19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Frsm. 2. minni hl. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég skal strax taka það fram, að ég er samþykkur flestum brtt. á þeim fjórum þskj., sem útbýtt hefur verið frá meiri hl. fjvn. Þó eru þar nokkrar till., sem ég get ekki fallizt á.

Ein af þeim till. er 1. till. á þskj. 512 um, að í stað 60 þús. komi 260 þús. til brimbrjótsins í Bolungavík. Það má þykja undarlegt, að ég sé á móti fjárveitingu til brimbrjótsins, og skal ég gera grein fyrir þessari afstöðu minni. Það var á fjárl. síðasta árs heimild til handa vitamálastjórninni að ljúka gerð brimbrjótsins. En af þeim ástæðum, að vitamálastjórnin lét ekki byrja nógu snemma á framkvæmdum við þetta, varð verkinu ekki lokið í haust. Og svo varð afleiðingin sú, að er haustbrimin komu, eyðilagðist allt verkið, sem unnið var í sumar. Það var þess vegna, að fjvn. samþ. að veita 200 þús. til viðbótar upphæðinni á fjárl. til verksins. Meiri hl. n. samþ. að veita einungis 200 þús. kr. til þessa, en það var hins vegar upplýst af formanni n., að fullkomin viðgerð mundi kosta 300 þús. kr. í viðbót við þessa fjárveitingu. Það fé er Bolvíkingum algerlega ofvaxið að leggja fram. Ég er persónulega alveg sannfærður um, að þótt þessi till. yrði samþ., yrði ekki unnt með því að bjarga mannvirkinu. Það hefur verið hafður sá háttur á að byrja of seint á verkinu og láta svo vetrarbrimið brjóta niður það, sem áunnizt hefur um sumarið.

Þetta var ein af þeim brtt. hv. meiri hl. fjvn., sem ég get ekki fallizt á, og af því leiðir, að ég ásamt hv. þm. N-Ísf. flyt brtt. á þskj. 520 um, að heimilað verði á 22. gr. að verja fé í samráði við vitamálastjóra til þess að ljúka viðgerðinni á brimbrjótnum, þ.e. endurnýjun á heimild yfirstandandi árs, sem hefði nægt, ef byrjað hefði verið nógu snemma á verkinu, svo að því hefði verið lokið áður en tíð spilltist.

Af þeim hækkunum, sem gerðar hafa verið á gjaldahlið fjárl. og meiri hl. fjvn. stendur að — og minni hl. líka að mestu — leiðir það, að greiðsluhalli verður um 17 millj., en rekstrarhagnaður enn nokkrar millj. kr. Samkomulag hefur orðið um það milli meiri hl. og hæstv. ríkisstj. að hækka tekjuáætlunina um 19.5 millj. kr. Það er gleðilegt, að meiri hl. fjvn. og hæstv. ríkisstj. sáu það, að möguleikar voru til að hækka tekjuhlið fjárl. með því einu að láta prenta nýtt þskj. Er þá komið að því, sem ég spáði við 1. umr., að hæstv. ráðh. yrði neyddur til að hækka tekjuhliðina um tugi millj. til að bjarga sóma sínum, svo að þjóðin sæi ekki, hversu fráleit fjárhagsáætlunin væri.

Þá kem ég að brtt. mínum á þskj. 521. Ég legg þar til í fyrsta lagi, að tekju- og eignarskattur verði áætlaður 48 millj. í stað 41 millj. Hæstv. ráðh. hefur talið forsvaranlegt að hækka þennan lið í 45 millj. Ég tel fært að hækka hann um 7 millj. Núna er álagður tekju- og eignarskattur 50 millj. Það má telja víst, að með hækkaðri krónutölu verði álagður tekju- og eignarskattur ekki minni en 52 millj. Nú er það rétt, að hann rýrnar hjá yfirskattan. og ríkisskattan. Vanhöld tel ég hóflegt að áætla 4 millj.

Þá legg ég til, að verðtollur hækki úr 93 millj. í 106 millj. Þetta mun ýmsum þykja stórt stökk, en hæstv. ráðh. hefur sjálfur séð, að þarna var góður tekjustofn, og hefur sjálfur hækkað þetta í 105 millj. Það, sem bendir til þess, að þetta muni vera óhætt að hækka í 106 millj., er, að í byrjun nóvember þetta ár var verðtollurinn orðinn 93 millj. Er þá ekki ósanngjarnt að áætla, að nóv. og des. gefi 19–20 millj. Þar sem hann verður þá í ár 102 millj., tel ég óhætt að áætla hann 106 millj. nú.

