09.10.1951
Neðri deild: 5. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

18. mál, bifreiðalög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Samkvæmt 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því, að bifreiðar verði tryggðar fyrir ekki minna en 150–300 þús. kr. Þetta er tíu sinnum hærri skyldutrygging en nú er, en nú er hún 30000 kr., og er þetta nokkuð stórt stökk.

Mér skildist á hæstv. ráðh., að hann teldi þörf á að hækka þessa skyldutryggingu, vegna þess að farþegar, sem ferðast með bifreiðum, fái að öðrum kosti ekki að fullu bætt tjón, sem þeir kunna að verða fyrir. Ég vil beina því til n. þeirrar, sem fær mál þetta til meðferðar, að samkvæmt frv. eru allar bifreiðar, sem taka allt að 12 farþega, tryggðar fyrir jafnháa upphæð. Mér finnst ástæða að taka þetta til athugunar og breyta þessu. Og hvaða þörf er að stiga svona stórt skref til hækkunar á skyldutryggingunum? Ég kom hvergi auga á það í frv., hve mikið þetta hækkar útgjöldin. Ef til vill getur hæstv. ráðh. gefið einhverjar upplýsingar um það, ef honum er það kunnugt. Þessu vildi ég beina til n. þeirrar, sem málinu verður vísað til.