12.11.1951
Neðri deild: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

33. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. er lagt fram til staðfestingar á brbl., sem hæstv. stj. gaf út skömmu áður en þing kom saman í haust. Efni laganna er lækkun sérleyfisgjalda, sem þeir eiga að greiða, sem leyfi hafa til fólksflutninga með bifreiðum, úr 7% í 3%, og enn fremur, að gjaldið skuli innheimt þannig frá byrjun þessa árs. — Fjhn. leggur til í nál. á þskj. 175, að frv. sé samþ., en aðeins gerð á því formsbreyting, sem n. telur rétt að gera, til þess að efni frv. falli betur inn í lögin. Þó hefur einn nm., hv. 2. þm. Reykv., skrifað undir nál. með fyrirvara og flutt brtt. á öðru þskj. um að undanþiggja fólksflutningsbifreiðar sérleyfisgjaldinu. Mér finnst engin þörf á að samþ. þessa till. Þeir, sem slá sér saman um bifreið í hópferð, eru undanþegnir þessu gjaldi, ef um aðrar bifreiðar er að ræða en þær, sem sérleyfishafar hafa. Það gæti orðið erfitt að greina á milli, hvað af tekjum sérleyfishafa væri fyrir hópferðir og hvað fyrir aðra fólksflutninga. — Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, en n. leggur til, að frv. verði samþ. með þeirri formsbreytingu, sem lögð er til á þskj. 175.