagningu frá pappírsálagningu verðlagseftirlitsins, sem ekki var til annars staðar en á pappír þess.

Það var eðlileg ráðstöfun að draga saman verðlagseftirlitið, um leið og verzlunin var gefin frjáls og búðirnar fylltust af vörum. Það eina verðlagseftirlit, sem dugir til lengdar, er aðhald frá verzlunarsamtökum fólksins sjálfs. Höfuðatriðið í sambandi við verðlags- og verzlunarmálin er, að neytendasamtökin — kaupfélögin — hafi möguleika til þess að flytja inn vörur óhindrað og mó#a sanngjarnt verðlag.

Hið aukna verzlunarfrelsi og álagningarfrelsi krefst þess, að neytendur séu árvakrir og varkárir og beri saman verðlag og láti þá njóta viðskiptanna, sem þess eru verðugir.

Engum blandast hugur um, að verzlunarástandið hefur breytzt stórkostlega til batnaðar frá því, sem áður var. Verzlunarálagning hefur að vísu eitthvað hækkað á sumum vörum, en á móti kemur, að menn fá nú betri vörur vegna samkeppninnar en áður, hentugri vörur og geta valið úr efnum til þess að vinna sjálfir eftir sínu höfði og til þess að spara heimilum sínum stór útgjöld. Svarti markaðurinn er horfinn. Verzlunaránauðinni hefur verið af létt, og þurfa menn ekki að knékrjúpa neinum til þess að geta fengið helztu nauðsynjar, eins og áður tíðkaðist.

Þess er rétt að geta, að í öðrum löndum gengur þróunin í sömu átt og hér. Bæði í Noregi og Bretlandi t.d. hafa ýmsar vörur verið felldar undan verðlagsákvæðum vegna aukins vöruframboðs. Hér mun verða fylgzt með þróuninni í þessum málum. Og sýni það sig, að ekki myndist hér eðlilegt verðlag í vissum greinum, vegna þess að framboð sé ekki nægilegt af þeim vörutegundum, þá verður að gera sérstakar ráðstafanir til verndar neytendum.

En það ráðið, sem bezt tryggir hag fólksins í þessu sambandi, er jafnvægisbúskapur, sem gerir nægilegt vöruframboð mögulegt, sem gerir verzlunarsamtökum fólksins mögulegt að móta verðlagið.

Stjórnarandstæðingar hafa í þessum umr. mikið rætt um tollana og skattana. M.a. hafa þeir talað um aukningu tolla í ríkissjóð og að opinberar tekjur væru komnar upp í svo og svo mörg prósent af þjóðartekjunum. Var svo að heyra af þessu tali, að núverandi ríkisstj. hefði hækkað skatta og tolla.

Ég svaraði þessu að vísu allrækilega í gær, en vil endurtaka það, að þótt áróður stjórnarandstæðinga bendi til annars, þá hefur núverandi stjórn eða þingmeirihluti hvorki hækkað skatta né tolla. Lækkanir vega á móti nokkrum smáhækkunum, sem gerðar hafa verið, og tekjustofnarnir eru þeir sömu og fyrrv. ríkisstj. hafði við að styðjast.

Hv. 4. þm. Reykv., Haraldur Guðmundsson, talaði í gærkvöld mikið um hina gífurlegu skattabyrði og sagði, að gallinn væri sá, að skattarnir hvíldu þó ekki mest á þeim, sem helzt gætu borgað. Hann talaði um það, hve beinu skattarnir væru orðnir lítill hluti af tekjum ríkissjóðs. Hv. þm. hefði átt að geta þess í leiðinni, að tillögur Alþfl. á þessu þingi eru þær að lækka stórlega beinu skattana frá því, sem þeir eru. Skýtur þetta nokkuð skökku við að fárast í öðru orðinu um það, hversu mikill hluti ríkisteknanna sé tekinn með óbeinum álögum, en leggja jafnframt til, að beinu skattarnir séu stórlega lækkaðir.

