19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég flyt brtt. á þskj. 520 ásamt hv. 6. landsk., sem ég vildi mæla nokkur orð með. Eins og hv. þm. mun kunnugt, var á siðasta Alþingi samþ. heimild til handa ríkisstj. til að verja nokkru fé til að gera við skemmdir, sem urðu á brimbrjótnum í Bolungavík 10. des. 1950. Að endurbótum þessum var svo unnið í sumar, og varð við þær allmikill kostnaður, en þeim er þó enn ekki lokið. Þess vegna var það, að við hv. 6. landsk. töldum rétt að fara fram á, að þessi heimild yrði endurnýjuð, svo að unnt væri að ljúka þessum viðgerðum. Við fluttum þessa tillögu einnig við 2. umr. fjárl., en tókum hana þá aftur í þeirri von, að hv. fjvn. mundi sinna þessu máli. Nú sé ég, að niðurstaðan hefur orðið sú, að hv. fjvn. hefur, í stað þess að taka upp þessa heimild, flutt brtt. á þskj. 512 um, að lögð verði fram með venjulegum hætti hærri upphæð til hafnarinnar í Bolungavík en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Þetta þýðir það að sjálfsögðu, að byggðarlagið verður að leggja sinn skerf á móti samkvæmt reglum hafnarlaganna. Þess vegna var það, að við hv. 6. landsk. fluttum þessa till. um að endurnýja heimildina frá í fyrra um framlag til viðgerðar á brimbrjótnum. Og ég vil upplýsa hv. fjvn. um það, að þessi till. hennar þýðir ekki annað en það, að það verður ekki hægt að halda áfram og ljúka við þessar framkvæmdir. Ég veit, að hv. fjvn. veit, hvernig fjárreiður hreppsfélaganna eru, svo að ég tel ekki ástæðu til að rifja það upp hér. En það er ekki djúpt tekið í árinni, þó að ég segi, að ég harma það gáleysi, sem fjvn. hefur sýnt í þessu efni. Ég veit til þess, að fjvn. sá sér ekki fært að fá samþykki hv. þm. fyrir þessari brtt., sem ég hef hér flutt og gert grein fyrir, ásamt hv. 6. landsk. þm.

Ég vil svo aðeins bæta því við, að árið 1946, þegar unnið hafði verið í heilt sumar að mjög verulegri lengingu brimbrjótsins, þá virtist það um haustið, þegar framkvæmdinni var lokið, að allt hefði farið í rústir, af því að of lengi var unnið að mannvirkinu. Verkfræðingar vitamálastjórnarinnar réðu framkvæmdinni og hve lengi var haldið áfram. En út af þessum skaða sýndi Alþingi skilning sinn á erfiðleikum þessum og greiddi að verulegu leyti það tjón, sem varð við þessar skemmdir.

Það gerðist svo á eftir, árið 1950, þegar búið var að koma þessum mannvirkjum nokkurn veginn í það horf, sem þau áttu að vera, að enn urðu á ný stórskemmdir. Og það er þannig nú, að ekki er hægt að segja, að byggingarsjóður jafnvel hafi möguleika á því að standast slík eindæma óhöpp eins og þarna gerðust. Og mér virðist, að Alþingi hafi viðurkennt hlutdeild sína með samþykkt heimildartill., er það afgreiddi í fyrra á þann veg, að ríkið skyldi greiða þetta tjón. Það var viðurkennt af okkur, sem fluttum þetta mál í fyrra, að hafnarlögin væru vissulega óljós um það atriði, að ríkissjóður skyldi standa undir slíkum útgjöldum, sem af einstökum óhöppum mundi leiða. Nú kemur hv. fjvn., eftir að hún veit, að þessi kostnaður er hærri en hann var í upphafi áætlaður, og segir, að byggingarsjóður skuli standa undir þessum kostnaði. Ég verð að segja, að mér finnst þetta mjög annarleg afstaða, í staðinn fyrir, að mér fyndist eðlileg afstaða hjá hv. fjvn., að hún færi fram á og krefðist þess, að rannsókn færi fram á því, hvernig á þessum óhöppum stæði, og reyndi síðan, ef henni sýndist svo, að grafast fyrir um það, hver bæri ábyrgð á þeim. Hins vegar yrðu áreiðanlega aðrir til þess en við fulltrúar þessa héraðs að biðjast undan því, að slík rannsókn færi fram. Og það er fyrst eftir að slík rannsókn hefur farið fram, að hugsanlegt er að flytja till. eins og hv. fjvn. gerir hér og er alveg út í bláinn.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessa brtt. En ég vænti, að hv. fjvn. taki hana til baka, en samþ. verði sú brtt., sem liggur hér fyrir og við hv. 6. landsk. þm. höfum flutt.

