19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt 1. þm. Eyf. tvær brtt. við fjárlagafrv. Þær eru báðar við 15. gr. fjárlaganna. Við 2. umr. flutti ég brtt. þess efnis, að 1500 kr. yrðu veittar til bókasafnanna á Dalvík og í Hrísey. Við höfum nú lækkað þessa upphæð niður í 1000 kr. til hvors bókasafnsins. — Ég vék að því við 2. umr., sem hv. þm. er kunnugt, að í 15. gr. eru sérstakar fjárveitingar til bókasafna. Þessi fjárveiting, sem við förum fram á, er svo lág, að hún er langt fyrir neðan þá meðalupphæð, sem veitt er til annarra bókasafna, sem upp eru talin í 15. gr. Fjvn. hefur ekki tekið þessa till. upp í sínar till., og berum við því þessa till. nú fram og vonum, að hv. þm. fallist á að ljá henni stuðning sinn.

Mig langar til að beina einni fyrirspurn til fjvn. í sambandi við 9. brtt. n., þar sem er hækkun á eftirlaunum presta og prestsekkna, hvort þessi upphæð muni koma þessum aðilum til góða eða hvort hún renni til Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyririnn verði þeim mun minni. Um þetta veit ég ekki, en sé svo, að þetta lækki bara ellilífeyri þessa fólks, þá sé ég ekki ástæðu til að hækka þennan lið, ef það kemur ekki þessu fólki til góða. Það væri fróðlegt að fá að vita um þetta.