13.12.1951
Sameinað þing: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Í ræðu minni í gær beindi ég nokkrum fyrirspurnum til hæstv. ríkisstj.: 1) Hvað hyggst hæstv. ríkisstj. fyrir um bjargráð til útgerðarinnar? 2) Hvað hefur hún í huga til að bæta úr atvinnuleysinu? 3) Hvað ætlar hún sér að taka til bragðs í innflutningsmálunum, þegar Marshallframlagið hættir? Ég hef engin svör fengið við þessum spurningum við þessa umr. En engin svör eru líka svör. Þögnin er viðurkenning úrræðaleysis hæstv. ríkisstj.

Annars er þetta eldhús harla einkennilegt. Hæstv. ríkisstj. hefur gefizt upp við að verja stefnu sína og framkvæmdir. Í þess stað gerir hún elda að fyrrv. ríkisstj., reynir að sýna fram á, að þegar hún skildi við, hafi ástandið verið eins slæmt og frekast mátti verða. En hverjir voru í þessari ríkisstjórn auk þeirra Emils Jónssonar og Stefáns Jóh. Stefánssonar, fulltrúa Alþýðuflokksins? Það var framsóknarmaðurinn Bjarni Ásgeirsson, þáverandi formaður Búnaðarfélags Íslands; það var Jóhann Þ. Jósefsson, margreyndur fulltrúi sjálfstæðismanna í stjórn; það var Eysteinn Jónsson, sem manna mest hefur talað um, hve ástandið hafi verið bágborið, er stjórnin, þ.e. hann, hvarf frá völdum . og það var Bjarni Benediktsson, utanrrh. Sjálfstfl. Þegar þessir menn eru að lýsa sökum á hendur fyrrverandi ríkisstj., þá eru þeir að bera sakir á sjálfa sig. Ég hef aldrei vitað jafnskoplegan málaflutning, — ég get ekki kallað það vörn, — eins og þegar þessir menn eru að skamma sjálfa sig fyrir misgerðir, sem þeir hafa átt að fremja fyrir tveimur árum.

Jóhanni Hafstein verð ég alveg sérstaklega að þakka fyrir ummæli hans um „fínu“ mennina í Alþfl. Slík ummæli frá honum eru mikið lof. Allir vita, að hann kann vel að meta fína menn, lítur upp til þeirra og langar til að líkjast þeim. Hann fullyrti, að tölur þær um álagningu, sem Gylfi Þ. Gíslason fór með, væru rangar. Mig furðar á þessari fullyrðingu. Hann veit vel, að þær tölur, sem Gylfi fór með, eru sóttar beint í skýrslur verðgæzlustjóra, starfsmanns hæstv. viðskmrh., og settar fram á sama hátt og þar er gert. Vill Jóhann Hafstein halda því fram, að verðgæzlustjóri gefi rangar skýrslur? Og ef skýrslurnar eru rangar, hví er þá verið að birta þær í blöðunum?

Ég hálfvorkenndi hæstv. forsrh., er hann flutti ræðu sína í gær. Hann sagði, að erfiðleikarnir hefðu verið miklir og að það hefði því þurft mikla karlmennsku, hugrekki og dug til að taka að sér stjórn landsins, eftir að stjórn Alþfl., Sjálfstfl. og Framsfl. fór frá. Það hefði þurft mikinn kjark til að gera þær óvinsælu ráðstafanir, sem þá voru óhjákvæmilegar. Það sæti ekki á Alþfl.- mönnum, sem hefðu hlaupið frá ábyrgðinni, væru nöldursseggir, sem nú hefðu allt á hornum sér, og ynnu að því öllum árum að gera gengisfellinguna, þessa nauðsynlegu ráðstöfun, óvinsæla, að álasa slíkum hetjum og dáðadrengjum, sem hefðu tekið að sér það óvinsæla verk að bjarga þjóðinni. Ég hef stundum áður heyrt framsóknarmenn fara með broslegt hól um sjálfa sig, um hinn dæmalausa kjark þeirra og karlmennsku, en ég hef ekki fyrr heyrt hæstv. forsrh. kyrja þetta „framsóknarlag“. Auk þess er skrafið um vinsældirnar mjög hæpinn málaflutningur. Gengisfellingin var, þegar hún var lögtekin, óvinsæl hjá sumum, en vinsæl hjá öðrum. Hæstv. ríkisstj. vissi, að flestir útgerðarmenn töldu gengisfellinguna sér í hag, að hún var vinsæl hjá þeim og að flestir meiri háttar fasteignaeigendur og stórinnflytjendur voru henni mjög fylgjandi. Hún vissi að vísu líka, að gengisfellingin kom hart niður á ýmsum, svo sem launastéttunum og sparifjáreigendum, og var því óvinsæl hjá þessum stéttum. En hæstv. ríkisstj. mat meira hag og vinsældir þeirra, sem högnuðust á gengisfellingunni, en hinna, sem töpuðu á henni. Hitt er svo annað mál, að nú virðist sem útgerðarmennirnir hafi sjálfir tapað trúnni á gengisfellinguna, eftir að þeir hafa séð, að hún hefur alls ekki komið þeim að því gagni, er þeir bjuggust við.

Hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, sagði í fyrri hluta ræðu sinnar í gær, er hann var að afsaka hinar gífurlegu skattaálögur, að umframtekjurnar stöfuðu eingöngu af hinum óvenjulega mikla innflutningi vara fyrir Marshallfé, sem hefðu gefið ófyrirsjáanlegar tolltekjur. Síðar í ræðu sinni reyndi hann svo að sýna fram á, að hinn mikli tekjuafgangur væri því að þakka, hve atvinnulífið hefði blómgazt vegna gengisfellingarinnar og góðrar stjórnar. Nú var það ekki lengur Marshallféð, sem veitti tekjuafganginn, heldur að velgengni atvinnuveganna var svo mikil, að þeir gátu auðveldlega greitt skattaaukninguna. Þá kvaðst hæstv. ráðh. hafa hina mestu skömm á þeim einstöku hópum manna og félögum, sem sífellt væru að gera kröfur og samþykktir um fjárframlög úr ríkissjóði sér til handa og krefðust um leið sparnaðar og niðurskurðar. Um hverja var hæstv. ráðh. að tala þarna? Að hverjum var hann að sneiða? Var hann viljandi að sneiða að sínum eigin flokki, Framsfl.? Engir eru duglegri, — það vita allir og viðurkenna, — að krefjast framlags úr ríkissjóði en flokksmenn hans, og engir tala hærra um sparnað en þeir, en — það skal játað — mest þó þegar hann sjálfur er ekki fjmrh.

Hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, talaði um það áðan, hve ákaflega hann hefði verið duglegur að afla fjárframlaga og lána til bænda, til landbúnaðarvéla, nýsköpunar, niðurskurðar, mæðiveikivarna, ræktunar, gróðurhúsa, til húsabygginga, girðinga, kartöflugeymslna, uppbótargreiðslna, og var drjúgum montinn af þessum dugnaði sínum, en samt þótti honum hlýða að lýsa sig sparnaðarmann, sérstakan sparnaðarfrömuð. Hæstv. landbrh. sagði enn fremur, — og Jóhann Hafstein kom inn á það líka, — að ég hefði í ræðu minni í gær verið að bera róg milli stétta í sambandi við ummæli mín um framlög ríkisins til landbúnaðarins. Ekki reyndi hann þó að vefengja þær tölur, sem ég nefndi. Getur það talizt rógur að skýra rétt frá tölum, sem í fjárlögunum standa? Það, sem ég vildi leitast við að sýna fram á, var þetta: Sjálfstfl. féllst á að veita bændum aukin fjárframlög í bili, sem stundargróða, í því skyni og gegn því skilyrði, að Framsfl. vildi fallast á, að höfuðpaurar Sjálfstfl., auðmenn, stórkaupmenn og aðrir slíkir, fengju frjálsar hendur til þess að skammta sjálfum sér álagninguna og þar með gróðann. Ég vildi reyna að sýna fram á, að frambúðarhagur bænda verður ekki tryggður með slíkum hrossakaupum. Það er of ótryggur grundvöllur að byggja á. Man hæstv. ráðh. ekki, þegar íhaldsflokkurinn ráðlagði Reykvíkingum að drekka ýsusoð í stað mjólkur og éta gras í stað kjöts? Milli bænda og sveitafólks annars vegar og verkalýðs og launastétta hins vegar eru órjúfanleg hagsmunabönd. Sé kaupgeta launastéttanna lömuð eða skert tilfinnanlega, hvort sem það er gert með kauplækkun, gengisfellingu, óeðlilegum skattaálögum eða atvinnuleysi — eða öllu þessu —, þá verður það einnig böl bænda. Þá spillast eða glatast markaðir þeirra og afkomumöguleikar. Afurðaverð bænda og tekjur launastéttanna á að vera í eðlilegu hlutfalli hvort við annað. Reynt var að festa þetta hlutfall 1949. Núverandi landbrh., Hermann Jónasson, varð til þess að rjúfa þetta samband illu heilli. Nú ætlast hann til þess, að þetta gleymist og bændur setji traust sitt á Ameríkumarkaðinn, verði ríkir á að selja lambakjöt til Bandaríkjanna og kæri sig kollótta, þótt kaupgeta launastéttanna þverri.

