19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Jón Gíslason:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárlagafrv. flutti ég brtt. við till. fjvn. um framlag til brúar á Kerlingardalsá. Í till. fjvn. var fjárveiting til þeirrar brúar 120 þús. kr. Við 2. umr. flutti ég brtt., og var þar farið fram á að hækka þessa upphæð upp í 300 þús. kr. —Þannig er ástatt hjá V.-Skaftfellingum, að vegir fyrir austan Mýrdalssand eru mestan hluta vetrar meira og minna ófærir fram á vor. Þó hefur verið reynt að nota þarna á söndunum í Meðallandi bíla með drifi á fram- og afturhjólum, þó að um vötn sé að fara, og hefur þetta tekizt, þegar ekki er rigning eða vatnavextir og ef allt er autt, en ef nokkuð rignir eða frýs að vetri til, þá er þessi leið ófær um Kerlingardalsá. Þess vegna er mjög aðkallandi að fá brú á hana til þess að bæta úr þeim samgönguerfiðleikum, sem hún skapar, og hefur nú á þessu ári vaknað mjög mikill áhugi hjá mönnum þar eystra á að afla fjár til þess, að þessi brú komist í framkvæmd. Það er vitað, að þessi brú mun kosta allt að 500 þús. kr., og með 120 þús. kr. framlagi upp í þá upphæð er okkur fjárhagslega um megn að afla þess fjár, sem á vantar, og koma brúnni upp. Af þeim ástæðum flutti ég þessa brtt. um að hækka framlagið upp í 300 þús. kr. En sú brtt. hlaut ekki náð fyrir augliti hv. þingmanna og var felld. Nú flyt ég þessa brtt. enn á ný og fer nú fram á, að fjárveitingin verði 200 þús. kr. Ef þetta fengist, þá geri ég mér vonir um, að líkur séu til þess, að hægt verði að koma brúnni upp í sumar, ef okkur tekst að fá nokkurt lánsfé. Fáist ekki þessi fjárveiting, er útilokað að koma brúnni á í sumar. — Ég ætla ekki að tala mikið um þetta nú, ég ræddi þetta mál við 2. umr. málsins. Ég vona, að hv. þm. liti á nauðsyn okkar Skaftfellinga og sýni þessari till. velvilja.