Þá legg ég til, að innflutningsgjald af benzíni, sem er áætlað 9.5 millj., hækki í 10.5 millj. Siðasta dag októbermánaðar þ. á. var það orðið 9.5 millj., og útlit er fyrir, að það verði 11.5 millj. á árinu. Ætla mætti, að óhætt væri að áætla þetta ekki lægra en í fyrra.

Þá legg ég til, að bifreiðaskattur hækki úr 3 millj. í 4 millj. Byggist þessi hækkun á því sama. Bifreiðum fer fjölgandi, og er skatturinn nú á 4. millj.

Stimpilgjald er áætlað 6 millj. Legg ég til, að það hækki í 7 millj. Líkur benda til, að það muni verða 71/2–8 millj. í ár. í októberlok var það orðið 6 millj. á þessu ári. Á tveim mánuðum má ætla að það nemi alltaf 11/2 millj. Og svo vel vill til, að hæstv. ráðh. hefur fallizt á 7 millj. ásamt meiri hl. fjvn.

Þá er það söluskatturinn, sem hæstv. ráðh. viðurkennir að núna muni fara yfir 90 millj. Ég vil áætla hann 98 millj. Og þegar hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir, að hann geti hækkað um 12 millj. frá yfirstandandi ári, má áætla, að hann verði ekki lægri en þetta. Það leiðir af síhækkandi verði á þeim vörum, sem hann er lagður á.

Till. mín er því sú, að tekjuliðir á 2. gr. hækki um 45 millj., en hæstv. ráðh. leggur til, að áætlunin verði hækkuð um 191/2 millj.

Þá hef ég lagt til að áætla tekjur Áfengisverzlunar ríkisins , 2 millj. hærri en gert er á fjárl. Það er minni hækkun en 7 undanfarin ár, sem hefur verið 4–6 millj. árlega. Tóbakseinkasalan er áætlað að gefi af sér rúmar 29 millj., en ég hef lagt til, að það verði áætlað 3 millj. kr. hærra. Er það ekki ógætilega áætlað, miðað við reynslu fyrri ára, enda minnir mig, að hæstv. ráðh. hafi sagt, að vel líti út með gott tóbaksár. Aftur á móti er hann svartsýnn með brennivínið. (Fjmrh.: En hv. þm. er það ekki enn.)

Samtals mundi þá hækkun á tekjunum nema um 49 millj. kr. og á útgjöldunum um 44 millj. Kæmi þá fjárlagafrv. þannig út, ef allar till. mínar og flokksbræðra minna yrðu samþ., að fjárl. yrðu afgr. með 5 millj. kr. hagstæðum greiðslujöfnuði.

Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um þessar till. mínar, en víkja nokkuð að einstökum till., sem ég flyt eða er meðflutningsmaður að. Það virðist ekki vera búið að útbýta þskj. með öllum þessum till., en nokkrar þeirra liggja þó fyrir.

Á þskj. 520 á ég brtt. ásamt hv. þm. N-Ísf. (SB), till. sem við fluttum við 2. umr. fjárl., en tókum þá aftur til 3. umr. Hún er um það að verja 30 þús. kr. til menntaskólakennslu á Ísafirði. Ég skal ekki fjölyrða um þessa till. nú. Okkur þótti ósanngjarnt, að hún skyldi slitin úr tengslum við aðra samkynja till., sem þá var flutt, þ.e. að veita 100 þús. kr. til menntaskólakennslu á Laugarvatni. Nú hefur hv. meiri hl. fjvn. fallizt á að breyta þessum lið um Laugarvatn þannig, að fjárveitingin heyri til menntaskóla á Laugarvatni, og tekin þar með af öll tvimæli um það, að stofna skuli menntaskóla á Laugarvatni, sem skuli fá 100 þús. kr. fjárveitingu árið 1952. Aftur á móti er ekki um slíka framtíðarskuldbindingu að ræða í till. okkar hv. þm. N-Ísf., heldur aðeins, að veittar skuli til menntaskólakennslu á Ísafirði á næsta ári 30 þús. kr. Ég gat þess um daginn, að frá Ísafirði hefur farið nokkuð á annan tug nemenda til menntaskólanáms á Akureyri, og hefur þessi hópur gelið sér hinn bezta orðstír og þessi stofnun á Ísafirði þannig fengið sín laun og sína viðurkenningu, þótt hún hafi ekki enn þá fengið viðurkenningu hér á Alþ.

