04.01.1952
Efri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

19. mál, áfengislög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil með nokkrum orðum gera grein fyrir minni afstöðu til þessa máls. Ég er því fylgjandi, þar eð þetta öl er ekki ætlað Íslendingum, og af fenginni reynslu er ekki mikil hætta á, að það muni leka mikið út til Íslendinga. Á fyrsta fundi n. virtist svo sem ekki væri hægt að selja það til útlendinga, og var ég þá á alveg sama máli og hv. 4. landsk. þm., að ekki kæmi til mála að leyfa að selja það á lægra verði, og ég mun ávallt verða á móti því. En eftir þær upplýsingar, að samkomulag hefði orðið við varnarliðið um, að það keypti þessa framleiðslu, og hægt væri að bæta við nokkru fólki í verksmiðjuna til að framleiða þetta umfram það, sem framleitt er til landsmanna sjálfra, þá gat ég fallizt á málið á þeim grundvelli, þar sem séð var, að ekki var hætta á, að það færi til Íslendinga, og það mundi færa ríkinu nokkrar auknar tekjur. Af þessum orsökum var ég með málinu, og ef þær forsendur hefðu ekki verið fyrir hendi, þá hefði ég ekki verið með því og mun aldrei verða á öðrum grundvelli.