Ég vil svo aðeins bæta örfáum orðum við í sambandi við brtt., sem er á þskj. 523, um, að ríkisstj. verði heimilað að verja allt að 120 þús. kr. til þess að bæta tjón vegna slysfara á Bolungavíkurvegi s.l. sumar. Ég endurtek ekki rök min fyrir þessari till., sem ég flutti við 2. umr. Brtt. var felld þar með meiri hluta atkv. Hér er um töluverða lækkun að ræða, og vænti ég, að hv. þm. samþ. nú þessa till., sem ég hygg að eigi við sterk rök að styðjast.

Loks vil ég minnast á brtt., sem meiri hluti hv. fjvn. flytur á þskj. 519. Það er 6. brtt. á því þskj. Þar er lagt til, að lánið til raforkusjóðs verði hækkað úr 11/2 millj. kr. upp í 8 millj. kr. Ég heyrði því miður ekki röksemdafærslu hv. frsm. fyrir þessari brtt. En ég fagna því, að hún hefur komið fram. Ég flutti ásamt hv. 1. þm. Eyf. við 2. umr. þessa máls brtt. um að heimila ríkisstj. að verja fé af tekjuafgangi ársins 1951 til framkvæmda rafveitna ríkisins. Ég þykist vita, að þessi brtt. fjvn. eigi að vera svar við hinni brtt. og það eigi að sætta okkur flm. með þessari till. Og ég vil segja, að ég tel, að þetta sé spor í rétta átt, að með þessu sé sýndur örlitill skilningur á nauðsyn þess, að rafveitum ríkisins verði gert kleift að sinna aðkallandi verkefnum, sem við blasa víðs vegar um landið. Ég hef oft bent á þá hættu, sem að mínu viti felst í því, að eingöngu sé unnið að rafmagnsframleiðslu fyrir þéttbýlustu héruð og stærstu kaupstaði á landinu, og ég sé ekki ástæðu til að rifja þau mál upp að nýju. En hættan, sem liggur í því og bent er á í till., er fyrst og fremst sú, að ekki fáist þessi rafveltulán, sem á að taka til nauðsynlegra framkvæmda. Við þekkjum það, bæði hjá ríkinu og einstökum bæjar- og sveitarfélögum, að það hefur verið veitt lántökuheimild í fjárl., en lánið hefur ekki fengizt. Og þess vegna hafa till. eins og þessar orðið nokkurs konar snuðtútta upp í það fólk, sem vonast eftir gagni af þeim framkvæmdum, sem lánið á að renna til. En ég vil nú samt meta viðleitni þá, sem hér kemur fram í þessum efnum. Og ég vænti þess, að ríkisstj. sjái svo um, að þessi till. verði ekki pappírsgagn eitt, en það verði reynt að auka framkvæmdir á vegum rafveitna ríkisins og freista þess að leysa þörf þeirra Íslendinga, sem búa í dag við algert rafmagnsleysi eða svo rándýra raforku, að naumast verður sagt, að viðhlítandi sé.