04.12.1951
Neðri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

33. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það er ekki nýtt að heyra, að hv. þm. V-Húnv. kalli það lítið mál, þó að lagður sé á nýr skattur, því að þetta er ekkert annað en nýr skattur. Um leið og lækkað er sérleyfisgjald á langleiðum, þá er það fært á allar mögulegar ferðir innan sýslna, sem ekkert gjald á að greiða af. Hér er því verið að færa út þetta sérleyfisgjald til mörgum sinnum fleiri manna. Ég játa, að verði þetta samþ., þá er örðugt að framfylgja því. Það er það eina rétta að gefa þetta allt frjálst og afnema þessi l. um sérleyfisgjöld. En úr því að verið er með þetta, vil ég draga úr þessu og tel rétt, að undanþegnar skatti verði ferðir á skemmtanir innan héraðs og niðurlag brtt. orðist eins og hér segir: „á fjölsóttar skemmtanir og héraðsmót innan sýslna“. Ég lýsi því yfir, að ef mín brtt. verður felld, þá greiði ég brtt. hv. 2. þm. Reykv. atkv., því að það er því betra, því meira sem höggvið er í þessa vitleysu.