04.12.1951
Neðri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

33. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég get tekið undir það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það hefur ekki verið að ástæðulausu, að talað hefur verið um eltingaleik við að leggja skatta á allt. Ég verð að segja það, að ef raktar væru allar þær aðferðir, sem notaðar hafa verið við að koma bessum sérleyfisgjöldum á, þá væri það ljót saga, en ég ætla ekki að fara að rekja hana hér. Það er búið að höggva á þennan hnút nú með því að fyrirskipa rannsókn í sambandi við málið, og þegar brbl. komu út um málið í sumar, þá gekk alveg fram af mönnum, og ég heyrði það á öllum almenningi og einnig bílstjórum, að þeim þótti alveg nóg um. Í sambandi við þetta finnst mér talsverður munur á því, hvort á þennan hátt eru skattlagðar allar hópferðir innan héraða eða langferðir út á land.

Hv. 2. þm. Reykv. hélt því fram, að ég vildi gera upp á milli sveitanna og kaupstaðanna. Hann hélt því einnig fram, að erfitt mundi að skilgreina takmörk héraða. En því er til að svara, að í fyrsta lagi eru kauptún til í flestum sýslum; undantekningar eru að vísu til, og mín till. nær vitanlega yfir þau líka. Í flestum tilfellum er það einnig svo, að í kauptúnunum eru flestar bifreiðarnar og bifreiðarstjórarnir. Hér í Rvík er mikið um, að menn eigi prívatbíla og bjóði þá vinum sínum með sér, og eru þeir undanþegnir þessari skattálagningu.

Varðandi brtt. hæstv. viðskmrh. þá játa ég, að orðalagið er betra þannig, því að í einstaka tilfellum getur leikið vafi á því, hvað er hérað, og stefnir því þessi brtt. hans að því að gera till. skýrari. Ég gæti hugsað mér, svo að ég taki dæmi, að flestir muni skoða Mýra- og Borgarfjarðarsýslur sem sama hérað. Þess vegna get ég fallizt á brtt. viðskmrh., að þetta gildi um hópferðir innan sýslu og gjaldið taki aðeins til hópferða, sem farnar eru út úr sýslunni. Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þetta.