13.12.1951
Sameinað þing: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Hv. 3. landsk., Gylfi Þ. Gíslason, hafði í ræðu sinni æðimiklar áhyggjur út af framsóknarsýki, sem hann segir, að hæstv. atvmrh. hafi talið mig haldinn af og hann væri að reyna að lækna. Ég get sagt báðum þessum ágætu mönnum það, að hvort sem eru sameiginlega eða sinn í hvoru lagi, mundu þeir áreiðanlega engin áhrif hafa á mig. Ég tel mér jafnskylt að víta afglöp nýsköpunarstjórnarinnar og átelja harðlega hina ábyrgðarlausu yfirboðspólitík Alþfl. En er það ekki svo, að hv. þm. langi til að njóta lækningatilrauna hæstv. atvmrh.? Það virtist greinilega koma fram í ummælum hans áðan.

Þessum umræðum er nú brátt lokið. Áheyrendur um land allt hafa heyrt málflutning ríkisstj. og þeirra flokka, er styðja hana, annars vegar, en stjórnarandstæðinga hins vegar. Ég tel einmitt mjög mikilsvert, að hver og einn meti eins óhlutdrægt og unnt er það, sem fram hefur komið í þessum umræðum. En eins og ég benti á í ræðu minni í gær, verður það ekki gert nema mynda sér yfirsýn um þróun stjórnmálanna síðustu árin — athuga hleypidómalaust, hvernig þjóðarbúið stóð, þegar núverandi ríkisstj. tók við yfirstjórn þess, og hvað gert hefur verið tvö síðustu árin til þess að rétta hag þess.

Árásir stjórnarandstæðinga á ríkjandi stjórnarfar verða og að metast með hliðsjón af þeim tillögum, sem þeir sjálfir bera fram um breytta stjórnarhætti. Það er ekki nóg að rífa niður. Það geta tryllt og skynlaus náttúruöflin gert. Sú ábyrgð hvílir á hverri stjórnarandstöðu lýðræðisríkis, að ef hún rifur niður ráðstafanir ríkisstj., þá verður um leið að benda á önnur úrræði. Að öðrum kosti verður slíkt niðurrif skoðað ómerkt orðagjálfur.

Það sérkennilegasta við þessar umræður er einmitt það, að stjórnarandstæðingar hafa ekki leitazt við að benda á nein önnur úrræði í fjárhags- og atvinnumálum en notuð hafa verið. Skal það rökstutt með nokkrum dæmum:

1. Háttvirtir stjórnarandstæðingar hafa enga tilraun gert til þess að hnekkja þeirri lýsingu, er ég í ræðu minni í gær gaf á öllum aðstæðum þegar núverandi ríkisstj. tók við um miðjan marz 1950. Það er því viðurkennt af þeim, að þá voru útflutningsatvinnuvegir þjóðarinnar algerlega stöðvaðir eða að stöðvast, engin fjárlög til fyrir það ár og ríkissjóður stórskuldugur og févana.

2. Þótt stjórnarandstæðingar, svo sem hv. 4. þm. Reykv. og fleiri, hafi hamazt að ríkisstj. fyrir gengisfellinguna 1950 og reynt að láta líta svo út, að þar væri að leita orsaka að núverandi erfiðleikum, þá er þó áberandi, að rök þeirra nú eru enn lélegri og máttlausari en í síðustu eldhúsdagsumræðum, enda munu þeir nú vera farnir að átta sig á því, að þjóðin öll veit nú, að ekki var annarra kosta völ. Hér stangast stjórnarandstæðingar við óhrekjandi staðreyndir.

3. Helztu ásakanir stjórnarandstæðinga í garð ríkisstj. eru þær staðhæfingar þeirra, að atvinnuleysi vaxi hröðum skrefum. Hv. 4. þm. Reykv. gekk svo langt í þessu að ásaka ríkisstj. sérstaklega fyrir, að atvinnuleysi og stórkostleg vandræði vegna aðgerða ríkisstj. herjuðu staði eins og Siglufjörð, Ólafsfjörð og ýmsar verstöðvar annars staðar á landinu, sérstaklega á Vestfjörðum. Ég undrast stórlega, að þessi hv. þm. skyldi viðhafa slíkar blekkingar, og sýnir það, að ekki er af miklu að taka. Allír vita, að Siglufjörður er algerlega reistur á síldveiðum og síldariðnaði. Síldveiðar hafa brugðizt 7 eða 8 ár í röð. Siglufirði hefur verið að blæða út þessi ár. Hvað gerði stjórn flokksbróður hv. 4. þm. Reykv. — stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar — til þess að aðstoða Siglufjörð og reisa við atvinnulíf þar? Því er fljótsvarað. Ekkert. Og var þó atvinnuástandið orðið ærið ískyggilegt þar í hans stjórnartíð. Einmitt núverandi ríkisstj. hefur gert stórmikið til þess að mæta því neyðarástandi, sem þar hefur verið síðustu árin, aðstoðað Siglfirðinga til þess að eignast togara, og hún er að stuðla að því, að fiskiðjuver verði reist þar. Hið sama gildir um ýmsa aðra þá staði, sem harðast hafa orðið úti vegna aflaleysis vélbáta síðustu árin. Í gangi eru stórfelldar aðgerðir til þess að auka atvinnulíf þessara staða, svo sem með því að útvega þeim togara og fleiri hliðstæðar ráðstafanir. Ég fullyrði þess vegna: Engin ríkisstj. hefur gert jafnmikið og þessi til þess að mæta afleiðingum jafnstórkostlegs aflaleysis og vandræða, sem ýmis byggðarlög hafa orðið fyrir að undanförnu. Hitt þarf engan að undra, þótt þröngt sé um atvinnu á öðrum stöðum en þessum um háveturinn, meðan útivinna stöðvast að miklu leyti. Það er gamalt og nýtt fyrirbrigði í íslenzku atvinnulífi. En hvernig hefði verið umhorfs. ef stjórnarandstæðingar hefðu ráðið — eða öllu heldur fengið að synda áfram í sama feninu og var, þegar núverandi ríkisstj. tók við? Þá hefði verið ægilegt um að litast, — stórkostlegra atvinnuleysi en nokkru sinni hefur þekkzt í þessu landi og meiri hörmungar. Er það þetta, sem hv. stjórnarandstæðingar óska eftir?

