04.01.1952
Efri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

19. mál, áfengislög

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Eins og tekið er fram í nál. frá iðnn., var ég ekki mættur á þeim fundi, sem málið var endanlega afgreitt á. Hef ég því ekki skrifað undir nál. Hins vegar var ég á fundi, þegar málið var fyrst rætt í n., skömmu eftir að það kom fram. Á þeim fundi gat ég ekki betur séð en allir nm. væru sammála um, að í raun og veru væri enginn fjárhagslegur grundvöllur fyrir framleiðslu þessa öls, sem hér er talað um og selja á setuliðinu á Keflavíkurflugvelli. Mér virtist þá sem öll n. væri sammála um, að engin ástæða væri að samþ. þetta frv. Ég furða mig því mjög á því, að allir nm. hafa orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ., og ekki sízt eftir þá reynslu, sem hv. síðasti ræðumaður, hv. 6. landsk. þm., benti á að fengin væri, þar sem verulegu magni af því öli, sem búið var að framleiða, hafi verið hellt niður. Því hefur verið haldið fram opinberlega, og ég hef ekki séð því mótmælt og geng því út frá, að það sé rétt. Ég er því á sama máli og hv. 6. landsk. þm., að það er engin ástæða til að setja lög, sem heimili slíka framleiðslu. Í fyrsta lagi er engin ástæða til þess, og í öðru lagi hefur ekki komið neitt það fram, sem bendir til, að fjárhagslegur ávinningur verði við þetta. Fyrst og fremst er það enginn ávinningur fyrir ríkissjóð, því að mér hefur skilizt, að það eigi ekki að framleiða það sem öl almennt, því að ríkissjóður gefur eftir framleiðslutollinn. Mér hefur einnig skilizt, meðal annars af bréfi og viðræðum við forstjóra þessarar ölgerðar, að ölgerðin hafi engan fjárhagslegan hagnað af þessu, nema hún fái sérstakar ívilnanir og geti þess vegna keppt við þá drykki, sem setuliðið getur fengið. Af þessu. er því enginn fjárhagslegur hagnaður. Mun ég því hafa sömu afstöðu og áður og er á móti því, að frv. verði samþ.