29.11.1951
Neðri deild: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

132. mál, lánasjóður stúdenta

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vildi með fáum orðum þakka hæstv. ríkisstj. fyrir þetta frv. og lýsa fylgi mínu við það.

Á síðasta þingi fluttum við hv. 1. þm. Rang. þáltill., sem gekk í þá átt, að hafinn yrði undirbúningur að stofnun námslánasjóðs. Skömmu eftir þingbyrjun í haust endurfluttum við þessa till. okkar án þess að vita, að stúdentar höfðu þá undirbúið frv. það, sem hæstv. menntmrh. leggur nú fram á þskj. 278. Á þessu frv. og þáltill. okkar hv. 1. þm. Rang. er samt sá munur, að í till. okkar var gert ráð fyrir því, að sjóðurinn næði til stúdenta, sem nám stunda við erlenda háskóla, en samkv. frv. ríkisstj. á starfssvið sjóðsins eingöngu að vera bundið við Háskóla Íslands. Ég tel hins vegar, að hér sé um svo gott mál að ræða, að það sé til ills eins að bera fram brtt. um að víkka starfssvið sjóðsins, þar sem það mundi ef til vill verða til þess að tefja málið, og sjáum við 1. þm. Rang. ekki ástæðu til, að tillaga okkar verði afgreidd, fyrst svona er komið. Ef þetta frv. gefur góða raun, þá mun síðar verða tími og tækifæri til að auka starfssvið sjóðsins. Ég vil því lýsa fylgi mínu við þetta frv. eins og það er borið fram, og ég tek undir það með hæstv. menntmrh., að það er miklu heppilegra fyrirkomulag að geta fengið þessi lán heldur en að fá óafturkræfan styrk. Ég tel því, að hér sé um hið mesta og bezta mál að ræða.