Enn fremur sagði hv. þm., að tekjuskatturinn væri orðið þannig á lagður, að hann kæmi sérlega illa við þá snauðu. Er það ekki ný bóla, að þessu sé haldið fram, og hefur áróðrinum í þessu verið hagað þannig, að maður skyldi halda, að það væri eitthvert sérstakt bjargráð fyrir fátæklingana, að knúnar væru fram lækkanir á beinum sköttum til ríkisins. Í þessu sambandi vil ég nefna nokkrar tölur:

Af 20 þús. kr. nettótekjum greiða hjón með tvö börn 112 kr. í beina skatta til ríkisins. Ef þau hafa 25 þús. kr. tekjur, þá greiða þau til ríkisins 365 kr. Ef þau hafa 30 þús. kr. tekjur, þá greiða þau til ríkisins 632 kr. Ef þau hafa 40 þús. kr. tekjur, þá greiða þau til ríkisins 1429 kr. Og ef þau hafa 50 þús. kr. tekjur, þá greiða þau til ríkisins 2915 kr.

Af þessum tölum sést það glögglega, að alþýða manna er ekki þjökuð af beinum sköttum til ríkisins, þótt mönnum eigi að skiljast annað af þeim áróðri, sem settur er upp um þetta mál.

Þetta vildi ég taka fram við þetta tækifæri, þar sem ég hef ekki eytt tíma þingsins í kappræður um þessi efni í sambandi við þau mörgu frv., sem fram hafa komið snertandi þetta mál. Hitt er svo annað mál, að skattalöggjöfin þarfnast endurskoðunar og ekki siður sú löggjöf, sem lýtur að tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga. Af þeirri ástæðu er ég fylgjandi þeirri till., sem hér hefur komið fram á Alþ. um, að efnt verði til þess konar endurskoðunar með skipun milliþinganefndar.

Það hefur verið sýnt fram á það í þessum umr., að afstaða stjórnarandstæðinga til fjárhagsmálanna er fullkomin botnleysa. Till. þeirra um afnám tolla þýða greiðsluhallabúskap á nýjan leik, stórfelldan niðurskurð verklegra framkvæmda, enn aukna lánsfjárkreppu fyrir atvinnuvegina, gífurlegt atvinnuleysi og aukna fátækt.

Fjármálastefna ríkisstj. hefur aftur á móti haft í för með sér: Að ríkinu hefur verið forðað frá algeru greiðsluþroti, sem orðið var, þegar ríkisstj. tók við. — Gert mögulegt að slaka á verzlunarhöftunum og létta af þeirri óþolandi verzlunaránauð, sem ríkti hér áður. — Orðið til þess, að grundvöllur myndaðist fyrir erlendum lántökum til framkvæmda, sem annars hefðu ekki komið til mála. — Haft í för með sér á þessu ári verulegan greiðsluafgang, sem nú getur orðið notaður til þess að styðja ýmsar þær framkvæmdir, sem tilfinnanlegast skortir fé til, og til þess að létta á vanskilaskuldum ríkisins. Þá hefur þessi batnandi afkoma ríkisins gert mögulegt að veita margs konar öflugan stuðning, þar sem erfiðleikar hafa steðjað að. Í því sambandi má nefna sem dæmi, að hraði fjárskiptanna hefur verið aukinn, stuðningur veittur vegna óvenjulegra harðinda og ráðstafanir gerðar til þess, að togaraútgerð gæti hafizt á þeim stöðum, þar sem fjárhagserfiðleikar eru mestir.

Vegna batnandi afkomu ríkisins hefur verið haldið uppi meiri verklegum framkvæmdum en nokkru sinni fyrr á sama tíma, bæði fyrir fé ríkissjóðs og mótvirðissjóðs, en fé mótvirðissjóðs hefði ekki getað urðið notað til slíkra framkvæmda, ef halli hefði orðið á ríkisbúskapnum. Með þessu hefur örbirgð verið bægt frá dyrum þúsund heimila í landinu. Þá er það vegna þessarar fjármálastefnu, að enn þá á næsta ári eru fyrirhugaðar jafnstórfelldar framkvæmdir og áður.

