04.12.1951
Neðri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

33. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni, að hæstv. viðskmrh. sjái sér fært að vera meðmæltur till., sem ég tel vera spor í rétta átt.

Það er eitt atriði, sem ég er ekki viss um, að hæstv. ráðh. hafi athugað. Með brtt. hans yrði að vísu skorið úr því, hvar takmörkin væru, en þá væru aftur á móti allir kaupstaðir á Íslandi útilokaðir frá þessu, og sérstaklega mundi það lenda illa á Reykjavík, Akureyri, Seyðisfirði o.fl. Þar mundi hið sama harðvítuga sérleyfisgjald gilda áfram, og gætu Reykvíkingar því ekki slegið sér saman um bíl, þegar þá langaði til, án þess að borga þetta gjald. Ef fólk úr Árnessýslu fer að Kolviðarhólí, þá þarf það ekki að borga sérleyfisgjald, en ef Reykvíkingar fara þangað, þá þurfa þeir að borga gjald, og finnst mér þetta ranglátt. Býst ég einnig við, að það verði erfitt að skylda fólk til að greiða gjald þetta. T.d. ef Seyðfirðingar ætla að slá sér saman í hópferð á einhvern stað hinum megin fjarðarins, þá verða þeir að sækja um leyfi til Reykjavíkur og spyrja, hvort þeir megi allra náðarsamlegast slá sér saman um 25 manna bíl og keyra í klukkutíma. Fæ ég ekki séð, að þetta nái nokkurri átt, að menn, sem búa öðrum megin fjarðarins, skuli þurfa að sækja um leyfi til þess að fara yfir fjörðinn. Held ég þess vegna, að till. hæstv. ráðh. verði fyrst réttlát, ef hún gildir í bæjum líka. Býst ég við, að það yrði litið svo á, að sýslan væri í þessu sambandi lögsagnarumdæmi, þannig að Reykvíkingar megi fara upp í Mosfellssveit, en menn í Mosfellssveit megi ekki fara austur á Þingvöll án þess að greiða sérleyfisgjald. Hins vegar þyrfti þess ekki, ef bíllinn færi ekki nema í Kjósina. — Ég er hræddur um, að ef þannig verður að Íslendingum búið með löggjöf, þá mundi ýmsum detta Hólmfastur sálugi í hug. Ég er hræddur um, að þetta yrði erfitt í framkvæmd. Þess vegna vil ég eindregið beina því til hv. þm., að þeir taki þetta til nánari athugunar eða sjái sér fært að samþ. mína till.

Hv. þm. A-Húnv. minntist á það, að hér í Rvík ætti allur fjöldinn einkabíla, og þyrfti því ekki að hugsa um þá, heldur bændurna. Nú eru þeir fleiri, sem engan prívatbíl eiga, og þó að þeir, sem þá eiga, sleppi við að borga þetta gjald, hvaða réttlæti er þá í því, að þeir, sem engan bil eiga, þurfi að borga þetta gjald, að þeir megi ekki slá sér saman um bil og fara í næstu sýslu án þess að þurfa að borga fyrir það gjald, en hinir, sem eiga lúxusbíla, sleppi? M.ö.o., þá held ég, að eina lausnin við brtt. hæstv. ráðh. sé að ganga einu skrefi lengra og vera ekki að gera upp á milli sveita og kaupstaða með því, að kaupstaðarbúar megi ekki fara í næstu sýslu án þessa gjalds, og vera sammála till. minni.