19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 524 við 20. gr. um, að þar komi nýr liður, að veitt verði til byggingar skólahúss og heimavistarhúss menntaskólans í Reykjavík 1 millj. kr.

Menntaskólinn í Reykjavík er elzta menntastofnun landsins og átti aldarafmæli fyrir skömmu. Þessi skóli hefur ávallt notið hins mesta trausts. Hann nýtur nú ágætrar stjórnar og hefur á að skipa prýðilegum kennslukröftum, en samt hefur verið mjög vangert við hann á undanförnum árum. Enn býr hann við 100 ára gamalt hús, sem er orðið allt of lítið, þótt það sé enn gott sem bygging, og hefur undanfarið orðið að tvísetja í skólann. Skólinn býr við ákaflega slæm skilyrði til, að þar geti farið fram á fullnægjandi hátt kennsla í náttúru- og eðlisfræði, og gegnir furðu, hvílíkur árangur hefur náðst í þeim greinum við svo slæm skilyrði. Skilyrði nemenda til félagslífs eru og mjög af vanefnum.

Þegar það er haft í huga, hvað miklu fé hefur verið varið til skólabygginga í landinu, þá er það furðulegt, hvað menntaskólinn í Reykjavík hefur orðið afskiptur. Það er fyrir löngu orðið ljóst, að byggja þarf hús fyrir menntaskólann, og má segja, að komið hafi fram þrjár stefnur í því máli: Í fyrsta lagi er það að byggja nýtt hús á gamla staðnum og auka landrými hans þar. Í öðru lagi er að byggja nýtt hús á nýjum stað fyrir allan skólann. Og í þriðja lagi er að hafa gamla skólann á sínum stað, en stofna nýjan skóla á öðrum stað og byggja yfir hann þar. Ég álít, að þriðja leiðin væri heppilegust, og mætti þá t.d. hafa skóla í gamla húsinu fyrir hin humanísku fög, en byggja nýjan fyrir náttúru- og eðlisfræðikennslu.

En hvaða leið sem farin yrði, þá ber jafnframt brýna nauðsyn til að byggja heimavistarhús fyrir skólann. Til skamms tíma var heimavist í húsinu sjálfu, en hún var fyrir nokkrum árum lögð niður, þegar um þrengdist, og siðan hefur skólinn ekki haft nein skilyrði til að veita nemendum sínum húsnæði. Úr þessu þarf að bæta hið bráðasta, ef utanbæjarnemendur eiga að geta sótt skólann. Hér er verkefni, sem ekki má dragast að leysa.

