19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Frsm. samvn. samgm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að gera grein fyrir áliti samvinnun. samgöngumála, sem birtist á þskj. 390. Því miður hefur ekki enn verið útbýtt till. n., en þar sem frá efni þeirra og öðru er greint í nál., þá hygg ég, að það komi ekki að sök, að ég mæli fyrir till., þótt þeim hafi ekki verið útbýtt.

Samvinnun. samgm. hefur eins og undanfarin ár fjallað um styrki til flóabáta og vöruflutninga. Hún hefur fengið upplýsingar frá ýmsum fyrirtækjum, sem sjá um þær samgöngur, og frá forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, sem hafa mjög auðveldað starf nefndarinnar.

Það er fyrst að segja, að rekstur flóabátanna hefur gengið mjög illa á þessu ári, svo illa, að við borð hefur legið, að rekstur þeirra stöðvaðist algerlega á þessu árí. Ástæðurnar fyrir þessu eru fyrst og fremst þær, að á undanförnum mánuðum hefur kaupgjald hækkað allverulega og enn fremur hefur verðlag á olíu og varahlutum til véla hækkað geysilega. Allt þetta hefur orðið til þess að auka útgjöld bátanna svo, að styrkur sá, sem þeir hafa fengið frá ríkinu, hefur engan veginn nægt til að tryggja rekstur þeirra. Bátarnir hafa ekki getað hækkað tekjur sínar með því að hækka fargjöld, þar sem þau eru nú þegar orðin svo há, að frekari hækkun mundi einungis draga úr notkun þeirra. Ég minni á þetta af því, að styrkur til þessara flóabáta hefur verið næstum óbreyttur undanfarin fimm ár. Ef athugað er, hvernig þessum styrk hefur verið háttað á fjárlögum, þá kemur í ljós, að 1947 var hann 916200 kr., 1948 912200 kr., 1949 878 þús. kr., 1950 958 þús. kr. og 1951 975 þús. kr. Þessar tölur sýna það, að þessum útgjöldum hefur verið haldið meira niðri en hægt er að segja um nokkur önnur útgjöld fjárl. Hv. þm. vita, hversu mjög öll útgjöld fjárl. hafa aukizt á þessum tíma og þá sérstaklega rekstrarkostnaður ríkisins og stofnana þess. Afleiðingarnar af því, hve ríkisstyrknum hefur verið haldið niðri, eru þær, að margir bátanna eru orðnir svo skuldugir, að trafali er að verða af í rekstri þeirra. Nefndin hefur því lagt til, að styrkur til flóabáta verði hækkaður allverulega, til þess að unnt verði að koma í veg fyrir stöðvun þeirra og það óhagræði, sem það hefði í för með sér.

