04.01.1952
Efri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

19. mál, áfengislög

Frsm. (Gísli Jónsson):

Þetta frv. hefur legið lengi hjá iðnn. Því var útbýtt 4. okt. s.l. og sent til n. sama dag. Tók n. það strax fyrir á fundi og boðaði á fundinn menn frá Félagi íslenzkra iðnrekenda. Óskuðum við eftir skriflegri staðfestingu á svörum þessara manna, og vil ég leyfa mér að lesa hér upp bréf frá þessum mönnum frá 10. okt. s.l., með leyfi hæstv. forseta. Bréfið hljóðar svo:

„Formaður iðnaðarnefndar hv. Ed. Alþ., hr. Gísli Jónsson, hefur snúið sér til félags vors með nokkrar fyrirspurnir varðandi framleiðslu á sterku öll innanlands í tilefni af frv. því til breyt. á áfengislögum, er nú liggur fyrir Alþ. Eftir nánara viðtal milli formanns yðar annars vegar og hr. Tómasar Tómassonar, forstjóra Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson, og framkvæmdastjóra félags vors, Páls S. Pálssonar, hins vegar, viljum vér leyfa oss að senda hv. iðnn. nokkrar athugasemdir varðandi þetta þingmál.

1. Árin 1941–46 framleiddi Ölgerðin Egill Skallagrímsson h/f sterkt öl fyrir brezka setuliðið hér á landi. Ótti um það, að þessa öls yrði neytt af Íslendingum, reyndist með öllu ástæðulaus, því að þess var stranglega gætt af öllum aðilum, að berinn einn neytti þess. Það skal sérstaklega tekið fram, að ameríska setuliðinu var ekki selt öl á þessu tímabili. — Brezka setuliðið gerði engar athugasemdir vegna verðsins á ölinu, vegna þess að þarfir þeirra voru svo brýnar fyrir að fá ölið.

2. Á meðan amerísk flugfélög starfræktu Keflavíkurflugvöll, eftir að herinn hvarf þaðan, fluttu þau inn allt það öl, sem þau þurftu til sinna nota, m.a. frá Danmörku, án þess að greiða einn eyri í toll.

3. Eftir að varnarliðið kom, hefur ölneyzlan á vellinum aukizt hröðum skrefum, vegna þess að nú eru fleiri menn þar en í tíð flugfélaganna, en varnarliðið flytur inn ölið erlendis frá, án þess að nokkur eyrir renni í vasa landsmanna vegna þeirrar neyzlu.

4. Eftir að brbl. um framleiðslu á sterku öli til varnarliðsins voru gefin út, hinn 24. maí 1951, hóf ölgerðin framleiðslu á því með sérstöku leyfi dómsmrn., útgefnu 4. júní 1951. Síðan hafa farið fram viðræður milli ölframleiðandans annars vegar og fulltrúa varnarliðsins hins vegar um sölu ölsins til varnarliðsins, að viðstöddum fulltrúa frá utanrrn.

5. Það hefur komið fram í þeim viðræðum, að varnarliðið treystir sér ekki til að greiða hærra verð en það, sem ölið mundi kosta, ef það væri flutt inn frá Ameríku. Þetta jafngildir því, að ekki er hægt að selja varnarliðinu íslenzkt öl á samkeppnisfæru verði, nema sala þess sé undanþegin framleiðslutolli og söluskatti. Það kom fram í fyrrnefndum viðræðum, að varnarliðið á kost á því að fá ölið frá heimalandinu á hagstæðu verði, sem herinn nýtur þar í landi, hagstæðara t.d. en flugfélögin áttu kost á á sínum tíma.

6. Framleiðslutollurinn á hverja flösku var meðan sala átti sér stað til brezka setuliðsins árin 1941–46, 7 aurar á flösku, en er nú 58.8 aurar auk söluskatts á brúttóverð frá verksmiðju. Innflutningstollur af hráefni í innihald hverrar flösku er nú um 8 aurar, en var þá aðeins lítið brot af því.

Allar frekari upplýsingar er félag vort reiðabúið að veita, hvenær sem óskað er.“

Það var vegna þessa bréfs, að n. þótti ekki ástæða til að afgreiða málið, nema full vissa fengist fyrir því, að ríkissjóður fengi jafnmiklar tekjur af þessu öli og af bruggun óáfengs öls. Fyrir áramót var n. tilkynnt frá ríkisstj., að það væri næstum því sama, hægt væri að framleiða öl á því verði, að ríkissjóður fengi jafnmiklar tekjur af þessu öll og af því öli, sem nú er bruggað í landinu. Það eru nú 58.8 aurar á flösku auk söluskatts. Með því að upplýst er, að ríkissjóður getur fengið þessar tekjur, leggur n. til, að frv. verði samþ. óbreytt. Væri ekkert vit í því að minnka framleiðslu á óáfengu öli, ef það ætti að kosta, að tekjur ríkissjóðs minnkuðu við það, en framleiða svo öl, sem ríkissjóður fengi ekki eins miklar tekjur af.

Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál nánar. Vil ég þó geta þess, að 6. des. s.l. kom annað bréf frá viðkomandi aðilum og er þar ítrekuð ósk um það, að þetta mál verði afgreitt. — N. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.