Þá flyt ég á sama þskj., þskj. 520, ásamt hv. þm. Vestm., hv. 8. þm. Reykv. og hv. 5. landsk. þm. till., sem flutt er af okkur eftir ósk Slysavarnafélags Íslands. Till. er um það, að á 17. gr. hækki b-liður 17. tölul. úr 50 þús. kr. í 80 þús. kr. Þetta þýðir það, að veitt verði til umferðarslysavarna 30 þús. kr. hærri upphæð en gert er ráð fyrir í fjárl. Hv. þm. mun öllum kunnugt um það, að Slysavarnafélag Íslands annast ekki aðeins slysavarnir á sjó, heldur hefur það líka í sinni þjónustu mann, sem annast og hefur eftirlit með slysavörnum á landi. Laun þessa manns eru 35 þús. kr., en auk þess er ferðakostnaður hans allmikill, eða um 15 þús. kr., prentunarkostnaður, kostnaður við bókaútgáfu o. fl. á annan tug þúsunda og auglýsingakostnaður um 10 þús. kr. Þannig mun þetta starf kosta Slysavarnafélagið um 80 þús. kr. á ári nú, en fyrir nokkrum árum var kostnaðurinn við það kringum 50 þús., og var þá viðurkennt, að rétt væri að greiða þann kostnað úr ríkissjóði. Ef þetta sama sjónarmið réði nú, ætti þessi hækkun að verða samþ., þ.e., að til þessa starfs verði veitt hlutfallslega jafnhá upphæð og viðurkennt var, að réttmæt væri, fyrir nokkrum árum. Starf þessa manns, sem er Jón Oddgeir Jónsson, er fólgið í því, að hann annast umferðarkennslu í öllum kaupstöðum landsins og víðar, og hefur hann haldið í því skyni umferðarvíkur víðs vegar á landinu og leitað einkum til unga fólksins í þessu efni. Það mun óhætt að fullyrða, að þetta starf er þess vert, að því sé gaumur gefinn. Ung börn og annar æskulýður er fræddur á áhrifamikinn hátt um það, hvernig eigi að koma í veg fyrir slys, haldið er uppi leiðbeiningum um hjálp í viðlögum og brunavarnir, og þessi maður skrifar svo í blöðin og talar í útvarpið um þessi mál og nær þannig til allrar þjóðarinnar. Í Reykjavík og Hafnarfirði hefur hann á hendi eftirlit á vinnustöðvum með sjúkraútbúnaði o.fl., og allt þetta starf hans hygg ég að njóti viðurkenningar allra, sem þar til þekkja, enda er maðurinn hinn ötulasti og gengur af lífi og sál að sínu starfi. Ég held það sé ástæðulaust og óþarft að hvetja hv. þm. til að láta þessa starfsemi njóta sömu viðurkenningar og hún naut, er 50 þús. voru teknar upp, með því að samþ., að ríkissjóður greiði hana að fullu. Ég held, að hv. þm. muni taka það upp hjá sjálfum sér að tryggja framgang þessarar nauðsynlegu starfsemi.

Þá flyt ég till. ásamt þeim hv. þm. N-Ísf., hv. 4. landsk. þm. og hv. 2. þm. Eyf., um það, að í heimildagrein fjárl. verði tekinn upp nýr liður, að upphæð 120 þús. kr., sem verði varið til að bæta tjón vegna slysfara á Bolungavíkurvegi s.l. sumar. Þessi till. var flutt við 2. umr., en þá var farið fram á, að upphæðin yrði 180 þús. kr. Sú till. náði þó ekki fram að ganga, og er þetta því tekið hér aftur upp, þar sem dregið er nokkuð úr upphæðinni, en það virtist ekki nema herzlumunur, að 180 þús. kr. framlagið yrði samþ., þar sem allt að helmingur hv. þm. greiddi henni atkvæði. Ég trúi því ekki öðru en till. nái samþykki, er upphæðin er lækkuð um þriðjung. Ég trúi því ekki, að með þessari fjárveitingu væri verið að fara inn á braut, sem mundi skapa hættulegt fordæmi. Ég gæti nefnt mörg dæmi þess, að mönnum hafi verið bættir slíkir skaðar og tjón, sem menn hafa orðið fyrir, og minnist ég þess t.d., er slys varð á Austfjörðum fyrir nokkrum árum vegna sprengjubrota, að þá var það bætt með fé úr ríkissjóði. Hér er því ekki um neitt fordæmi að ræða, heldur er sjálfsagður hlutur að láta í ljós samúð og koma til hjálpar, þegar svona hörmulegir atburðir gerast, til að létta aðstandendunum lífsbaráttuna. Þarna voru það aldraðir feður á Akureyri, sem misstu sína sonu, og maður á bezta aldri, sem lemstraðist svo, að hann mun sennilega ekki verða vinnufær meir, og við flm. þessarar till, viljum; að Alþ. sýni þessum mönnum samúð sína með því að veita þeim þessa fjárupphæð.

Þá flyt ég ásamt hv. 4. þm. Reykv. (HG) nokkrar till. til hækkunar á gjöldum fjárl., en það er ekki búið að útbýta þeim enn, og veit ég, að meðflm. minn mun mæla fyrir þeim, og get ég því sleppt þeim núna.