Í þessu sambandi vildi ég leyfa mér að minna á, að á síðasta Alþingi bað samvinnun. samgm. ríkisstj. um, að hún léti athuga, hvernig þessum ferðum yrði bezt og haganlegast fyrir komið 1 þeim héruðum, sem njóta styrks úr ríkissjóði. Samvinnun. samgm. taldi nauðsynlegt, að slík athugun færi fram, vegna þess að á hverju ári koma fram raddir um það, að þetta sé óþarfi, ríkið þurfi ekki að styrkja starfsemi þessara báta og þarna væri hægt að spara. Nefndin vildi sem sé fá það athugað, á hversu miklum rökum þetta væri byggt. Í samræmi við þessa till. n. skipaði samgmrn. 3. apríl s.l. þriggja manna nefnd til þess að vinna umrætt verk. Þessi nefnd skilaði svo áliti 20. sept. s.l. Samvinnunefndin hefur fengið það álit sent til athugunar. Niðurstaða þessarar n. er sú, eins og getið er í nál. á þskj. 390, að hún leggur til, að styrkir til fimm flóabáta verði felldir niður. Eru það þessir bátar: Vestmannaeyja- og Stokkseyrarbátur, Rangársandsbátur, Flateyjarbátur á Breiðafirði, Skógarstrandar- og Langeyjarnesbátur og Húnaflóa- og Strandabátur. Í þessu sambandi er þess að geta, að mþn. ætlaðist til þess. að Stykkishólmsbátur ræki einn eftirleiðis allar flóabátaferðir við Breiðafjörð. Með þessum breytingum var gert ráð fyrir af hálfu n., að hægt yrði að spara 197 þús. kr., miðað við heildarstyrkupphæð á fjárl. yfirstandandi árs. Mþn. hefur að öðru leyti lagt áherzlu á, að halda yrði þessum samgöngum í svipuðu horfi og nú er, en leggur um leið áherzlu á það, að nauðsyn beri til að halda áfram að styrkja þan héruð, sem verst eru sett um samgöngur á landi til vöruflutninga. Eins og hv. þm. geta kynnt sér, eru þessar till. mþn. mjög í samræmi við það, sem fram hefur komið í umr. í samgmn. Alþingis. Nú hafa borizt eindregnar óskir um það frá Vestmannaeyjum og Suðurlandsundirlendinu, að Vestmannaeyjabáturinn starfi áfram. Einnig eru taldar litlar líkur til þess, að hægt sé að láta Stykkishólmsbát taka við ferðum Skógarstrandar- og Langeyjarnesbáts, sökum þess að bátur af þeirri stærð mun eiga erfitt með að athafna sig á ýmsum þeim stöðum, þar sem hinn litli bátur, sem þar hefur verið í förum, hefur haft viðkomu. Ekki hefur heldur náðst samkomulag um að fella niður ferðir Flateyjarbáts, sem annazt hefur ferðir um norðanverðan Breiðafjörð, og fela þær síðan Stykkishólmsbát. Það má og teljast auðsætt, að með slíkri fyrirkomulagsbreytingu yrði varla um mikinn sparnað að ræða, þar eð hækka yrði verulega styrk til hins síðarnefnda. Einnig hefur verið minnzt á, hvort ekki kæmi til greina að fá minni bát til ferða á Ísafjarðardjúpi og um Eyjafjörð. Allar þessar till. hafa strandað vegna eindreginna mótmæla úr héruðunum. Þm. hafa svo fylgt þessum mótmælum eftir, og hefur niðurstaðan jafnan orðið sú, að örfáir bátar hafa verið lagðir niður, eða aðeins á þeim stöðum, þar sem sæmilegur akvegur hefur komið og bílar hafa tekið við flutningunum, en samgmn. hefur einnig séð marga annmarka á því að leggja þessa báta niður, ef ekki hefur verið hægt að leysa samgöngumálin með öðrum hætti. Í þessu sambandi má geta þess, að um það hefur verið talað, að skip á stærð við Herðubreið og Skjaldbreið gætu sinnt flóabátaferðum, en slíkar till. eru algerlega út í bláinn. Skip af slíkri gerð er ekki hentugt að nota til vöruflutninga til bænda um hin ýmsu héruð. Það er því ekki á rökum reist, þegar rætt hefur verið í þessu sambandi að fækka strandferðabátunum. Alþingi hefur viðurkennt þetta sjónarmið. Þetta eru og niðurstöður samvinnunefndarinnar, og í till. hennar er ekki lagt til að fella niður nema einn bát, Rangársandsbátinn. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að nægilegt væri að starfrækja Vestmannaeyja- og Stokkseyrarbátinn. Þetta sprettur af því, að fólkið í héruðunum hefur neitað að fallast á þessar breytingar. Í sambandi við ferðir elns flóabátsins, Skógarstrandar- og Langeyjarnesbáts, þá er talið. að Stykkishólmsbáturinn ætti erfitt með að athafna sig í ferðum á þeim slóðum. Um Strandabátinn gegnir hins vegar sérstöku máli, þar eð hægt mun verða að fella hann niður, er akvegur kemur frá Hólmavík að Drangsnesi. Þess er og að geta í sambandi við þennan bát, að hin mjög svo bága afkoma hans stafar að miklu leyti af því, að síldveiðar hafa brugðizt mjög hrapallega, en síldarflutningar hafa verið eitt verkefni bátsins, sem gefið hefur honum allmiklar tekjur. Verkefni bátsins hefur því af þessum sökum mjög rýrnað. Báturinn flutti og fólk og varning frá Hólmavík til Blönduóss, en þeir flutningar hafa og dvínað mjög að undanförnu. Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, er líklegt, að hægt verði að leggja þennan bát niður á næstu árum, þegar vegargerð er lokið frá Hólmavík að Drangsnesi og bryggja byggð í Kaldrananesi. Verður þá akfært alla leið þangað, og gæti þá lítill bátur annazt flutninga þaðan norður til hafnanna í Árneshreppi, sem er nyrzti hreppur Strandasýslu.