Spurningu hæstv. ráðh. svara ég þessu: Með heiðarlegum, lýðræðissinnuðum bændaflokki, sem er svo viðsýnn, að hann sjái og meti sameiginlega hagsmuni verkalýðsins og bændanna, vill Alþýðuflokkurinn gjarnan starfa.

„Ein staðreynd er nóg til að svara árásum á gengislækkunina,“ sagði hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, í ræðu sinni. Ef gengið hefði ekki verið lækkað, hefði orðið að leggja á 200–250 millj. kr. í nýjum sköttum. Ég hef áður heyrt hann nefna þessar tölur, en aldrei heyrt hann sýna fram á, á hverju þær eru byggðar. Þessi „staðreynd“ er ekki til. Talan er fjarstæða. Fiskábyrgðin nam samtals í þau þrjú ár, sem hún var greidd, aðeins 50 millj. kr.

„Stjórn á að dæma eftir verkum hennar,“ sagði hæstv. atvmrh. Þetta er alveg rétt. Ég spyr: Er ástandið nú betra eða verra en það var haustið 1949? Það er tvímælalaust verra. Það er staðreynd, sem enginn getur lokað augum fyrir. Nú er vísitalan komin upp í 151 stig, hefur hækkað um meira en 50 stig á 20 mánuðum. Allt er í óvissu með útgerðina, nema að hún þarf hjálp, meiri bjargráð. Byggingarefni bannvara. Búðir fullar af þarflausu, rándýru glingri og niðursuðuvörum. Það er hægt að fá gervibrjóst ag gervineglur, en byggingarefni er bannað að flytja inn, þótt fjölda fólks vanti íbúðir. Og atvinnuleysið er þegar komið í algleyming um allt land. Björn Ólafsson, hæstv. viðskmrh., sér að vísu ekkert atvinnuleysi. Og hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, segir ríkisstj. hafa unnið a.m.k. einn stórsigur, „sígur á höfuðfjanda verkalýðsins, atvinnuleysinu“. Þetta þykja mér mikil brjóstheilindi. Snorri gamli sagði, að oflofið sé ekki lof, heldur háð, híð naprasta háð. Er hæstv. atvmrh. að gera gys að sjálfum sér, eða er hann að gera gys að atvinnuleysingjunum, sem ætluðu að heimsækja viðskmrh. á dögunum og fengu ekki að sjá hann?

Hæstv. dómsmrh. spurði, hvernig okkur dytti í hug að segja, að Sjálfstfl. væri óvinveittur verkalýðnum, þar sem miklu fleiri verkamenn kysu Sjálfstfl. en Alþfl. Þetta er nú, hygg ég, mjög hæpin fullyrðing. En sé hún rétt, þá er verknaður Sjálfstfl. enn þá verri en ég hef haldið, — ef flokkurinn hefur brugðizt sínum eigin kjósendum, þeim, sem hafa trúað honum fyrir að stjórna málum þjóðarinnar og sett traust sitt á hann. Ljótt er að beita valdi sínu stjórnmálaandstæðingum í óhag, en enn þá ljótara er þó að bregðast trúnaði sinna eigin stuðningsmanna með því að vinna þeim ógagn.

Ég sýndi fram á það í gær, að stjórnarstefnan hefði orðið til þess að bæta hag ákveðinna stétta og um leið valdið því, að hagur annarra stétta hefði rýrnað. Það er þetta, sem ber að leggja áherzlu á. Það, sem skiptir flokkum í þessu landi og um gervallan heim, er þetta: Íhaldið trúir því, að hag þjóðarinnar sé bezt borgið á þann hátt, að auðmennirnir fái að græða sem mest fé, svo að þeir geti síðan séð fólkinu fyrir brauði og atvinnu af miskunn sinni. Við Alþýðuflokksmenn álítum þetta rangt og hverri þjóð hættulegt. Við trúum því, að hagur fólksins verði bezt tryggður með því, að fólkið sjálft stjórni sínum málum með samtökum, félagsskap og samvinnu. Að því marki, að svo megi verða, stefnum við. Gleðileg jól, og gott og farsælt nýtt ár.