04.01.1952
Efri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

19. mál, áfengislög

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf í sambandi við skattgreiðslur af ölinu. Það er áreiðanlegt, að sá hluti n., sem afgreiddi málið, gekk út frá, að þessi heimild væri bundin því skilyrði, að ríkissjóður fengi jafnmiklar tekjur af þessu áfenga öli og hann fær af því öli, sem framleitt er til innanlandsneyzlu. Nm. var vel ljós nauðsyn þess, að þetta skilyrði yrði sett. Í bréfinu frá 6. des. er óskað eftir því, að þetta frv. verði að lögum, og því lýst yfir, að komizt hafi verið að samningum við hið erlenda setulið og muni hægt að selja því þessa framleiðslu á því verði, sem nauðsynlegt er, þegar reiknað er með þeirri tollagreiðslu, sem af ölinu greiðist.

Út af þeim orðum hæstv. dómsmrh., að það væri misskilningur hjá mér, að þessi framleiðsla yrði til að draga úr framleiðslu annars öls handa Íslendingum, þá vil ég skýra frá því, að ég ræddi þetta atriði við framleiðendurna, og þeir sögðu, að á þessu stigi málsins væri engin hætta á, að framleiðsla þessa öls yrði til að draga úr framleiðslu ölsins, sem fer á innlendan markað; afkastamöguleiki verksmiðjunnar væri svo mikill. Það er alveg rétt hjá hæstv. dómsmrh., að það gætu orðið auknar tekjur af þessari framleiðslu, jafnvel þó að ekki væru greiddir af því jafnháir tollar og af hinu ölinu. N. vildi setja undir þann leka og fyrirbyggja, að slíkt ástand skapaðist, að draga yrði úr framleiðslu öls, sem fullir skattar væru borgaðir af, meðan haldið væri áfram að framleiða öl, sem ekki væru borgaðir fullir skattar af.

Hvað viðvíkur aths. hv. 4. landsk. þm., þá er hún byggð á misskilningi, sem stafar af því, að hann var ekki með í afgreiðslu málsins, sem ég skýrði frá í minni frumræðu. Ég skýrði í henni, hvernig þessi mál lágu fyrir, að iðnrekendur óska þess, að þetta frv. verði afgreitt, þó að þeir verði að greiða toll af þessu öli. Þá er rangt að telja, að ríkið hafi engar tekjur af þessu; af þessu skapast einmitt aukatekjur fyrir ríkissjóð.

Hvað snertir aths. hv. 6. landsk. þm., þá var hann þar að blanda saman tveimur óskyldum málum. Þetta öl er ekki framleitt fyrir innlenda neyzlu, og það er sannanlegt, að því hefur ekki verið hellt niður. Það var talin fjarstæða í n. að setja nokkuð um framleiðslu á öli handa landsmönnum almennt, og n. vildi ekki hafa neinar undantekningar þar um, og það hefur aldrei hvarflað að neinum nefndarmanna að taka neitt inn um það.

Um það, að þarna hefði verið hellt niður öli, þá er það að segja, að við höfðum nú heyrt þetta eftir Þjóðviljanum og höfðum þess vegna rætt um það við forstöðumenn þessarar stofnunar, og þeir töldu það vera fjarstæðu, að nokkuð slíkt hefði átt sér stað. Hitt sögðu þeir, að það væri ekki enn að fullu ráðið, hvort tækist að selja, en það mun nú hafa tekizt. (Dómsmrh.: Ég er ekki viss um, að það hafi enn tekizt, og það er ekki vist nema einhverju hafi verið hellt niður.) Ja, því var neitað af framleiðendunum 10. okt. s.l. Hins vegar þarf ekki að vera að tala um það, að þessu hafi verið heilt niður. Það er svo heimskulegt að láta sér detta það í hug, að nokkur framleiðandi hefði gert það. Ætli það hefði ekki mátt blanda það, þangað til það var hæft til innanlandsneyzlu?

Sá hagnaður, sem ríkið kemur til með að hafa af þessari sölu aukalega, er sá, að það tekur 58.8 aura af flösku plús söluskatt, sem er fram yfir það, sem væri, ef þetta væri selt til Íslendinga. Í öðru lagi fæst þetta borgað í erlendri mynt, sem ekki er hægt að neita, að eru tekjur út af fyrir sig. Þar að auki veitir þetta nokkra aukna vinnu til iðnverkafólks, sem sagt er að hafi verið fækkað um 80% og hv. 6. landsk. þm. hefur ekki virzt vera ánægður yfir. Og mér finnst, að það ætti sízt að sitja á honum, þó að reynt væri að auka eitthvað vinnu í iðnaðinum. En það virðist vera fyrir fram ákveðið hjá honum að vera á móti öllu, sem ríkisstj. kann að koma fram með.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál nánar að sinni. Þær aðfinnslur, sem fram hafa komið, eru byggðar á misskilningi. Þessi framleiðsla færir okkur auknar tekjur, og það er fyllilega tryggt, að þetta öl verður einungis selt til útlendinga og verður alls ekki látið ganga til Íslendinga sjálfra.