Því hefur verið borið við jafnan, er málefni menntaskólans hafa verið rædd, að ekki væri til fé til þeirra framkvæmda. En nú sýnist mér á fjárlfrv. því, sem liggur fyrir, að varla sé hægt að bera við fjárskorti til menntaskólakennslu. Nú virðist svo sem ríkisstj. telji fé vera fyrir hendi í ríkissjóði, allmikið fé, sem rétt sé að verja til aukinnar menntaskólakennslu. Í brtt. meiri hl. fjvn. er lagt til, að 100 þús. kr. verði varið til menntaskóla á Laugarvatni. Þessi till. kemur að ýmsu leyti undarlega fyrir sjónir. Jafnglöggskyggnum mönnum á fjármál og eru í meiri hl. fjvn. hlýtur að vera ljóst, að þessi fjárveiting dugir hvorki til þess að stofna menntaskóla á Laugarvatni né heldur til að greiða rekstrarkostnað menntaskólakennslu þar á einu ári. Þeir fróðu fjármálamenn, sem skipa fjvn., hljóta að vita, að undanfarin þrjú ár hefur slíkur skóli starfað á Laugarvatni, þótt ekkert fé hafi verið veitt til þess á fjárl., og kostnaður við þá kennslu er ekki 100 þús. kr., heldur 200–300 þús. kr. árlega. Þess vegna hlýtur það að koma mjög undarlega fyrir sjónir, að n. flytur till. um aðeins 100 þús. kr. fjárveitingu til þessarar menntaskólakennslu. Hvað á það eiginlega að þýða, að fjvn. sé að veita fé til ákveðinna þarfa, þótt hún hljóti að vita, að það dugir ekki til að inna þær greiðslur af hendi, sem liðnum er ætlað að standa undir? Í sambandi við þetta hlýtur sú spurning að vakna, og er ekki óeðlilegt, að henni sé beint til n. og einnig menntmrh. og ríkisstj. í heild: Hver er tilætlunin með þessari fjárveitingu? Er það tilætlunin að stofna fullkominn menntaskóla á Laugarvatni? Og ber að setja þessa fjárveitingu í samband við ákvæði núgildandi laga um menntaskóla, sem kveða svo á, að stofna skuli menntaskóla í sveit, þegar fé er veitt til þess á fjárl.? Ber að líta svo á, að með þessari fjárveitingu sé verið að stofna nýjan menntaskóla í sveit? Úr þessu tel ég nauðsynlegt að fá skorið, þannig að þm. viti, hvað þeir eru að gera, ef þeir samþ. þetta. (Rödd: Ráðherra lýsti þessu yfir í kvöld.) Að það bæri að skoða þetta þannig? (GJ: Og n. lýsti því líka yfir í kvöld.) Ég var því miður bundinn við nefndarstörf og hef ekki heyrt þetta og biðst afsökunar. En ég verð þá að segja, að þessi fjárveiting er mjög undarleg, því að allir hljóta að vita og engir betur en fjvn.-menn, að hún dugir ekki til að standa undir árskostnaði við menntaskólakennslu á Laugarvatni. Ég hygg óhætt að fullyrða, að árlegur kostnaður á Laugarvatni verði, ef skólinn starfar í öllum deildum, ekki undir 400–500 þús. kr. á ári. (GJ: Þetta var líka upplýst í kvöld.) Þá er það staðfesting á því, sem ég er að segja. En ef ríkissjóður hefur efni á að greiða til menntaskólakennslu meira en gert hefur verið og það upp undir 1/2 millj. kr., þá hlýtur sú spurning að vakna, hvort því fé sé ekki í bráð hefur varið á einhvern annan hátt en þennan. Menntaskóli á Laugarvatni verður ekki fullskipaður á næstunni, það er óhætt að fullyrða, þ.e.a.s., þar verður ekki skóli með 20–25 nemendum í hverri bekkjardeild. Óhætt er að fullyrða, að kennslukraftar muni á næstunni a.m.k. illa hagnýtast og verða mjög erfitt að fá hæfa kennara. Stærðfræðideild er ómögulegt að koma upp á næstunni, þó að hugur skólastjóra standi þar mjög til. Ég hygg óhætt að staðhæfa, að ef ríkissjóður hefur efni á að verja á næstunni allt að 1/2 milljón til viðbótar því, sem nú er gert til menntaskóla, þá komi slíkt fé að miklu, miklu meiri notum hjá þeim, sem eiga að njóta kennslu í framtíðinni, ef því er varið til menntaskólans í Reykjavík eða á Akureyri, — og þá sérstaklega til þess, sem ég minntist á áðan, að bæta fyrir vanrækslu við menntaskólann í Reykjavík á undanförnum árum. Mér hafa sagt rektor og kennarar menntaskólans í Reykjavík og fleiri skólamenn, — og ég hef sams konar fregnir frá stjórnendum menntaskólans á Akureyri, — að sá skóli þar nyrðra geti tekið við öllum nemendum, sem nú eru og búast má við að mundu sækja menntaskóla á Laugarvatni á næstu árum, ef heimavistin á Akureyri yrði fullgerð, sem verður að gerast á næsta ári, því að það er hæpinn sparnaður að fullgera hana ekki. Það er m.ö.o. ástæða til að ætla, að á Akureyri standi húsrými autt og ónotað fyrir það fólk, sem er verið að koma upp húsnæði fyrir á Laugarvatni. Að vísu má segja, að það muni líka standa húsnæði autt á Laugarvatni. Mér hefur skilizt, að höfuðástæðan fyrir því, að þetta er nú tekið upp með svo mikilli áherzlu, sé sú, að vegna þeirrar breyt., sem gerð var ekki alls fyrir löngu með nýju fræðslulögunum, hafi aðsókn að héraðsskólanum á Laugarvatni minnkað svo mjög, að nokkurt húsnæði hefur staðið ónotað þar, og séu horfur á, að það fari vaxandi á næstunni. Þannig hafi skapazt áhugi hins bráðduglega forstöðumanns skólans á Laugarvatni til að hagnýta þetta húsnæði með sérstöku tilliti til þess, að í gildi eru ákvæði um að stofna menntaskóla í sveit, þegar fé er veitt til þess. En ef autt er og ónotað húsnæði í tveimur stöðum á landinu, annars vegar við menntaskólann á Akureyri, en hins vegar við héraðsskólann á Laugarvatni, þá skil ég ekki, hvernig ágreiningur getur orðið meðal skynsamra manna um það, að fólki, sem ætlar að stunda menntaskólanám, skuli vísað til Akureyrar í ónotað húsnæði heimavistarinnar þar, í stað þess að koma upp nýjum menntaskóla á Laugarvatni, a.m.k. að svo komnu máli, þ.e. meðan aðsóknin að menntaskólanámi er ekki meiri en er.

