04.01.1952
Efri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

19. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta kemur ekki almennri ölframleiðslu hér á landi neitt við. Það er allt annað mál og er þessu máli á engan hátt tengt. Kemur það líka mjög berlega fram í sögu þeirri, sem tveir síðustu ræðumenn hafa sagt um það, að ölinu hafi verið heilt niður. Ég sá þessa sögu í Þjóðviljanum, og er ekki hægt að leggja dóm á, hvort hún er sönn. Það kann að vera, að hún sé sönn, og það kann að vera, að hún sé ósönn. (HV: Það hefur ekki verið borið á móti henni.) Það eru líkur til, að hún sé ósönn, af því að hún birtist í Þjóðviljanum, en þó ratast oft kjöftugum satt á munn. En ef svo einkennilega vildi til, að hún væri sönn, þá er það bending um það, að hinum þorstlátu mönnum takist ekki að ná í hinn dýrmæta mjöð í þetta sinn og það hafi einmitt tekizt, sem bæði var lofað af hálfu verksmiðjunnar og eftirlitsmannanna, að sjá til þess, að þessi drykkur kæmist ekki í hendur annarra en þeirra, sem hann var framleiddur vegna. En þó að þessi hv. þm., sem fyrstur reifaði þetta hér, sé á móti frv. þm. N-Ísf. og finnist þess vegna, að hann verði að vera á móti áfengu öli, af því að hann flutti frv. um bruggun áfengs öls á Íslandi, finnst mér engin ástæða til, að hann sé á móti þessu. Þetta kemur Norður-Ísafjarðarsýslu og Sigurði Bjarnasyni ekkert við. En það er ljóst, að hv. 6. landsk. þm. hefur algerlega misskilið málið. Það væri alveg ástæðulaust að samþ. þetta frv., ef það væri hvorugt fyrir hendi, að íslenzk framleiðsla og þar með verksmiðjan hefði hagnað af framleiðslunni né heldur hefði ríkissjóður hagnað af framleiðslunni, vegna þess að það ætti ekki að greiða skatt af henni, sem rynni til ríkissjóðs. Þetta, sem þeir fullyrða, mundi því aðeins standa, ef sú ölframleiðsla, sem hér um ræðir, yrði til þess að koma í veg fyrir, að framleitt yrði öl handa Íslendingum, sem full skattgjöld yrðu greidd af, en engin skattgjöld af þessu öli, sem er framleitt handa varnarliðinu. Nú hefur frsm., hv. þm. Barð., þegar skýrt frá því, að meiri hl. n., þ.e.a.s. allir þeir nm., sem viðstaddir voru á fundi, styðji þetta frv. því aðeins, að skattur fáist af ölinu, sem er sambærilegur við þann skatt, sem fæst af öli, sem Íslendingar neyta sjálfir og þeim er löglega selt til neyzlu. Úr því að frv. nær stuðningi n., nær það þar með væntanlega samþykki þingsins, en þó því aðeins, að þetta sé tryggt. Ég lýsi því yfir sem ráðh., að ef það kemur undir mig að samþykkja málið, mun ég ekki samþykkja það, nema fullkomin skattgreiðsla sé tryggð, sem ég tel sjálfsagt að sé tryggð samkv. eðli málsins. Það er því alveg öruggt, að skattgreiðsla af ölinu verður tryggð, svo framarlega sem ölið verður selt lögum samkvæmt.

Þá gætti einnig nokkurs misskilnings hjá hv. þm. Barð., þar sem svo var að skilja af hans ræðu, að hann teldi, að þessi framleiðsla mundi draga úr framleiðslu annars öls. En þetta er alls ekki svo vaxið. Ég hygg, að geta ölverksmiðjunnar hér til að framleiða sé miklu meiri en nú kemur fram, þar sem nú er framleitt öl til sölu innanlands. Eftir þeim fregnum, sem ég hef af þessu, er það öruggt, að hér verður um umframframleiðslu að ræða. Mundi þessu fylgja aukin atvinna fyrir verkamenn, sem að þessu vinna, aukinn rekstur verksmiðjunnar og auknar tekjur hennar og þar að auki auknir beinir skattar til bæjar og ríkis. Þannig er það greinilegt, að af þessari framleiðslu mundi leiða margvísleg fjárhagsleg hlunnindi fyrir einstaklinga og almenning. Ég hygg, að hið lítið ágæta blað Þjóðviljinn, sem sagði, að ölinu hefði verið hellt niður, hafi það sem aðalásökunarefni, að ekki hafi tekizt með þessu móti að auka atvinnu á þann hátt, sem til var ætlazt, og verður þetta ekki skilið á annan veg en þann, að það væri sakir aumingjaháttar yfirvaldanna, að þessi atvinnubót kom ekki fram. Voru mörg önnur orð þar sögð, en ekki þarf að eyða miklum tíma í að svara þeim.

Það eru undarlegar þær forsendur, sem hv. þm. hafa fært hér fram máli sínu til stuðnings, og fá þær ekki staðizt. Það er augljóst, að ef þetta öl verður framleitt, leiðir af því margvisleg fjárhagsleg hlunnindi fyrir Íslendinga. Þarf ekki að rökstyðja það frekar, enda tel ég þetta ekki neitt stórmál, og mun litlu skipta, hvernig um það fer. En samt sem áður tel ég, að þar sem ljóst er, að þetta mun örugglega verða til atvinnuaukningar og fjárhagslegs hagnaðar fyrir ríkissjóð og einnig fyrir bæjarsjóð og til nokkurs gagns fyrir fyrirtækið, sem hlut á að máli, þá getum við okkur að meinlausu veitt þessa heimild, og tel ég, að rétt sé að veita hana. En ef hv. þm. sjá einhverja annmarka á þessu, þá legg ég ekki kapp á, að frv. nái fram að ganga. Og ef af þessu er ekki sá fjárhagslegi hagnaður, sem við gerðum ráð fyrir og byggðum brbl. á, þá finnst mér síður en svo sjálfsagt, að frv. nái fram að ganga, og tel réttast, að frv. dagi uppi. Ég mundi vissulega ekki styðja að framgangi þessa máls, nema full skattgreiðsla af ölinu væri tryggð. Kemur ekki til mála, að nein eftirgjöf á slíkum skattgreiðslum verði veitt, þó að hún yrði til þess að gera mögulega sölu á öli, ef hún er ekki möguleg með öðru móti.