19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég flyt tvær brtt. við fjárlagafrv. við þessa umr. Þessar till. eru að vísu ekki komnar prentaðar enn þá, en von á þeim þá og þegar, en ég get talað um þær fyrir því.

Hin fyrri er að efni til sú sama og ég flutti við 2. umr. málsins, að fé til hafnarmannvirkja á Siglufirði verði 220 þús. kr. í stað 100 þús., sem frv. gerir núna ráð fyrir, þegar fjvn. hefur gengið frá því. Ég verð að segja, að mér finnst nokkuð ósanngjarnt að láta Siglufjörð ekki njóta sömu réttinda og ýmsa aðra kaupstaði, sem fram eru taldir í frv., í þessu efni. Ég sé, að 220 þús. kr. er sú hámarksfjárveiting, sem fjvn. hefur lagt til að veitt verði til nokkurra einstakra hafna, en þær eru: Akranes, Akureyri, Hafnarfjörður, landshöfnin í Njarðvíkum og Keflavík, Skagaströnd, Vestmannaeyjar, Þorlákshöfn og Patreksfjörður. Ég get ekki séð, að það geti verið nein ástæða að hafa Siglufjörð í 100 þús., en veita 220 þús. til hafnargerðar á þeim stöðum, sem ég nefndi. Framkvæmdir, er að gagni verði Siglufjarðarhöfn, eru mjög aðkallandi, því að það er talið, að fari svo, að síldveiði verði sæmileg eða í meðallagi, verði stór vandræði af því að hafa ekki betri hafnarskilyrði á Siglufirði. Og á eðlilegum síldaraflaárum hefur síldarmagnið að verulegu leyti byggzt á því, hvað Siglufjörður hefur getað tekið á móti miklu, en það hefur verið um 4/5 og allt upp í 9/10 hlutar af allri síldarsöltun í landinu. Þetta sýnir það, að ef Siglufjörður getur ekki tekið við síld og það greiðlega, þá verður ekki söltuð öll sú síld, sem hægt hefði verið að salta.

Höfnin á Siglufirði var fyrir stríð orðin nokkuð grunn, einkum suðurhluti hennar, og auk þess var mjög óheppilegt að hafa ekki varnargarð innan við höfnina til þess að taka af vindbárur, sem ná inn á höfnina. Þær framkvæmdir, sem nú er verið að vinna að við höfnina, eru þær, að verið er að byggja garð frá landi og austur í höfnina upp í svokallað „Anlegg“, sem byggt var fyrir mörgum árum. Nú er búið að byggja mikinn hluta af þessum garði, það er búið að reka niður þarna stólpa, en ekki búið að byggja neitt við þá, og er þetta í mikilli hættu fyrir ísreki, því að ísrek er þarna mikið. Í þetta er þegar búið að leggja á þriðja hundrað þús. kr. Það eru um 250 þús. kr. komnar í þennan varnargarð, og hann verður sem sagt ónýtt verk, ef ekki verður í tíma byggt innan við þennan stálskífuvegg, og hætt við, að hann fari fyrir sjógangi. Þegar búið er að reisa þennan garð, er meiningin að dýpka við hann og byggja timburbryggju til afnota á sumrin, sem einnig geti verið söltunarplan. Enn fremur er meiningin að dýpka gömlu höfnina, svo að hún verði fær stærri skipum, þar sem hún er það ekki nú. Það var farið að bera á því fyrir stríð, að höfnin væri orðin of grunn, en nú hefur þetta breytzt og horfir nú til stórvandræða, og stafar það m.a. af því, að nú eru veiðiskipin, sem stunda síldveiðarnar, orðin stærri en áður var. Í bátaflotanum eru skipin miklu stærri núna en þau voru og rista dýpra, og einnig eru nú notuð fleiri stór skip til veiðanna. Komi eðlilegt síldarár, þótt ekki verði nema það síldarmagn, sem eðlilegt var talið meðan síldin hagaði göngum sínum þannig, að meginhluti hennar veiddist fyrir miðhluta Norðurlands, þ.e.a.s. út af Skagafirði og Eyjafirði, þá liggur Siglufjörður einna bezt við fyrir veiðiskipin, en þá er e.t.v. ekki hægt að koma síldinni í land á Siglufirði, og verður þá miklu minna saltað en ella mundi verða. Ég vildi því mjög eindregið skora á hv. þm. að leiðrétta þá ósanngirni, sem mér virðist vera á fjárl., að minna er veitt til Siglufjarðarhafnar en þeirra hafna, sem ég áðan taldi upp. Það eru 16 hafnir með hærri fjárveitingu en Siglufjarðarhöfn. Átta þeirra eru með 220 þús. kr. og átta aðrar með yfir 100 þús. kr., og þetta bendir til þess, að þarna sé Siglufirði sýnd mjög mikil ósanngirni.

Önnur till. mín er sú að taka upp á 16. gr. fjárlagafrv. nýjan tölulið: til sjóvarnargarðs á Siglufjarðareyri, gegn jafnháu framlagi annars staðar að, 200 þús. kr. Ég var búinn að gera grein fyrir þeirri till. minni með nokkrum orðum við 2. umr., og ég vil taka það fram, sem ég sagði þá, að norðan á Siglufjarðareyri eða Hvanneyri — eins og hún heitir — hefur mjög lengi eða frá 1918 eða 1919 verið flóðgarður, sem var byggður upphaflega til verndar landinu. Þá var lítil flóðhætta þar, en eftir því sem byggð hefur vaxið á Eyrinni, hefur flóðhættan farið vaxandi og hefur aukizt með þeim verðmætum, sem bætt hefur verið við þar á Eyrina. Nú er svo komið, að allur miðhluti bæjarins er undirlagður, þegar flóð kemur. Garður þessi var upphaflega byggður til varnar landbroti. En núna er hlutverk hans að verja bæinn fyrir þeim stórfelldu flóðum, sem þarna koma alltaf annað veifið, ef saman fer viss vindátt og stórstraumsflóð. Ef þetta fer saman, er alltaf hætt við flóðum. Þannig getur tjón manna orðið gífurlegt. Nú er þannig háttað, að ríkið á þarna mikið land, m.a. land, sem ríkið keypti fyrir síldarverksmiðjur ríkisins. Þetta land er nú í hættu, og þarna er nú hin fræga síldarmjölsgeymsla, sem þakið féll niður á og flestir kannast nú við, og hefur hún nú verið byggð upp aftur og þakið haft rismikið, og er talið, að síldarverksmiðjur ríkisins geti þar geymt alla sína framleiðslu. Síðasta flóðið var í desember síðastl., og hefði þá verið mjöl í skemmunni, hefði þarna orðið mikið tjón. Það er nú farið fram á, að 200 þús. kr. verði veittar til þess að bægja frá flóðhættunni, og mun Siglufjarðarkaupstaður leggja fram aðrar 200 þús. kr. á móti. Það var í desembermánuði 1950, að skörð brotnuðu í fyrrnefndan varnargarð, og urðu þá skemmdir á mannvirkjum viðar á landinn, t.d. á Dalvík, og það, sem þarf að gera, er að gera við þessar skemmdir, áður en þær verða meiri og valda alvarlegu tjóni. Með tilliti til þessa vil ég vænta þess að fá stuðning við þessa till. hjá hv. þm., enda er ætlazt til, að Siglufjarðarkaupstaður leggi fram jafnmikla upphæð af sinni fátækt, til þess að mál þetta komist áleiðis.