Það yrði skammgóður vermir að svipta ríkið tekjustofnum, eins og stjórnarandstæðingar segjast vilja. Á því mundu menn ekki græða. Greiðsluhallabúskap hlýtur að fylgja stórfelldur samdráttur framkvæmda, aukin lánsfjárkreppa og samdráttur atvinnuveganna, atvinnuleysi og örbirgð.

Afnám tekjustofna nú þýddi bráðabirgðaávinning þeirra, sem hafa fastar tekjur og ekki missa staðfestu sína strax við stóraukið atvinnuleysi, en gífurlegt tjón allra þeirra þúsunda, sem eiga afkomu sína beint undir atvinnuástandinu, — og síðan eftir tiltölulega örstuttan tíma margfaldar byrðar og þrengingar fyrir þá, sem þykjast hafa sitt á þurru og telja sig hagnast fyrst í stað.

Þegar búið er að svipta lýðskrumsblæjunni ofan af tillögum stjórnarandstæðinga og rekja samhengið, þá blasir við, að tillögur þeirra miða blátt áfram að því að velta erfiðleikunum yfir á þá, sem eiga allt sitt undir atvinnuástandinu, yfir á þá, sem ótryggasta hafa afkomuna, til ímyndaðs stundarhags fyrir hina, en endanlega til stórtjóns fyrir alla landsmenn.

Kommúnistar engjast eins og maðkar á öngli, þegar ofan af þeim er flett, og reyna sem fyrr að leita sér skjóls í þeirri fjarstæðu, að það þyrfti engar áhyggjur að hafa, þótt hætt væri að innheimta skattana, — þeir segja, að það mætti láta Landsbankann búa til peninga og lána ríkissjóði þá upp í útgjöld hans og halda þannig uppi framkvæmdum og atvinnu. Þetta er auðvitað ekkert nema fáránleg blekking. Framkvæmdir verða ekki byggðar á því að búa til peninga, sem ekkert stendur á bak við. Framkvæmdir geta ekki orðið byggðar á hallaútlánum innanlands, nema því aðeins, að landið eigi gjaldeyrissjóði, sem hægt sé að nota til þess að mæta með slíkri útlánaaukningu.

Fjárfestingarframkvæmdir, sem veita atvinnu, verða að greiðast af þjóðartekjunum — framleiðslunni — nema erlend lán fáist til þeirra eða landið eigi gjaldeyrisvarasjóði, sem geti staðið undir þeim. Þjóðin getur ekki létt á sér skattana og tollana til þess að auka þannig úttekt sína á neyzluvörum og búið svo til handa sér pappírspeninga í staðinn til þess að standa undir framkvæmdum. Bankarnir geta ekki lánað meira en inn í þá er lagt, nema á móti standi framleiðsluvörur eða gjaldeyriseign.

En hvers vegna leggja kommúnistar nafn sitt við þessa endileysu? Þeir mega til. Þetta er einn þátturinn í því að liða sundur þjóðfélagsbygginguna. Þeir verða að reyna að telja mönnum trú um, að allar hömlur, sem á því eru, að menn fái óskir sínar uppfylltar, séu mannaverk, — telja mönnum trú um, að allt væri hægt, án þess að nokkur legði neitt að sér og án þess að nokkur þyrfti að borga tolla eða skatta, ef þrælmenni þau, sem með völdin fara, legðu ekki steina í götuna og neituðu að búa til peninga. Hitt mega kommúnistar vita, og það eru þeir nú að finna, að fleiri og fleiri fá blátt áfram ógeð á lýðskrumi þeirra og bellibrögðum.