Ég vil nú leyfa mér að fara nokkrum orðum um hina einstöku báta.

Lagt er til, að styrkur til Flateyjarbáts hækki um 10 þús. kr. Á ferðum þessa báts hefur orðið rekstrarballi undanfarin ár, og telja stjórnendur hans litt mögulegt að halda ferðunum áfram án aukins stuðnings. Hins vegar hefur rekstur Stykkishólmsbátsins gengið sæmilega, og er svo ráð fyrir gert, að styrkur til hans haldist óbreyttur. Sama er að segja um Skógarstrandar- og Langeyjarnesbát, að lagt er til, að hann fái sama styrk og áður.

Þá kem ég að Ísafjarðarsamgöngunum. Sama skip og verið hefur, m/s Fagranes, hefur annazt þessar samgöngur. Það er að segja um rekstur þessa skips, að með hverju árinu, sem liðið hefur, hefur rekstur þess orðið óhagstæðari. Ein meginorsök þess, hvernig komið er með rekstur skipsins, er sú, að flutningar hafa stórum minnkað, er akvegur hefur nú veríð lagður við utanvert Ísafjarðardjúp og Djúpið þannig komizt í þjóðvegasamband. Af þessum sökum hefur nú mjög hallað undan fæti og reksturinn orðið óhagstæður. Á þessu ári mun hallinn af rekstri skipsins vera um 100 þús. kr., eða eins mikill og rekstrarhallinn varð tvö árin á undan. Þrátt fyrir riflegan ríkisstyrk er nú svo komið. Fyrirsjáanlegt er, að ekki verður hægt að halda þessum rekstri áfram án aukins styrks frá ríkinu. Forstjóri Skipaútgerðar ríkisins hefur í till. sínum til n. lagt til, að styrkurinn verði hækkaður um 130 þús. kr. á næsta ári. Hins vegar hefur nefndin ekki séð sér fært að hækka framlagið til þess flóabáts meir en um 100 þús. kr. Þess er ekki nokkur kostur að leggja ferðir þessa flóabáts niður. Sveitirnar við Ísafjarðardjúp sjá Ísafjarðarkaupstað að mestu fyrir mjólk. Hins vegar eru þær svo flestar nær akvegalausar, og ekki er nokkur kostur fyrir þær að koma afurðum sínum á markað með öðrum hætti en sjóleiðis. Á vetrum er þess og brýn þörf, að haldið sé uppi ferðum á milli Ísafjarðar og sumra kauptúnanna í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Hafa t.d. bændur í Önundarfirði selt talsvert magn af mjólk þangað undanfarin ár. Það má segja, að allar samgöngur sveitanna við Djúp og í norðurhreppum héraðsins byggist á ferðum Djúpbátsins. Mþn. hefur bent á, að hugsanlegt væri að halda þessum ferðum uppi um vetrarmánuðina með minna skipi en Fagranesinu, en mjög óvíst yrði um sparnaðinn af þessu, vegna þess að þá mundi hitt skipið skorta verkefni þann tíma.