4. Þá hafa þau undur skeð í þessum eldhúsdagsumræðum, að stjórnarandstæðingar hafa með hinu mesta offorsi ráðizt á hæstv. fjmrh. og ríkisstj. alla fyrir það, að afkoma ríkissjóðs er með ágætum í ár. Þetta er eitt ömurlegasta dæmi um óábyrga stjórnarandstöðu. Að allmikill tekjuafgangur yrði í ár, vita allir, að var nauðsynlegt, til þess að fjármála- og atvinnulíf þjóðarinnar lamaðist ekki eða jafnvel stöðvaðist algerlega. Öllum alþingismönnum er þó ljóst, að fjárlög fyrir 1952 verða að vera þannig úr garði gerð, að engin hætta sé á, að halli verði á þeim. Allt atvinnu- og fjármálalíf þjóðarinnar er í stórkostlegri hættu, ef þetta bregzt.

Þessi dæmi, sem ég hér hef nefnt, sýna ljóslega, hve hallir stjórnarandstæðingar standa í þessum umræðum. Ásakanir þeirra eru ýmist vísvitandi blekkingar eða svo rangt skýrt frá staðreyndum, að árásir þeirra falla máttlausar niður.

Að sjálfsögðu hafa þeir þó, eins og rödd þeirra og fas hefur sýnt, ekki dregið af sér í málflutningnum, enda ásakað fyrir það, sem þeir hefðu sjálfir talið rétt að gera, ef þeir hefðu farið með stjórn. Þannig er stjórnarandstaðan nú, því miður. Þess vegna er hún til einskis gagns, þótt hún gæti annars verið það, ef hún hagaði sér eins og hún ætti að gera. En hún er sundurþykk, eins og allir vita, klofin í Alþýðuflokk og Kommúnistaflokk, sem eyðileggja hvor fyrir öðrum af fremsta megni, eyðileggja hvor annars mál á Alþ. og auglýsa sig hvor í kapp við annan ábyrgðarlaust með sýndarfrumvörpum, sem þeim dytti aldrei í hug að bera fram eða standa við, ef þeir færu með stjórn í landinu. En ég veit, að fæstir landsmenn láta þetta sýndarstarf stjórnarandstöðuflokkanna í raun og veru villa sér sýn.

Margt er allstrangt — og mun lengst af verða það — í okkar harðbýla landi, sem þó hefur mikla kosti og er okkur hjartfólgið. „Íslendingar viljum vér allir vera“, — þjóðhollir menn og sannir Íslendingar, — eða svo ætti það að vera. En það gerum við bezt með því að standa saman og styðja hverjir aðra, þegar mikið liggur við. „Sameinaðir stöndum vér. Sundraðir föllum vér.“ „Í sameining vorri er sigur til hálfs, í sundrungu glötun vors réttasta máls“, kvað Einar skáld Benediktsson.

Vegna rétts skilnings á þessari samtakanauðsyn tóku núverandi flokkar höndum saman um myndun ríkisstj. fyrir tæpum tveimur árum. Ekki var þetta að öllu geðfellt fyrir marga, sem að því stóðu. En hefði það ekki verið gert, þá hefði áreiðanlega illa farið, eins og ég hef sýnt fram á. Þjóðarskútan var þá komin svo nærri strandi, að sterk samtök meiri hluta áhafnarinnar þurfti til þess, að stýrt yrði hjá voðanum. Það hefur heppnazt til þessa.

Ég leyfi mér svo að þakka þeim, er hlýtt hafa fjær og nær. Býð góða nótt og óska öllum landsmönnum gleðilegra jóla.