Mér finnst, að eins og málum er háttað nú, sé verið að stíga víxlspor, og er slíkt algerlega óþarft. Hér er menntaskóli í Reykjavík. Hann býr við hin mestu þrengsli, óverjandi þrengsli, algerlega ósæmilegan aðbúnað í raun og veru, — svo slæman á ýmsum sviðum, að það hlýtur að fylla alla þá, sem til þekkja, hinni mestu aðdáun, hvað stjórnendum og kennurum menntaskólans hefur tekizt að gera vel, miðað við þann aðbúnað, sem skólinn verður að sætta sig við. Hins vegar er hitt, að menntaskólinn á Akureyri hefur nóg húsnæði og mjög riflegt heimavistarhúsnæði. Samt er Alþ. í þann veginn að stíga það spor að koma upp nýjum menntaskóla til að fylla upp í húsnæði í nýjum héraðsskóla, sem hefur losnað og stendur autt til bráðabirgða, án þess að sýna nokkra viðleitni til að fylla það á þann hátt, sem var upphaflega gert ráð fyrir. Gömlum syndum í þessu efni skal ég sleppa, svo sem hvernig byggt var upp á Laugarvatni, þegar héraðsskólinn brann fyrir nokkru. Þá var talið sjálfsagt að leggja stórkostlegt fé í miklar skólabyggingar, vitandi þó um breyt. á fræðslulöggjöfinni og þau áhrif, sem þær mundu hafa á skólann. Jafnframt var menntaskólanum í Reykjavík synjað um bráðnauðsynlegar fjárveitingar, ekki aðeins til aukningar, heldur til sjálfsagðs viðhalds og endurbóta. Ég skal ekki rifja frekar upp þessar gömlu syndir, heldur er aðalatriðið hitt, að ekki sé nú farið að stiga enn fleiri víxlspor í þessu efni en þegar hafa verið stigin. Ég bið menn samt sem áður fyrir alla muni að skilja ekki þessi orð, sem ég hef nú mælt, á þá leið, að ég sé að andmæla almennt, að menntaskóli sé starfræktur í sveit, þegar ástæða þykir til að fjölga menntaskólum, né heldur að slíkur skóli verði á Laugarvatni. Ég tel það ákvæði gildandi laga að stofna menntaskóla í sveit, þegar þörf eykst fyrir menntaskólakennslu, eðlilegt og skynsamlegt. Ég hef að ýmsu leyti meiri trú á heimavistarskólum en heimangönguskólum. Ég tel því ágætt, að þegar eftirspurn eftir menntaskólavíst verður meiri en svo, að hægt sé með góðu móti að fullnægja henni í menntaskólum í Reykjavík og á Akureyri, verði næsta sporið að stofna menntaskóla í sveit. Og Laugarvatn er af ýmsum ástæðum vel til fallið. Andmæli mín nú eru eingöngu byggð á því, að ég tel misráðið og ranglátt gagnvart menntaskólanum í Reykjavík, þ.e. meðan jafnvangert er við þá stofnun, að taka nú að veita mikið fé til nýrrar menntaskólastofnunar. Ef ríkissjóður hefur efni á að veita 1/2 milljón til viðbótar til menntaskólakennslu í landinu, þá tel ég skilyrðislaust, að það eigi að fara í þágu menntaskólans í Reykjavík. Það, sem hefur valdið því, að þeir, sem unna menntaskólanum í Reykjavík, hafa sætt sig við, hvað lítið hefur verið gert undanfarið, er það, að menn hafa tekið trúanlegt, að erfitt hafi verið að veita meira fé í þennan farveg en gert hefur verið. En þolinmæðina hlýtur að þrjóta í þessum efnum, þegar menn sjá, að nú virðist vera fyrir hendi allt að 1/2 millj. kr. á ári í þessu skyni.

Til þess að undirstrika þessi sjónarmið hef ég leyft mér að flytja þessa till., sem ég hef nú mælt með. Og ég vona, að hv. alþm. sjái sér fært að samþ. hana. Ég bið þá í þessu sambandi að vera þess minnuga, að þó að margar vanrækslusyndir hafi Alþ. drýgt gagnvart þessari gömlu og virðulegu menntastofnun, þá var sú ekki minnst, þegar skólinn átti hundrað ára afmæli og tekin var upp till. um að veita eina millj. kr. til að koma upp yfir hann nýju húsi. Þá var farið svo að, að upphæðinni var skipt jafnt á milli beggja menntaskólanna. Þessi hálfa milljón er í byggingarsjóði skólans nú. Minna er ekki hægt að gera fyrir skólann en að veita honum eina milljón til viðbótar og halda síðan áfram. Raunverulega hefði upphæðin þurft að vera hærri, þó að ég hafi ekki borið fram till. í þá átt. En samþykkt þessarar till. mundi væntanlega vera skoðuð þannig af ríkisstj., að Alþ. teldi nauðsynlegt að hefjast þegar handa um það að bæta úr byggingarmálum skólans og þá jafnframt að sjá honum fyrir því aukna rekstrarfé, sem hann þarf nauðsynlega á að halda til þess að geta gegnt sínu mikla hlutverki með þeim sóma, sem hann vill gera og ber að gera og hann er vissulega fær um, en honum er nú að ýmsu leyti torveldað vegna þess, hve fjárveitingar til hans hafa verið af skornum skammti. Þetta er mergur málsins, og á þetta hef ég viljað minna með þessari till. Það er ekki lengur hægt að bera við fjárskorti, ef stiga á það spor, sem fjvn. hefur lagt til með till. sinni um 100 þús. kr. fjárveitingu til menntaskólastofnunar á Laugarvatni.