Ég fékk í dag skeyti frá stjórn Djúpbátsins h/f, þar sem framkvæmdastjórinn segir, að ef hin nauðsynlega styrkaukning fáist ekki verði báturinn að hætta ferðum 15. jan. n.k. Ég hef nú ekki átt þess kost að taka afstöðu til þessarar beiðni. Það dylst engum, að þetta er orðinn geysilegur fjáraustur, er styrkurinn til þessa báts er orðinn 340 þús. kr. á ári. Hvernig komið er, orsakast af því, eins og ég hef minnzt á í ræðu minni, að fólkinu, sem ferðast með bátnum, hefur fækkað. Að hinu leytinu er leiðin, sem þessi flóabátur fer, einhver sú lengsta, sem slíkir bátar fara. Hér er um að ræða hina löngu strandlengju Ísafjarðardjúps. Það er erfitt og kostnaðarsamt að halda skipi úti á svona langri leið, en einnig erfitt að komast af með minna skip. Skipið verður einnig að halda uppi ferðum í sambandi við ferðir áætlunarbila til Arngerðareyrar og koma fólki og farangri þaðan til Ísafjarðarkaupstaðar. Þótt e.t.v. mætti komast af með minni bát, þá eru veður oft válynd á Djúpinu, og þessum ferðum þarf að halda uppi í skammdeginu, oft í vonzkuveðrum og miklum sjógangi. Nú kunna menn að spyrja: En má þá ekki draga úr útgjöldum að einhverju leyti með því að fækka þeim mönnum, sem við rekstur skipsins eru? — Það vita nú allir, að á skipum vissrar stærðar verður að vera ákveðin tala áhafnar samkv. lögum. Verður því að ætla, að fækkun áhafnar komi ekki til greina. — Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þessa till., en sný mér þá að Norðurlandssamgöngunum.

Það er lagt til, að Húnaflóa- og Strandabátur fái 18 þús. kr. styrkhækkun. Hallinn á ferðum báts þessa hefur orðið 24 þús. kr. á þessu ári. Norðurlandsbáturinn hefur sem aðrir flóabátar átt við mikla örðugleika að stríða. Leggur n. til, að styrkur til hans hækki um 40 þús. kr., en að auki fái hann 30 þús. kr. aukastyrk vegna nauðsynlegrar viðgerðar, sem útgerð hans hefur ekki neina möguleika á að kosta af eigin rammleik. — Einnig er lagt til, að styrkur til Hríseyjarbáts verði hækkaður um 1 þús. kr. og að honum verði veittur styrkur vegna viðgerðar, sem fór fram á honum snemma á þessu ári. — Þá er lagt til, að styrkur til Flateyjarbáts á Skjálfanda hækki um 1 þús. kr. Þessar hækkanir spretta af auknum rekstrarkostnaði, og má þar t.d. nefna hækkanir á smur- og brennsluolíum.

Varðandi Austfjarðasamgöngur er það að segja, að gert er ráð fyrir, að styrkir til flestra bátanna hækki smávægilega. Styrkur til Loðmundarfjarðarbáts er gert ráð fyrir að hækki um 4 þús. kr. Þessi bátur fékk 10 þús. kr. vélastyrk á þessu ári. Heildarstyrkveiting til hans nú verður því 6 þús. kr. lægri en á siðasta ári. Styrkur til Mjóafjarðarbáts er hækkaður um 2500 kr., og lagt er til, að Eskifjarðarbátur fái 5 þús. kr. vélastyrk.

Skal ég þá víkja að Suðurlandsskipi.

Það er nú langt síðan Alþingi viðurkenndi sérstöðu Skaftafellssýslna í samgöngumálum. Mikill hluti þessara víðlendu héraða er með öllu hafnlaus, og njóta þau því af mjög skornum skammti umbóta í strandferðum, eins og flest önnur byggðarlög landsins gera. Vestur-Skaftafellssýsla flytur talsvert landleiðina til Reykjavíkur, frá Vík í Mýrdal og Kirkjubæjarklaustri. Vestur-Skaftfellingar hafa notið nokkurs styrks vegna þessara löngu flutninga á landi. Í áliti mþn. er frá því skýrt, að flutningskostnaður Vestur-Skaftfellinga sé 83–268 kr. hærri á tonn en til þeirra staða á landinu, sem þó verða að nota dýrar flóabátaferðir frá höfnum strandferðaskipanna. Hefur þá verið dreginn frá flutningsstyrkur sá, sem Vestur-Skaftfellingar njóta og er frá 50—65 kr. á hvert tonn þeirra nauðsynja, sem styrkurinn nær til. Það er augljóst, hversu kostnaðaraukinn hefur orðið mikill á þessum ferðum á undanförnum missirum. Hefur n. því lagt til, að nokkur hækkun verði á flutningsstyrknum, og leggur til, að hann hækki um 30 þús. kr. — Enn fremur leggur n. til, að styrkur til vöruflutninga til Öræfa hækki um 7 þús. kr., en þeir flutningar fara nú að verulegu leyti fram flugleiðis. Eru slíkir flutningar vitaskuld mjög dýrir. Sjálfsagt er að taka tillit til aðstæðna þessara héraða, sem svo mjög eru afskipt í samgöngubótum.

