19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseli. Ég á brtt. á þskj. 520 undir tölulið XVII, það er brtt. við 16. gr. um lán til dieselrafstöðva, að í stað 500 þús. komi 800 þús. og í stað 150 þús. til rafstöðva minni en 100 hestöfl komi 300 þús.

Þessi till. er væntanlega kunn Alþingi áður. Flestir þm. vita, að viða hefur orðið að grípa til þess ráðs að koma upp dieselrafstöðvum, og hefur stuðningur við þær verið lítill í samanburði við vatnsvirkjanir. Þessar rafstöðvar eru flestar á Vestfjörðum og Austfjörðum, og hafa lán til þeirra flestra verið litil, borið saman við heildarkostnað þeirra, og þær hafa flestar borið sig illa. Ég tel rétt, að orðið sé við óskum þessara aðila, og þarf ekki fleiri orð um það að hafa.

Þá á ég aðra till. undir tölulið XXIII, þar sem lagt er til, að ríkissjóður verji allt að 500 þús. til verðlækkunar á olíum til dieselrafstöðva, sem framleiða rafmagn fyrir almenning. Það hefur áður verið sótt um svipað og þá fengizt viðurkenning á réttmæti þess, og meiri hluti fjvn. mælti með því, þó að enn hafi ekki fengizt vilji til að létta undir með þessum rafstöðvum, en það er staðreynd, að rafmagn frá þessum rafstöðvum er selt miklu dýrara en frá öðrum stöðvum.

Nú á síðustu tímum hefur olíuverðið hækkað geysilega á erlendum markaði, og enn fremur hefur gengisbreytingin haft þar sitt að segja, og hefur ríkisstj. með henni gert þessum rafveitum erfitt um að standa straum af ríkisábyrgðarlánum, og held ég, að það væri rétt að létta með þessu móti undir með þeim.

Þessar rafveitur eru flestar á Austfjörðum og Vestfjörðum og eru allar hugsaðar sem bráðabirgðaúrlausn á raforkumálum þessara staða, vegna þess að þeir hafa orðið á eftir með vatnsrafveitur. Og ráðuneytið hugsaði þetta sem bráðabirgðaúrlausn og að þessir staðir yrðu að biða með þessar framkvæmdir meðan lagt yrði rafmagn á þá staði, sem léttara yrði að leggja rafmagn til.

Þá vil ég víkja að till., sem ég á ásamt öðrum þm. Sósfl. á þskj. 522, undir lið VIII. En þar höfum við þrír þm. lagt til, hvernig ráðstafað skuli allmiklu af tekjuafgangi ríkissjóðs frá þessu árí. Það eru nú komnar svo margar till. fram um þetta efni, að þær munu nema um 100 millj. kr. Nú er hér í okkar till. miðað við 66 millj. Formaður Framsfl. var áðan að lýsa því yfir, að tekjuafgangurinn yrði um það bil 60–70 millj. kr., og ég hugsa, að það láti nærri, að hann nemi því.

Það má segja, að það séu skiptar skoðanir um það, hvern rétt slíkar till. eigi á sér, en það virðist eðlilegt, að um leið og veittar eru ýmsar fjárveitingar í 22. gr., þá sé ákveðið, á hvern hátt tekjuafgangi ríkisins sé ráðstafað, og má í því sambandi benda á, að meiri hl. fjvn. flytur á þskj. 502 einar 40 till., en ég dreg það mjög í efa, að það sé rétt, að ríkisstj. ákveði það ásamt fimm mönnum, hvernig tekjuafgangi ríkisins sé ráðstafað. Ég tel þess vegna, að það sé fyllilega rétt, að till. sem þessar komi fram.

Í fyrsta lagi leggjum við til, að veittar verði 25 millj. til íbúðabygginga, og er ætlazt til, að ríkisstj. ráði, hvernig þeim verður skipt milli smáíbúða og aftur til byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, hver þörf er á þessu. Ríkisstj. hefur viðurkennt hana með því að bera fram tili. um, að til þessa verði veittar 12 millj., en við leggjum hér til, að veittar verði 25 millj.

Í öðru lagi leggjum við til, að veittar verði 10 millj. til byggingar sjúkrahúsa, heilsuhæla og heilsuverndarstöðva. Það mál hefur nú verið rætt svo, að það þarf ekki að hafa þar nein orð um, það mál þekkja allir.

Þá leggjum við til í þriðja lagi, að veittar verði 6 millj. til raforkuframkvæmda á Austfjörðum og Vestfjörðum. Við höfum hugsað, að þessi fjárveiting yrði byrjunarfjárveiting og færu þá 3 millj. á hvorn stað, Austfirði og Vestfirði. Þetta eru þau landssvæði, sem mest hafa orðið útundan með vatnsorkuvirkjanir. Því var þá, þegar það var ákveðið, borið við, að það væri ekki til nægilegt fé og þessi svæði yrðu að bíða, meðan verið væri að leggja veitur um Suðurland frá Sogsvirkjuninni og Norðurland frá Laxárvirkjuninni. En ef þessar 6 millj. yrðu teknar þarna til, þá mætti byrja að hreyfa framkvæmdum og athuga, hvernig mætti haga virkjunum, þegar þær yrðu hafnar fyrir alvöru.

Í fjórða lagi leggjum við til, að veittar verði 10 millj. til bæjar- og sveitarfélaga til atvinnu- og framleiðsluaukningar. Þessa er líka full þörf. Till. skýrir sig sjálf, svo alvarlegt er ástandið, og það er ekki óeðlilegt, að af tekjuafgangi ríkisins í ár verði veittar 10 mill,j. til þess að greiða fram úr vanda bæjarfélaganna í þessum efnum.

Þá leggjum við til í fimmta lagi, að veittar verði 15 millj. til byggingarsjóðs og ræktunarsjóðs Búnaðarbankans; hins vegar hefur ríkisstj. þegar gert ráðstafanir í sömu átt.

Sem sagt viljum við láta það koma undir atkv. allra þm., hvernig tekjuafgangi ríkisins verði ráðstafað.

Ég hef þá gert grein fyrir þessum till. og læt máli mínu lokið.