20.12.1951
Sameinað þing: 27. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Gylfi Þ. Gíslason:

Ég óska að láta þessa getið:

1) Þessi fjárveiting, 100 þús. kr., nægir alls ekki til greiðslu á kostnaði við menntaskólakennslu á Laugarvatni. Slík kennsla mun kosta um 400–500 þús. kr. árlega. Sú aðferð, sem hér er viðhöfð til stofnunar nýs skóla, er því óviðkunnanleg í hæsta máta.

2) Ef hæstv. ríkisstj. er reiðubúin til þess að verja framvegis 400–500 þús. kr. árlega til menntaskólakennslu til viðbótar því fé, sem nú er varið í þessu skyni, tel ég, að sjálfsagt sé að verja því fé á næstunni til þess að bæta aðbúnað menntaskólans í Reykjavík, sem nær ekkert hefur verið gert fyrir síðustu áratugi, og til þess að fullgera heimavistarhúsið við menntaskólann á Akureyri.

3) Verði heimavistarhúsinu á Akureyri lokið, getur Akureyrarskólinn veitt viðtöku í heimavist öllum þeim menntaskólanemendum, sem gera má ráð fyrir að sæki til Laugarvatns á næstu árum.

4) Ég er því ekki andvígur, að menntaskóla verði komið upp í sveit, þegar menntaskólarnir í Reykjavík og á Akureyri geta ekki með góðu móti veitt viðtöku þeim nemendum, sem menntaskólanám vilja stunda, og enn síður, að slíkur skóli yrði á Laugarvatni. En eins og nú stendur er ekki þörf fyrir nýjan menntaskóla. Kennslan í slíkum ófullskipuðum skóla í sveit yrði miklu dýrari en viðbótarkennsla í menntaskólunum í Reykjavík og á Akureyri, en þeim peningum, sem rekstur nýs skóla mundi kosta, væri miklu betur varið til þess að bæta fyrir gamlar og miklar vanrækslusyndir gagnvart menntaskólanum í Reykjavík og til þess að ljúka heimavistarhúsinu á Akureyri. Ég segi þess vegna nei.