Að lokum skal ég nokkuð ræða um Faxaflóasamgöngurnar. Um nokkur undanfarin ár hefur verið unnt að halda uppi ferðum milli Reykjavíkur, Borgarness og Akraness án ríkisstyrks.

Áður fyrr nutu þó bátar þeir, sem önnuðust þessar ferðir, nokkurs styrks. Hins vegar skipaðist svo fyrir nokkrum árum, að fengið var til þessara ferða fullkomnara skip en áður hafði tíðkazt um flóabáta, og er það nú fullkomnasti flóabátur landsins. Nú er þó svo komið málum, að þessar samgöngur eru einnig reknar með miklu tapi. Rekstur h/f Skallagríms, sem annast rekstur Laxfoss, hófst á þessu ári með liðlega 140 þús. kr. yfirfærðu tapi. Félágið hafði þá og eytt öllum varasjóði sínum, sem var um 200 þús. kr. Félagið hefur og á þessu ári orðið að leggja í mikinn kostnað vegna viðgerðar á vél skipsins og kaupa á varahlutum í vél skipsins. Hefur sá kostnaður numið um 100 þús. kr. Félagsstjórnin hefur áætlað, að tap á rekstri skipsins á þessu ári verði allt að 260 þús. kr. Hefur stjórn félagsins skýrt n. svo frá, að hún sjái sig til neydda að stöðva ferðir skipsins, ef félaginu verði ekki veittur styrkur, sem nemi þessum rekstrarhalla. Ég skal ekki fara út í að rekja nákvæmlega, hvers vegna svo skyndilega hallar undan fæti. Smur- og brennsluolíur hafa hækkað mikið, vélahlutar og annað slíkt, sem til viðhalds þarf, hefur stigið mjög í verði. Einnig hefur kaupgjald hækkað talsvert á árinu. Að þessum upplýsingum fengnum virðist það augljóst vera, að ekki verður hjá því komizt að styrkja ferðir Laxfoss, og hefur n. því lagt til, að h/f Skallagrími verði veittur 100 þús. kr. styrkur til rekstrar skipsins á næsta ári. Enn fremur hefur hún talið óumflýjanlegt að flytja till. við 22. gr. fjárl. um, að ríkisstj. verði heimilað að greiða h/f Skallagrimí 100 þús. kr. styrk vegna vélaviðgerða á árinu 1951.

Ég hef þá gert grein fyrir rekstri hinna ýmsu flóabáta í hinum ýmsu landshlutum. Samvinnun. samgm. leggur til samkv. þessu, að til flóabáta verði í fjárl. fyrir árið 1952 veittar 1323 þús. kr., eða 348 þús. kr. meira en árið 1951. Í þessu eru þó ekki taldar 100 þús. kr., sem n. hefur flutt brtt. um, að ríkisstj. verði heimilað að greiða til h/f Skallagríms þetta ár. Um þessa hækkun fjölyrði ég ekki, en hygg, að samvinnun. geti vel horft framan í Alþ., þó að hún flytji hækkunartill. nú eftir að hafa haldið þessum útgjöldum eins rækilega niðri og ég gat um í upphafi.

Ég vil svo að lokum segja, að innan samvinnun. samgm. hefur ríkt góð samvinna og þær till., sem hér liggja fyrir, eru fluttar af n, í heild, óklofinni.