10.01.1952
Efri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

132. mál, lánasjóður stúdenta

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Þetta frv. er stjfrv. og er breyt. á fyrirkomulagi, sem verið hefur um styrkveitingar til stúdenta við Háskóla Íslands. Áður hefur því verið þannig fyrir komið, að þeim styrkjum, sem veittir hafa verið stúdentum við háskólann, hefur háskólaráð skipt á milli deildanna, síðan hafa prófessorar deildanna skipt honum milli nemendanna í hverri deild. Afleiðingin varð svo sú, að fámennari deildirnar báru minni hlut frá borði en þær, sem fleiri voru í. Þar að auki getur kennurum verið minna kunnugt um aðstöðu nemenda heldur en ef fulltrúar bæði frá kennurum og nemendum kæmu sér saman um að skipta styrkjunum. Það vildi oft verða svo, að það væri gengið fram hjá nemendum með styrk, jafnvel þótt þeir væru fátækir og efnilegir námsmenn, ef þeir gátu ekki sótt vel kennslustundir af einhverri ástæðu, en lögðu þó rækt við námið. Það, sem mestu varðar við frv., er, að ekki er lagt til, að veittir verði styrkir, heldur leggi ríkið fram 300 þús. kr. á ári um 25 ára bil í lánasjóð, og er ekki um styrk að ræða, heldur lán, sem námsmönnum er lánað á námsárunum og nokkur ár eftir þau.

Auðvitað mun það fara svo, að einhver misbrestur verður með greiðslur þessara lána. Það verða einhverjir, sem erfitt munu eiga með endurgreiðslur þessar, og verða hjá þeim greiðslur í baugabrotum. Aftur eru aðrir stúdentar, sem koma til með að geta orðið efnaðir menn og munu þá ekki eiga erfitt með endurgreiðslur lánanna frekar en ýmsir iðnaðarmenn, sem verða að taka lán meðan á námi þeirra stendur, en endurgreiða þau svo aftur, þegar þeir eru komnir í ríki sitt.

Aftur á móti er það ljóst, að eins og nú er þessu háttað, verður ríkið á hverju ári að leggja kvartmilljón í þessa styrki, sem ekki eru endurkræfir, og verður hagkvæmara fyrir það að leggja 300 þús. kr. í þennan sjóð í 25 ár og vera þar með laust við allar styrkveitingar, og verður að gera ráð fyrir því, að það sé hagur ríkissjóðs, að þetta fyrirkomulag komist á. Og eftir því sem nefndarmönnum virtist, þá væri það bæði til að bæta form þessarar aðstoðar og fjárhagslegt gagn hennar, að þetta frv. yrði samþykkt eins og það nú liggur fyrir.